Sykurlaust afmæli

Ég hélt upp á afmælið mitt í gær með því að bjóða fjölskyldunni í smá kaffi, en þar sem ég er að taka sykurlausan september þá ákvað ég að reyna að hafa allt í afmælinu sykurlaust, eða allavega halda sykri í lágmarki. Það var alls ekki erfitt að finna sykurlausar uppskriftir á netinu en svo notaði ég líka nokkrar uppskriftir sem voru ekki sykurlausar en ég skipti bara út sykrinum fyrir gervisætu. Ég ætla að taka saman allt sem ég bauð upp á í afmælinu og vonandi geta einhverjir nýtt sér það.

Ostabakki

Ég var með lítinn ostabakka en flestir ostar og kex innihalda lítið af sykri. Ég var svo með vínber og sykurlausa jarðaberjasultu.

Mexíkóskur brauðréttur

Flestir brauðréttir innihalda lítinn sykur og því þarf oft ekkert að breyta uppskriftunum til að gera þá sykurlausa. Þetta er einn af mínum uppáhalds heitu brauðréttum og hann slær alltaf í gegn í öllum veislum. Uppskriftin er frá Gulur rauður grænn og salt: https://grgs.is/2016/03/10/8681/

Sykurlaus djús

Ég bauð upp á sykurlausan djús en þessi fæst í Nettó og er mjög góður. Ég blandaði hann í stórann drykkjarkút og setti niðurskornar appelsínur, sítrónur og lime, og fullt af klökum út í. Þetta var mjög ferskt og gott. Einnig bauð ég upp á nokkrar tegundir af sykurlausu gosi, en djúsið var lang vinsælast.

Djöflaterta

Þetta er uppskrift frá Lindu Ben en hana má finna hér: https://lindaben.is/recipes/alvoru-djoflaterta-med-besta-sukkuladi-kreminu/ Það eina sem ég gerði var að skipta út sykri fyrir sukrin, og flórsykri fyrir sukrin melis, og þá er kakan orðin sykurlaus, eða svo gott sem. Hún var æðislega góð, enda má sjá fingraför í kreminu ef myndin er skoðuð vel en dóttir mín var aðeins búin að stelast til að smakka áður en veislan byrjaði 😉

Frönsk súkkulaðikaka

Ég fékk þessa uppskrift hjá Sylviu Haukdal en kakan er bæði sykur- og hveitilaus og bragðast samt alveg eins og venjuleg frönsk súkkulaðikaka, dísæt og bráðnar uppí manni. Ég bar hana fram með þeyttum rjóma og ferskum jarðaberjum. Uppskriftina má nálgast hér: https://sylviahaukdal.is/sykur-og-hveitilaus-fronsk-sukkuladikaka/

Súkkulaðibita kökur

Þessi uppskrift er frá Lindu Ben en ég skipti út púðursykri og döðlusykri fyrir sukrin gold og notaði sykurlaust súkkulaði í staðin fyrir venjulegt. Þessi sykurlausu súkkulaðistykki fann ég í Nettó og þau voru mjög góð. Uppskriftina má nálgast hér: https://lindaben.is/recipes/orlitid-hollari-sukkuladibita-kokur/

Jarðaberja grísk jógúrt kaka

Þessi uppskrift er einnig frá Lindu Ben (já ég er dyggur aðdáandi!) en ég breytti þessari uppskrift nánast ekki neitt. Ég skipti bara út oreo kexinu fyrir sykurlaust kex sem lítur út og bragðast mjög svipað og oreo. Ég fann þetta kex í Nettó og það kom mér á óvart hvað það er gott og maður trúir því næstum ekki að það sé sykurlaust. Þessi kaka er ótrúlega fersk og góð og vegar upp á móti öllum dísætu kökunum þar sem hún er ekkert rosalega sæt. Mér finnst alltaf gott að bjóða upp á eina svona skyr- eða jógúrtköku í veislum til að vega upp á móti öllum sætindunum þar sem þær eru oftast ekki jafn sætar en hinsvegar mjög ferskar. Uppskriftina má nálgast hér: https://lindaben.is/recipes/einfold-jardaberja-grisk-jogurt-kaka-sem-tharf-ekki-ad-baka-og-er-merkilega-holl/

Marengsterta með jarðaberjum, súkkulaðikexi og karamellusósu

Marengs uppskriftin og karamellusósu uppskriftin eru frá Maríu Kristu og má nálgast hér: http://mariakristahreidarsdottir.blogspot.com/2014/03/ferming-framundan.html?m=1 Inn í marengsinn setti ég þeyttann rjóma með vanilludufti og hreinum stevia dropum og svo skar ég niður jarðaber og sykurlaust súkkulaðikex og blandaði saman við rjóman.

Rice krispies kaka með bananarjóma og karamellu

Þetta er bara þessi hefðbundna rice krispies kaka sem allir þekkja, nema ég skipti út nokkrum hráefnum til að gera hana sykurminni. Ég notaði sykurlaust súkkulaði í staðin fyrir suðusúkkulaði, og sykurlaust sýróp í staðin fyrir venjulegt, og svo gerði ég tvöfalda uppskrift af karamellusósunni frá henni Maríu Kristu hér fyrir ofan og setti annann helminginn ofan á marengsinn og hinn helminginn yfir rice krispies kökuna. Í rjóman setti ég vanilluduft, einn stappaðann banana og nokkra dropa af steviu.

Hrákaka

Þessari uppskrift breytti ég ekki neitt enda enginn viðbættur sykur í henni, aðeins holl og góð hráefni. Mesta snilldin við þessa köku er að hún er geymd í frysti og því er hægt að gera hana með margra daga fyrirvara og spara sér tíma. Ég skar svo bara afganginn af kökunni í litla bita og setti aftur inn í frysti og núna get ég alltaf nælt mér í einn bita ef mig langar í eitthvað sætt með kaffinu. Eins og sést á myndinni er ennþá smá frost í kökunni þegar myndin er tekin og þarf að muna að taka hana úr frysti allavega 15 mínútum áður en veislan hefst. Uppskriftin er frá Gulur rauður grænn og salt og hana má nálgast hér: https://grgs.is/recipe/himneska-hrakakan/

Athugið að færslan er ekki unnin í samstarfi við neinn en allar uppskriftirnar eru birtar með góðfúslegu leyfi frá höfundum og þakka ég þeim kærlega fyrir.

Kveðja Glódís

%d bloggurum líkar þetta: