Að finnast þú ekki meiga syrgja

Nú eru liðin næstum 3 ár frá því að ég missti bróður minn.

Þar sem við vorum aldrei mjög náin þrátt fyrir lítinn aldurs mun þá líður mér stundum eins og ég bara hreinlega hafi ekki rétt á að sakna hans eða syrgja. Ég þori lítið að tala um það við fjölskyldu eða vini. Það var aldrei neitt eða neinn sem varð til þess að ég fékk þessa tilfinningu, heldur er ég nokkuð viss um að ég hafi búið hana til sjálf í höfðinu á mér.

Málið er soldið að við lifðum mjög ólíkum lífum og gengum soldið sitthvorn stíginn í lífinu. Hann var vinamargur og hress drengur sem kunni að skemmta sér og sínum. Ég á hin bóginn var aldrei neitt rosalega vinamörg og hef aldrei hleypt nema nokkrum nálægt mér, hann var soldið hvatvís á meðan ég var meira fyrir að plana hlutina útí æsar.

Auðvitað meiga ALLIR syrgja og þú mátt sakna manneskju… jafnvel þó þið voruð ekki náin. Það syrgja allir á sinn hátt og taka sinn tíma.

Ég var nýlega búin að komast að því að ég væri ólétt af stelpunni minni þegar eg fæ fréttirnar af fráfalli hans, sömuleiðis vorum við að komast yfir það að liðin væru 10 ár frá fráfalli pabba okkar og var ég því á viðkvæmum stað þegar þetta gerist, ég held samt að ég hafi bara aldrei unnið almennilega úr þessu og hef því ákveðið í höfðinu á mér að ég mætti ekki hafa þessar tilfinningar.

Hann var bróðir minn! Hann féll frá langt fyrir aldur fram og það eitt er nóg til að syrgja hann og sakna. Það að ég hitti hann sjaldan og get ekki bætt úr því er hræðilegt. Það að yndislegu börnin hans þekkja hvorki mig né börnin mín er hinsvegar eitthvað sem ég get reynt að bæta… En af einhverjum ástæðum hef mig ekki í.

Gerið það fyrir mig kæru lesendur. Njótið tímans sem þið hafið með fjölskyldu og ástvinum. Þið vitið aldrei hvenær þið sjáist í síðasta skipti.

Aldrei fara reið að sofa.

Lífið er núna, elsku þú… lifðu því!

Höfundur: Hrafnhildur

Ég er 27 ára þriggja barna móðir í Garðinum. Þar búum við með manninum mínum honum Ása. Ég vinn sem flugöryggisvörður í FLE. Börnin mín heita Svavar Bragi sem er 6 ára, Alparós sem er 2 ára og lítill snúður fæddur í byrjun júní sem heitir Óliver. Ég er að læra sjúkraliðann í fjarnámi samhliða 100% starfi sem flugöryggisvörður. Insta: @hrafnhildurskugga

%d bloggurum líkar þetta: