Barneignir á unglingsárum

Sama á hvaða aldri, þá fylgir því mikil ábyrgð að eiga barn og getur maður í rauninni lítið gert ráð fyrir einu eða neinu hvað varðar þetta ábyrgðarhlutverk. Að eignast barn á framhaldsskóla aldri verður til þess að þroski, agi og skipulag þarf að aukast verulega.

Ég varð ólétt í byrjun seinasta árs, þá á annari önn í framhaldsskóla. Ég, verandi sennilega mesti þrjóskupúki landsins, lét það lítið á mig fá og hélt að sjálfsögðu áfram í skólanum (og geri enn). Ég minnkaði við mig og sótti um frjálsa mætingu sökum aðstæðna. Það gekk, og gengur enn, glimrandi vel, og stefnum við á að halda áfram á okkar striki.

Ég fæ reglulega spurningar á borð við hvernig þetta gangi allt saman upp og hvað hafi breyst. Ég lít svo á að ekkert hafi breyst, heldur hafi einungis eitthvað bæst við ❤ Frá því við komumst að því að lítil baun væri í bumbu, höfum við verið að safna og leigjum nú litla íbúð. Við erum bæði í námi og stefnum á háskólann að því loknu. Að vera móðir, kærasta, námsmaður og að viðhalda fjölskyldu- og félagslífi getur verið krefjandi. Maður þarf að kunna að velja og hafna – þá sérstaklega hvað félagslífið varðar. Sumu get ég einfaldlega get ekki tekið þátt í og annað þarfnast mikillar fyrirvara, sem gjarnan er ekki til staðar en það er líka allt í lagi. Þetta snýst allt saman um hugarfar.

Ég hef tamið mér að skipuleggja mig ekki of langt fram í tímann, heldur reyna að horfa á hvern dag fyrir sig. Stelpuskottið fær ekki pláss hjá dagmömmu sem veldur því að þetta er allt saman aðeins meira púsluspil en hjá mörgum, en einhvernveginn passar hvert púsl, á endanum, við annað.

Þarfir dóttur minnar eru og munu alltaf vera í fyrsta sæti en á sama tíma og ég reyni mitt besta að leggja mig 100% fram í móðurhlutverkinu skiptir líka máli að ég gefi mér tíma bæði í sjálfa mig og kærasta minn. Það getur oft verið erfitt og stundum hef ég þurft að staldra við og minna sjálfa mig á að samviskubit yfir því að hugsa um sjálfa sig er ógilt – ég er ekki sjálfselsk fyrir það. Til þess að allt gangi sem best fyrir sig er nauðsynlegt að taka sér pásu af og til, anda inn og út og halda deginum svo áfram. Þrátt fyrir að ég sé ung, er í raun ekkert öðruvísi við okkar stöðu (burt séð frá aldri) en hjá öðrum foreldrum.

Þetta gengur þó fyrst og fremst allt eins og gerir vegna þess að ég, ásamt kærasta mínum og fjölskyldu reynum okkar allra besta og leggjum við allt okkar að mörkum til þess að létta undir hvert með öðru. Að stunda nám, eiga barn, vera á leigumarkaði og gefa sér tíma í sjálfan sig er mikil vinna en, í lok dags, algjörlega þess virði.

Þangað til næst, Rakel

%d bloggurum líkar þetta: