Við gerðum upp íbúðina okkar

Í febrúar á þessu ári fjárfestum við í íbúð hér í Hveragerði. Við höfðum stuttu áður gert upp íbúð sem við áttum á Akureyri og hafði ekkert verið í frábæru standi en síðan skemmd af leigjanda.

Við þurftum að reyna að kaupa sem ódýrast og búa okkur til pening í eigninni með því að gera hana upp. Núna í júní settum við síðan á sölu og var eignin seld á sólarhring. Við erum búin að festa okkur annað húsnæði og því stutt í næsta ævintýri.

Við breyttum ýmsu í íbúðinni, skiptum um gólfefni, máluðum, færðum og skiptum um eldhús, lökkuðum alla gluggakarma, skiptum um slökkvara og innstungur, skiptum um skáp í forstofu og filmuðum fataskápa í svefnherbergjum.

Það var virkilega gaman að gera íbúðina upp, spá og skipuleggja framkvæmdir og síðan að vinna vinnuna. Við vorum einstaklega heppin með fólkið sem hjálpaði okkur en við fengum mikla aðstoð frá nokkrum af okkar nánasta fólki. Móðir mín er innanhússtílisti, systir mín að læra arkitektúr og pabbi minn er mikill alt muligt maður – ég sver pabbi kann allt eða svona nokkurn veginn, bróðir minn ætlar að verða lítill lærlingur pabba og duglegur að hjálpa til líka.

Það er frábært að eiga móður og systur sem hafa svona mikinn áhuga á því hvernig hlutirnir líta út og eru gerðir, þó svo að ég hafi nú samt fengið helling um hlutina að segja líka enda þrátt fyrir að vera með svipaðan stíl erum við ekki alltaf sammála. Jósef á síðan vin sem er lærður smiður og hann hjálpaði helling til líka. Mest vinnan var gerð á tæpum mánuði áður en að við fluttum inn og rest var gerð á stuttum tíma, enda ekki nema fjórir mánuðir síðan að við fengum afhent hér.

Eldhús

Búið var að breyta eldhúsinu í svefnherbergi og færa eldhúsið í stofuna. Við ákváðum að innsta herbergi hússins yrði að eldhúsi en þetta er þó ekki upprunalega eldhús hússins, það var í miðjunni og okkur fannst þetta meika meiri sense.

Herbergið er málað með salthvítum á veggjunum, gluggar lakkaðir hvítir með Blæ, fataskápurinn tekinn út, parketlagt og sett upp eldhús innrétting. Okkur fannst passa betur að opna eldhúsið aðeins en það var ekki hægt að taka vegginn í heild niður þannig að hurðin var fjarlægð, veggurinn fyrir ofan og við hliðina á hurðinni beggja vegna við.

Innréttingin er öll frá IKEA, upprunalega stóð til að reyna að nýta þá innréttingu sem var til staðar en hún var verulega illa farin og ekki nothæf, enda líka gömul innrétting og ekki hægt að bæta við hana enda eldri innrétting sem ekki er lengur í framleiðslu í þeim stærðum.

Eyjan er gerð úr efri skápum og borðplötu sagaðri til og sett utan um. Til þess að fá heildina til þess að vera hvíta var filmað þar sem sést innanverð borðplatan á eyjunni og fest hvít plata aftan á skápana.

Við áttum ekki mikið í framkvæmdasjóð og reyndum að gera hlutina ekki óþarflega dýra, hér þurfti því að velja og hafna svolítið en við erum ótrúlega ánægð með loka útkomuna. Ljósin eru gömul IKEA, ekki framleidd lengur og var annað þeirra í öðru herbergi áður og hitt fundum við í geymslunni. Við vorum heppin að einn af þeim ofnum sem passaði okkar fjárhagsáætlun var hvítur en það gerir mikið fyrir rýmið að hann skuli vera hvítur. Stálvaskurinn er án vaskaborðs og þar af leiðandi ódýrari en vaskaborðið hefði að öllum líkindum ekki litið vel út miðað við rýmið, auk þess sem það tekur af borðplássinu.

Núna í dag er búið að setja hvíta plötu aftan á eyjuna en það er eitthvað sem þurfti að smíða þar sem að IKEA framleiðir ekki fronta á 80×80 efri skápa, einungis stærst 80×60.

Barnaherbergi

Í herbergi barnanna var fremur lítið gert, gluggar lakkaðir, ljósakrónan tekin niður, málaðir veggir, parketlagt og filmaður fataskápur. Við ákváðum að hafa herbergið frekar einfalt enda svefnherbergi barnanna og við vildum nóg pláss til þess að hægt væri að leika sér.

Fataskápinn er búið að filma hvítan í heild núna, þó það hafi ekki verið á myndunum. Kommóðan hefur að geyma allt dót, föt og annað tengt börnunum. Fataskápurinn er fremur lítill og er að hluta til notaður undir geymslu og sem fataskápur Jósefs. Skápapláss í íbúðinni er kannski ekkert svakalegt en við þurftum ekki meira, upprunalega hugmyndin var að skipta um skápa en aftur þurfti að velja og hafna, þessir eru sérsmíðaðir og bara það að filma gerði helling, í raun svo mikið að eftir eina pabbahelgina dregur Maríus mig á milli herbergja að sýna mér nýju fínu fataskápana okkar.

Fjólublái liturinn á veggnum heitir Einiber frá Grojo. Draumur stráksins míns var að fá fjólubláan vegg í herbergið sitt og hann er jafnvel enn ánægðari með það núna hve dökkur liturinn er þar sem að hann virðist sjá brúnan tón í honum en það er nýji uppáhalds liturinn.

Mikið af því skrauti sem á veggjunum er hérna og legubekkurinn í stofunni eru dæmi um hluti sem að við fengum að láni frá foreldrum mínum. Það er að miklu leyti stráknum mínum að þakka enda smekkmaður með meiru og setti það sem skilyrði fyrir ömmu sinni að fá nokkra hluti með sér í láni, svona fyrst hann þurfti að flytja frá þeim.

Hjónaherbergi

Þetta herbergi er það sem upprunalega er eldhús sem skýrir fjölda röra en tengja þurfti vatn og annað frá þessu herbergi og inn í eldhúsið sem núna er eldhús.

Við fjarlægðum hillur og snaga, færðum og filmuðum fatskápinn sem var í núverandi eldhúsi hingað, parketlögðum, skiptum um rofa og innstungur. Glugginn var lakkaður líkt og annars staðar í húsinu og settur var framan á gluggakistuna plast til þess að jafna hana en hún hafði einhverra hluta vegna verið skorin af að hluta og fremur illa gert.

Liturinn á veggnum hér er Forest Green frá Grojo.

Á þessar myndir vantar yfirbyggingu yfir rör og parketlista en það náðist ekki fyrir myndun.

Stofa

Stofan og forstofan eru máluð með málarahvítum. Við fengum málningu að gjöf sem við nýttum á þessi rými þar sem að það magn af salthvítum sem við keyptum dugði ekki á alla veggi íbúðarinnar.

Þetta er það eldhús sem fyrir var í íbúðinni, innréttingin og tækin voru ónýt vegna lélegrar umhirðu en gaman er að segja frá því að þetta litla eldhússkot er upprunalega þegar byggt var eða amk. á einhverjum tímapunkti salerni. Húsið var nefnilega á einum tíma gistiheimili og við drógum þá ályktun að stofan sem er frekar löng hafi verið gangur, þetta meikar mikinn sense miðað við hve spes veggirnir eru í kringum þetta rými en mikið er um litla bita úr loftinu.

Hér sést betur veggurinn sem við tókum að hluta í burtu til þess að opna aðeins betur inn í eldhúsið.

Þetta rými máluðum við, fjarlægðum eldhúsið, parketlögðum, lökkuðum gluggakarma og svalahurð auk þess að skipta um slökkvara og innstungur.

Forstofa og hol

Forstofan var máluð, skipt um slökkvara og innstungur, parketlagt, fataskápurinn tekinn í burtu og settur hvítur fataskápur sem nær hærra upp, þó ekki alla leið til hliðar en hluti af því þar sem sláin er, er í dag autt pláss fyrir kerru eða snaga t.d.

Við tókum ekki mynd þar sem sást í ósköp einfalda PAX fataskápinn frá IKEA þar sem að á þeim tíma sem myndirnar voru teknar voru hurðarnar uppseldar. Jú hurðarnar ætluðum við að kaupa rétt eftir mesta covid tímabilið hér á landi og líkt og þeir sem að þurftu að standa í framkvæmdum eftir það tímabil vita reyndist erfitt að fá hina ýmsu hluti í IKEA þá.

Baðherbergi

Við máluðum baðherbergið með frystihúsamálningu, skiptum um blöndunartæki á vask og í sturtu, skiptum um sturtuhengi í hvítt bómullarhengi og settum upp stálstöng. Tókum síðan spegilinn, ljósið og hilluna sem var fyrir ofan vaskinn og settum upp speglaskáp með ljósi í staðinn. Skipt var um klósettrellustöng, handklæðasnaga og settur upp klósettbursti á vegginn, auk þess var skipt um slökkvara, innstungu og viftu í lofti. Plaströrið undir vaskinum var síðan málað í sama lit og veggurinn til þess að það stæði ekki jafn mikið út úr.

Á þessum myndum sést vel munurinn á þeim hvíta lit sem var fyrir á íbúðinni og salthvíta sem er á herbergjunum. Hvíti liturinn á fyrri myndinni er fremur gulleitur en salthvíti mun hvítari.

Þvottahús

Við gerðum í raun ekki mikið fyrir þvottahúsið. Við máluðum með frystihúsamálningu, skiptum um og færðum hillu auk þess sem við settum upp þurrkgrind. Ég mæli ekki beint með þurrkgrindinni, hún nýtist okkur best til þess að þurrka það sem er á herðatré. Ef við byggjum hér áfram væri þetta það rými sem ég hefði viljað breyta meira seinna meir.

Allar myndirnar í færslunni tilheyra fasteignasölunni Byr. Ég fékk góðfúslegt leyfi eiganda fasteignasölunnar til þess að nota þær, enda eru þær eign fasteignasölunnar.

Þangað til næst

%d bloggurum líkar þetta: