Ég fyrirgef þér

Kæra manneskja.

Ég hef núna lengi vel haldið í reiðina og gremjuna sem það fylgdi því að hata þig. Ef ég á að vera hreinskilin fannst mér það gott að hata þig, ég var háð adrenalíninu sem reiðin gaf mér þegar ég talaði um þig og hvað þú gerðir mér, hvað þú særðir mig meira en nokkur manneskja hefur gert áður.

En ég ákvað það að ég vildi vera betri útgáfa af sjálfri mér fyrir mig og fjölskylduna mína. Partur af því að verða betri útgáfa af sjálfri mér er að komast yfir reiðina og gremjuna.. og ég geri það með því að fyrirgefa þér.

Ég var svo lengi föst í því, af hverju ætti ég að fyrirgefa þér? Þú átt ekki skilið fyrirgefninguna mína eftir það sem þú gerðir! Ég var hrædd um að tapa, að ef ég myndi fyrirgefa þér væri ég að afsaka eða réttlæta það sem þú gerðir og segja að það væri allt í lagi. Ég hélt að með því að fyrirgefa þér þyrfti ég að setjast niður með þér og tala um þetta allt, að eftir að ég myndi fyrirgefa þér þyrfti ég að gleyma öllu.

Það sem þú gerðir var rangt, kannski sérðu það ekki sjálf/ur og kannski finnst þér eins og ég sé fíflið í þessu öllu.. ég þarf ekki afsökunarbeðni frá þér og ég þarf ekki að tala við þig aftur, þú þarft ekki einu sinni að vera partur af þessu ferli ef ég vill það ekki.

Með því að fyrirgefa þér er ég að sætta mig við raunveruleikan af því sem gerðist og finna leið til að lifa með því í sátt. Með því að fyrirgefa þér er ég að ná að sleppa takinu á þessari reiði og gremju. Með því að fyrirgefa þér fæ ég loksins frelsi til að vera hamingjusöm, með því að fyrirgefa þér er ég núna loksins að finna fyrir frið innra með mér og stíg eitt skref nær því að verða manneskjan sem ég vill verða.

Ég átta mig á því núna að fyrirgefa er einhvað sem ég geri fyrir sjálfa mig.

Takk fyrir að kenna mér þetta.

Ég fyrirgef þér.

Kveðja,

Saga


%d bloggurum líkar þetta: