Nýtt samband með barn

Svavar Bragi var 3 ára þegar Ási kom í lífið okkar. Þeir urðu strax mjög góðir vinir og fannst Svavari Braga rosalega gaman að fá vin okkar í heimsókn og fara út að leika við hann. Þetta lofaði allt góðu og hélt ég því að þetta yrði bara draumur í dós!

Ég viðurkenni að við fórum soldið hratt í hlutina, Ási átti íbúð og leigusamningurinn minn að renna út svo við vorum bara búin að vera að deita í 3 mánuði áður en við fluttum inn til hans. En þrátt fyrir fljótfærnina okkar þá urðu þeir mjög nánir og leið ekki að löngu fyrr en Svavar Bragi fór að kalla hann pabba.

Við vorum á leiðinni í sund einn daginn eftir leikskóla og þurftum því að bruna heim að sækja sundföt. Við Svavar Bragi sátum eftir í bílnum á meðan Ási skaust inn að sækja sunddótið. Eftir smá stund spyr Svavar Bragi hvar pabbi væri, ég svara soldið kjánaleg „ætli hann sé ekki bara heima hjá sér?“… nei minn var sko ekki að tala um Daníel pabba svo hann svaraði hálf móðgaður „NEI! Hann skjóttist!“. Ég væri að ljúga ef ég segði að mér brá ekki soldið. En á sama tíma varð ég svo glöð að hann hefði tekið Ása svona fljótt og að þeir væru orðnir svona nánir.

Það er engin ein uppskrift að þessu svo maður verður soldið að spila þetta af fingrum fram og leyfa tímanum að vinna sitt.

Þeir eru í dag ekki alltaf bestu vinir og þó að við séum að verða búin að vera saman í 3 ár og öðru barni ríkari þá er Ási enn að læra inn á foreldrahlutverkið og kemur stundum aðeins upp á milli þeirra. Ási á það til að vera soldið strangur en þeir eiga samt svo fallegt samband. Ég þakka fyrir það a hverjum degi að hafa fundið Ása og að hann hafi komið í líf Svavars Braga, hann hvetur strákinn til að gera hluti sem hann (með litla hjartað sitt) þorir ekki eða dytti ekki í hug að læra og draga þeir báðir hvorn annan út fyrir þægindarammann.

Höfundur: Hrafnhildur

Ég er 27 ára þriggja barna móðir í Garðinum. Þar búum við með manninum mínum honum Ása. Ég vinn sem flugöryggisvörður í FLE. Börnin mín heita Svavar Bragi sem er 6 ára, Alparós sem er 2 ára og lítill snúður fæddur í byrjun júní sem heitir Óliver. Ég er að læra sjúkraliðann í fjarnámi samhliða 100% starfi sem flugöryggisvörður. Insta: @hrafnhildurskugga

%d bloggurum líkar þetta: