Vikumatseðill og tvö Frozen afmæli

Eftir langa pásu kemur loksins inn nýr vikumatseðill, en það er búið að vera mikið að gera síðustu mánuði meðal annars við að klára skólann og byrja í nýrri, mjög krefjandi vinnu. Það hefur því verið lítill tími til að sinna öðru en því ásamt fjölskyldunni og heimilinu, en auk þess lokuðum við síðunni tímabundið til að betrumbæta hana. Núna eru stelpurnar komnar í sumarfrí á leikskólanum og farnar í ömmu og afa dekur á Vopnafjörð á meðan við foreldrarnir verðum heima að vinna og njóta þess í nokkra daga að vera barnlaus. Ég gaf mér því tíma til að setjast niður og skrifa eina færslu þar sem ég set inn vikumatseðilinn fyrir þessa viku og læt fylgja með nokkrar myndir úr fimm ára afmæli Sóllilju og þriggja ára afmæli Maísólar sem við héldum í vor. Þar sem þær áttu báðar afmæli í miðjum covid faraldri var ekki hægt að halda stórar veislur en við buðum nánustu í smá afmæliskaffi og þær vildu auðvitað báðar hafa Frozen þema þar sem Frozen æðið á þessu heimili virðist aldrei ætla að enda 😉

Hér kemur matseðillinn:

Mánudagur: fiskur í raspi, couscous, steikt grænmeti og heimabakað rúgbrauð

Þriðjudagur: grillaðir bbq kjúklingaleggir, kartöflubátar, maís og hunangssinepssósa

Miðvikudagur: quesadillas með nautahakki, guacamole, ferskt salat og sýrður rjómi

Fimmtudagur: ritzkex kjötbollur, hrísgrjón og súrsæt sósa

Föstudagur: grillkjöt, kartöflur, maísstönglar, fylltir sveppir og piparsósa

Laugardagur: úrbeinuð kjúklingalæri, piparostasósa og franskar

Sunnudagur: heimapizza

Nokkrar myndir úr fimm ára afmæli Sóllilju og þriggja ára afmæli Maísólar

%d bloggurum líkar þetta: