Kæri barnsfaðir

Kæri barnsfaðir.

Mig langaði til þess að skella nokkrum orðum hérna til barnsföður míns og kannski eru þá einhverjir hérna sem tengja við eitthvað af þessu.

Mig langaði til þess að byrja á því, kæri barnsfaðir að þakka þér fyrir allt sem þú hefur kennt mér. Bæði það góða og það slæma, það er nefnilega alveg frekar margt. Þú kenndir mér til dæmis það að sumar persónur ganga hreinlega ekki upp saman, og við erum ein af þeim. En þó að við höfum ekki gengið sem ástfangið par þá göngum við samt upp sem einhverskonar teymi. Nú hvernig þá? Við erum ekki ástfangin eins og ég taldi hérna upp áðan, við erum ekki bestu vinir alltaf en þó göngum við upp sem foreldra barnsins okkar, sem bara frekar gott teymi.

Sagan okkar er svolítið eins og götóttur ostur. Ég hef verið slæm í orðum um þig og þú einnig um mig, við getum hvorug neitað því sama hversu mikið við munum reyna að trúa því. Stundum hreinlega þolum við ekki hvort annað. En veistu hvað? Það er bara allt í fínasta lagi, það er ekki dans á rósum að vera með tvær fjölskyldur að ala upp sama barnið. Einnig hefur þetta samband okkar sem foreldrar ekki verið upp sitt besta á tímabilum. Við höfum bæði tekið skref til hliðar sem var kannski ekki besta skrefið en hvað sem á reynir, reynum við að halda því sem gerðist frá því sem mun gerast.

Á beggja bóga höfum við getað leitað til hvors annars. Ég til dæmis hef reitt mig á þig varðandi bílakaup og viðgerðir á svoleiðis hlutum þar sem ég hef ekki hundsvit á því. Þú hefur getað reitt þig á mig varðandi hárið á barninu í íþróttinni sem hún stundar og einnig hefur verið leitað til mín varðandi hárið á henni fyrir myndatökur og annað. Það eru ekki allir skilnaðarforeldrar sem geta komið saman varðandi eitthvað sem tengist barninu á forsendum hins. Það að við getum komið okkur að samkomulagi varðandi það að koma barninu á æfingar og sækja hana er æðislegt, oft leiðir það til leiðinda hjá öðrum foreldrum sem eru að ala upp barn í tvennu lagi.

Við vorum svo heppin að fá dóttur okkar snemma á lífsleiðinni svo við kenndum hvort öðru mjög fljótt margt. Svo nefna má samskipti, hlutverkaskipti, skipulagningu og annað. Við þurftum bæði að þroskast mjög hratt þegar stelpan kom í lífið okkar og hugsa um hluti sem jafnaldrar okkar jafnvel eru ekki byrjaðir að hugsa um í dag. Við getum litið til baka og verið stollt af okkur, pældu í því. Við tvö ! Við tvö gátum þetta ! Eitt erfiðasta hlutverk mannsins og við tvö gátum þetta í einhverskonar sameingingu. Og hvað höfum við í dag, eitt sterkasta mannsbarn sem ég hef á ævinni kynnst.

Það að finna leið til þess að veita barni hamingju er að við stöndum öll þétt saman sem komum að henni.Það að þú leyfir öðrum manni að vera með þer sem faðir dóttur okaar er stór sigur, og á það einnig við mig með konuna þína. Dóttir okkar hefur stóran hóp í kringum sig sem stendur þétt á bak við hana. Og þó við stígum flest öll skref samstíga, þá koma inná milli koma stundum hliðarskref. Við vitum það að þegar við öll höldumst í hendur verður verkið mikið auðveldara. Það skiptir miklu máli að við treystum hvort öðru í því hlutverki sem okkur var gefið varðandi barnið. Það er ekki bara hlutverk okkar að vera foreldrar hennar, við í sameiningu erum að móta einstakling.

Við bæði höfum þurft að taka stórar ákvarðanir varðandi fjölskyldur okkar, þá er ég að tala um mig og manninn minn og börn og þig og þína konu og börn. Það að við komumst að því samkomulagi að það besta fyrir stelpuna okkar væri að búa á íslandi hjá þér þegar maðurinn minn komst í nám í öðru landi var ein stærsta ákvörðun sem ég hef þurft að taka og þu studdir okkur í því.

Það er svo ótrúlega margt tengt foreldrahlutverkinu sem ég get sagt að ég hafi lært af þér, þótt ég geti ekki nefnt það með orðum þá finnst mér að þú þurfir að fá að vita það. Ég mun þurfa alla mína lífsleið að þurfa tala við þig, sama þótt stelpan verði átján ára því hún mun vonandi koma með börn sem við tvö eigum saman sem barnabörn. Við þurfum að mæta í giftinguna hennar ef hún ákveður að gifta sig einn daginn og við þurfum að vera til staðar fyrir hana alla þá daga sem við höfum ennþá eftir að lifa.
Þó þú sért ekki fyrsta manneskjan sem ég hringi í til að bjóða í kaffi eða detta í spjall þá ertu manneskjan sem gafst mér dóttur okkar og fyrir það færðu stærstu þakkirnar.

Takk fyrir að vera að fara í gegnum þetta með mér, því ég veit ekki hvort að ég gæti þetta ein.

%d bloggurum líkar þetta: