Vikumatseðill og tvö Frozen afmæli

Eftir langa pásu kemur loksins inn nýr vikumatseðill, en það er búið að vera mikið að gera síðustu mánuði meðal annars við að klára skólann og byrja í nýrri, mjög krefjandi vinnu. Það hefur því verið lítill tími til að sinna öðru en því ásamt fjölskyldunni og heimilinu, en auk þess lokuðum við síðunni tímabundið til að betrumbæta hana. Núna eru stelpurnar komnar í sumarfrí á leikskólanum og farnar í ömmu og afa dekur á Vopnafjörð á meðan við foreldrarnir verðum heima að vinna og njóta þess í nokkra daga að vera barnlaus. Ég gaf mér því tíma til að setjast niður og skrifa eina færslu þar sem ég set inn vikumatseðilinn fyrir þessa viku og læt fylgja með nokkrar myndir úr fimm ára afmæli Sóllilju og þriggja ára afmæli Maísólar sem við héldum í vor. Þar sem þær áttu báðar afmæli í miðjum covid faraldri var ekki hægt að halda stórar veislur en við buðum nánustu í smá afmæliskaffi og þær vildu auðvitað báðar hafa Frozen þema þar sem Frozen æðið á þessu heimili virðist aldrei ætla að enda 😉

Hér kemur matseðillinn:

Mánudagur: fiskur í raspi, couscous, steikt grænmeti og heimabakað rúgbrauð

Þriðjudagur: grillaðir bbq kjúklingaleggir, kartöflubátar, maís og hunangssinepssósa

Miðvikudagur: quesadillas með nautahakki, guacamole, ferskt salat og sýrður rjómi

Fimmtudagur: ritzkex kjötbollur, hrísgrjón og súrsæt sósa

Föstudagur: grillkjöt, kartöflur, maísstönglar, fylltir sveppir og piparsósa

Laugardagur: úrbeinuð kjúklingalæri, piparostasósa og franskar

Sunnudagur: heimapizza

Nokkrar myndir úr fimm ára afmæli Sóllilju og þriggja ára afmæli Maísólar

Vikumatseðill

Eftir langt hlé kemur loksins inn nýr vikumatseðill. Desember fór allur í prófalærdóm, verkefnavinnu og jólaundirbúning með tilheyrandi stressi og tímaleysi, og svo fékk Maísól berkjubólgu og var mikið lasin rétt fyrir jól. Það var því minna um eldamennsku og skipulag heldur en vanalega. Það voru ófá kvöld þar sem var eggjahræra eða skyr í kvöldmatinn, en það var svo sem bara ágætt þar sem nóg var borðað af þungum máltíðum yfir hátíðirnar. Núna eru allir komnir aftur í sína venjulegu rútínu eftir jólafrí og ég verð að viðurkenna að það var ljúft að fara með krakkana á leikskólann fyrsta daginn eftir langt frí og setjast svo við tölvuna í ró og næði með kaffibolla og halda áfram að vinna í mastersritgerðinni. Næstu dagar fara í ritgerðarskrif og svo fer skólinn að komast í gang aftur hjá mér eftir frí, þannig að lífið er hægt og rólega að komast aftur í fastar skorður.

Hér kemur fyrsti vikumatseðillinn 2020 gjörið þið svo vel:

Mánudagur: kjúklinga enchiladas, salsasósa, sýrður rjómi og ferskt salat

Þriðjudagur: steiktur fiskur í raspi, soðnar kartöflur, gúrka og paprika

Miðvikudagur: lasagne með nautahakki, hvítlauksbrauð og ferskt salat

Fimmtudagur: afgangar

Föstudagur: lambagúllas og kartöflustappa

Laugardagur: heimapizza og brauðstangir

Sunnudagur: grjónagrautur og slátur

Þar til næst

Glódís

https://www.instagram.com/glodis95/

Leiðin að léttari prófatíð

Langar þig að komast í gegnum prófatíðina með minna stress og betri andlegri og líkamlegri heilsu? Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga fyrir komandi prófatörn.

1. Skipulag:

Þegar fer að líða að lokum í áföngunum/námskeiðunum finnst mér best að skrifa lista með öllu því sem ég þarf að gera fyrir próf. Þá fer ég yfir allar kennsluáætlanir og skrifa niður hjá mér hvaða blaðsíður ég á eftir að lesa í hverjum áfanga, hvaða fyrirlestra ég á eftir að hlusta á, hvaða verkefnum ég á eftir að skila, hvað ég á eftir að læra betur fyrir hvert próf osf. Svo deili ég verkefnum niður á dagana fram að prófum þannig að ég hafi áætlun fyrir hvern dag. Ég passa að ætla mér ekki of mikið á hverjum degi og reyni frekar að byrja fyrr og hafi fleiri daga, heldur en að byrja seinna og þurfa að læra stanslaust frá morgni til kvölds síðustu dagana fyrir próf. Þetta finnst mér best að gera að minnsta kosti tveim til þrem vikum fyrir fyrsta prófið, og því fyrr því betra. Mér finnst mikilvægt að skilja eftir einhvern frítíma til þess að eyða með fjölskyldunni og gera eitthvað skemmtilegt.

2. Svefn:

Það er mjög mikilvægt að fá nægan svefn, sérstaklega í prófatíð. Heilinn vinnur úr upplýsingum á meðan við sofum og þess vegna græðir maður ekkert á því að taka all nighter eða læra langt fram á nótt og vera svo dauðþreyttur þegar maður tekur prófin. Skipulegðu þig vel svo að prófalærdómurinn bitni ekki á svefninum. Og það skiptir líka máli að passa upp á að halda koffínneyslu í lágmarki, sérstaklega seinnipartinn.

3. Hreyfing:

Ekki hætta að hreyfa þig í prófatíðinni. Haltu áfram að stunda þá hreyfingu sem þú ert vön/vanur að stunda, og ef þú ert ekki vön/vanur að stunda neina hreyfingu mæli ég með að fara allavega út í smá göngutúr. Skipulegðu þig það vel að þú hafir tíma til að hreyfa þig þó þú sért á fullu að læra fyrir próf. Það skilar sér margfalt til baka. Hreyfing er frábær leið til að hvíla hausinn, fá útrás og auka orku og vellíðan.

4. Pásur:

Ekki læra of mikið í einu! Þegar maður finnur að maður er að missa einbeitinguna er miklu betra að taka stutta pásu og koma svo ferskur til baka, heldur en að halda áfram að ströggla við að meðtaka upplýsingar sem fara svo bara inn um annað og út um hitt. Mér finnst best að taka frekar oftar pásur og hafa þær styttri en finndu bara þann takt sem hentar þér best. Nýttu pásurnar vel, teygðu úr þér, farðu út og andaðu að þér fersku lofti, fáðu þér að borða, horfðu á einn stuttann þátt, settu gott podcast í eyrun í smá stund og hvíldu heilann.

5. Mataræði:

Ég hef bæði reynslu af því að detta í „sukkgírinn“ þar sem ég borða bara rusl alla prófatíðina, og „stressgírinn“ þar sem ég lifi á kaffi og pesi maxi og borða lítið sem ekkert þar til prófin eru yfirstaðin. Ég mæli með hvorugu, janfvægi er lykillinn ! Gefðu þér tíma til að útbúa hollan og góðan mat sem nærir bæði sálina og líkamann. Heilinn þarf orku til að læra, og ekki skyndiorku sem kemur úr sælgæti og skilur mann svo eftir þreyttari fyrir vikið, þegar blóðsykurinn fellur aftur niður, heldur góða og stabíla orku sem kemur úr hollu mataræði. Það er ekkert að því að fá sér súkkulaði líka, eða jólaöl og piparkökur eða hvað sem þig langar í á meðan þú ert að læra. Passaðu bara að borða líka góða næringu og drekka nóg af vatni.

6. Passa bak og axlir:

Hver kannast ekki við það að vera að drepast úr vöðvabólgu við prófalesturinn? Axlirnar eru orðnar svo stífar að maður er kominn með dúndrandi hausverk og bakið orðið aumt á því að sitja svona mikið. Það er hægt að koma í veg fyrir þetta (eða að minnsta kosti minnka þessi einkenni) með fyrirbyggjandi aðgerðum. Passaðu upp á bakið þegar þú situr og lærir, vertu bein/nn í baki og slök/slakur í öxlum. Vertu dugleg/ur að standa upp og teygja úr þér, rölta aðeins um, taka jafnvel nokkrar jógaæfingar eða nota nuddbolta. Stundaðu hreyfingu til að liðka vöðvana og fá hita í þá. Ef vöðvabólga gerir vart við sig er gott að fara í heitt bað eða heitapottinn, nota hitakrem eða hitapoka á axlirnar, fara í nudd, teygja, nota nuddbolta, nuddbyssu, rúllu osf.

7. Hugarfar:

Farður jákvæð/ur inn í prófatíðina! Reyndu að forðast stress og prófkvíða, til dæmis með því að skipuleggja þig vel og læra samviskusamlega fyrir prófin. Passaðu að detta ekki í fullkomnunaráráttu gírinn, heimurinn ferst ekki þó að þér gangi illa í einu prófi, þú gerir bara þitt besta og í versta falli ferðu í upptökupróf. Það er alltaf hægt að reyna aftur.

8. Gulrót:

Verðlaunaðu þig eftir hvert próf, leyfðu þér að hafa eitthvað að hlakka til! Það þarf ekki að vera stórt eða merkilegt, bara eitthvað sem veitir þér vellíðan og hvetur þig til þess að komast í gegnum lærdóminn og prófin. Ákveddu fyrirfram að gera eitthvað skemmtilegt eftir próf og gerðu tíma fyrir það þegar þú skipuleggur þig fyrir prófatíðina. Þetta getur til dæmis verið bíóferð með vinum, deit með maka, eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni eins og skautaferð eða smákökubakstur, kósý kvöld með uppáhald mat og góðri bíómynd, ísferð eða bara hvað sem þér dettur í hug.

9. Forgangsröðun:

Ekki fara á taugum þó að óhreinatauið fyllist, drasl safnist í stofuna eða gólfið verði skítugt. Það er alltaf hægt að þrífa og taka til eftir próf. Passaðu upp á forgangsröðunina í prófatíðinni, nýttu frítímann í að gera eitthvað fyrir sjálfa/n þig og eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Ekki stressast yfir því þó að heimilið sé ekki tip top rétt á meðan á prófum stendur, það er nógu stressandi að vera í prófum og við skulum ekkert vera að bæta óþarfa stressi ofan á það. Það þarf ekki allt að vera fullkomið !

Gangi ykkur öllum vel í komandi prófum & munið bara að gera ykkar besta

Kveðja Glódís

https://www.instagram.com/glodis95/

Vikumatseðill

Það var lítið eldað á mínu heimili í síðustu viku, enda mikið um að vera. Það var lota hjá mér í skólanum, Maísól var lasin, ég fór út að borða með skólafélögum og svo fór ég líka á árshátíð. Eftir ótrúlega skemmtilega en annríka seinustu viku hlakka ég til að hafa það aðeins rólegra og eyða meiri tíma heima hjá mér í þessari viku. Hér kemur matseðill fyrir næstu daga, en eins og ég hef sagt áður og þið hafið eflaust tekið eftir sem fylgið mér á instagram, þá tekur seðillinn yfirleitt alltaf einhverjum breytingum í gegnum vikuna og einhverjir réttir færast á milli daga en það er í góðu lagi, þetta er bara viðmið og svo færum við til eftir þörfum, til dæmis þegar það verða afgangar sem við reiknuðum ekki með, ef okkur er óvænt boðið í mat eða ef ekki gefst tími til að elda.

Mánudagur: heill kjúklingur, steikt grænmeti & bygg

Þriðjudagur: soðinn fiskur, kartöflur, rófur, smjör & rúgbrauð

Miðvikudagur: rjómalagað pasta með skinku & grænmeti

Fimmtudagur: afgangar

Föstudagur: quesadilla með nautahakki, guacamole, ferskt salsa & nachos flögur

Laugardagur: parmesan kjúklingaborgari með mozzarella og hvítlaukssósu

Sunnudagur: hægeldaðir lambaskankar og kartöflustappa

Ef þið hafið ekki prófað að gera vikumatseðil þá hvet ég ykkur til þess, þetta sparar bæði tíma og peninga og kemur í veg fyrir að maður þurfi að ákveða það, korter í sjö þegar allir eru þreyttir, hvað á að vera í matinn. Við förum miklu sjaldnar í búðina og hendum miklu minna af mat eftir að við byrjuðum með þetta fyrirkomulag. Margir mikla þetta fyrir sér en um leið og maður venur sig á að gera þetta þá er það ekkert mál.

Kveðja Glódís

Ps. ef þið viljið fylgjast betur með og fá innblástur þá getið þið fylgt mér á instagram:

https://www.instagram.com/glodis95/

Prótein Frappuccino

Þessi drykkur er næstum því betri en alvöru frappó sem maður kaupir á kaffihúsum en hann er miklu miklu hollari. Þetta er frábært próteinríkt millimál sem ég elska að fá mér þegar ég er þreytt og langar í eitthvað extra gott og orkugefandi. Hvort sem það er seinnipartinn á virkum degi þegar manni vantar smá auka orku til að klára daginn, eða um helgar þegar mann langar að gera vel við sig, þá á þessi drykkur vel við. Uppskriftin er alls ekki heilög og má alveg nota annað próteinduft, aðra sósu osf. Og ef maður vill gera extra vel við sig er hægt að toppa drykkinn með rjóma og sykurlausri súkkulaðisósu og þá líkist þetta Starbucks Frappuccino.

Prótein frappó:

1 bolli gott kaffi

2 góðar lúkur klakar

1/2 frosinn banani

1 skeið prótein (ég nota ON protein energy með Mocha Cappuccino)

1/2 flaska Nije próteindrykkur með Cappuccino bragði

1 msk sykurlaus súkkulaðisósa (t.d. frá Bodylab eða Callowfit)

Öllu blandað saman í blandara og drukkið strax !

Vikumatseðill

Eftir ansi strembna seinustu viku hlakka ég til að byrja nýja viku með matseðil stútfullann af girnilegum réttum. Ég var í lokaprófi á föstudaginn og seinasta vika fór því meira og minna í prófalestur og stressið sem því fylgir. Því var lítið um heimagerðan mat og meira um skyndibita og skyr og brauð eins og vill verða þegar maður skipuleggur sig ekki alveg nógu vel. En ég hlakka til að hafa meiri tíma til þess að elda góðan mat í þessari viku og geta sest niður í rólegheitunum með fjölskyldunni yfir kvöldmatnum. Það er eitthvað sem ég held að sé allt of vanmetið, að sitja öll saman í ró og næði yfir ljúfengri heimagerðri máltíð og spjalla saman eftir annríkan dag.

Mánudagur: kjúklinganúðlur

Þriðjudagur: bleikja, blómkálsgrjón & hvítlaukssósa

Miðvikudagur: lasagna á pönnu & hvítlauksbrauð

Fimmtudagur: afgangar

Föstudagur: kjötbollur, piparostasósa & kartöflustappa

Laugardagur: heimapizza

Sunnudagur: lambahryggur, brúnaðar kartöflur & meðlæti

Eins og vanalega leyfi ég fylgjendum mínum á instagram oft að vera með við eldamennskuna og því bendi ég á instagram síðuna mína hér að neðan fyrir áhugasama. Eigið ljúfa viku.

Þar til næst

Glódís

Hollt og sjúklega gott túnfisksalat

Þetta túnfisksalat er það gott (og það hollt) að maður getur borðað það með skeið beint úr dallinum. Hins vegar mæli ég með því að setja það ofan á eitthvað gott hrökkbrauð eða gróft brauð, það er algjört sælgæti.

Innihald:

2 soðin egg (mér finnst best að hafa þau ekki alveg harðsoðin heldur smá mjúk alveg í miðjunni)

1 dós túnfiskur

1/2 fínt saxaður laukur

100 gr kotasæla

100 gr sýrður rjómi 10%

2 msk light mayonnaise

Svartur pipar

Hvítur pipar

Aromat

Öllu blandað vel saman og kryddað eftir smekk, best að smakka sig bara til. Geymist í nokkra daga í lokuðu íláti inni í ísskáp.

Glódís

Vikumatseðill

Við vorum með pastarétt í matinn í gærkvöldi og það var svo mikill afgangur að það dugir í kvöldmatinn í kvöld líka, og ég verð að viðurkenna að það er rosa þægileg tilhugsun að þurfa ekki að elda neitt í kvöld, bara henda pastanu í örbylgjuofninn. Þar sem maður hefur oftast nægan tíma á sunnudögum en talsvert minni tíma á mánudögum þá getur verið mjög þægilegt að elda stóra máltíð á sunnudegi og þá er mánudagurinn aðeins auðveldari. Ég mæli með því að hafa þetta í huga þegar þið gerið vikumatseðil, en öll ráð til að gera mánudaga aðeins auðveldari gríp ég fegins hendi. Hér kemur matseðillinn þessa vikuna:

Mánudagur: afgangar

Þriðjudagur: kjöt í karrý og hrísgrjón

Miðvikudagur: bleikja, couscous og ofnbakað grænmeti

Fimmtudagur: píta með nautahakki, steiktu grænmeti, osti, salati og pítusósu

Föstudagur: heill kjúklingur, franskar, koktelsósa og salat

Laugardagur: quesadilla með afgangs kjúlla, sýrður rjómi, salsasósa, guacamole, nachos og salat

Sunnudagur: heimapizza

Þar til næst

Glódís

Vikumatseðill

Vikumatseðillinn í þetta skiptið byrjar á föstudegi. Mér finnst best að gera vikumatseðil og vikuinnkaup sama daginn og það þarf ekkert endilega að vera á mánudegi. Oft finnst mér mest til í búðunum á föstudögum og grænmetið og ávextirnir líta best út, og þess vegna er fínt að gera þetta á föstudegi og byrja helgarfríið með fullann ísskáp og nóg til af öllu.

Föstudagur: heimapizza

Laugardagur: kjúklinga enchiladas, sýrður rjómi, salsa sósa, doritos, avacado, gúrka og paprika

Sunnudagur: lambahryggur, kartöflubátar, maísbaunir, salat og brún sósa

Mánudagur: afgangar

Þriðjudagur: bleikja, couscous, grænmeti og rúgbrauð

Miðvikudagur: kjötbúðingur og kartöflustappa

Fimmtudagur: hakk & spaghetti, hvítlauksbrauð og salat

Kveðja Glódís

https://www.instagram.com/glodis95

Fæðingarsaga x2

Hér kemur fæðingarsagan hennar Sóllilju sem fæddist 20. apríl 2015 en settur dagur var um miðjan júní. Hún fæddist á 32. viku og var 8 merkur. Ég skrifaði þennan texta fljótlega eftir að ég átti hana og ætla bara að leyfa honum að standa óbreyttum:

„Fæðingarsagan mín:

Meðgangan gekk frekar brösulega hjá mér og fyrstu mánuðina ældi ég nánast alla daga og endaði á að taka inn póstafen eftir að hafa verið lögð inn á spítala 2x með vökva í æð. Um sama leiti og ógleðin lagaðist byrjaði ég að fá grindargliðnun sem varð svo slæm að ég þurfti að minnka niður í 50% vinnu strax í janúar. En þrátt fyrir mín veikindi dafnaði krílið vel og stóðst allar skoðanir. 

Þegar ég var komin 32 vikur fór ég að taka eftir því að ég var komin með mikinn bjúg, sjóntruflanir og höfuðverk. Ég átti tíma í mæðravernd eftir helgi en ákvað samt að fara uppá fæðingardeildina á Akureyri (þar sem ég bý) á fimmtudegi og láta kíkja á mig. Blóðþrýstingurinn var mældur og hann var allt of hár. Þá var ég sett í rit og svo í sónar og læknir tilkynnti mér að ég væri komin með meðgöngueitrun. Hann reiknaði með að barnið þyrfti að koma mun fyrr í heiminn, en í sónarnum sást að krílið var í réttri stærð og því staðfest að það myndi spjara sig. Ég fékk sterasprautur til að barnið myndi þroskast hraðar og var lögð inn.

Á laugardegi komu ljósmæður og fæðingarlæknir og ræða við mig um versnandi ástand mitt. Þau ákváðu að senda mig suður með sjúkraflugi strax sama dag til öryggis þar sem ekki má taka á móti börnum fyrr en eftir 34 vikur á Akureyri. Kærastinn minn var í vinnunni þegar þetta gerðist en kom svo keyrandi suður daginn eftir (sunnudag).

Á sunnudeginum varð ég veikari og veikari með hverjum klukkutímanum og komin með hræðilega mikinn bjúg og svo slæman höfuðverk að mér varð óglatt. Um kvöldið þegar kærastinn minn er nýfarinn frá mér til að fara að gista hjá ættingjum sínum þá komu læknar og kíktu á mig. Þeir ákváðu strax að fara með mig upp á fæðingardeild og þar var ég sett af stað. Ég var orðin svo veik og stressuð að ég byrja að æla og skjálfa. Èg hringdi í kærastann minn og hann kom strax til mín og svo hringi ég í mömmu sem var á Akureyri og ætlaði að koma suður daginn eftir til að geta verið viðstödd fæðinguna. Ég sagði mömmu að þetta væri bara að fara að gerast og hún lofaði að leggja af stað suður eldsnemma morguninn eftir. Um miðnætti var mér gefin tafla til að setja mig af stað en á sama tíma var mér sagt að þetta gæti endað í keisara svo að ég mátti hvorki borða né drekka alla fæðinguna. Það var settur upp þvagleggur hjá mér og svo fékk ég næringu og magnesíum í æð. Ég byrjaði að fá vægar hríðir en fékk ógleðislyf og verkjalyf þannig ég náði að sofna milli hríða. Kl. 4 um nóttina var belgurinn sprengdur og þá urðu hríðirnar verulega harðar. Ég fékk mænudeyfingu en læknirinn var mjög lengi að setja hana upp og ég var alveg að deyja á meðan. Loksins klárar hann og fer en aldrei minnka verkirnir heldur aukast þeir bara og aukast. Þá hafði mænudeyfingin mistekist og það þurfti að setja hana upp aftur. Þarna var ég komin með nánast stanslausar hríðir og farin að finna mikinn þrýsting þannig að það var virkilega erfitt að sitja og fá aftur deyfingu. 

Þegar það var loksins búið var ég komin með fulla útvíkkun og mátti byrja að rembast. Mænudeyfingin var svo nýkomin í að hún var ekki byrjuð að virka fyrr en á sama tíma og hausinn var að koma út. Ég notaði gas á lokasprettinum en það hjálpaði mér að anda djúpt og hafa stjórn á verkjunum. Kl. 7:34 kom litla daman í heiminn, 8 merkur og þrátt fyrir að vera fyrirburi fékk ég hana samt strax í fangið og fékk að hafa hana smá stund. Hún var ótrúlega mannalega og byrjaði strax að gráta. Pabbi hennar klippti á naflastrenginn og svo var farið með hana uppá vöku. Þá tók við að fæða fylgjuna sem gekk mjög vel og svo þurfti að sauma aðeins. Ég var orðin svo þyrst og skrælnuð í hálsinum að ég gat ekki hugsað um annað en vatn á þessum tímapunkti. Loksins mátti ég drekka og ég tilkynnti öllum á fæðingarstofunni það að þetta væri besta vatn sem ég hefði smakkað! Þar sem ég var mjög veik sofnaði ég strax og þetta allt var búið og vaknaði ekki aftur fyrr en seinnipartinn. Þá var mamma komin og ég fékk að fara með henni í hjólastól á vöku og kíkja á krílið. Ég var mjög glæsileg með þvagpoka í fanginu, í netanaríum með bleyju undir mér og lak yfir mér og svo fylgdi mér standur með næringu og magnesíum í æð. 

Svo var farið með mig aftur í fæðingarherbergið og þar var ég undir stöðugu eftirliti í sólarhring. Loksins um kvöldið mátti ég fá mér eina ristaða brauðsneið en ég var orðin mjög svöng enda ekki búin að borða í sólarhring. Ég sofnaði svo aftur og vaknaði á þriðjudagsmorguninn. Þá fór Sigfús með mig í hjólastól inná vöku og ég fékk að halda á stelpunni minni en hún var strax komin úr hitakassa og í vöggu. Hún gat andað alveg sjálf og var ekki tengd við nein tæki nema súrefnismettunarmæli. Seinna um daginn var ég flutt niður á sængurkvennadeildina og fékk loksins að losna við þvaglegginn og fara í sturtu. Vá hvað það var gott en samt var ég svo slöpp að það leið næstum yfir mig í sturtunni. 

Lillan var áfram á vöku og ég var í fullu starfi að mjólka mig og gefa henni í gegnum sonduna og eftir nokkra daga fór hún að reyna að taka brjóstið en það er erfitt að sjúga þegar maður er svona voðalega lítill. Tæpri viku eftir fæðinguna var ég útskrifuð og afþví að lillan var svo dugleg þá fengum við að flytja með hana í fjölskylduherbergi á vöku en þar erum við núna og fáum líklega að fara heim í næstu viku. 

Þessi fæðing gekk ótrúlega vel miðað við hversu veik ég var en hinsvegar er rosalega erfitt að ætla að kíkja uppá spítala í smá tjékk sem endar svo með því að þú færð ekki að koma heim aftur fyrr en barnið þitt sem átti að koma í júní er fætt! En sem betur fer höfum við fengið mikla hjálp og tengdaforeldrar mínir eru búnir að þrífa og taka til heima hjá okkur á meðan mamma mín fer út um alla Reykjavík að versla allt sem vantar fyrir lilluna, brjóstagjöfina og mig sjálfa. 

Ég á mjög erfitt núna, er svo ofsalega hrædd um lilluna mína því hún er svo lítil og viðkvæm. Hórmónarnir eru líka alveg á fullu þannig að það þarf ekki mikið til þess að ég fari að gráta. Ég á sennilega eftir að vera mjög nojuð mamma sem ofverndar barnið sitt haha en það er alveg örugglega eðlilegt eftir þessa lífsreynslu!“

Þetta skrifaði ég 19 ára gömul og nýbökuð móðir, þetta var erfiður tími fyrir mig og eftir á að hyggja er ég nokkuð viss um að ég hafi fengið fæðingarþunglyndi. Ég var mikið ein með hana og einangraði mig frá umheiminum enda dauðhrædd um að hún myndi smitast af öðru fólki og verða lífshættulega veik því hún var svo mikill fyrirburi. Þess vegna fór ég lítið út og hitti fáa fyrstu mánuðina sem olli mér mikilli vanlíðan. Ég lenti líka í skelfilegu atviki fljótlega eftir að við komum heim eftir alla spítaladvölina sem hafði mikil áhrif á mig.

Ég var ein heima með Sóllilju og var að gefa henni brjóst, ég satt uppí sófa með hana og fann svo að hún hættir að drekka og liggur bara kjurr. Vegna þess hvað hún var lítil þreyttist hún fljótt á að drekka og ég þurfti oft að ýta við henni til að fá hana til að drekka meira því hún sofnaði annars bara á brjóstinu. Ég fór því að reyna að ýta við henni en fékk engin viðbrögð, þá tók ég hana af brjóstinu og við mér blasti hræðilegasta sjón sem ég hef nokkurtíman séð. Barnið mitt var líflaust í höndunum á mér, hún var blá í framan og meðvitundarlaus og þessi mynd er brennd inní hausinn á mér og verður það örugglega að eilífu. Hún var svo ofboðslega lítil og viðkvæm, og þarna var ég alveg viss um að hún væri dáin. Ég lyfti henni upp og hausinn á henni valt niður, hún var algjörlega máttlaus og andaði ekki. Ég man ekki nákvæmlega atburðarásina í framhaldinu af þessu, en ég man að ég reif upp símann og hringdi í neyðarlínuna og á sama tíma og ég var í símanum að útskýra hvað var að fór ég með Sóllilju að opnum glugga, sló á bakið á henni og lét blása kaldan vind á hana. Hún byrjaði þá að hósta upp mjólk og fékk strax aftur eðlilegan lit. Hún var komin aftur með meðvitund og á sama tíma ruddust inn í íbúðina sjúkraflutningamenn, læknir og löggur. Ég stóð með hana í fanginu gjörsamlega útúr heiminum af skelfingu og fyrir utan íbúðina var sjúkarabíll, löggubíll og bráðalæknabíll allir með blikkandi ljós og sírenur. Við fórum uppá spítala og Sóllilja var rannsökuð öll alveg í þaula. Það kom aldrei nákvæmlega í ljós hvað var að, en læknarnir telja að hún hafi einfaldlega gleymt að kyngja, sofnað með mjólk ofaní sér og hætt að anda. Það þarf svo rosalega lítið til hjá svona litlum fyrirburum, þau geta hreinlega bara gleymt að anda og þá þarf að ýta við þeim svo þau ranki við sér. Sem betur fer gerðist þetta bara einu sinni og Sóllilja er fullkomlega heilbrigð, en þetta er reynsla sem ég óska engu foreldri að lenda í.

Hér kemur svo fæðingarsagan hennar Maísólar sem fæddist 17. maí 2017 á settum degi og var 16 merkur eða nákvæmlega helmingi þyngri en Sóllilja var, sem mér finnst alveg mögnuð staðreynd.

Síðustu vikurnar af meðgöngunni hafði ég verið að fá mikla samdrætti og fyrirvaraverki og verandi með lítið barn (Sóllilja var bara ný orðin tveggja ára þarna) var ég orðin mjög þreytt á að vera ólétt. Ég reyndi allskonar ráð sem ég sá á netinu, ég drakk hindberjalaufste í lítratali, borðaði fleiri fleiri kíló af ferskum ananas, gerði allan mat extra sterkan, fór í kröftuga göngutúra og ég veit ekki hvað og hvað. Kvöldið fyrir settan dag sat ég uppí sófa með fulla skál af ferskum ananas (eins og vanalega) og píndi hann ofaní mig, en ég var búin að borða svo mikið af ananas að ég var komin með sár inní munninn og það var orðið mjög vont að borða hann. Þá byrjaði ég að fá samdrætti og þeir voru mjög reglulegir og frekar stutt á milli. Ég fór uppí rúm rúmlega 22 og ætlaði að reyna að sofna en þá missti ég vatnið. Þar sem barnið var óskorðað þurfti ég að leggjast niður og hringja á sjúkrabíl og svo lá ég eins og illa gerður hlutur og beið. Á þessum tíma bjuggum við í tveggja hæða íbúð með bröttum stiga og ég var á efri hæðinni. Sjúkraflutningamennirnir sem komu fyrst gátu ekki flutt mig liggjandi á börum niður stigann þannig að þeir þurftu að hringja á annann sjúkrabíl og svo voru þeir fjórir saman og Sigfús líka að reyna að brasa við að koma mér niður stigann.

Við vorum komin uppá spítala um kl. 23 og fórum beint á fæðingarstofu. Þar var ég skoðuð og var komin með slatta í útvíkkun, man ekki nákvæmlega hvað, og allt gerðist mjög hratt. Ég vildi fá mænudeyfingu en það var orðið of seint því ég var komin svo langt í fæðinguna, þannig ég stóð bara með hitapoka á mjóbakinu, hallaði mér yfir rúmið og öskraði mig í gegnum hríðarnar. Ég var orðin ógeðslega þurr í hálsinum og að drepast úr þorsta þannig ég sendi Sigfús fram með vatnsbrúsa að ná í vatn, þegar hann kom til baka reif ég brúsan af honum og byrjaði að þamba, þá var þetta sódavatn en ekki venjulegt vatn og ojj hvað það var ógeðselgt. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn reið við Sigfús eins og þarna, ég man ennþá eftir því hvað ég varð reið hahah! En eftir aðeins örfáar hríðar var ég farin að finna svakalegan þrýsting og ég bókstaflega fann hvernig hausinn á barninu mjakaðist neðar og neðar. Ég var komin með rosalega mikla rembingsþörf en var ekki búin að klára útvíkkunina alveg þannig að ég þurfti að bíða aðeins með að rembast og ég held að það hafi verið erfiðasti parturinn af fæðingunni. Að þurfa að rembast en berjast á móti því, það er alveg virkilega erfitt og óþægilegt. En sem betur fer gekk þetta alveg rosalega hratt og þegar ég mátti byrja að rembast tók þetta bara örfáar mínútur.

Klukkan var ekki orðin 01 þegar Maísól kom í heiminn, og við vorum komin uppá spítala um kl. 23 þannig fæðingin tók ekki nema rétt tæpa tvo tíma frá byrjun til enda. Þrátt fyrir svakalega snögga fæðingu og 16 marka barn þá rifnaði ég ekkert. Maísól fæddist hinsvegar með nafnlastrenginn tvívafinn utanum hálsin og var mjög blá og það var kallaður út barnalæknir til að skoða hana en sem betur fer var hún stálhraust og ég fékk hana í fangið um leið og búið var að skoða hana.

Ég á semsagt tvær gjörólíkar fæðingar að baki, en tvær heilbrigðar og fullkomnar stelpur.

Viljiði sjá hvað Sóllilja er glöð að sjá litlu systur sína í fyrsta skiptið? Þessi mynd bræðir !

Þar til næst

Glódís

https://www.instagram.com/glodis95

Vikumatseðill

Hér kemur matseðillinn þessa vikuna:

Mánudagur: grjónagrautur eldaður í ofni & lifrapylsa

Þriðjudagur: afgangar

Miðvikudagur: fiskur úr fiskbúð, rúgbrauð & salat

Fimmtudagur: tortillas með nautahakki, salati, sýrðum rjóma, salsasósu & rifnum osti

Föstudagur: eitthvað gott 🙂

Laugardagur: heimapizza

Sunnudagur: úrbeinaður lambaframpartur, brúnaðar kartöflur, sósa, maísbaunir & salat

Mér finnst gott að hafa einn auðann dag í vikumatseðlinum af því að oft kemur eitthvað óvænt upp á, manni er boðið í mat eða hefur ekki tíma til að elda og hefur bara skyr í matinn, það verða meiri afgangar af einhverju en maður reiknaði með o.s.frv. Stundum er líka bara fínt að vera með ekkert planað og hafa bara „eitthvað“. Svo reyni ég líka að hafa allavega einn dag í viku fyrir afganga því ég nenni ekki að elda á hverju einasta kvöldi og það er voða fínt að hafa allavega eitt kvöld í viku þar sem maður þarf ekki að gera neitt annað en að skella afgöngum í örbylgjuofninn og þá er maturinn reddí.

Ef ykkur langar til að fylgjast betur með mér þá er ég mjög virk á instagram og sýni oft frá því þegar ég er að elda þar: glodis95

Kveðja Glódís

Að lifa með átröskun *trigger warning*

Þó að það séu mörg ár síðan ég greindist með átröskun og ég sé löngu búin að „ná mér“ þá er þetta samt eitthvað sem mun fylgja mér alla ævi.

Ég hef alltaf verið frekar öfgafull manneskja, svona svart og hvítt, allt eða ekkert týpa. Annaðhvort legg ég mig alla fram eða bara ekki neitt. Þetta einkenndi hreyfingu mína á unglingsárunum og framhaldsskólaárunum. Annaðhvort fór ég út að hlaupa á hverjum degi eða ég sleppti því alveg. Annaðhvort fór ég í ræktina tvisvar á dag eða ég mætti aldrei. En ég pældi ekkert mikið í mataræðinu, borðaði bara það sem var í matinn í skólanum og heima hjá mér.

Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla og flutti að heiman tók við tímabil hjá mér þar sem ég hreyfði mig ekki neitt og hugsaði ekkert um hvað ég setti ofan í mig. Mér leið illa andlega án þess að vita af hverju, og í staðin fyrir að vinna í því deyfði ég vanlíðanina með sukk fæði og áfengi. Ég veit það núna að ég glímdi við þunglyndi á þessum tíma og hefði þurft að fá viðeigandi aðstoð til að vinna í því. Eftir heilt ár af sukki og djammi fann ég loksins löngun til að taka mig á, en því miður ekki andlega samt heldur bara líkamlega. Ég hellti mér út í líkamsrækt og tók mataræðið alveg í gegn. Ég fór fljótt að sjá árangur og það hvatti mig til að halda áfram.

Hér var ég farin að sjá mikin árángur og þyrsti í enn meira

Ég æfði á hverjum einasta degi, oft tvisvar á dag, og var fljótlega komin á mjög strangt mataræði. Kílóin flugu af mér en þegar ég var komin í kjörþyngd þá gat ég ekki hætt, ég var orðin háð tilfinningunni sem fylgir því að léttast og grennast. Það veitti mér svo mikla vellíðan. Þannig ég hélt áfram að æfa og fór að telja ofan í mig hverja einustu hitaeiningu. Ég var á endanum hætt að hafa gaman af því að mæta í ræktina og þurfti að pína mig á æfingu. Ég var alltaf þreytt og alltaf svöng, mér var ískalt og þurfti að æfa í þykkri hettupeysu. Sama hvað ég hamaðist mikið þá svitnaði ég ekki einum einasta dropa, roðnaði varla í framan. Ég varð máttlausari og átti erfiðara með að lyfta sömu þyngdum og ég var vön að taka. Öll fötin mín voru orðin allt of stór og hárið fór að hrynja af mér. Mér datt samt ekki í hug að það væri eitthvað að, ég var bara ákveðin í að detta ekki aftur í sama gamla farið, ætlaði ekki að skemma fyrir mér og þyngjast aftur.

Ég reyndi að borða eins lítið af hitaeiningum og ég mögulega gat, lifði á eggjahvítum og kjúklingabringum, og ef ég „svindlaði“ og borðaði eitthvað sem ég „mátti ekki borða“ refsaði ég sjálfri mér með því að vera helmingi lengur í ræktinni og reyna að brenna burt þessum auka hitaeiningum. Ég var alltaf í úlpu inni, sat í skólanum í dúnúlpu með hettuna á hausnum og borðaði eggjahvítur úr plastboxi. Ég var búin að einangra mig félagslega því það komst ekkert að nema að æfa og telja hitaeiningar. Ég eyddi kvöldunum í að elda hafragraut og vikta í plastbox, steikja eggjavítur og skera niður gulrætur til að hafa í nesti. Ég svaf í ullarsokkum, joggingbuxum og hettupeysu, og átti erfitt með að sofna á kvöldin því ég skalf úr kulda, þurfti að nudda á mér tærnar og fingurnar til að geta sofnað. Ég var orðin svo skelfilega veik í hausnum en ég sá það ekki sjálf og hlustaði ekki á fólkið í kringum mig sem reyndi að segja mér það. Mér fannst ég vera ein og að allir væru á móti mér. Allir vildu láta mig fitna, og ég ætlaði sko ekki að láta það eftir þeim.

Ég náði algjörum low point þegar ég fékk þá hræðilegu hugmynd að sleppa því bara alveg að borða og drekka. Ég komast að því að ég var grennst á morgnana og þandist svo út eftir því sem leið á daginn, þannig ég ákvað bara hreinlega að hætta að borða og drekka, til að vera með alveg sléttan maga (ég veit, hversu galið??!). Þarna var ég orðin svo andlega veik að mér var eiginlega alveg sama þó ég myndi deyja, ég vissi alveg að það væri ekki hægt að lifa án þess að borða og drekka, en tók samt meðvitaða ákvörðun um að hætta að borða og drekka. Þetta var hvort sem er ekkert líf hugsaði ég þarna. Ég laug að öllum að mér væri óglatt, að ég væri örugglega bara að verða veik, svo lá ég uppí rúmi undir sæng og horfði á veginn. Vildi ekki fara neitt eða gera neitt. Eftir nokkra daga af þessu ástandi fór mamma með mig á spítalann, þá var komin svo mikil ammoníakslykt af mér að allt herbergið angaði. Ég gat varla staðið í lapparnir, ég titraði og skalf og það ætlaði að líða yfir mig. Ég fékk næringu í æð og viðtal við lækni, komst að því að ég væri með anorexíu og þunglynd. Ég byrjaði á þunglyndislyfjum og þegar þau byrjuðu að virka þá fékk ég lífið mitt til baka. Ég öðlaðist aftur viljan til að lifa, og aðrir hlutir heldur en bara mitt eigið holdarfar fóru að skipta mig máli.

Hér var mér farið að líða miklu betur andlega og líkamlega, ég var farin að borða meira og lyfta þyngra og leið vel með að þyngjast og bæta á mig vöðvum

Leiðin til baka var ekki bein, ég hætti ekki bara allt í einu að vera með anorexíu, en ég vann í sjálfri mér, og með mikilli vinnu tókst mér að sigrast á þessum hræðilega sjúkdómi sem anorexía er. En þó held ég að þetta sé sjúkdómur sem maður sigrar kannski aldrei alveg, þetta fylgir manni alltaf að vissu leiti. Þegar ég varð ólétt af eldri dóttur minni fannst mér erfitt að þyngjast og sjá líkamann minn breytast, en ég var svo veik alla meðgönguna að ég gat ekkert hreyft mig og vegna mikillar ógleði var mataræðið ekki uppá marga fiska.

Hér var ég að „taka mig á“ eftir að ég gekk með eldri dóttur mína

Það var ekki fyrr en ég gekk með yngri dóttur mína sem mér fór að þykja vænt um líkama minn og lærði að meta hversu mikils virði það er að fá að ganga með barn, og hvað líkaminn er magnaður.

Hér var ég ólétt af yngri dóttur minni og leið mun betur með líkamann heldur en á fyrri meðgöngu

Í dag eru 6 ár síðan ég greindist með anorexíu og þetta er ennþá barátta, þó svo að ég hafi náð mjög langt. Ég þarf að minna mig á það á hverjum einasta degi að hamingjan er ekki metin í holdarfari. Ég þarf virkilega að hafa fyrir því að fara milliveginn á milli þess að hugsa of mikið um mataræði og hreyfingu, og að hugsa of lítið um það. Ég reyni að hugsa um mat sem næringu fyrir líkamann og sálina, og ég hreyfi mig fyrir vellíðanina sem fylgir hreyfingu, en ekki til að breyta holdarfarinu.

Hér eru nokkur ráð sem hjálpuðu mér að takast á við anorexíuna, en þetta er eflaust mjög persónubundið:

  • Að fá hjálp hjá fagaðilum var fyrsta skrefið hjá mér (læknar, sálfræðingar, næringarfræðingar o.s.frv.)
  • Að finna viljan til að losna við anorexiuna (þetta var að mínu mati erfiðasta skrefið, ég vildi losna við þennan skelfilega sjúkdóm, en samt ekki því ég vildi ekki fitna, en ef maður vill ekki laga ástandið þá mun það ekki lagast! Ég mæli með að fá hjálp frá sálfræðingi við þetta skref)
  • Að fylgja bara fólki sem lætur manni líða vel á samfélagsmiðlum, ekki fylgja fólki sem hefur neikvæð áhrif á líðan manns
  • Að lesa um body-positivity og self-love, og læra að elska líkama sinn
  • Að hugsa um mat sem næringu fyrir líkama og sál, en ekki sem óvin
  • Að stunda hreyfingu á réttum forsendum (vegna þess að manni langar það eða vegna þess að manni líður vel eftirá, en ekki vegna þess að maður „þarf“ þess)
  • Að tala um hvernig manni líður, ekki fela það
  • Að reyna að forðast öfgar í mataræði og hreyfingu (átak, megrun, svindl máltíð, nammidagur, allt svona getur triggerað átröskun)
  • Þú ræður yfir matnum, hann ræður ekki yfir þér !
  • Að mæla árangur í hreyfingu með einhverju öðru en kílóum og sentimetrum, reyna að hafa það að markmiði að lyfta þyngra, hlaupa hraðar, hoppa hærra o.s.f, en ekki missa x mörg kíló

Í lokin ætla ég að mæla með að fylgja Röggu Nagla og Ernulandi á samfélagsmiðlum, en það hefur hjálpað mér mjög mikið í minni baráttu að lesa pistla frá þeim og fylgjast með þeim.

Kveðja Glódís

Instagram: glodis95