Barn á leiðinni – Hvað þarf ég að eiga?

Nú á ég 2 börn og með annað í ofninum. Ég var búin að steingleyma hvað það var mikill höfuðverkur að hugsa fyrir því hvað væri alveg nauðsynlegt að eiga fyrir barnið og hvað væri í raun bara munaður, svo auðvitað höfum við líka mis mikið pláss undir þann búnað sem þessum elskum fylgir og því þarf að velja hvað sé nauðsynlegra en annað.

Nauðsynjar

Svefnaðstaða – Fyrst af öllu þarftu að hafa eitthvað fyrir barnið að sofa í. Vagga getur verið mjög hentug en hún er alls ekki nauðsynleg og er aðeins notuð í stuttan tíma fyrir utan það að hún getur verið plássfrek ef rýmið er ekki sem mest. Þess vegna kaus ég með fyrsta barn að kaupa bara rimlarúm og nýttist það honum til 3 ára.

Skiptiaðstaða -Nú því næst er alveg must að hafa einhvern þægilegann stað til þess að skipta á barninu, ég var með skiptiborð með bæði mín eldri og mun nýta það sama með þriðja þegar það mætir, en það er ekki svo nauðsynlegt að það sér skipti“borð“ heldur er alveg nóg að hafa bara dýnu sem þú getur haft með þér um alla íbúð, skiptiborðið sem ég hafði fyrir elsta barn í 2 herbergja íbúð var einfaldlega bara fyrir og hefði því alveg mátt vera án. Ég skipti hvort eð er bara á honum mest í rúminu með roptusku undir honum.

Bílstóll – Það er auðvitað nauðsynlegt að eiga bílstól til að ferja þessar gersemar milli staða og þá fyrst frá spítala heim.

Vagn – Vagn er eitthvað sem þú munt nota óspart fyrsta árið og ekki skemmir fyrir að kaupa kerru sem hægt er að skipta milli vagnstykkis og kerru, þannnig endist græjan enn lengur. Þar sem ég ferðaðist ekki neitt rosalega mikið með strákinn á bíl fyrsta árið þá nægði mér að vera með góðan einangraðann vagn og kerrustyrrki en með stelpuna þá keyptum við pakka sem var með vagn- og kerrustykki og millistykki fyrir bílstólinn svo við notuðum í raun bara grindina fyrstu mánuði með bílstólinn.

Brjóstagjafapúði – Hvort sem þú stefnir á að hafa barn á brjósti eða gefa pela þá er gjafapúði einstkalega þægilegur til að auðvelda matartímann. Ekki skemmir það heldur fyrir að þessi púði getur auðveldað þér svefninn á síðustu metrunum líka.

Skiptitaska – Þegar ég segi skiptitaska er ég ekki endilega að benda á að þú þurfir að kaupa þér dýrustu töskuna með 3,764 hólfum sér hönnuðum fyrir hvern hlut fyrir sig. Það nægir alveg að nota góða tösku sem rúmar bleyjur, blautbréf og auka sett af fötum.

Brjóstapumpa – Ég mjólka eins og verðlaunakýr og þurfti með bæði börnin að létta aðeins á á meðan flæðið var að jafna sig (Stálmar eru eitthvað hannað af skrattanum sjálfum) en það auðveldar líka ef þú þarft að fara frá barninu í lengri tíma bæði með því að hægt er að undirbúa það með að mjólka fyrirfram og einnig að létta á á meðan þú ert ekki heima.

Peli og snuð – Ef þú ert að eignast þitt fyrsta barn er engin leið fyrir þig að vita hvernig brjóstagjöfin mun ganga og því alltaf gott að hafa varann á og vera undirbúin því að mjólka kannski ekki of vel. Sömuleiðis þá liggja sum börn bara á brjóstinu til að svala sogþörf og þá er alltaf gott að geta gripið til snuðsins og forðast of örvun á mjólkinni og gefa túttunum smá frí.

Roptuskur/taubleyjur – Ef barnið þitt er eitthvað eins og mitt fyrsta þá mun koma smá (mikið) af mjólkinni upp aftur með ropanum og þá alltaf gott að hafa eitthvað til að grípa það, þessar tuskur nýtast nefnilega líka í svo mikið meira en bara það. Ég keypti stórar til að leggja í rúmið undir höfuð barnsins, ég nota þær stundum við bleyjuskipti og ef þú hefur ekkert annað þá er hægt að nýta þær sem smekk.

Eyrnapinnar – Þú þarft eyrnapinna til að þrífa naflastubbinn þar til hann dettur af, annars er hætt við að sýking komi upp.

Náttgallar með sokkum – Þar sem maður fer skammt fyrstu vikurnar með barnið þá er best að eiga góða náttgalla til að hafa það notalegt í á daginn og líka til að halda litlum tásum hlýjum.

Samfellur – Sokkabuxur – Það er einfaldlega lang þægilegast að hafa barnið í sem fæstum flíkum til að auðvelda lífið.

Teppi – Börnin mín voru hvorug miklar sængurpersónur og spörkuðu þeim fljótlega af sér þegar þau fóru að geta það. Þess vegna notaði ég meira teppi en sæng.

Brjóstahlífar og nipplecream – Algengt er að konur séu lausmjólka og þá sakar ekki að hafa annað hvort púða sem draga í sig mjólkina eða hjálm sem safnar henni saman. Sömuleiðis getur brjóstagjöfin byrjað brösulega eins og hjá svo mörgum konum, ekki spara peninginn í lanolin krem (eða sambærilegt) því sár á geirvörtu eru ekki skemmtileg.

Gjafahaldarar – Ég notaði mest íþróttatopp fyrstu vikurnar með strákinn en guð hvað það er langt um þægilegra að nota gjafahaldara/topp og þeir eru líka góðir þegar venjulegu haldararnir eru hættir að vera þægilegir.

Bleyjur – Grysjur/blautþurrkur – Bossakrem – Eitthvað sem má auðvitað ekki vanta á ungbarnaheimili.

Handspritt – mild handsápa – Þegar börnin eru glæný eru þau mjög móttækileg sýklum og því mikilvægt að halda hreinlæti í góðu standi – sérstaklega þá utan aðkomandi hendur/gestir.

Mælir – Það er nauðsynlegt að eiga góðan rassamæli og stíla ef krílin skyldu grípa einhverja pestina en ef barn undir 3 mánaða fær yfir 38° hita þá skal strax leita til læknis.

Brúsi og létt/einfalt snarl – Þegar þú ert með barn á brjósti er auðvelt að gleyma eða hafa lítinn tíma til að hugsa um að næra sig. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa brúsa við hendina og létt snarl eins og ávexti, hnetur og annað í þeim dúr.

Baðbali – Ekki er verra ef hann er á fótum en það léttir baðtímann helling.

Windy – saltvatnslausn – stílar – Windy eru stautar sem notaðir eru til að hjálpa barni að leysa vind. Saltvatnslausn er notuð við stífluðum nebbum og stílar sem hitalækkandi.

Ekki svo nauðsynlegt en eykur þægindi

Ungbarnaróla – Sum börn eru kveisubörn og líður þá oft best þegar þau eru á hreyfingu, þá er rólan einmitt mjög þægileg til að hvíla þreyttar hendur.

Burðarpoki/Burðarsjal – Þetta átti ég ekki með elsta barnið en þetta var hinsvegar himnasending með stelpuna sem vildi helst bara lúlla í fangi á daginn.

Svefnpoki – Ef þú ert ein/n af þeim sem hefur öryggið uppa 100% þá er hægt að kaupa svefnpoka sem börn geta ekki með nokkru móti togað upp fyrir höfuð og kemur það því í veg fyrir köfnunarhættuna sem getur stafað af teppi og sæng á meðan börnin hafa ekki vit á að draga það frá andliti.

Vagga – Þetta er eitt af því sem þarf ekki en er mjög þægilegt að hafa. Vagga er oft eitthvað sem gengur manna á milli í fjölskyldum eða bara eitthvað sem fólk kaupir til að hafa í stofunni á daginn.

Swaddle blanket – Þegar börnin eru í móðurkviði er ekki mikið um pláss undir lokin og líður þeim því best í þrengslum og hlýju. Þess vegna er gott að eiga “vafnings“ teppi en þú getur líka notað hvaða teppi sem er og vafið krílið þétt.

Hengirúm – Þetta er talið eitt það besta sem þú getur látið barnið þitt sofa í.

Matarstóll með ungbarnasæti – Þetta auðveldar matartímann svo mikið fyrir foreldra hvort sem annað barn er til staðar eða ekki. en það er líka hægt að nota bara ömmustól til að hafa krílið hjá ykkur á matmálstíma.

Þetta eru svona þeir hlutir sem best er að eiga áður en barnið mætir en endilega skoðið pistilinn hér eftir Rakel um nauðsynlega hluti fyrsta árið, þar kemur hún inn á hluti sem gott er að eiga þegar þau fara að borða og fleirra.

Ég vil endilega grípa tækifærið og benda á að Co-sleepers, ungbarnahreiður og stuðkanntar eru mjög varasamar vörur og ber að skoða það vel og vandlega áður en ákveðið er að fjárfesta í því. Endilega sendið fyrirspurnir á miðstöð slysavarna barna ef eitthvað virðist óljóst og þið ekki viss hvaða vörur eru öruggar fyrir gersemarnar ykkar.

Höfundur: Hrafnhildur

Ég er 27 ára þriggja barna móðir í Garðinum. Þar búum við með manninum mínum honum Ása. Ég vinn sem flugöryggisvörður í FLE. Börnin mín heita Svavar Bragi sem er 6 ára, Alparós sem er 2 ára og lítill snúður fæddur í byrjun júní sem heitir Óliver. Ég er að læra sjúkraliðann í fjarnámi samhliða 100% starfi sem flugöryggisvörður. Insta: @hrafnhildurskugga

%d bloggurum líkar þetta: