Svefnþjálfun

Yngra barnið hjá mér er núna ný orðinn sex mánaða og hefur aldrei sofið heila nótt.Til að taka nánar fram þá hefur hann aldrei sofið lengur en í samfellda 2-3 tíma.

Ég var orðin buguð af þreytu og taldi niður mínúturnar þar til hann lagði sig svo ég gæti lagt mig með honum. Sonur minn var líka orðinn þreyttur og við vorum komin í vítahring með svefinn hans.
Við prufðum öll ráð í bókinni en ekkert virkaði. Allt frá því að hafa hann í sínu rúmi, að gefa honum helling að borða fyrir svefn yfir í að gista hjá ömmu sinni.


Ég hringdi þá í hjúkrunarfræðing, taldi upp allt sem við vorum búnar að reyna og hún stóð á gati hvað væri hægt að gera. Eftir að við spjölluðum í smá stund og sagði henni nánar út í hvernig næturnar væru, að hann væri yfirleitt að vakna á 1.5 tíma fresti bara til að fá nokkra sopa af mjólk, fann hún grein sem hún ráðlagði mér að lesa.
Greinin er skrifuð af Maríu Gomez og er á Paz.is, set link neðst í færsluna og mæli með að allir verðandi eða nýbakaðir foreldrar lesi hana!
Til að byrja með var ég frekar tvísýn á þessa aðferð. Ég átti að leggja hann upp í sitt rúm, segja góða nótt og mátti bara kíkja á hann á þriggja mínútna fresti. Þegar ég fór inn til hans átti hann að fá lágmarks þjónustu, duddan upp í munninn, breiða yfir hann og aftur fram í þrjár mínútur.
Ég var ekki alveg á því að þetta væri leiðin að leyfa barninu að gráta þar til hann sofnaði og eflaust margar mömmur sem skilja hvað ég á við. En tilgangurinn með að kíkja á hann á þriggja mínútna fresti þar til hann sofnar er að gefa honum þetta öryggi, að hann viti að ég sé þarna. Að honum líði ekki eins og hann sé einn og yfirgefinn.


Ef þú ert að spá í að prufa þessa aðferð en ert smá efins langar mig að deila með þér nokkrum punktum sem hjúkrunarfræðingurinn sagði við mig.
Er barnið í lífshættu á að gráta?
Ertu að yfirgefa barnið þegar þú ert að kíkja á hann á þriggja mínútna fresti?
Svefn er nauðsynlegur fyrir alla, bæði þig og barnið þitt.
Ef þú ætlar að kenna barninu þínu að sofa verðuru að gera það fyrir níu mánaða aldur eða eftir átján mánaða aldur.
Þetta verða nokkrar erfiðar nætur og svo fáið þið bæði svefninn sem þig hefur dreymt um.

Fyrsta nóttin af svefnþjálfun.
Ég ætla ekkert að skafa af því að fyrsta nóttin var hræðileg! Eftir að hafa svæft barnið í fanginu frá því hann fæddist og sofa með hann alveg upp við mig í sex mánuði voru þetta mikil viðbrigði fyrir okkur bæði.
Ég lagði hann upp í rúm, stillti skeiðklukkuna á símanum og svo beið ég. Fyrstu 4 skiptin sem ég fór inn voru ömurleg, hann grét og ég beið við hurðina með hnút í maganum og mesta samviskubit sem ég hef nokkurntíman fundið fyrir. Næstu tvö skiptin var hann orðinn alveg rólegur og í síðasta var hann sofnaður.


Það tók ábyggilega meira á mig heldur en hann þessar tuttugu mínútur, því drengurinn svaf í fjóra tíma.
Klukkan var rétt eftir miðnætti þegar hann vaknaði og það tók þrjú korter fyrir hann að sofna aftur. Eftir það svaf hann til morguns. Í kjölfarið urðu daglúrarnir daginn eftir mun auðveldari og þurfti ekkert að svæfa hann!
Önnur og þriðja nóttin.
Aðra nóttina tók hálftíma fyrir hann að ná að sofna EN hann svaf alla nóttina.
Þriðju nóttina voru daglúrarnir búnir að ganga svo vel sem og nóttin þar á undan. Ég lagði hann upp í rúm og fór fram, tilbúin í rútínuna sem var að byrja myndast hjá okkur. Nema hvað að 10 mínútum seinna fatta ég að ég hafði ekki stillt klukkuna eða kíkt á hann, þegar ég kem inn í herbergi er barnið sofnað! Og já hann svaf alla nóttina.
Við erum núna á nótt fjögur og það er jafn auðvelt að setja hann upp í rúm að sofa og mig sjálfa. Okkur líður báðum mun betur eftir bara tvær nætur af góðum svefn, held ég hafi vanmetið mjög hvað góður svefn getur haft áhrif á allt hjá mann.
Ég mæli 150% með því að foreldrar og verðandi foreldrar kynni sér þessa aðferð, því hún hefur gjörsamlega bjargað okkur.
Hér er likur af greininni.

%d bloggurum líkar þetta: