Fæðingarsaga x2

Hér kemur fæðingarsagan hennar Sóllilju sem fæddist 20. apríl 2015 en settur dagur var um miðjan júní. Hún fæddist á 32. viku og var 8 merkur. Ég skrifaði þennan texta fljótlega eftir að ég átti hana og ætla bara að leyfa honum að standa óbreyttum:

„Fæðingarsagan mín:

Meðgangan gekk frekar brösulega hjá mér og fyrstu mánuðina ældi ég nánast alla daga og endaði á að taka inn póstafen eftir að hafa verið lögð inn á spítala 2x með vökva í æð. Um sama leiti og ógleðin lagaðist byrjaði ég að fá grindargliðnun sem varð svo slæm að ég þurfti að minnka niður í 50% vinnu strax í janúar. En þrátt fyrir mín veikindi dafnaði krílið vel og stóðst allar skoðanir. 

Þegar ég var komin 32 vikur fór ég að taka eftir því að ég var komin með mikinn bjúg, sjóntruflanir og höfuðverk. Ég átti tíma í mæðravernd eftir helgi en ákvað samt að fara uppá fæðingardeildina á Akureyri (þar sem ég bý) á fimmtudegi og láta kíkja á mig. Blóðþrýstingurinn var mældur og hann var allt of hár. Þá var ég sett í rit og svo í sónar og læknir tilkynnti mér að ég væri komin með meðgöngueitrun. Hann reiknaði með að barnið þyrfti að koma mun fyrr í heiminn, en í sónarnum sást að krílið var í réttri stærð og því staðfest að það myndi spjara sig. Ég fékk sterasprautur til að barnið myndi þroskast hraðar og var lögð inn.

Á laugardegi komu ljósmæður og fæðingarlæknir og ræða við mig um versnandi ástand mitt. Þau ákváðu að senda mig suður með sjúkraflugi strax sama dag til öryggis þar sem ekki má taka á móti börnum fyrr en eftir 34 vikur á Akureyri. Kærastinn minn var í vinnunni þegar þetta gerðist en kom svo keyrandi suður daginn eftir (sunnudag).

Á sunnudeginum varð ég veikari og veikari með hverjum klukkutímanum og komin með hræðilega mikinn bjúg og svo slæman höfuðverk að mér varð óglatt. Um kvöldið þegar kærastinn minn er nýfarinn frá mér til að fara að gista hjá ættingjum sínum þá komu læknar og kíktu á mig. Þeir ákváðu strax að fara með mig upp á fæðingardeild og þar var ég sett af stað. Ég var orðin svo veik og stressuð að ég byrja að æla og skjálfa. Èg hringdi í kærastann minn og hann kom strax til mín og svo hringi ég í mömmu sem var á Akureyri og ætlaði að koma suður daginn eftir til að geta verið viðstödd fæðinguna. Ég sagði mömmu að þetta væri bara að fara að gerast og hún lofaði að leggja af stað suður eldsnemma morguninn eftir. Um miðnætti var mér gefin tafla til að setja mig af stað en á sama tíma var mér sagt að þetta gæti endað í keisara svo að ég mátti hvorki borða né drekka alla fæðinguna. Það var settur upp þvagleggur hjá mér og svo fékk ég næringu og magnesíum í æð. Ég byrjaði að fá vægar hríðir en fékk ógleðislyf og verkjalyf þannig ég náði að sofna milli hríða. Kl. 4 um nóttina var belgurinn sprengdur og þá urðu hríðirnar verulega harðar. Ég fékk mænudeyfingu en læknirinn var mjög lengi að setja hana upp og ég var alveg að deyja á meðan. Loksins klárar hann og fer en aldrei minnka verkirnir heldur aukast þeir bara og aukast. Þá hafði mænudeyfingin mistekist og það þurfti að setja hana upp aftur. Þarna var ég komin með nánast stanslausar hríðir og farin að finna mikinn þrýsting þannig að það var virkilega erfitt að sitja og fá aftur deyfingu. 

Þegar það var loksins búið var ég komin með fulla útvíkkun og mátti byrja að rembast. Mænudeyfingin var svo nýkomin í að hún var ekki byrjuð að virka fyrr en á sama tíma og hausinn var að koma út. Ég notaði gas á lokasprettinum en það hjálpaði mér að anda djúpt og hafa stjórn á verkjunum. Kl. 7:34 kom litla daman í heiminn, 8 merkur og þrátt fyrir að vera fyrirburi fékk ég hana samt strax í fangið og fékk að hafa hana smá stund. Hún var ótrúlega mannalega og byrjaði strax að gráta. Pabbi hennar klippti á naflastrenginn og svo var farið með hana uppá vöku. Þá tók við að fæða fylgjuna sem gekk mjög vel og svo þurfti að sauma aðeins. Ég var orðin svo þyrst og skrælnuð í hálsinum að ég gat ekki hugsað um annað en vatn á þessum tímapunkti. Loksins mátti ég drekka og ég tilkynnti öllum á fæðingarstofunni það að þetta væri besta vatn sem ég hefði smakkað! Þar sem ég var mjög veik sofnaði ég strax og þetta allt var búið og vaknaði ekki aftur fyrr en seinnipartinn. Þá var mamma komin og ég fékk að fara með henni í hjólastól á vöku og kíkja á krílið. Ég var mjög glæsileg með þvagpoka í fanginu, í netanaríum með bleyju undir mér og lak yfir mér og svo fylgdi mér standur með næringu og magnesíum í æð. 

Svo var farið með mig aftur í fæðingarherbergið og þar var ég undir stöðugu eftirliti í sólarhring. Loksins um kvöldið mátti ég fá mér eina ristaða brauðsneið en ég var orðin mjög svöng enda ekki búin að borða í sólarhring. Ég sofnaði svo aftur og vaknaði á þriðjudagsmorguninn. Þá fór Sigfús með mig í hjólastól inná vöku og ég fékk að halda á stelpunni minni en hún var strax komin úr hitakassa og í vöggu. Hún gat andað alveg sjálf og var ekki tengd við nein tæki nema súrefnismettunarmæli. Seinna um daginn var ég flutt niður á sængurkvennadeildina og fékk loksins að losna við þvaglegginn og fara í sturtu. Vá hvað það var gott en samt var ég svo slöpp að það leið næstum yfir mig í sturtunni. 

Lillan var áfram á vöku og ég var í fullu starfi að mjólka mig og gefa henni í gegnum sonduna og eftir nokkra daga fór hún að reyna að taka brjóstið en það er erfitt að sjúga þegar maður er svona voðalega lítill. Tæpri viku eftir fæðinguna var ég útskrifuð og afþví að lillan var svo dugleg þá fengum við að flytja með hana í fjölskylduherbergi á vöku en þar erum við núna og fáum líklega að fara heim í næstu viku. 

Þessi fæðing gekk ótrúlega vel miðað við hversu veik ég var en hinsvegar er rosalega erfitt að ætla að kíkja uppá spítala í smá tjékk sem endar svo með því að þú færð ekki að koma heim aftur fyrr en barnið þitt sem átti að koma í júní er fætt! En sem betur fer höfum við fengið mikla hjálp og tengdaforeldrar mínir eru búnir að þrífa og taka til heima hjá okkur á meðan mamma mín fer út um alla Reykjavík að versla allt sem vantar fyrir lilluna, brjóstagjöfina og mig sjálfa. 

Ég á mjög erfitt núna, er svo ofsalega hrædd um lilluna mína því hún er svo lítil og viðkvæm. Hórmónarnir eru líka alveg á fullu þannig að það þarf ekki mikið til þess að ég fari að gráta. Ég á sennilega eftir að vera mjög nojuð mamma sem ofverndar barnið sitt haha en það er alveg örugglega eðlilegt eftir þessa lífsreynslu!“

Þetta skrifaði ég 19 ára gömul og nýbökuð móðir, þetta var erfiður tími fyrir mig og eftir á að hyggja er ég nokkuð viss um að ég hafi fengið fæðingarþunglyndi. Ég var mikið ein með hana og einangraði mig frá umheiminum enda dauðhrædd um að hún myndi smitast af öðru fólki og verða lífshættulega veik því hún var svo mikill fyrirburi. Þess vegna fór ég lítið út og hitti fáa fyrstu mánuðina sem olli mér mikilli vanlíðan. Ég lenti líka í skelfilegu atviki fljótlega eftir að við komum heim eftir alla spítaladvölina sem hafði mikil áhrif á mig.

Ég var ein heima með Sóllilju og var að gefa henni brjóst, ég satt uppí sófa með hana og fann svo að hún hættir að drekka og liggur bara kjurr. Vegna þess hvað hún var lítil þreyttist hún fljótt á að drekka og ég þurfti oft að ýta við henni til að fá hana til að drekka meira því hún sofnaði annars bara á brjóstinu. Ég fór því að reyna að ýta við henni en fékk engin viðbrögð, þá tók ég hana af brjóstinu og við mér blasti hræðilegasta sjón sem ég hef nokkurtíman séð. Barnið mitt var líflaust í höndunum á mér, hún var blá í framan og meðvitundarlaus og þessi mynd er brennd inní hausinn á mér og verður það örugglega að eilífu. Hún var svo ofboðslega lítil og viðkvæm, og þarna var ég alveg viss um að hún væri dáin. Ég lyfti henni upp og hausinn á henni valt niður, hún var algjörlega máttlaus og andaði ekki. Ég man ekki nákvæmlega atburðarásina í framhaldinu af þessu, en ég man að ég reif upp símann og hringdi í neyðarlínuna og á sama tíma og ég var í símanum að útskýra hvað var að fór ég með Sóllilju að opnum glugga, sló á bakið á henni og lét blása kaldan vind á hana. Hún byrjaði þá að hósta upp mjólk og fékk strax aftur eðlilegan lit. Hún var komin aftur með meðvitund og á sama tíma ruddust inn í íbúðina sjúkraflutningamenn, læknir og löggur. Ég stóð með hana í fanginu gjörsamlega útúr heiminum af skelfingu og fyrir utan íbúðina var sjúkarabíll, löggubíll og bráðalæknabíll allir með blikkandi ljós og sírenur. Við fórum uppá spítala og Sóllilja var rannsökuð öll alveg í þaula. Það kom aldrei nákvæmlega í ljós hvað var að, en læknarnir telja að hún hafi einfaldlega gleymt að kyngja, sofnað með mjólk ofaní sér og hætt að anda. Það þarf svo rosalega lítið til hjá svona litlum fyrirburum, þau geta hreinlega bara gleymt að anda og þá þarf að ýta við þeim svo þau ranki við sér. Sem betur fer gerðist þetta bara einu sinni og Sóllilja er fullkomlega heilbrigð, en þetta er reynsla sem ég óska engu foreldri að lenda í.

