Þegar að ég var ólétt af stráknum mínum síðustu mánuðina sérstaklega var ég mjög dugleg á Pinterest og fann þá hugmynd sem mér fannst algjör snilld!
Hér er „pin-ið“
Svo það er akkúrat það sem ég gerði, ég stofnaði netfang fyrir strákinn sem er þó ekki bara nafnið hans heldur eitthvað sem hann myndi ekki vilja nota sjálfur og engum öðrum myndi detta í hug. Ég hef aldrei sagt nokkurri sálu frá því hvað það er og kem ekki til með að gera en það er þó skrifað á miða sem er geymdur á öruggum stað ásamt lykilorðinu bæði ef ske kynni og líka bara því ég man ekki einu sinni lykilorðið núna lengur. Ég kem aldrei til með að opna netfangið en á 18 ára afmælisdaginn hans verður þetta gjöf frá mér til hans og ég vona innilega að honum finnist þetta jafn skemmtilegt og mér.
Ég skrifa og sendi ýmislegt á hann, myndir af okkur saman eða honum, sónarmyndirnar senti ég til öryggis og síðan hef ég skrifað stuttlega um hvað mér fannst þegar ég sá hann fyrst og þegar að hann varð 1 árs og síðan 2 ára hef ég skrifað stutta afmæliskveðju og sagt honum aðeins frá síðasta árinu hans og kem til með að gera það næstu afmælisdaga líka. Stundum líða mánuðir á milli og það er allt í góðu það þarf ekki að vera mikið þarna inni og ég hef líka sent bara „ég vona að þú vitir að ég elska þig alveg helling“ Það er svo ótalmargt sem hægt er að senda en ég ætla að koma með nokkrar hugmyndir.
- Myndir af skemmtilegum viðburðum; afmæli, jól, áramót, sumarfríið eða bara safna saman nokkrum sem að þér þykir vænt um.
- Saga um eitthvað skemmtilegt sem barnið/krakkinn kann að hafa gert eða sagt.
- Myndir af föndri sem viðkomandi var einstaklega ánægður með eða stoltur yfir.
- Stuttar orðsendingar.
- Hvað er í gangi í lífi ykkar þessa stundina.
- Myndir og myndbönd af þeim að stunda áhugamál sín.
- Jafnvel þeirra hugmyndir og óskir um hvernig framtíðin lýti út í þeirra augum, hvað þeim langar til þess að gera og gaman gæti verið fyrir þau að sjá hvort skoðanirnar séu enn þær sömu.
- Og svo náttúrulega allt sem ykkur dettur í hug, allt og ekkert.
Það skiptir ekki máli hvort barnið þitt sé nýfætt, ársgamalt, 5, 8, 12 eða hvað sem er það er enn hægt að byrja og mæli ég með því þar sem þetta er einföld og falleg gjöf.
Þangað til næst
Irpa Fönn (irpafonn)
You must be logged in to post a comment.