Hvers vegna ég kem ekki til með að gefa brjóst …

Þegar ég átti Maríus endaði ég í bráðakeisara, ég hafði lítið sem ekkert kynnt mér keisaraaðgerð þar sem það hræddi mig gífurlega og ég bara ÆTLAÐI að eignast hann „eðlilega“. Þetta gerðist allt frekar hratt eftir að mér var sagt að ég hefði ekki annarra kosta völ, aðgerðin útskýrð stuttlega og svo bara beint inn á skurðstofu.

Þegar að ég kom inn á herbergi eftir aðgerðina hélt barnsfaðir minn á Maríusi í fanginu og ljósmóðirin kom til þess að vigta hann og mæla. Eftir það var mér rétt Maríus og beðin um að prófa að setja hann á brjóstið. Ljósmóðirin hjálpaði mér við það og hann tók brjóstið strax.

Ég veitti því enga sérstaka athygli hvernig hún fór að því að leggja hann á, ég var ennþá að jafna mig á öllu því sem var nýbúið að gerast og fannst þetta eiginlega bara svolítið óþægilegt; ég var ekki viss hvernig mér fannst þetta, þetta var svo skrýtin tilfinning og ég var ekki einu sinni viss hvað mér fannst um þetta barn sem hékk allt í einu þarna.

Maríus sofnaði eftir að hafa drukkið og var þá lagður í vögguna sína og okkur rúllað niður á deild til þess að hvíla okkur. Þá um nóttina vaknaði hann nokkrum sinnum til þess að drekka og ég þurfti að hringja bjöllunni í hvert einasta skipti þar sem ég gat ekki staðið upp til þess að taka hann til mín og kunni ekki að leggja hann á brjóstið. Þetta var erfið fyrsta nótt, hann vaknaði oft og grét mikið, ég endaði á því að sofa með hann í fanginu hálfsitjandi í sjúkrarúminu og grét sjálf mikið þá nóttina líka. Snemma um morguninn þegar að ég hringdi bjöllunni eina ferðina enn til þess að biðja um hjálp með brjóstið þar sem hann reif sig alltaf frá því eftir 2 mínútur og ég átti erfitt með að róa hann niður aftur eftir það, vildi ljósmóðirin á vaktinni prófa að gefa honum ábót.

peli 1Eftir það var ekki aftur snúið, hann þurfti ábót fyrir hverja gjöf og eftir hverja gjöf. Hann byrjaði á að fá smá ábót í sprautu en fékk fljótlega pela þar sem að hann grét svo sárt og vildi borða svo rosalega ört. Ég var látin mjólka mig eftir hverja einustu gjöf líka í 30 mínútur, hvort brjóst og ráðlagt að leigja mér dælu sem ég og gerði. Mér var lánuð Þegar að Maríus var sofnaður var hann lagður í sjúkrarúmið og okkur rúllað niður á deild í sitthvoru rúminu. Ég þurfti líka að mjólka mig eftir hvert einasta skipti þar sem að hann fékk ábót og ég mjólkaði ekki nóg.

Við þurftum að vera aukanótt á spítalanum vegna þess að hann átti í erfiðleikum með að anda meðan að hann var að drekka úr brjóstinu og það átti að fylgjast betur með hvort að eitthvað væri að, þessi aukanótt tók mikið á mig en í raun hafði öll spítalavistin, þessir 3 dagar sem við vorum þar  verið mjög erfið, aðallega vegna brjóstagjafavandamála.

Ég hélt ég hefði gert allt rétt þegar að ég var að undirbúa mig fyrir brjóstagjöf, átti fatnaðinn hafði lesið mér til og hélt áfram að gera allt sem ég mögulega gat og datt í hug til þess að hjálpa til með þetta. Ég fjárfesti í alls konar töflum og drykkjum sem áttu að vera mjólkuraukandi, tók inn vítamín og hvað eina auk þess sem ég hélt áfram að mjólka mig eftir hverja gjöf, hálftími á hvort brjóst á sirka 2 tíma fresti, allan sólarhringinn.

Þegar að um 2 vikur voru liðnar frá fæðingu Maríusar hætti ég að reyna að leggja hann á brjóstið því það þýddi að hann öskurgrét og ég með honum þegar að ég kom honum ekki á og gat ekki róað hann niður. Sumar nætur grétum við svo sárt að mamma kom inn til okkar til þess að gefa honum pela og róa mig, algjörlega ómetanlegt en á þessum tímapunkti ákvað ég að reyna að hætta að setja hann á brjóstið og gefa honum mjólkina mína í pela frekar.

Ég mjólkaði mig 8 sinnum á sólarhring, núna í 40 mínútur hvort brjóstið og náði á góðum degi 40 – 60 ml. en hann var að drekka um 400 ml. á sólarhring. Fljótlega fóru síðan þessir fáu ml. að verða enn færri og að lokum fékk ég einungis úr öðru brjóstinu nokkuð til að tala um og kannski 20 ml. allt í allt. Þá sagði mamma mér að hætta þessu bara, ég gæti ekki gert mér þetta lengur, ég væri þreytt og búin hann þyrfti meira á mömmu sinni að halda heldur en mjólkinni frá mér. Ég er henni alveg óendanlega þakklát fyrir að hafa opnað fyrir mér augun og fengið mig til þess að sjá hvað ég væri að gera mér og okkar sambandi.

Ákvörðunin um að hætta að reyna að hafa Maríus Blæ á brjósti er ein besta ákvörðun sem að ég hef tekið, bæði fyrir mig og Maríus. Mér var mikið í mun að enginn vissi að ég gæfi honum ábót eða að hann drykki úr pela svo mikil var skömmin sem fylgdi. Þegar að ég hætti að mjólka mig og gefa honum brjóstið reyndi ég einnig að fela það og sagði engum nema allra, allra nánustu í að minnsta kosti mánuð.

peli 2

Ég naut þess aldrei að hafa Maríus á brjósti, fannst það vera kvöð frá fyrsta skipti og kveið ávallt næstu gjafar. Þau fáu skipti sem mér tókst að koma honum á brjóstið fann ég fyrir ónotatilfinningu og gat ekki beðið eftir því að hann hætti að sjúga svo ég gæti lagt hann frá mér. Þegar að ég hugsa til brjóstagjafar núna fylgir því ekkert nema kvíði og óþægindi. Þó ég viti það vel að þetta þarf ekki að fara eins og áður þá er ég það hrædd um það að ég er ekki einu sinni tilbúin að reyna það. Ég kem því ekki til með að gefa barninu mínu brjóst þegar að hún kemur út, hún verður pelabarn og það er ekkert sem getur fengið mig til þess að skipta um skoðun. Ég átti mjög erfitt með þetta tímabil og það ætti ekki að furða neinn að ég endaði með massívt fæðingarþunglyndi, áður hafði ég verið með meðgönguþunglyndi og hefur þessi meðganga núna ekki gengið neitt svakalega vel andlega svo ég tel það nauðsynlegt að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að enda betur en síðast.

Þangað til næst!

Irpa Fönn (insta: irpafonn)

%d bloggurum líkar þetta: