Ég er það heppin

Það  mætti stundum halda að talan 10 væri mín lukkutala. En árið 2010, 10 janúar, var ég það heppin að fá titilinn í fyrsta skipti sem móðir einhvers. Það ár var ég nú aðeins 16 ára, hafði ekki hugmynd um hvað ég væri að koma mér í. Og þess vegna langaði mig til þess að skrifa pistilinn, á 10 unda afmælisdegi dóttur minnar. Þó hann komi nú seinna en þann dag þar sem við gerðum okkar besta til að gera þennan stórmerkilega dag sem skemmtilegastan fyrir stelpuna.

81889508_1492905757545089_1515469104335552512_n

Ég ætla ekki að hafa þetta einhverja svaðalega væmna færslu um hversu mikið ég elska að vera mamma, heldur ekki að hafa þessa færslu um það hvernig það er að vera ung mamma. Ég veit það, þú veist það og allir þeir sem kunna að reikna geta fattað það að hvort sem ég verð þrítug eða níræð verður dóttir mín alltaf 16 árum yngri en ég. Svo titilinn mun ég bera með mér þar til ég fer í gröfina. Mig langar að hafa þessa færslu samt nokkurnvegin um það hvernig það er að vera ung mamma og hversu mikið ég elska það – nema óbeint. Mig langar til þess að telja upp nokkra hluti sem ég var ekki búin að hugsa út í þennan rólega sunnudag þegar Theodóra fæddist.

 

Ég var það heppin að kynnast ástinni fyrr heldur en margir aðrir. Ég get ekki sagt að ég sé sú yngsta á íslandi sem hefur átt barn á kynþroskaaldrinum, né að ég sé sú eina. En ég var það heppin að verða móðir á undan flest öllum sem ég þekkti. Ég hef áður komist í blöðin fyrir það að vera verjandi titilinn, meira að segja kom ég fram í sjónvarpi. En ég hinsvegar get alveg sagt að ég mun ekki mæla með honum fyrir neinn – þetta er ekkert eitthvað til að grínast með. En ég mun heldur ekki mæla gegn því, því þá væri ég sjálfrátt að skjóta mig í fótinn. Það eina sem ég get sagt við næstu 15 ára stelpu sem kemst að því að hún er ófrísk og grætur allt atlandshafið á baðherberginu hjá sér er:

Þetta er hægt !

Þetta er ekki ógerlegt, þetta er ekki auðvelt en þetta er hægt. Þetta er drullu (fokking) erfitt og það sem þú ert að leggja á litlu þig fyrir annan lítin einstakling er svaðalegt. Og þar skiptir það engu máli hversu gamall þú ert ! Uppeldi á barni er alltaf erfitt á einhverjum tímapunkti. En þegar þú ert tilturlega ennþá sjálfur að reyna að finna þína köllun í lífinu getur það verið mikið bras að bæta við annari framtíð ofan á það. En ef þetta verður raunin þín, þá áttu ekki eftir að sjá eftir einu augnarbliki. Það sem Theodóra kom með inn í líf mitt er eitthvað sem annar einstaklingur hefði aldrei getað gert. Þetta gera bornin, þau koma með eitthvað inn í líf þitt og það er aðeins þetta barn sem getur gefið þér þá upplifun,. Þó það koma fleiri börn þá koma þau alltaf með eitthvað annað sem hitt barnið gat ekki gefið þér. Viðurkennum það börn eru mögnuð.

317491_158330814335930_1593843286_n
17 ára með 10 mánaða Theodóru

En ofan á þetta allt þá kveið ég mikið fyrir þessum afmælisdegi hjá henni. Þar sem ég er aðeins 26 ára fannst mér einhvernvegin mjög súrt að ég ætti 10 ára gamalt barn. Flest allar spurningar sem ég sé á mæðrahópum og færslur á öðrum mæðrabloggum innihalda yfirleitt færslur um talsvert yngri börn. En nú erum við komin á þá stoppistöð þar sem ég er hálftýnd. Því þetta var ekki eitthvað sem ég var búin að hugsa út í þegar ég átti stelpuna. Það eru aðeins 3 ár í það að ég FERMI! Og þá er ég rétt að skríða í 30 árin þegar ég verð búin að ferma fyrsta barnið mitt. Ég þekki nú nokkrar sem eru jafnaldrar mínir sem munu standa í því sama og ég á þessu fermingarári sem mun koma og ég held að þær séu ekkert minna að fá nett sjokk yfir þessu öllu saman. Ég man þegar Theodóra varð 9 ára, þá grét ég hljóðlátum tárum yfir því að ég væri 25 ára búin að ráða yfir barninu helmingstíman sem ég fengi minn atkvæðisrétt. Því jú þarna voru aðeins 9 ár í 18 ára aldurinn.

Kannski er ég líka skrítin en þegar hún var yngri var ég ekki búin að koma því fyrir í hausinn á mér hversu rosalega mikill karaktersbreytingar yrðu. Þarna var ég með lítin hnoðra sem gerði ekkert annað en að væla í mér um að fá einn annan ís og ég gat klætt hana í kjóla eins og mig listi. Núna í dag get ég gleymt því að senda barnið frá mér í kjól, þetta barn vill nánast ganga aðeins í íþróttabuxum og bolum. Hún elskar tölvur og að teikna, ásamt því að áhætturnar sem þetta barn tekur valda okkur fjölskyldunni oft væg hjartaáföll. Hún hefur lent á bráðamóttökunni oftar en ég get talið á báðum höndum. Hún sem dæmi náði einhvernvegin í fyrra að brjóta á sér olnbogann í einhverjum fimleikaæfingum út í garði, svo hrakvallabálkinn fær hún í beinan legg frá móður sinni þar sem ég var mjög svipaður krakki.

942436_168941553274856_420562449_n
1 árs afmælisdagurinn hennar Theodóru!

Það sem ég gerði mér einnig alls ekki grein fyrir er hversu mikið heimurinn hefur breyst á þessum stutta líftíma sem barnið hefur lifað. Fyrir mér var ég búin að hugsa það að hún myndi hafa gaman af því að fara í allt það sem mér fannst gaman þegar ég var á þessum aldri, en núna í dag myndu krakkarnir horfa á mig eins og ég væri risaeðla. Það reyndar vakti mikla lukku í afmælinu hennar um daginn að hafa pakkaleik og stólaleik, svona leikir sem við vorum vön að hafa í okkar afmæli þegar við vorum yngri. En ég viðurkenni fúslega að mér brá þegar ég heyrði að það hefði vakt mikla lukku.

Ég átti reyndar alltaf von á því að fá augnargotur á hverjum foreldrahitting í skólanum hennar Theodóru,  en það er eitthvað sem ég er löngu hætt að kippa mér upp við og ég skil þau alveg! Sumir foreldrarnir þarna eru með börn á mínum aldri og finnst mjög skrítið að vera að ræða um skólahald barnanna sinna með manneskju á mínum aldri. Svo það skil ég mjög vel, og er ekkert sár lengur út af því. Ég hef einmitt verið á leið í foreldraviðtal með stelpunni þegar kennarinn spurði okkur báðar hvort við værum að bíða eftir foreldrunum. Ég hafði aldrei hitt kennarann svo ég gerði ekkert annað en að brosa og segja að ég héldi að ég væri nú að koma á fund með henni sjálf. Ég hef lent í því að strákarnir í 10 undabekk (mín ágískun) hafa flautað á mig þegar ég er að sækja stelpuna í skólan. Svo það er ýmislegt sem maður lendir í  þegar maður er svona unglegur. Ég reyndar veit það vel að ég er ekkert eitthvað svakalega gömul í útliti, það gengur í ættinni.

Svo er það nú ansi margt í viðbót sem ég hafði ekki gert ráð fyrir þegar ég átti stelpuna. En með einhverjum hætti sama hversu oft ég byrja þá kem ég því ekki niður í orð.  Ég veit bara að ef staðan væri ekki svona í dag væri ég ekki gift manninum mínum, væri ég ekki með 4 börn að fæða og ala upp. Svo ég þakka stelpunni nánast daglega fyrir að hafa komið í líf mitt svona snemma, það er ekki allir svo heppnir að geta eignast börn. Því oftar sem ég er spurð út í stelpuna og fæ nánast gargað á mig „VARSTU 16 ÁRA?!“ því meira get ég sagt þeim að ég var bara heppnari en þau. Því ég var það heppin að ég kynntist ástinni í lífinu snemma og ég myndi aldrei vilja breyta því.

%d bloggurum líkar þetta: