Ég eldaði þennan pastarétt í gær og öllum fannst hann virkilega góður. Mér finnst þægilegt að skella í pastarétt því það er einfalt og fljótlegt, og frábær leið til að nýta hráefni sem er að verða komið á síðasta séns, til dæmis grænmeti sem er orðið slappt og kjötálegg eða ost sem er að verða kominn á síðasta söludag. Innihaldsefnin eru því alls ekkert heilög og ég mæli með að nota bara það sem til er hverju sinni.
Pastaréttur:
250 g pasta
Ólífuolía
Sjávarsalt
Steikingarolía
1 laukur
1 hvítlaukur lítill (eða eitt hvítlauksrif)
1 laukur
1/2 brokkolíhaus
1/2 blómkálshaus
1/2 rauð paprika
6 beikonsneiðar
2 lúkur skinkukurl
10 pepperóní
250 ml matreiðslurjómi
1/2 piparostur
1/2 mexíkóostur
Maizenamjöl
Hvítur pipar
Svartur pipar
Sjávarsalt
Chili flögur
Hvítur pipar
Grænmetiskraftur
Aðfer:
Byrjið á að sjóða pastað samkvæmt leiðbeiningum, mér finnst best að nota heilhveiti pastaskrúfur en það má nota hvaða pasta sem er. Gott er að setja góða ólífuolíu og vel af sjávarsalti með í pottinn.
Skerið grænmetið smátt og steikjið við lágan hita upp úr góðri steikingarolíu, passið að nota stóra og djúpa pönnu svo að allt komsti fyrir. Á meðan grænmetið mallar á pönnunni er beikonið og pepperóníið skorið niður og bætt á pönnuna ásamt skinkukurlinu þegar grænmetið er orðið mjúkt. Rífið piparostinn og mexíkóostinn niður með rifjárni og bætið á pönnuna ásamt matreiðslurjómanum. Þegar osturinn er bráðnaður er sósan krydduð og smökkuð til, og svo þykkt með maizenamjöli. Mér finnst best að setja mikið af maizenamjöli og þynna svo sósuna með pastavatni þar til hún er orðin passlega þykk, þannig verður meira úr henni og hún bragðast betur. Þegar pastað er soðið er afgangs pastavatninu hellt af og sósan sett með pastanu í pottinn. Svo má leyfa þessu að malla við lágan hita á meðan hvítlauksbrauðið er útbúið.
Hvítlauksbrauð:
Mér finnst best að nota gott bakarísbrauð, til dæmis súrdeigsbrauð eða gróft brauð með mikið af kornum, en það er hægt að nota hvaða brauð sem er. Brauðsneiðunum er raðað á ofnplötu með bökunarpappír undir. Næst er íslenskt smjör sneitt niður með ostaskera og ein sneið af smjöri sett á hverja brauðsneið. Að lokum er settur ostur, annað hvort rifinn eða í sneiðum, á hverja brauðsneið og vel af hvítlaukskryddi stráð yfir. Þetta fer svo inn í ofn á 200 gráður þar til osturinn er bráðnaður.