Brjóstagjöf er ekki sjálfsagður hlutur.

Á meðgöngunni eyddi ég miklum tíma í að skoða ráð við brjóstagjöf og hvernig væri hægt að láta hana ganga sem best fyrir okkur mægður. Það kom mikill kvíði yfir mig alla þegar ég hugsaði um brjóstagjöfina því hvað ef litla gullið mitt vildi ekki taka brjóstinu?

Fyrstu dagarnir voru virkilega erfiðir, hún tók brjóstinu illa, ég mjólkaði of mikið og hún kafnaði í mjólkinni í hvert skipti sem hún tók brjóstinu.

Ég fékk svo á 5 deigi stálma og þurfti að pumpa mig. 150ml úr einu brjósti takk fyrir kærlega!

Eftir það gekk allt eins og í sögu, þetta var svo yndisleg og notaleg stund sem við áttum saman. Hún fékk ábót á kvöldin svo hún svæfi betur, hún vaknaði einu sinni yfir nóttina um 4 leitið og fékk brjóst og yfir daginn var hún bara á brjósti.

Mig minnir að hún hafi verið um tveggja mánaða þegar ég fékk nýrnasteina og var flutt upp á HSU með sjúkrabíl. Hún var í pössun hjá frænku sinni á meðan enda var ég í engu ástandi til að hugsa um hana.

Á spítalanum var dælt svoleiðis verkjalyfjunum í mig, ég mátti þá ekki gefa henni brjóst aftur fyrr en 24 klukkutímum seinna. Ég bað um að fá að fara upp til ljósunnar til að fá að pumpa mig en þurfti að bíða svo lengi eftir að fá mjaltavélina, ég átti þá sjálf ekki pumpu en reyndi eins og ég mögulega gat að handpumpa mig.

Eftir þessa tvo daga fór mjólkin minkandi hjá mér.

Ég reyndi töflur frá móðurást, jurta te og heita drykki, leggja hana oftar á brjóstið, pumpa þegar hún var búin á brjóstinu en ekkert virkaði.

Ég fann fyrir mikilli pressu að hafa hana áfram á brjóstinu því jú „brjóstið er best“.

Ólafía var hætt að vilja taka brjóstinu og varð pirruð í hvert skipti sem ég reyndi að leggja hana á brjóstið, enda var hún ekki að fá neina mjólk. Ég var sár, mér fannst eins og mér hafi mistekist og brugðist okkur báðum, því ég hafði planað að hafa hana á brjósti í allavega 6 mánuði.

Ég man eftir síðasta kvöldinu sem hún fékk brjóstið. Ég reyndi og reyndi að leggja hana á en hún öskraði og öskraði þar til loksins ég gafst upp og gaf henni pela. Eftir að hún var sofnuð pumpaði ég mig, það komu um 20ml úr báðum brjóstunum, þarna ákvað ég að hætta og skipta yfir í pela.

Það var rosalega erfitt fyrir mig að hætta með hana á brjósti. Mér leið í nokkra daga eins og ég hafi misst þessa fallegu stund sem við ættum saman og að ég myndi aldrei ná að tengjast henni eins vel og ég gerði. Ég hugsaði oft að kannski hefði ég átt að reyna aðeins lengur, aðeins betur, prufa aðeins meira eða kannski hlusta á næsta ráð.. það hefði kannski gengið upp.

Sorgin fór fljótlega þegar Ólafía mætti í auka skoðun, hún hafði svoleiðist stokkið yfir þyngdarkúrfuna sína! Í fyrsta skiptið var hún ekki rétt svo hangandi í þyngdinni sem hún átti að vera í eða rétt svo fyrir neðan. Hún fór að sofa heilar nætur, var hætt að væla eins mikið því hún var loksins að fá nóg að drekka.

Það gerði mig svo hamingjusama að sjá hana líða svona vel. Ég vildi auðvitað að við hefðum geta átt lengri tíma saman á brjósti en ég reyni frekar að vera þakklát fyrir að hafa fengið þessa 3 mánuði með henni, því brjóstagjöf er alls ekki sjálfsagður hlutur.

%d bloggurum líkar þetta: