Að hafa hug og líkama á sama stað

Orðið núvitund er eitthvað sem margir, ef ekki allir, hafa heyrt minnst á en eflaust ekki allir sem skilja hvað átt er við með því. Hvað er núvitund og afhverju ætti ég að tileinka mér hana?

Núvitund felst í ýmsum hugsunum og athöfnum sem hægt er að iðka í raun hvar sem er. Margir virðast misskilja núvitund sem athöfn sem eigi sér eingöngu stað þegar maður situr eða liggur einn með sjálfum sér. Það er, jú, ein leið en ég tel mikilvægara að taka núvitundina með sér inn í hvern einasta dag. Að fara frammúr á hverjum morgni með það í huga að hafa athyglina einungis á því sem þú ert að gera, hér og nú. Að hugurinn og athyglin sé ávallt samtaka líkamanum. Það eru eflaust allir sem lesa þetta sammála þessu en ég leyfi mér að fullyrða að einungis örfáir lifa eftir þessu í raun og veru.

Við erum alltof gjörn á að leyfa huganum að reika milli fortíðar og framtíðar og er ég engin undantekning þar. Ég ranka reglulega við mér, jafnvel bara á meðan ég er að gefa Arndísi Lilju að borða, á meðan ég er að elda eða í skólanum, þar sem ég hef kannski verið að velta því fyrir mér í hverju ég ætli í afmælið hjá vinkonu minni næstu helgi eða hvað ég ætli að gera eða segja í ákveðnum aðstæðum sem hafa ekki enn átt sér stað. Í hvert einasta skipti sem ég gríp mig við þessar hugsanir reyni ég að minna sjáfa mig á að passa mig að spá ekki svo mikið í því sem er búið að gerast eða á eftir að gerast, að ég láti dýrmæt augnablik fara í áhyggjur af framtíð eða fortíð.

Auðvitað er gott að skipuleggja sig og að plana fram í tímann, en maður þarf að gera greinamun á því sem er eðlilegt að skipuleggja og því sem er best að leyfa bara að gerast, án nokkurs undirbúnings.

Með því að vera meðvituð um og þjálfa okkur í núvitund, lærum við að kúpla okkur frá þessu ,,autopilot“ ástandi sem við erum oft í og öðlumst þannig aukna meðvitund um okkur sjálf og umhverfi okkar.

Ég er svo lánsöm að hafa átt mömmu sem kynnti mig fyrir og kenndi mér að reyna mitt besta til að tileinka mér núvitundina og finnst mér því vel við hæfi að ljúka þessum pistli á nokkrum af hennar orðum, sem hafa komið sér svo ótrúlega vel á annasömum jafnt sem ekki-svo-annasömum dögum:

,, . . . núið er (hér) lykilatriði og það kostar stanslausa þjálfun að komast þangað í alvörunni en ekki bara í formi frasa. Þannig finnst mér að það ætti að vera hjá okkur öllum. Við eigum að staldra við, minnka hraðan, slaka á kröfum á okkur sjálf, börnin okkar og aðra í kringum okkur, stoppa, hlusta, horfa, snerta og nota alla skynjun í að njóta lífsins.“

%d bloggurum líkar þetta: