Í “formið” eftir barnsburð

Nú á ég 2 börn og hef verið báðum megin á “skalanum”.

Fyrir fyrsta barn var ég 68kg og í sæmilegu formi en þyngdist um nokkur kíló á meðgöngunni, fyrst var mér bara sama og leyfði mér aðeins of mikið sem endaði með aukakílóum. Þegar strákurinn var 2 ára þá fékk ég nóg og ætlaði mér sannarlega að ná SAMA forminu og áður (já því það ná sko allir því right?) Ég vann eins og brjálæðingur, kom þreytt heim en neyddi mig samt í ræktina sem endaði með hugarfarinu “ég var dugleg í dag svo hamborgari skemmir ekkert”. Ég var s.s. að þessu á röngum forsendum og ekki með hugann á réttum stað.
Spólum nú rúm 4 ár fram í tímann. Ég var hætt með barnsföður mínum og loksins farin að hreyfa mig því mér þótti það gaman, ég fór að hugsa um mataræðið og hugsa um hvað færi í líkamann minn þegar ég kynnist tilvonandi manninum mínum. Hann er kraftlyftingamaður og stundar þ.a.l. líkamsrækt af miklum krafti. Verandi með kraflyftingamanni í 100% vinnu er mikil hvatning til að mæta í ræktina og verður það því “okkar stund”. Ég fer öll að styrkjast og mótast þangað til óvæntur glaðningur gerir vart við sig… Ég varð ólétt!

Ég lofaði sjálfri mér að í þetta skipti skyldi sko ekkert stoppa mig frá því að stunda hreyfingu á meðgöngunni og passa mataræðið. Það tók mig ekki langan tíma að komast að því að mataræðið yrði enginn dans á rósum, ég gat lítið borðað og það sem ég kom niður kom oft bara sömu leið til baka. Jújú, morgunógleðin varð til þess að þessi mamma léttist á meðgöngunni í stað þess að þyngjast.
Svo kom að fæðingu (loksins fyrir lystarlausu mig) og ég skrái mig á mömmucrossfit námskeið til að vinna upp styrkinn sem hvarf í sjálfsvorkunni, því jú greyjið ólétta ég gat ekki hreyft mig í lok meðgöngu af þreytu og orkuleysi. Það bar smá árangur en það var ekki fyrr en ég hætti með stelpuna á brjósti og ákvað að taka mataræðið í gegn sem hlutirnir fóru að gerast. Í dag er ég 100% sátt við útlitið mitt þrátt fyrir að vera enn 4 kg þyngri en ég var fyrir fyrsta barn… viljiði vita leyndarmálið á bakvið það?

Ég hætti að hafa áhyggjur af slitum og lausri húð, það hafa 2 börn búið með mér í þessum líkama. Á meðan ég hugsa vel um líkamann minn er ekkert meira sem ég get gert og því er bara langbest að vera ánægður í eigin skinni. Ef þú elskar ekki þennan líkama hver á þá að gera það? Kolvetnafíkillinn er hér enn og hver veit, kannski ef ég leyfði mér ekki svona oft eitthvað sem er “bannað” þá væri ég kannski í dúndurformi en ég er bara að þessu fyrir mig og mér þykir ís og nammi gott… eins og maður sagði hér á yngri árunum YOLO!

En öllu gamni sleppt, ef þú vilt verða sátt í eigin skinni.
-Reyndu að skipuleggja vikuna fram í tímann og byrjaðu smátt.
-Vaknaðu á hverjum degi og segðu sjálfri þér að þú sért falleg nákvæmlega eins og þú ert, sjálfstraust kemur þér langt!
-Ef þú sérð ekki fram á að geta staðið við ræktartímann, farðu þá út að labba eða gerðu heimaæfingar (það eru milljón á youtube).
-Sýndu börnunum þínum sjálfstæða og sjálfsörugga mömmu því þegar þau sýna þér að þau hafi sjálfstraustið þá verður það allt þess virði (jafnvel þó þú þurfir að feika það til að byrja með).
-Leyfðu þér kökusneiðina og ALDREI kalla það fall eða svindl því um leið og þú horfir á það sem slæmt þá verður það neikvætt og dregur þig niður.
-Hættu í megrun og tileinkaðu þér lífsstílinn sem hentar þér og þínum.

Líkamsást, Hrafnhildur

Höfundur: Hrafnhildur

Ég er 27 ára þriggja barna móðir í Garðinum. Þar búum við með manninum mínum honum Ása. Ég vinn sem flugöryggisvörður í FLE. Börnin mín heita Svavar Bragi sem er 6 ára, Alparós sem er 2 ára og lítill snúður fæddur í byrjun júní sem heitir Óliver. Ég er að læra sjúkraliðann í fjarnámi samhliða 100% starfi sem flugöryggisvörður. Insta: @hrafnhildurskugga

%d bloggurum líkar þetta: