Eftir þrjár meðgöngur á 6 árum má telja sem svo að líkaminn á mér sé nú ekki sama standi og áður fyrr. Ég átti mitt fyrsta barn 16 ára og var á þeim tímapunkti í bullandi fimleikum að í 20 vikna sónar var ég ennþá með 6pack. Fyrir mér er hreyfing númer eitt, tvö og þrjú hjá börnunum mínum, þó svo að að miðju stelpan mín virðist erfa öll gen sem hægt er að erfa frá föður sínum og gleymir sér í tónlistarspili í marga klukkutíma. Ásamt því að yngsta barnið er nú rétt skriðið yfir þriggja mánaða.
Elsta stelpan mín, þessi 9 ára hefur alltaf haft gaman að hreyfingu. Hún er skuggalega sterk í höndunum og hefur gert handahlaup frá því að hún var lítið smotterí.
Eftir að ég átti miðju stelpuna mína fór maðurinn minn að vinna 12 tíma vaktir á 2-2-3 plani. Stelpan var ekki værasta barn í heimi svo þegar ég var búin að koma elstu í leikskólann þá fórum við oftast heim og kúrðum okkur saman og söfnuðum orku eftir andvaka nótt. Svo var það að sækja þá eldri í leikskólann, heim að elda, að baða, svæfa og taka á móti dauðþreyttum manni. Svo tími minn fyrir ræktina var svo sem enginn þar sem ekki var barnapössun í ræktinni þar sem við bjuggum.
Ég byrjaði því að ná mér í æfingarforrit í símann minn. Í þeim forritum voru sýndar æfingarnar svo ég get fengið stelpurnar með mér í æfingarnar. Þetta þreytti þá eldri talsvert og sjálfri mér svo sem líka, en fyrir mér var þetta mikilvægt.
Kallinn er svo byrjaður í nýrri vinnu og í þeirri vinnu er heilsukeppni og því hefur hann byrjað sjálfur á því að gera æfingar heima þar sem nýtt barn hefur komið. Enn og aftur vill elsta stelpan vera með og sú í miðjunni einnig. Þær æfingar sem hann gerir reynast þeim frekar erfiðar, þá börnunum. Svo ég ákvað að líta á hvort að það væri nú ekki til forrit fyrir krakkahreyfingar. Þar sem æfingarnar eru sýndar og auðveldari.
Ég fann því appið Sworkit Kids, sem er forrit sem gefur manni þann möguleika á að stilla tímann og hverskonar æfingar maður vill að barnið geri ásamt því að sýna æfinguna á skjánum. Forritið er frítt og gefur upp þrjá möguleika:
- Strenght – eða styrkur
- Agility – sem ég myndi þýða sem líkamstjórn
- Flexibility & balance – liðleiki og jafnvægi
Æfingarnar eru æfingar sem ég man frá mér sem krakki í skólaíþróttum. Sumar erfiðari en aðrar en allar skemmtilegar. Þær eru það skemmtilegar að ég hef sjálf gripið í forritið og stundað þær, maður fær alveg helling út úr þessu. Og ég tala nú ekki um hlátrasköllin og ákafan í börnunum þegar þau ná að plata mann með sér. Ég myndi ef ég væri þú, klárlega kíkja á þetta forrit. Þetta er ein leið til þess að eiga góða stund með börnunum og leyfa þeim að fá sína útrás.
Þessi færsla er ekki skrifuð í samstarfi við appið.