Hvers vegna ekkert plast hjá okkur …

Til þess að byrja með langar mig að taka það skýrt fram að með birtingu þessarar færslu er ætlunin alls ekki að dæma neinn – einungis að fræða og koma með hugmyndir.

Þegar að ég var ólétt af Maríusi ákvað ég að ég vildi ekkert plast í líf hans eða því sem næst. Ég skoðaði vel hvað væri í boði í staðinn, pelarnir hans voru úr gleri og það kom ekki til greina að hafa annað, snuðin sem ég prófaði að gefa honum voru úr heilsteyptu gúmmíi (þó hann tæki ekki snuð fannst mér það í lagi, ég vildi samt ekki prófa eitt með plasti) og svo framvegis.

Ekkert plast skipti og skiptir mig gífurlegu máli fyrir hann, núna þegar hann er orðinn eldri á ég erfiðara með að stjórna því annars staðar og mér fannst ferlega erfitt að sætta mig við það að á leikskólanum er mikið plast. Ég fékk þónokkur komment á þessa sérvisku mína fyrst um sinn eins og „hvers vegna ertu svona ströng á þetta“, „það er nú ekkert svo slæmt“, „bíddu bara heimilið verður fullt af plastleikföngum von bráðar“ „þú gerir þér grein fyrir því að þegar hann fer að leika sér af alvöru þá geturðu ekki neitað honum lengur um plastið“. Fyrst um sinn þegar fólk gaf honum gjafir læddist ein og ein vara úr plasti með en ég talaði alltaf um að vilja helst ekki plast og bað um að því yrði heldur sleppt þegar verið var að skíra hann. Á eins árs afmælisdaginn fékk hann síðan ekki eina gjöf með plasti, jei! Mig langar til þess að segja ykkur frá því hvar ég versla góðar vörur úr öðrum efnum sem hafa reynst okkur vel þar sem margir setja fyrir sig að lágt verð á plasti umfram annað og mun meira framboð af plasti ráði því hvort þau kaupi. Ég hef þó aldrei fundið fyrir miklum verðmun og finnst frábært hvað framboð virðist sjaldan hafa verið meira. Einnig ætla ég að útskýra aðeins nánar hvers vegna ég er þetta hörð á þessu og vonandi hvetja einhverja til þess að hugsa sig um næst þegar spurning er hvort kaupa eigi dót úr plasti fyrir krílið og já ég ætla alltaf að vera þetta leiðinleg mamma líka þegar hann verður 7 ára og fer að biðja um lego – við getum án efa fundið eitthvað skemmtilegt fyrir hann annað, ég er viss um það.

Einstaklega margar vörur sem búnar eru til úr plasti hafa hingað til innihaldið BPA en núna eftir að sannað var að BPA (eða Bisphenol A) væri slæmt fyrir okkur leggja framleiðendur sig fram við að merkja vörurnar vel „BPA-free“ og sleppa því í innihaldi. Ég geri ekki ráð fyrir því að allir viti nákvæmlega til hvers BPA er en það er sett í vörur til þess að gera plastið sveigjanlegra og mýkra, en það er þó ekki eina slæma efnið í plasti notað í sama tilgangi. Efni sem einnig eru varhugaverð innihaldsefni í plasti eru til að mynda phtalates, terephtalates, epoxies, aliphatics, trimellitates og fleiri efni einnig notuð til þess að gera plastið sveigjanlegra en þessi efni hafa sömu áhrif og BPA.

Til þess að einfalda mikið hefur plast slæm áhrif á heilsu okkar vegna þess að plast hefur áhrif á hormónin í líkömum okkar. Afleiðingar mikillar plastnotkunar í heiminum í dag eru til dæmis; krabbamein, fæðingargallar, getnaðarvandamál, veikingu á ónæmiskerfinu og áhrif á þroska barna.

BPA hefur lengi verið talið krabbameinsvaldandi en phtalate sem er mun algengara efni í plastinu sem við notum er á lista yfir krabbameinsvaldandi efni.

Þetta er hluti af þeim ástæðum sem ég hef fyrir því að vilja því sem næst ekkert plast í mínu lífi en ég ætla ekki að hafa þetta lengra heldur segja ykkur frá því hvar ég versla einna helst leikföng fyrir Maríus Blæ.

Helst versla ég dót í:

  • Húsgagnaheimilinu,
  • Margt og mikið
  • Petit
  • Plantoys (fæst bráðum í netverslun, Hrím (Kringlunni og hrim,is) Vistveru, Litlu Hönnunarbúðinni, Whales of Iceland og Hríslu.
  • Curtisson Kids (eru stundum með bás í Barnaloppunni og curtisson.is)
  • Barnaloppan
  • Söstrene gröne

IMG_0981

Húsgagnaheimilið – Maríus fékk nýverið dótaeldhús og fékk þá bæði sett með tveim diskum, tveim glösum, tveim hnífum, göfflum og skeiðum. Síðan fékk hann þennan sæta innkaupapoka sem í er brauðpoki, brauð, kaffipoki, mjólk, ísdolla, tómata í dós og oststykki.

IMG_0983

Margt og mikið – Við versluðum einnig potta úr stáli og áhöld (eitthvað af áhöldunum var keypt í söstrene gröne og síðan sett af grænmeti og ávöxtum með seglum sem hægt er að skera í sundur en þetta er frá merkinu Janod sem við erum mjög hrifin af.

IMG_0986

Petit – Þessa bílalyftu fengum við í Petit en veit ég að hún er nú einnig seld í Von verslun, þær eru með mjög flott úrval af viðardóti í Von en hingað til höfum við ekki verslað neitt þar engin ástæða fyrir því önnur en ég versla mjög lítið á netinu einhverra hluta vegna.

IMG_0987

Margt og mikið – Þetta fannst mér algjör snilld! Myndavélin gefur frá sér hljóð og flass þegar ýtt er á takkann og síminn gefur einnig frá sér mismunandi hljóð eftir því hvað er ýtt á.

IMG_0988

Barnaloppan og Curtisson Kids ­– Maríus hefur einstaklega gaman að Ruslabílnum sem sést þarna á bakvið en með honum fylgdi tunna og kubbur með myndum af allskonar rusli og hægt er að sturta í bílinn með örmum sem tunnan er sett á.

IMG_0991

Margt og mikið – Þetta er spil þar sem gefin eru stig fyrir veidda fiska og sá sem að veiðir fyrir hærri stigafjölda vinnur. Það er ekki þannig sem við spilum enn en Maríusi finnst mjög gaman að setja fiskana á gólfið og fá einhvern til þess að veiða með sér. Það eru litlir seglar framan á fiskunum og í endanum á veiðistöngunum.

IMG_0993

Petit og Plantoys – Þetta er eitthvað sem reyndist erfitt að finna dót í baðið sem ekki er úr plasti. Kafbáturinn í bakgrunninn er frá plantoys og er úr viðarsagi (hann er samt mjúkur en það er mjög áhugavert að lesa sér til um hvernig plantoys framleiðir vörurnar sínar og úr hverju). Öndin, báturinn og bíllinn er allt úr latexi (latex brotnar niður í náttúrunni og má til dæmis fara í moltu ef þið vissuð það ekki) og er frá Oli & Carol skemmtilegt merki sem framleitt er af tveim systrum í Barcelona en leikföngin eru einnig heilsteypt þannig að ekkert vatn myglar inni í þeim! Leikföngin eru einnig hugsuð sem nagdót fyrir yngri börn.

IMG_0995Margt og mikið – Viðarpúsl er yfirleitt greitt aðgengi að en þessi frá Janod eru algjör snilld þar sem að ekki eru litlir plastnabbar á þeim til þess að taka púslin upp heldur standa þau örlítið upp úr. Síðan fékk Maríus nýlega aðeins flóknara púsl því hann fer að verða of gamall í hin þó hann hafi enn mjög gaman af þeim.

Þangað til næst

Irpa Fönn (irpafonn)

%d bloggurum líkar þetta: