Takk elsku líkami

Ég er alveg einstaklega þakklát og stolt af líkamanum mínum, líkt og við ættum öll að vera. Spáið aðeins í því hversu magnaður hann er…


Á síðustu tvem og hálfu ári hef ég gengið tvö börn. Ég er með slappa húð á maganum og brjóstunum, nóg af aukakílóum (skv. BMI staðli) og feikinóg af slitum svo eitthvað sé nefnt. Þetta er að sjálfsögðu ekki einu skiptin sem hann hefur gengið í gegnum eitthvað því jú ég hef gengið í gegnum allskonar líkamlegar breytingar á mínu æviskeiði líkt og við öll svo að sjálfsögðu hafa orðið breytingar, þó barneignirnar hafi án efa leitt af sér drastískustu breytingarnar.

Það koma að sjálfsögðu tímabil og dagar inn á milli þar sem að ég er ótrúlega sár yfir lausu húðinni á maganum mínum sem lafir, eftir að hafa fætt Maríus þá hefur mér ekki tekist að losna við hana (það er svona þegar bumban birtist á innan við mánuði frá engu yfir í að springa utan af 20 marka barni)

Ég á svolítið erfitt með að horfa á mig í speglinum suma daga, mér finnst ég einhvernveginn ekki vera ég, ég er svo allt öðruvísi en fyrir ári síðan (halló eðlilega samt ég var að eignast barn).

Mér fannst ég svo hryllileg fyrir ári síðan, alltof þykk og árangurinn af ræktarstandinu sást ekki nóg. Í dag er það formið sem ég nota sem viðmið því í dag sé ég hvað ég var flott.

Kannist þið ekki við að hugsa stundum „ég vil verða grennri“, „ég vil vera meira svona eins og hún eða hann“, „ég vil vera með stærri/minni rass/brjóst/læri/maga/hendur/fætur“, „ég vildi að ég væri með krullur“, „afhverju er ég ekki bara með slétt hár“ o.s.frv. en svo á einhverjum tímapunkti síðar horfa á mynd síðan á því tímabili og hugsa „ég skil ekki hvað ég var að hugsa með þessum órum mínum um annað“ Það er ég núna þegar ég hugsa til baka.


Þegar ég var yngri gerði ég æfingar sem áttu að minnka líkurnar á ennishrukkum og fór að gráta yfir stærðinni á lærunum mínum…ég var 10 ára, hversu klikkað er það.

Í dag veit ég þó að það er mikilvægt að vera þakklátur fyrir hverja hrukku, hvert grátt hár, slitin, slöppu húðina, örin og allt hitt. Þetta þýðir einfaldlega að ég er að eldast og lifa lífinu, þetta eru ummerki því til sönnunar og minningar um liðnar stundir.

Það eru forréttindi að eldast, það eru forréttindi að geta eignast börn, það eru forréttindi að … ég gæti talið endalaust upp en þú nærð þessu, svo takk, takk kæri líkami fyrir það að standa með mér í gegnum þykkt og þunnt, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og gerir og takk fyrir allar liðnar stundir, ég vona svo innilega að þær verði miklu fleiri!


Þið hafið kannski tekið eftir myndunum hérna í gegnum færsluna, þetta er ég á 2,5 ári, mér hefur fundist eitthvað að mér á þeim flestöllum en um daginn setti ég þær allar saman og hugsaði „nei andskotinn þetta er magnað! Líkaminn minn er magnaður og hann á skilið að ég sé þakklát fyrir hann og átti mig á því að þetta er ekkert spretthlaup, þetta er langhlaup og við erum öll sífellt að breytast, það er partur af lífinu – ég get ekki beðið eftir að sjá hvernig ég verð eftir ár“

Ég vona að þið séuð sammála mér hve magnaður líkaminn er og langar að biðja ykkur öll að staldra stundum við og þakka honum fyrir allt það magnaða starf sem hann vinnur.

Þangað til næst

Irpa Fönn

(Insta: irpafonn)

%d bloggurum líkar þetta: