Auðveldar leiðir til umhverfisvænni lífsstíls

Eins og allir þeir sem mig þekkja vita,  hef ég mikinn áhuga á umhverfisvænum lífsstíl og langar til þess að geta einn daginn kallað mig alveg zero-waste (afsakið slettuna en ég veit ekki um fallegt íslenskt orð yfir hugtakið). Nú erum við að undirbúa okkur undir það að flytja að heiman í sumar (vonandi, 7, 9, 13) og það er draumur sem ég hef eða öllu heldur markmið – ég ætla mér ekki að kaupa ruslatunnu inn á heimilið.

Mig langaði til þess að deila með ykkur nokkrum einföldum leiðum til þess að verða örlítið umhverfisvænni því öll viljum við jú reyna að koma betur fram við plánetuna okkar og stuðla að betri heilsu með því að nota betri efni dagsdaglega.

Þetta eru allt vörur sem við notum hér heima og ég kem til með að nota þegar að ég flyt að heiman.

IMG_0996

Til þess að byrja með eru hér stálrör, ég keypti um daginn nokkur eins og þessi stállituðu í Tiger en stálrör fást einnig í Vistveru, Mena og Hrím til dæmis. Margnota nestisbox einnig úr stáli eru algjör snilld þetta sem er framar á myndinni verslaði móðir mín á markaði í Danmörku en það sem er fyrir aftan og á tveim hæðum er úr Epal. Dökki brúsinn er einnig úr Epal og er frá merki sem heitir 24 bottles, hann er stál og til í ýmsum litum og stærðum en hann er þeim gæðum gæddur að halda köldu í 24 tíma, heitu í 12. Ég er mjög hrifin af stál- og glerbrúsum og vil helst ekki drekka úr neinu öðru. Tebrúsinn sem sést aftast á myndinni er úr versluninni Maí en hann er úr tvöföldu gleri og heldur því heitu heillengi, lokið er viður með sílikoni að innan og tesíuna er hægt að taka upp úr svo bæði er hægt að nota hann fyrir telauf laus eða tepoka. Stálboxið á milli brúsanna er síðan sérstaklega hannað fyrir súpur og er úr Mistur.

IMG_1001

Hér höfum við ýmsa hluti í eldhúsið. Kústurinn aftast á myndinni er til þess að sópa mylsnu af borðum frekar en að nota borðtuskuna sem verður þá kannski öll út í brauðmylsnu eða álíka og fer jafnvel oftar í þvott en ella. Þessi tiltekni er verslaður í Bretlandi en án efa hægt að finna svipað hér heima. Litli burstinn við hliðina á því er sérstaklega ætlaður til þess að skrúbba potta og kemur í staðinn fyrir stálull og svampa, þeir fást til dæmis í Geysir heima og mistur. og burstarnir þar við hliðina á eru fyrir flöskur og er einnig hægt að nota þá fyrir pela, 2 mismunandi stærðir gefur enn fleiri möguleika en ella. Þessir eru keyptir erlendis en ég myndi ætla að svipað fáist í mena og mistur. Þar við hliðina er loofah, þessi fannst mér mjög heillandi þar sem að hann má fara í moltu og kemur í staðinn fyrir svampa en þetta er hægt að kaupa í mistur. Síðan liggur þarna uppþvottabursti úr viði þarna fremst á myndinni en þessi fæst til dæmis í söstrene grene og hægt er að kaupa þar hausa eins og er við hliðina á til þess að skipta um þegar hárin eru orðin léleg í stað þess að þurfa að skipta um heilan bursta. Hárin eru því miður rusl en hægt væri að taka þau úr hausnum þar sem hann má fara í moltu. Undir uppþvottaburstanum er síðan uppþvottalögur í föstu formi ofan á viðarbakka og fæst þessi í mistur.is

IMG_1003

Ég veit ekki hvort ykkur hafi verið kennt að skafa skítinn undan nöglunum en það er alls ekki sniðugt. Það er hætt við að fara of langt þegar verið er að skafa undan nöglunum og það getur haft áhrif á húðina undir þeim en þá er svona naglabursti tær snilld, því ekki viljum við vera með sorgarrendur. Svona bursta er hægt að fá til dæmis í söstrene grene, the Body Shop og fleiri stöðum. Síðan höfum við mismunandi tegundir af handsápum en hér heima notum við einungis sápur í föstu formi. Maður tekur minna, það eru færri eiturefni, endist lengur og hún kemur ekki í plastbrúsa sem eru allt frábærir kostir. Handsápur eru hægt að fá út um allt, Bónus, Söstrene grene, Farmers Market, Mena, Mistur og ýmsum öðrum stöðum. Aftast á myndinni, undir einni sápunni er önnur gerð af loofah, við notum svona til dæmis undir sápu á baðvaskbrúninni þar sem að hann dregur í sig sápuna og hún fer ekki út um allt og er einnig hægt að nýta hann til þess að skrúbba líkamann með eða án sápu í. Þetta eintak var verslað í Farmers Market.

IMG_1004

Hér eru síðan ýmsar vörur fyrir tannhirðuna. Hér nota allir bambustannbursta en þeir fást á ýmsum stöðum, Heilsuhúsinu, Mena, Mistur, Vistveru og fleiri stöðum. Tannstönglar úr við fást nú bara í öllum helstu matvörubúðum en mér persónulega finnst að fólk ætti alltaf að næla sér frekar í þá en plastið, fyrir utan það hve miklu skemmtilegri tilhugsun það er að setja viðinn upp í sig er síðan hægt að setja þessa í moltuna eftir á. Við hliðina á tannburstanum sitt hvoru megin er síðan tannkremstöflur og tannkremsduft. Það er mismunandi hvað heimilisfólkinu líkar betur en ég er persónulega hrifnari af töflunum. Ég hef undanfarið þegar ég ferðast einungis farið með handfarangur og er kostur að tannkremið mitt er ávallt í föstu formi og er auðvelt til notkunar. Tannkremstöflurnar kaupum við eftir vigt í Vistveru en tannkremsduftið er keypt í Menu. Það er síðan lítil glerdolla með vegan og umhverfisvænum tannþræði og hægt er að fylla á dolluna. en hún er keypt í pakka þar sem að fylgir með ein áfylling og síðan er hægt eftir það að kaupa pakka með tveim áfyllingum í en þetta var keypt í Menu.

IMG_1006

Svamparnir fremst á myndinni eru úr Mistur en einnig er hægt að kaupa þá í Söstrene grene veit ég líka og koma í staðinn fyrir bómullarskífur hjá okkur, við síðan skellum þeim í þvottavélina eftir notkun og eru þeir notaðir aftur og aftur, ég veit enn ekki hve lengi þeir duga en lengi þegar svo er komið má hann fara í moltu.. Bambuseyrnapinnar fást í Heilsuhúsinu en þeir mega einnig fara í moltu eftir notkun. Aftast á myndinni eru síðan tvær tegundir af svitalyktareyði. Í glerkrúsinni er hann eins og krem og ber maður hann á sig með litlum spaða sem fylgir með. Steinninn við hliðina er úr Vistveru en hann virkar þannig að hann er bleyttur með köldu vatni fyrir notkun og síðan látinn þorna. Hann dugir heillengi og aftur höfum við ekki alveg hugmynd um hve lengi hann dugir en við höfum trú á allavega ár, jafnvel lengur.

IMG_1008

Aftast á myndinni er poki með sápuskeljum og eru nokkrar fremst á myndinni. Þær koma í staðinn fyrir þvottaefni, við setjum 3-5 stykki í taupoka og lavender dropa með og þetta er sett inn í þvottavélina, skammturinn dugir í sirka 5 vélar og mega fara síðan í moltu. Sápuskeljarnar fást í Vistveru. Hvíti sápukubburinn á endanum á myndinni virkar svipað en þá er skafið af stykkinu, blandað við vatn og síðan sett í hólfið fyrir þvottaefni en einnig er hægt að bleyta aðeins í honum og nota sem blettaeyði en sápan fæst í Vistveru. Burstinn við hliðina á sápunni er einmitt ætlaður til þess að nudda blettaeyði í fatnað. Fyrir aftan hann er fljótandi sápa sem að vísu er í plastbrúsa en er einstaklega sniðug því hana má bókstaflega nota á allt! Í þvottavélina, á líkamann, þegar verið er að þrífa í eldhúsinu, til þess að skúra með, þrífa dýrin og svo framvegis…hún fæst í Menu. Fyrir aftan skeljarnar sem eru fremst á myndinni er annar bursti en þessi er svokallaður lint-bursti eða rykbursti. Þessi bursti er til þess að ná hárum og ryki af fatnaði eins og hárarúlluburstarnir úr Rúmfatalagernum og IKEA eiga að gera en mér finnst oft ekki einu sinni virka sem skyldi en þessi snilld fæst í Mistur. Fjaðrakústurinn sem sést á myndinni er síðan til þess að þurrka af ryk og fæst hann til dæmis í Bast.

Þangað til næst

Irpa Fönn (irpafonn)

%d bloggurum líkar þetta: