Kæri þú

Kæri blóðfaðir..sæðisgjafi..maður?

Ég veit ekki hvað ég get kallað þig því ég veit ekki enþá hvað þú ert fyrir mér.

Ég get ekki kallað þig pabba minn, því pabbi minn hefði aldrei gert það sem þú gerðir. Sæðisgjafa kannski? En þú varst partur af lífinu mínu í nokkur ár.

Nú eru komin mörg ár síðan ég hef séð þig, talað við þig eða heyrt af þér. En þó árin líða sitja enþá spurningarnar eftir í mér.

Afhverju elskaðiru mig ekki? Afhverju tókstu hans hlið? Afhverju talaðir þú svona niðrandi til mömmu við mig? Afhverju grættiru mig í hvert einasta skipti sem ég fór til þín?

Í hvert skipti sem ég sagðist ekki vilja fara til þín fékk ég að heyra um þennan umgengnissamning, að þú ættir rétt á að fá mig til þín, hverju átti ég rétt á? Ég vildi að þú hefðir hlustað á mig, að skoðun mín hefði skipt einhverju máli. En ég var “bara barn”, mannstu? Þetta sagðiru alltaf þegar við vorum ekki sammála.

Mannstu þegar við fórum til Spánar? Við vorum á sundlaugarbakkanum á hótelinu, ég held ég hafi verið átta ára, ég stökk inn á klósettið og þegar ég kom út varstu farinn á markaðinn. Þér fannst rosalega gaman, mér fannst ég vera fyrir þér.

Mannstu þegar ég strauk að heiman frá þér, 10 ára var það ekki? Ég kastaði bangsanum mínum í ferðatöskuna og labbaði út. Afhverju komstu ekki á eftir mér? Þegar ég kom aftur varstu fyrir framan sjónvarpið að sötra á bjórnum þínum, alveg slakur.

En mannstu áður en ég fæddist, þegar líf mitt og mömmu var í húfi? Hvar varstu þá?

Ég var niðurbrotin, maður sem átti að vera pabbi minn, þú, áttir að veita mér öryggi en það eina sem þú veittir mér var kvíði og vanlíðan.

Mannstu þegar ég sagði þér frá því að ég væri að leita mér hjálpar við þunglyndinu á BUGL? Mannstu hverju þú svaraðir? ,,ertu byrjuð í dópi?”.

Mannstu þegar ég var að fermast? Eftir veisluna var ég að opna gjafirnar, ég fékk pakka frá mömmu og pabba, ömmu og afa, systur ömmu, systir afa, fjarskyldu frændfólki, en afhverju fékk ég ekkert frá þér? Þú komst samt í veisluna.

Ég veit þú ert ekki góður maður, þó þú lifir í þeim blekkingum. Ég sá meira en þú lést í ljós og vissi meira en þú hélst. Þú ert fastur í lygavef og sjálfsblekkingum, þú telur þig alltaf vera saklausan og að allir séu að ráðast á þig.

Þú áttir einu sinni kærustu, yndisleg kona í alla staði, en þú náðir klónum þínum utan um hana. Þessi fallega kona, þessi saklausa kona átti þetta ekki skilið. Sjáðu til, ég hitti hana eftir að þið hættuð saman, þegar ég nefndi þig brotnaði hún niður og grét í fanginu mínu. En þetta er það sem þú gerir við fólk, þú brýtur það niður og byggir það upp eins og þér hentar eða hendir því í burtu.

Þú gafst mér einu sinni stjúp mömmu, alvöru stjúp mömmu, ekki þessar sem komu eina helgi og voru svo farnar. Takk fyrir hana og takk fyrir allt sem kom út því sambandi.

Takk elsku stjúpa fyrir að hafa hugsað svona vel um mig.

Afhverju hættuð þið saman?

10 ára var ég hjá þér í nærbuxum sem ég fékk þegar ég var 6 ára, ég man þær voru svo litlar að þær skáru mig í náran.

,,Ég borga mömmu þinni pening 1x í mánuði, hún getur keypt ný föt á þig” meðlagið, ó þetta elsku meðlag, hversu oft fékk ég að heyra um það?

Þú komst því í höfuðið á litlu barni að þú værir svo göfugur að þú værir að láta mömmu fá pening sem ég átti alltaf að fá einu sinni í mánuði sem ég gæti notað fyrir mig , en að mamma væri svo hræðileg að hún væri að taka þennan pening frá mér.

Að setja hagsmuni annara ofar þínum eigin var aldrei þín sterkasta hlið, en maður hefði haldið að þú hefðir allavega sett hagsmuni barnanna þinna ofar þínum.

Peningar geta lagað allt, eða það hélst þú. Þú helst að öll okkar vandamál myndu hverfa ef þú keyptir einhvað fyrir mig.

Að fara til þín var mín versta martröð! En ég slapp úr vítis hlekkjum þínum, eftir margar andvöku nætur, tár og öskur. Misskilningur kallaðiru þetta?

Ég varð bæld, mér fannst ég vera sökkva niður á hafsbotn. Ég horfði upp og reyndi að synda upp í ljósið, vonina um að þetta yrði betra, en það var alltaf einhvað sem dróg mig neðar og neðar sem gerði það erfiðara fyrir mig að ná andanum, það varst þú.

Ég var heppin að eignast annan pabba sem setti mig alltaf í fyrsta sæti, hann gaf mér allt sem ef þurfti og gott betur en það.

,,hann er ekki pabbi þinn”

Ég hefði geta eignast pabba sem væri alveg sama um mig, sem gerði upp á milli mín og hinna barnanna, svona eins og þú gerðir. Í stað þess að hugsa um hversu heppin ég væri að hafa eignast pabba sem var góður við mig talaðiru niður til hans. Var það til að upphefja þig? Varstu hræddur um að hann væri að standa sig betur en þú?

Svo margar spurningar sitja en eftir í mér og ég gæti skrifað bók um allt sem þú hefur gert.

Afhverju elskaðiru mig ekki? Afhverju vildir þú mig ekki?

Kveðja,

Ég

%d bloggurum líkar þetta: