Langar þig að komast í gegnum prófatíðina með minna stress og betri andlegri og líkamlegri heilsu? Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga fyrir komandi prófatörn.
1. Skipulag:
Þegar fer að líða að lokum í áföngunum/námskeiðunum finnst mér best að skrifa lista með öllu því sem ég þarf að gera fyrir próf. Þá fer ég yfir allar kennsluáætlanir og skrifa niður hjá mér hvaða blaðsíður ég á eftir að lesa í hverjum áfanga, hvaða fyrirlestra ég á eftir að hlusta á, hvaða verkefnum ég á eftir að skila, hvað ég á eftir að læra betur fyrir hvert próf osf. Svo deili ég verkefnum niður á dagana fram að prófum þannig að ég hafi áætlun fyrir hvern dag. Ég passa að ætla mér ekki of mikið á hverjum degi og reyni frekar að byrja fyrr og hafi fleiri daga, heldur en að byrja seinna og þurfa að læra stanslaust frá morgni til kvölds síðustu dagana fyrir próf. Þetta finnst mér best að gera að minnsta kosti tveim til þrem vikum fyrir fyrsta prófið, og því fyrr því betra. Mér finnst mikilvægt að skilja eftir einhvern frítíma til þess að eyða með fjölskyldunni og gera eitthvað skemmtilegt.

2. Svefn:
Það er mjög mikilvægt að fá nægan svefn, sérstaklega í prófatíð. Heilinn vinnur úr upplýsingum á meðan við sofum og þess vegna græðir maður ekkert á því að taka all nighter eða læra langt fram á nótt og vera svo dauðþreyttur þegar maður tekur prófin. Skipulegðu þig vel svo að prófalærdómurinn bitni ekki á svefninum. Og það skiptir líka máli að passa upp á að halda koffínneyslu í lágmarki, sérstaklega seinnipartinn.

3. Hreyfing:
Ekki hætta að hreyfa þig í prófatíðinni. Haltu áfram að stunda þá hreyfingu sem þú ert vön/vanur að stunda, og ef þú ert ekki vön/vanur að stunda neina hreyfingu mæli ég með að fara allavega út í smá göngutúr. Skipulegðu þig það vel að þú hafir tíma til að hreyfa þig þó þú sért á fullu að læra fyrir próf. Það skilar sér margfalt til baka. Hreyfing er frábær leið til að hvíla hausinn, fá útrás og auka orku og vellíðan.

4. Pásur:
Ekki læra of mikið í einu! Þegar maður finnur að maður er að missa einbeitinguna er miklu betra að taka stutta pásu og koma svo ferskur til baka, heldur en að halda áfram að ströggla við að meðtaka upplýsingar sem fara svo bara inn um annað og út um hitt. Mér finnst best að taka frekar oftar pásur og hafa þær styttri en finndu bara þann takt sem hentar þér best. Nýttu pásurnar vel, teygðu úr þér, farðu út og andaðu að þér fersku lofti, fáðu þér að borða, horfðu á einn stuttann þátt, settu gott podcast í eyrun í smá stund og hvíldu heilann.

5. Mataræði:
Ég hef bæði reynslu af því að detta í „sukkgírinn“ þar sem ég borða bara rusl alla prófatíðina, og „stressgírinn“ þar sem ég lifi á kaffi og pesi maxi og borða lítið sem ekkert þar til prófin eru yfirstaðin. Ég mæli með hvorugu, janfvægi er lykillinn ! Gefðu þér tíma til að útbúa hollan og góðan mat sem nærir bæði sálina og líkamann. Heilinn þarf orku til að læra, og ekki skyndiorku sem kemur úr sælgæti og skilur mann svo eftir þreyttari fyrir vikið, þegar blóðsykurinn fellur aftur niður, heldur góða og stabíla orku sem kemur úr hollu mataræði. Það er ekkert að því að fá sér súkkulaði líka, eða jólaöl og piparkökur eða hvað sem þig langar í á meðan þú ert að læra. Passaðu bara að borða líka góða næringu og drekka nóg af vatni.

6. Passa bak og axlir:
Hver kannast ekki við það að vera að drepast úr vöðvabólgu við prófalesturinn? Axlirnar eru orðnar svo stífar að maður er kominn með dúndrandi hausverk og bakið orðið aumt á því að sitja svona mikið. Það er hægt að koma í veg fyrir þetta (eða að minnsta kosti minnka þessi einkenni) með fyrirbyggjandi aðgerðum. Passaðu upp á bakið þegar þú situr og lærir, vertu bein/nn í baki og slök/slakur í öxlum. Vertu dugleg/ur að standa upp og teygja úr þér, rölta aðeins um, taka jafnvel nokkrar jógaæfingar eða nota nuddbolta. Stundaðu hreyfingu til að liðka vöðvana og fá hita í þá. Ef vöðvabólga gerir vart við sig er gott að fara í heitt bað eða heitapottinn, nota hitakrem eða hitapoka á axlirnar, fara í nudd, teygja, nota nuddbolta, nuddbyssu, rúllu osf.

7. Hugarfar:
Farður jákvæð/ur inn í prófatíðina! Reyndu að forðast stress og prófkvíða, til dæmis með því að skipuleggja þig vel og læra samviskusamlega fyrir prófin. Passaðu að detta ekki í fullkomnunaráráttu gírinn, heimurinn ferst ekki þó að þér gangi illa í einu prófi, þú gerir bara þitt besta og í versta falli ferðu í upptökupróf. Það er alltaf hægt að reyna aftur.

8. Gulrót:
Verðlaunaðu þig eftir hvert próf, leyfðu þér að hafa eitthvað að hlakka til! Það þarf ekki að vera stórt eða merkilegt, bara eitthvað sem veitir þér vellíðan og hvetur þig til þess að komast í gegnum lærdóminn og prófin. Ákveddu fyrirfram að gera eitthvað skemmtilegt eftir próf og gerðu tíma fyrir það þegar þú skipuleggur þig fyrir prófatíðina. Þetta getur til dæmis verið bíóferð með vinum, deit með maka, eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni eins og skautaferð eða smákökubakstur, kósý kvöld með uppáhald mat og góðri bíómynd, ísferð eða bara hvað sem þér dettur í hug.

9. Forgangsröðun:
Ekki fara á taugum þó að óhreinatauið fyllist, drasl safnist í stofuna eða gólfið verði skítugt. Það er alltaf hægt að þrífa og taka til eftir próf. Passaðu upp á forgangsröðunina í prófatíðinni, nýttu frítímann í að gera eitthvað fyrir sjálfa/n þig og eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Ekki stressast yfir því þó að heimilið sé ekki tip top rétt á meðan á prófum stendur, það er nógu stressandi að vera í prófum og við skulum ekkert vera að bæta óþarfa stressi ofan á það. Það þarf ekki allt að vera fullkomið !

Gangi ykkur öllum vel í komandi prófum & munið bara að gera ykkar besta
Kveðja Glódís
You must be logged in to post a comment.