litli tónlistarmaður

Ég er það heppin að eiga músíkalska fjölskyldu, sem þýðir bókstaflega að hér er aldrei hljóðlátt! Það er alltaf annaðhvort krakki syngjandi – helgi spilandi eða tónlist úr útvarpinu, já kæru landsmenn hér notum við útvarp ennþá!

Af öllum börnunum fjórum hjá okkur Helga er það miðjustelpan okkar sem hefur fengið tónlistargenin í beinan legg. Frá því að hún var ungur krakki var hún byrjuð að skoða hljóðfærin sem voru á heimilinu og gat hún dundað sér talsvert lengur við að fikta í þeim heldur en nokkurn tíman að leika sér með dót. Einu sinni fékk hún að velja sér dót úr dótabúðinni og gekk rakleiðis að einhverjum pakka sem innihélt mikrafón og rafmagnsgítar. Míkrafónn var eitthvað sem hún hafði aldrei séð áður en á mínútunni sem uppsetningin á dótinu var komin vissi hún nákvæmlega hvað hún átti að gera.

En þrátt fyrir að hún Heiðrós beri mestan karakterinn þegar kemur að hljóðfærum og músík þá eru hin ekkert skárri. Eins og flest allir krakkar sem sjá hljóðfæri fara þau að fikta og spila á þau. Hér á heimilinu gætum við þess vegan stofnað nútíma KIÐLINGANA. Þeir sem vita ekki hvað kiðlingarnir eru þá eruð þið búin að missa af miklu! Heimilið mitt mætti kalla litla tónlistarbúð – það væri auðveldlega hægt að búa til einhvern slagara og skella honum á bylgjuna, það er svo mikið af tónlistardóti herna að ég verð oft þreytt á því að telja það upp.

Tónlist því ver og miður er að deyja út í dag – og þá er ég ekki að tala um að folk sé að hætta að spila tónlist heldur live tónlist! Flest öll lög í dag eru gerð með því að ýta á takkana á lyklaborði, því nú og kannski áður er hægt að fá flest öll hljóðfæri í upptökuforritum. Helgi er bassasleikari og fyrir honum er allt spileri að fjara út (hans orð ekki mín!). Svo það var fljótt ákveðið að kenna krökkunum á hljóðfæri, við erum ekkert að tala um að þeim séu gefnir ákveðnir tónlistartímar en í hljóðfærakistunni herna heima fá þau að fara í hljóðfærin eins og þeim sýnist (auðvitað ekki bassana hjá pabba sínum þar sem þau lofta þeim engan vegin).

Hér eru heldur engin mörk sett varðandi tónlistartegund. Uppáhaldsdiskur stelpnanna er til dæmis Maximús Músíkmús og höfum við farið tvisvar sinnum á sinfoníutónleika í Hörpunni. Ásamt því auðvitað að Heiðrós var Maximús Músíkmús á öskudaginn sjálfan! Einnig eigum við gælumús sem ber sama nafn.

Söngur er auðvitað mikill hluti af þessu og ég held að Ásgeir hafi mestan áhuga á söngnum, Heiðrós vill mun frekar spila og búa til sína eigin texta. Ásgeir hefur mikin söngvabrunn og eins skemmtilegt og það er heyrir maður nú oft inn á gangi hjá okkur að hatrið muni sigra (takk Eurovision). Þótt nú allir krakkarnir syngi með flest öllum barnalögum er Ásgeir með eyjalagið með Friðriki Dór og Sverri Bergmann alveg á hreinu! Veit ekki alveg hvort að þetta séu óskýr skilaboð um það að ég eigi að kaupa miða fyrir hann á þjóðhátíð eða ekki.

Uppáhaldsstaður Helga, Heiðrósar og Hafþóru er klárlega einhver hljóðfærabúð. Þessi tvö fyrstu talin verða eins og litlir krakkar í nammibúð og Hafþóra elskar allt sem hun getur gert sem mestan hávaða út. Jú, jú þið lásuð rétt á milli línanna – hún elskar trommur. Helgi og Heiðrós eru ansi dugleg að fjárfesta í einhverskonar nótnabókum sem eru í raun vinnubækur í hljóðfæraleik. Og ef Heiðrós yrði metin í tónfræði væri hún örugglega komin með tvö stig.

Sama þótt krakkarnir séu rammfalskir hjá þer – kunna ekki textan eða eru bara að garga eitthvað út í blain skaltu aldrei reyna að þagga það niður. Ég hef heyrt sögur af frænda mínum sem var alltaf sagt að hafa hljótt þegar hann var að syngja – og hann bara hætti því hann fór að skammast sín. Tónlist er eitthvað sem á að veita vellíðan ekki stressi.

 

%d bloggurum líkar þetta: