Þó að það séu mörg ár síðan ég greindist með átröskun og ég sé löngu búin að „ná mér“ þá er þetta samt eitthvað sem mun fylgja mér alla ævi.
Ég hef alltaf verið frekar öfgafull manneskja, svona svart og hvítt, allt eða ekkert týpa. Annaðhvort legg ég mig alla fram eða bara ekki neitt. Þetta einkenndi hreyfingu mína á unglingsárunum og framhaldsskólaárunum. Annaðhvort fór ég út að hlaupa á hverjum degi eða ég sleppti því alveg. Annaðhvort fór ég í ræktina tvisvar á dag eða ég mætti aldrei. En ég pældi ekkert mikið í mataræðinu, borðaði bara það sem var í matinn í skólanum og heima hjá mér.
Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla og flutti að heiman tók við tímabil hjá mér þar sem ég hreyfði mig ekki neitt og hugsaði ekkert um hvað ég setti ofan í mig. Mér leið illa andlega án þess að vita af hverju, og í staðin fyrir að vinna í því deyfði ég vanlíðanina með sukk fæði og áfengi. Ég veit það núna að ég glímdi við þunglyndi á þessum tíma og hefði þurft að fá viðeigandi aðstoð til að vinna í því. Eftir heilt ár af sukki og djammi fann ég loksins löngun til að taka mig á, en því miður ekki andlega samt heldur bara líkamlega. Ég hellti mér út í líkamsrækt og tók mataræðið alveg í gegn. Ég fór fljótt að sjá árangur og það hvatti mig til að halda áfram.

Ég æfði á hverjum einasta degi, oft tvisvar á dag, og var fljótlega komin á mjög strangt mataræði. Kílóin flugu af mér en þegar ég var komin í kjörþyngd þá gat ég ekki hætt, ég var orðin háð tilfinningunni sem fylgir því að léttast og grennast. Það veitti mér svo mikla vellíðan. Þannig ég hélt áfram að æfa og fór að telja ofan í mig hverja einustu hitaeiningu. Ég var á endanum hætt að hafa gaman af því að mæta í ræktina og þurfti að pína mig á æfingu. Ég var alltaf þreytt og alltaf svöng, mér var ískalt og þurfti að æfa í þykkri hettupeysu. Sama hvað ég hamaðist mikið þá svitnaði ég ekki einum einasta dropa, roðnaði varla í framan. Ég varð máttlausari og átti erfiðara með að lyfta sömu þyngdum og ég var vön að taka. Öll fötin mín voru orðin allt of stór og hárið fór að hrynja af mér. Mér datt samt ekki í hug að það væri eitthvað að, ég var bara ákveðin í að detta ekki aftur í sama gamla farið, ætlaði ekki að skemma fyrir mér og þyngjast aftur.
Ég reyndi að borða eins lítið af hitaeiningum og ég mögulega gat, lifði á eggjahvítum og kjúklingabringum, og ef ég „svindlaði“ og borðaði eitthvað sem ég „mátti ekki borða“ refsaði ég sjálfri mér með því að vera helmingi lengur í ræktinni og reyna að brenna burt þessum auka hitaeiningum. Ég var alltaf í úlpu inni, sat í skólanum í dúnúlpu með hettuna á hausnum og borðaði eggjahvítur úr plastboxi. Ég var búin að einangra mig félagslega því það komst ekkert að nema að æfa og telja hitaeiningar. Ég eyddi kvöldunum í að elda hafragraut og vikta í plastbox, steikja eggjavítur og skera niður gulrætur til að hafa í nesti. Ég svaf í ullarsokkum, joggingbuxum og hettupeysu, og átti erfitt með að sofna á kvöldin því ég skalf úr kulda, þurfti að nudda á mér tærnar og fingurnar til að geta sofnað. Ég var orðin svo skelfilega veik í hausnum en ég sá það ekki sjálf og hlustaði ekki á fólkið í kringum mig sem reyndi að segja mér það. Mér fannst ég vera ein og að allir væru á móti mér. Allir vildu láta mig fitna, og ég ætlaði sko ekki að láta það eftir þeim.
Ég hef aldrei verið jafn létt og á þessum myndum, en ég hef heldur aldrei verið jafn óhamingjusöm, og það er eitthvað sem ég þarf reglulega að minna sjálfa mig á.
Ég náði algjörum low point þegar ég fékk þá hræðilegu hugmynd að sleppa því bara alveg að borða og drekka. Ég komast að því að ég var grennst á morgnana og þandist svo út eftir því sem leið á daginn, þannig ég ákvað bara hreinlega að hætta að borða og drekka, til að vera með alveg sléttan maga (ég veit, hversu galið??!). Þarna var ég orðin svo andlega veik að mér var eiginlega alveg sama þó ég myndi deyja, ég vissi alveg að það væri ekki hægt að lifa án þess að borða og drekka, en tók samt meðvitaða ákvörðun um að hætta að borða og drekka. Þetta var hvort sem er ekkert líf hugsaði ég þarna. Ég laug að öllum að mér væri óglatt, að ég væri örugglega bara að verða veik, svo lá ég uppí rúmi undir sæng og horfði á veginn. Vildi ekki fara neitt eða gera neitt. Eftir nokkra daga af þessu ástandi fór mamma með mig á spítalann, þá var komin svo mikil ammoníakslykt af mér að allt herbergið angaði. Ég gat varla staðið í lapparnir, ég titraði og skalf og það ætlaði að líða yfir mig. Ég fékk næringu í æð og viðtal við lækni, komst að því að ég væri með anorexíu og þunglynd. Ég byrjaði á þunglyndislyfjum og þegar þau byrjuðu að virka þá fékk ég lífið mitt til baka. Ég öðlaðist aftur viljan til að lifa, og aðrir hlutir heldur en bara mitt eigið holdarfar fóru að skipta mig máli.

Leiðin til baka var ekki bein, ég hætti ekki bara allt í einu að vera með anorexíu, en ég vann í sjálfri mér, og með mikilli vinnu tókst mér að sigrast á þessum hræðilega sjúkdómi sem anorexía er. En þó held ég að þetta sé sjúkdómur sem maður sigrar kannski aldrei alveg, þetta fylgir manni alltaf að vissu leiti. Þegar ég varð ólétt af eldri dóttur minni fannst mér erfitt að þyngjast og sjá líkamann minn breytast, en ég var svo veik alla meðgönguna að ég gat ekkert hreyft mig og vegna mikillar ógleði var mataræðið ekki uppá marga fiska.

Það var ekki fyrr en ég gekk með yngri dóttur mína sem mér fór að þykja vænt um líkama minn og lærði að meta hversu mikils virði það er að fá að ganga með barn, og hvað líkaminn er magnaður.

Í dag eru 6 ár síðan ég greindist með anorexíu og þetta er ennþá barátta, þó svo að ég hafi náð mjög langt. Ég þarf að minna mig á það á hverjum einasta degi að hamingjan er ekki metin í holdarfari. Ég þarf virkilega að hafa fyrir því að fara milliveginn á milli þess að hugsa of mikið um mataræði og hreyfingu, og að hugsa of lítið um það. Ég reyni að hugsa um mat sem næringu fyrir líkamann og sálina, og ég hreyfi mig fyrir vellíðanina sem fylgir hreyfingu, en ekki til að breyta holdarfarinu.
Hér eru nokkur ráð sem hjálpuðu mér að takast á við anorexíuna, en þetta er eflaust mjög persónubundið:
- Að fá hjálp hjá fagaðilum var fyrsta skrefið hjá mér (læknar, sálfræðingar, næringarfræðingar o.s.frv.)
- Að finna viljan til að losna við anorexiuna (þetta var að mínu mati erfiðasta skrefið, ég vildi losna við þennan skelfilega sjúkdóm, en samt ekki því ég vildi ekki fitna, en ef maður vill ekki laga ástandið þá mun það ekki lagast! Ég mæli með að fá hjálp frá sálfræðingi við þetta skref)
- Að fylgja bara fólki sem lætur manni líða vel á samfélagsmiðlum, ekki fylgja fólki sem hefur neikvæð áhrif á líðan manns
- Að lesa um body-positivity og self-love, og læra að elska líkama sinn
- Að hugsa um mat sem næringu fyrir líkama og sál, en ekki sem óvin
- Að stunda hreyfingu á réttum forsendum (vegna þess að manni langar það eða vegna þess að manni líður vel eftirá, en ekki vegna þess að maður „þarf“ þess)
- Að tala um hvernig manni líður, ekki fela það
- Að reyna að forðast öfgar í mataræði og hreyfingu (átak, megrun, svindl máltíð, nammidagur, allt svona getur triggerað átröskun)
- Þú ræður yfir matnum, hann ræður ekki yfir þér !
- Að mæla árangur í hreyfingu með einhverju öðru en kílóum og sentimetrum, reyna að hafa það að markmiði að lyfta þyngra, hlaupa hraðar, hoppa hærra o.s.f, en ekki missa x mörg kíló
Í lokin ætla ég að mæla með að fylgja Röggu Nagla og Ernulandi á samfélagsmiðlum, en það hefur hjálpað mér mjög mikið í minni baráttu að lesa pistla frá þeim og fylgjast með þeim.
Kveðja Glódís
Instagram: glodis95
You must be logged in to post a comment.