Hér kemur svo fæðingarsagan hennar Maísólar sem fæddist 17. maí 2017 á settum degi og var 16 merkur eða nákvæmlega helmingi þyngri en Sóllilja var, sem mér finnst alveg mögnuð staðreynd.

Síðustu vikurnar af meðgöngunni hafði ég verið að fá mikla samdrætti og fyrirvaraverki og verandi með lítið barn (Sóllilja var bara ný orðin tveggja ára þarna) var ég orðin mjög þreytt á að vera ólétt. Ég reyndi allskonar ráð sem ég sá á netinu, ég drakk hindberjalaufste í lítratali, borðaði fleiri fleiri kíló af ferskum ananas, gerði allan mat extra sterkan, fór í kröftuga göngutúra og ég veit ekki hvað og hvað. Kvöldið fyrir settan dag sat ég uppí sófa með fulla skál af ferskum ananas (eins og vanalega) og píndi hann ofaní mig, en ég var búin að borða svo mikið af ananas að ég var komin með sár inní munninn og það var orðið mjög vont að borða hann. Þá byrjaði ég að fá samdrætti og þeir voru mjög reglulegir og frekar stutt á milli. Ég fór uppí rúm rúmlega 22 og ætlaði að reyna að sofna en þá missti ég vatnið. Þar sem barnið var óskorðað þurfti ég að leggjast niður og hringja á sjúkrabíl og svo lá ég eins og illa gerður hlutur og beið. Á þessum tíma bjuggum við í tveggja hæða íbúð með bröttum stiga og ég var á efri hæðinni. Sjúkraflutningamennirnir sem komu fyrst gátu ekki flutt mig liggjandi á börum niður stigann þannig að þeir þurftu að hringja á annann sjúkrabíl og svo voru þeir fjórir saman og Sigfús líka að reyna að brasa við að koma mér niður stigann.

Við vorum komin uppá spítala um kl. 23 og fórum beint á fæðingarstofu. Þar var ég skoðuð og var komin með slatta í útvíkkun, man ekki nákvæmlega hvað, og allt gerðist mjög hratt. Ég vildi fá mænudeyfingu en það var orðið of seint því ég var komin svo langt í fæðinguna, þannig ég stóð bara með hitapoka á mjóbakinu, hallaði mér yfir rúmið og öskraði mig í gegnum hríðarnar. Ég var orðin ógeðslega þurr í hálsinum og að drepast úr þorsta þannig ég sendi Sigfús fram með vatnsbrúsa að ná í vatn, þegar hann kom til baka reif ég brúsan af honum og byrjaði að þamba, þá var þetta sódavatn en ekki venjulegt vatn og ojj hvað það var ógeðselgt. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn reið við Sigfús eins og þarna, ég man ennþá eftir því hvað ég varð reið hahah! En eftir aðeins örfáar hríðar var ég farin að finna svakalegan þrýsting og ég bókstaflega fann hvernig hausinn á barninu mjakaðist neðar og neðar. Ég var komin með rosalega mikla rembingsþörf en var ekki búin að klára útvíkkunina alveg þannig að ég þurfti að bíða aðeins með að rembast og ég held að það hafi verið erfiðasti parturinn af fæðingunni. Að þurfa að rembast en berjast á móti því, það er alveg virkilega erfitt og óþægilegt. En sem betur fer gekk þetta alveg rosalega hratt og þegar ég mátti byrja að rembast tók þetta bara örfáar mínútur.

Klukkan var ekki orðin 01 þegar Maísól kom í heiminn, og við vorum komin uppá spítala um kl. 23 þannig fæðingin tók ekki nema rétt tæpa tvo tíma frá byrjun til enda. Þrátt fyrir svakalega snögga fæðingu og 16 marka barn þá rifnaði ég ekkert. Maísól fæddist hinsvegar með nafnlastrenginn tvívafinn utanum hálsin og var mjög blá og það var kallaður út barnalæknir til að skoða hana en sem betur fer var hún stálhraust og ég fékk hana í fangið um leið og búið var að skoða hana.

Ég á semsagt tvær gjörólíkar fæðingar að baki, en tvær heilbrigðar og fullkomnar stelpur.

Viljiði sjá hvað Sóllilja er glöð að sjá litlu systur sína í fyrsta skiptið? Þessi mynd bræðir !

Þar til næst

Glódís

https://www.instagram.com/glodis95

%d bloggurum líkar þetta: