Að finna tíma til að hreyfa sig

Það getur verið erfitt að finna tíma til að hreyfa sig þegar maður á börn, er í vinnu og/eða námi, og að reka heimili. Hver kannast ekki við það að borga fyrir kort í ræktina eða aðra hreyfingu, en hafa svo aldrei tíma til að mæta? Ég hef allavega gerst sek um það.

 Í janúar á þessu ári var ég búin að trassa það að mæta í ræktina í marga mánuði, einfaldlega vegna þess að ég hafði hvorki tíma né tök á að mæta. Svo fór allt of mikill tími í að koma sér í og úr ræktinni, pakka öllu draslinu ofaní tösku, redda pössun eða drösla krökkunum með o.s.frv. En ég fann að ég þurfti að koma hreyfingu aftur í mína daglegu rútínu, það gerir svo ótrúlega mikið fyrir andlegu heilsuna, fyrir utan það auðvitað að stuðla að líkamlegu heilbrigði. Ég fór að leita að lausn og datt í hug að skoða heimaæfingar. Þannig gæti ég æft á morgnana áður en stelpurnar vakna, eða seinnipartinn með stelpurnar heima, og jafnvel á kvöldin.

Þegar ég hugsaði um heimaæfingar sá ég samt bara fyrir mér fáar og ófjölbreyttar æfingar með eigin líkamsþyngd og hélt að það yrði hundleiðinlegt og ekki nógu krefjandi. En ég prufaði að leita að öppum með heimaæfingum og fann eitt sem heitir Nike Training. Þar er fjöldi æfinga sem hægt er að gera heima, bara með æfingadýnu og eigin líkamsþyngd. Ég prufaði appið og fílaði það í botn, æfingarnar eru bæði skemmtilegar og krefjandi, og það er hægt að gera þær hvar og hvenar sem er. 

Ég kom æfingunum inn í mína daglegu rútínu og líkaði það svo vel að æfa heima að ég fór að svipast um eftir tækjum til að gera æfingarnar enn fjölbreyttari. Ég keypti notaða skíðavél og notað þrekhjól á netinu fyrir lítin pening, svo tók ég til í bílskúrnum og útbjó lítið „heimagym“.

 Í byrjun sumars var ég búin að vera dugleg að taka heimaæfingar í hálft ár, og sá að þetta var eitthvað sem ég gæti hugsað mér að halda áfram að gera í framtíðinni. Ég ákvað þess vegna að kaupa mér nokkur handlóð og æfingateygjur, og svo fékk ég lánaða ketilbjöllu hjá mömmu. Núna get ég tekið bæði fjölbreyttar lyftingaæfingar, og þolæfingar með eigin líkamsþyngd, og ég hlakka alltaf til að komast inn í bílskúr að æfa. Þetta er orðinn minn „me time“ og mesta snilldin er að ræktin mín er alltaf opin og ég þarf bara að labba inn í bílskúr, þarf ekki að eyða neinum tíma í að ferðast á milli staða eða pakka niður í tösku, ekkert vesen. Svo þegar ég er ein með stelpurnar þá færi ég bara hjólið inn í stofu og hjóla á meðan þær horfa á barnatímann, eða fer með æfingadýnuna fram og tek æfingu þar og leyfi þeim jafnvel að vera með, þeim finnst það algjört sport. 

Ef þið eruð í sömu sporum og ég, eigið erfitt með að finna tíma eða fá pössun, og viljið spara ykkur pening í leiðinni, þá mæli ég með að skoða það að æfa heima. Það er til fullt af sniðugum öppum, og ég mæli sérstaklega með því að prufa Nike Training en það kostar ekkert og er fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna. Ég reyni að vera dugleg að sýna frá heimaæfingunum mínum á instagram og áhugasamir geta fylgst með mér þar.

Kveðja Glódís

Instagram: glodis95

%d bloggurum líkar þetta: