Mjólkuraukandi próteinkúlur

Ég rakst á þessa sjúku uppskrift af próteinkúlum á instagram hjá kimperryco og varð ástfangin! Það skemmir ekki fyrir að þær geta hjálpað við mjólkurframleiðslu og eru SÆLGÆTI á bragðið! Gott að narta í þetta á daginn hvort sem þú ert með barn á brjósti eða ekki!

Innihaldsefni:

 • 2 bollar haframjöl
 • 1 bolli hörfræmjöl (ég kaupi þetta í costco)
 • 1 bolli hnetusmjör
 • 2/3 bolli hunang
 • Ca 1-2 tsk vanilludropar
 • Súkkulaðibitar eftir smekk (ég nota semi-sweet frá kirkland)

Aðferð

Settu allt í skál og hrærðu þar til öll hráefnin eru orðin einn stór klumpur. Svo seturðu skálina í ísskápinn í ca 1 klst til að leyfa þessu að klístrast almennilega saman, svo tekurðu út og rúllar í kúlur.

Einfaldara gæti þetta ekki verið!

Að finnast þú ekki meiga syrgja

Nú eru liðin næstum 3 ár frá því að ég missti bróður minn.

Þar sem við vorum aldrei mjög náin þrátt fyrir lítinn aldurs mun þá líður mér stundum eins og ég bara hreinlega hafi ekki rétt á að sakna hans eða syrgja. Ég þori lítið að tala um það við fjölskyldu eða vini. Það var aldrei neitt eða neinn sem varð til þess að ég fékk þessa tilfinningu, heldur er ég nokkuð viss um að ég hafi búið hana til sjálf í höfðinu á mér.

Málið er soldið að við lifðum mjög ólíkum lífum og gengum soldið sitthvorn stíginn í lífinu. Hann var vinamargur og hress drengur sem kunni að skemmta sér og sínum. Ég á hin bóginn var aldrei neitt rosalega vinamörg og hef aldrei hleypt nema nokkrum nálægt mér, hann var soldið hvatvís á meðan ég var meira fyrir að plana hlutina útí æsar.

Auðvitað meiga ALLIR syrgja og þú mátt sakna manneskju… jafnvel þó þið voruð ekki náin. Það syrgja allir á sinn hátt og taka sinn tíma.

Ég var nýlega búin að komast að því að ég væri ólétt af stelpunni minni þegar eg fæ fréttirnar af fráfalli hans, sömuleiðis vorum við að komast yfir það að liðin væru 10 ár frá fráfalli pabba okkar og var ég því á viðkvæmum stað þegar þetta gerist, ég held samt að ég hafi bara aldrei unnið almennilega úr þessu og hef því ákveðið í höfðinu á mér að ég mætti ekki hafa þessar tilfinningar.

Hann var bróðir minn! Hann féll frá langt fyrir aldur fram og það eitt er nóg til að syrgja hann og sakna. Það að ég hitti hann sjaldan og get ekki bætt úr því er hræðilegt. Það að yndislegu börnin hans þekkja hvorki mig né börnin mín er hinsvegar eitthvað sem ég get reynt að bæta… En af einhverjum ástæðum hef mig ekki í.

Gerið það fyrir mig kæru lesendur. Njótið tímans sem þið hafið með fjölskyldu og ástvinum. Þið vitið aldrei hvenær þið sjáist í síðasta skipti.

Aldrei fara reið að sofa.

Lífið er núna, elsku þú… lifðu því!

Uppáhalds veislunammið mitt

Karmellukornflexnammi með fylltum lakkrísbitum
300 g Dumle karmellur
130 g smjör
200 g lakkrísreimar (fylltar eða ófylltar)
90 g kornflex, mulið gróflega

Krem
400 g rjómasúkkulaði
60 g smjör

 1. Bræðið karmellurnar og smjör saman í potti. Bætið lakkrís og kornflexi saman við og hrærið vel saman.
 2. Setjið í form hulið smjörpappír eða ssmurt vel að innan og geymið í kæli á meðan kremið er útbúið.
 3. Bræðið nú súkkulaði og smjör saman í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði og hellið því yfir kornflexnammið.
 4. Setjið í fyrsti og geymið í ca. 20-30 mínútur. (Ég geri oftast daginn áður)
 5. Takið svo úr frysti og skerið í bita.

*Ekki mín uppskrift, þessi er fundin á netinu en all time favorite frá gulur, rauður grænn og salt

Foreldrar að ferðast barnlaus

Ef ég á að vera alveg heiðarleg þá held ég að ég sé mun háðari börnunum mínum tilfinningalega en þau mér, en við Ási skelltum okkur til Ítalíu í lok ágúst 2019. Þar sem við höfðum 2 stóratburði á döfinni í lok ágúst ákváðum við að fagna saman bara 2 á Ítalíu en það eflaust fór ekki framhjá fylgendum mæður.com að við giftum okkur, hann Ási varð líka 30 ára 8 dögum seinna svo ég bauð honum í afmælis/brúðkaupsferð.

Það kom mér eiginlega á óvart hvað börnin kipptu sér lítið upp við það að okkur vantaði á heimilið á meðan foreldrar okkar pössuðu að halda í venjulega rútínu.

Ég fékk líka bilaðann bömmer þegar ég áttaði mig á að ég myndi missa af fyrsta skóladeginum hjá Svavari Braga en skólasetningin var á fimmtudegi og ég bara hélt að skólinn byrjaði þá í framhaldi af því á föstudegi (við áttum flug aðfaranótt máudags eftir) en skólinn byrjaði ekki fyrr en mánudagsmorgun.

En líkt og maður myndi gera með börn plönuðum við soldið flugin þar sem við myndum millilenda bæði á leiðinni til og frá Ítalíu. Hér koma nokkrir punktar sem gagnast bæði fullorðnum og fjölskyldum.

* Sniðugt er að hafa spjaldtölvu með sér til að hafa eitthvað að gera í millilendingum og ef flugvélin hefur ekki afþreygingakerfi.

*Þar sem matur er ekki sá ódýrasti á flugvöllum og flugvélum er alltaf gott að bæði hafa nesti og eitthvað nasl til að borða í vélinni og í millilendingum.

* Hafðu með þér brúsa og fylltu á uppá flugvelli, mun ódýrara en að kaupa vatn. (Á ekki endilega við um aðra flugvelli en virkar vel á FLE).

* Það skaðar aldrei að hafa með sér bók til að lesa eða krossgátur/sudoku (þrautir).

* Hafðu stærri raftæki á þægilegum stað í töskunni og alla vökva í handfarangri tilbúinn í 1l zip-lock poka til að spara tíma í vopnaleit.

* Vertu í þægilegum fötum. Það er öllum sama hvernig þú ert til fara á meðan þú ert snyrtileg/ur, en ekki allir hafa þolinmæði til að bíða á meðan þú rífur allt af þér og endar svo í handleit því þú ert með svo mikið „bling“.

En mest af öllu, njóttu frísins. Maður ferðast ekki á hverjum degi (nema maður vinni í geiranum) svo maður gerir það besta úr því sem maður hefur.

Ferðakveðjur, Hrafnhildur

Fæðingasaga Alparós

Ég vakna rétt fyrir 5 aðfaranótt fimmtudagsins 31.maí. Ég hafði vaknað nokkrum sinnum sömu nótt til að pissa sem var ólíkt mér þessa meðgöngu þar sem ég vaknaði tops 2x venjulega. Þetta skipti var ég samt rennandi blaut að neðan og mig grunaði að þetta væri mögulega legvatn en var samt ekki viss. Ég skipti um nærbuxur og set á mig bindi sem virtist samt ekkert fyllast hratt en þó alltaf eitthvað að bætast í, legvatnið s.s. lak mjög hægt en ég vek Ása 2 klst seinna eftir að ég hef hringt á HSS til að spurjast fyrir og láta vita af mér. Við förum þá til keflavíkur á HSS þar sem staðfest er að þetta væri legvatnsleki og settur er upp æðaleggur fyrir sýklalyfjum vegna GBS.

Á þessum tíma var ég ekki komin með vott af verkjum svo ég fékk bara sýklalyfin á HSS og fékk svo að bíða til hádegis til að athuga hvort líkaminn færi ekki að taka við sér. Við Ási gripum þá tækifærið, SB var í dekri hjá ömmu og afa og færi svo til pabba síns daginn eftir, og skelltum okkur á lunchdate áður en við þyrftum að tékka á stöðunni aftur.

Þar sem ég byrjaði ekki að fá neina verki var ég send í hádeginu á LSH í gangsettningu því GBS fylgir mikil sýkingarhætta fyrir barnið og þurfti því að koma barninu sem fyrst út.

Ég fæ töflur á 2 klst fresti frá 13-01 og sýklalyf á 4 klst fresti þangað til barnið mætir en um 4 aðfaranótt föstudags vakna ég við seyðing sem svo jókst smátt og smátt þangað til um 8:30 þegar verkirnir eru orðnir það slæmir að ég bið um að fara í bað og fá glaðloft en fyrir það andaði ég mig í gegnum verkina og notaði jógaboltan eða labbaði um.

Það voru vaktaskipti um 8 leytið svo baðið var ekki í boði fyrr en ljósmóðirin var búin að fá allar upplýsingar frá þeirri sem var á undan en ég fæ glaðloft og nota róluna til að halda mér uppi meðan ég rugga mér í gegnum verkina.

Á meðan ég beið fékk ég rosalega dýrmætt símtal sem hjálpaði rosalega með verkina en Svavar Bragi hringdi og vildi heyra í mömmu áður en hann færi til pabba síns.

Ekki löngu seinna fæ ég grænt ljós á að fara í baðið, ljósmóðirin skoðar mig og segir að ég sé með 6 í útvíkkun svo skelli ég mér í baðið með glaðloftið.

Ég dóla svo í baðinu í góðu yfirlæti nokkuð hress og spjallandi milli hríða alveg þangað til það kemur að næstu skoðun sem ég svo enda með að fara úr baðinu, pissa, leggjast á bekkinn. Þegar þangað er komið er ég með 9,5 í útvíkkun sem þýddi að nú mátti ég hlusta á líkamann og byrja að rembast en litla daman mætir í öðrum rembingi, 6 mín eftir að ég stíg uppúr baðinu kl 12:56.

Hún fæddist 52cm (cm styttri en bróðir sinn) 3970gr með 36cm í höfuðmál. Fullkomin í alla staði!

Þar sem fæðingin gekk bara nokkuð vel þá fengum við að bíða bara eftir læknisskoðun fyrir skvísuna og færðum okkur svo á HSS í eftirlit vegna þess að ég hafði greinst með meðgöngusykursýki og þá þarf að fylgjast með börnunum í smá tíma eftir fæðingu.

Holt og gott bananabrauð

Innihaldsefni

3 þroskaðir bananar

3 egg

1/3 bolli kókosolía

Tsk matarsódi

Tsk salt

3 msk kanill

3 bollar haframjöl

Aðferð

Forhitið ofninn á 180°. Á meðan ofninn hitnar stappið þið bananana í stórri skál.

Því næst bætast við egg og kókosolía og þetta allt hrært vel saman áður en restinni af innihaldsefnum er bætt í. Þegar öllu hefur verið blandað saman er deiginu hellt í mót sem hefur verið smurt með kókosolíu (gott að nota svona „loaf pan“ ) og mér persónulega finnst gott (og girnilegt) að dreifa smá haframjöli yfir þegar deigið er komið í formið.

Formið er svo sett í ofninn í 20-30 mín eða þar til þú getur stungið tannstöngli í mitt brauðið og hann kemur hreinn út aftur.

Bíla“hacks“ fyrir ferðina

Nú hef ég verið í mömmubransanum í nokkur ár og hef fundið að bílferðir geta verið langdregnar og leiðinlegar fyrir krakka. Ég bý í Garðinum svo ferð til höfuðborgarinnar er meira að segja soldið bras en það sem ég hef fundið að léttir undir er.

*Hafðu nokkrar bækur innan handar fyrir börnin að skoða.

*Ef barnið þitt er botnlaust matargat eins og mín. Hafðu þá skipulagskassa í skottinu með ávaxtastöngum, cheerios+rúsínur í poka, svala/djús, skvísur og annað sem skemmist seint og er þægilegt að grípa í.

*Það er alltaf gott að hafa lítinn vatnsbrúsa við hendina.

*Alltaf hafa minnst eitt sett af fötum á allt liðið… maður veit aldrei hvað gæti skeð. (Þá meina ég mömmu og pabba líka)

*Sætis skipuleggjari er snilld! Ég á svona sem hægt er að smeygja spjaldtölvu í svo hægt sé að horfa á eitthvað.

*Ef þú átt snuddubarn – ALLTAF hafa auka snuð í hanskahólfinu.

*Bleyjur og blautþurrkur í skipulagsboxið… jafnvel ef þú ert ekki með bleyjubarn er gott að hafa alltaf blautþurrkur.

*Bílabingó er hægt að kaupa í flestum N1 stöðvum á sumrin og eru rosalega skemmtileg.

*Áttu gamalt dvd hulstur? Breyttu því í lita/föndur hulstur og hafðu í bílnum.

*Þetta er eitthvað sem á að vera í öllum bílum en alltaf hafa sjúkrakassa.

Meðganga með barn – að vita ekki kynið

Nú á ég tvö börn og hef prufað að vita og vita ekki kyn.

Mér persónulega fannst langt um skemmtilegra að vita ekki kyn barnsins því fyrir mér skiptir það engu máli. Ég hef ekki haldið kynjaveislu fyrir sjálfa mig og mun að öllum líkindum aldrei gera það, auðvitað þykir mér gaman að hjálpa vinkonum mínum að halda svoleiðis veislur og einnig að vita hjá þeim. Þetta er bara ekki það sama þegar kemur að manni sjálfum og auðvitað er það algjörlega persónubundið hvað hver vill gera.

Mér fannst ég ekkert tengjast dóttur minni minna eða meira en stráknum þó ég hafi aðeins haft grun um hvor kyns hún væri. Mér fannst ég ekkert meira eða minna undirbúin fyrir barnið þó að ég hafi ekki vitað kyn þess, því í grunnin kaupir maður allar sömu nauðsynjar fyrir bæði kyn. Öll þurfa þau bleyjur, samfellur, náttgalla, sokkabuxur, rúm, bílstól o.s.frv. eini munurinn hjá fólki sem veit kynið er að það velur kannski ekki eins hlutlausa liti (þið vitið bleikt fyrir stelpu og blátt fyrir stráka „kynjalitir“ og allt það)

En alls ekki taka því þannig að mér hafi þótt eitthvað leiðinlegt að vita kynið með strákinn. Auðvitað var það æði líka, það er rosalega gaman að ímynda sér framtíðina með það ákveðna barn. „Vá hvað ég ætla að kaupa krúttlegustu töffaraföt EVER á HANN“ „Jesús hvað hann á eftir að vera sætastur í þessum jakkafötum“ og annað vakti mikla kátínu hjá þessari verðandi mömmu. En af sama skapi þá fannst mér ekkert lítið gaman að ímynda mér bæði með Alparós. „Ómæ hvað SB á eftir að vera krúttlegasti stóribróðir í heimi, passandi litlu systir sína eins og demant“ „Vá hvað það væri gaman að hafa bræðurna í alveg eins fötum“

Málið er að sama hvors kynsins maður „óskar“ þá óskar maður einskis meira en að barnið verði heilbrigt og hamingjusamt! Það er ekkert sem maður getur gert til að breyta uppskriftinni þegar bollan er þegar í ofninum og því skiptir mig höfuðmáli að barnið fæðist heilbrigt með 10 fingur, 10 tær, 2 augu, nef og munn… ekkert toppar það á forgangslistanum!

Síðast en ekki síst þá er ég ein af þeim sem þolir ekki „kynjagjafir“ eða þ.e.a.s gjafir aðeins ætluð öðru kyninu. Alparós var mikið í batman, superman og öðrum „strákafötum“ því mér bara fannst það sætt!

Börn hafa ekki hugmynd í hverju þau eru svona ný, af hverju ekki bara nýta það til þess að hafa þau snyrtileg, í þægilegum fötum sem þér finnst falleg… þú færð ekkert um það valið seinna meir!

Annars þá er fyndið að segja frá því að maðurinn minn veit kyn þessa barns sem nú er í ofninum og vinir mínir eru forvitnari en ég yfir hvor kynið sé á leiðinni… en þau verða bara að bíða eins og allir aðrir.

Covidshamers – Foreldrar eru sjálfum sér verstir

Nú hefur þetta ástand staðið yfir í allt of langan tíma og margir foreldrar alveg að bugast (eða bara algerlega búnir að því).

Við erum að leyfa mun meiri skjátíma en við þorum að viðurkenna en vitiði hvað? Það er bara allt í lagi!

Við horfum að þessar “Picture perfect“ mömmur sem baka bananabrauð og sykurlausar súkkulaðimuffins með börnunum, á meðan ert þú að reyna þitt besta að halda barninu uppteknu svo þú getir klárað netfundinn og haldið í við vinnuna… Þú horfir á litla fullkomna engilinn þinn með oreo kex yfir hvolpasveitinni og færð stærsta mömmviskubit sem þú gætir mögulega fengið.

Ekki gera sjálfum ykkur það. Við erum öll í mismunandi stöðum, sumir foreldrar bara hafa tíma fyrir þessa glansmynd og vitiði hvað? 90% þeirra eru ekki einu sinni “þetta foreldri“ nema bara hluta tímans og skella inn sætri mynd því þau LOKSINS höfðu tíma til að gera eitthvað skemtilegt.

Þessar endalausu færslur um að

“Fjöllan í fjöruferð“

“Tröllaleir og föndur“

Ekki láta þær draga þig niður því barnið þitt kláraði netflix á meðan þú lærðir og þú náðir bara rétt að kíka út í boltaleik í örfáar mínútur í gær.

Eða þeir sem ná loksins að koma smá framkvæmdum í verk

“Ég tók baðherbergið í gegn“

“Loksins búin að taka til í geymslunni“

Og það eina sem þér hefur tekist að klára er snakkpoki og kók í dós í dag. Vaskurinn virðist framleiða óhreint leirtau og þú ert farin að hræðast það hvað gæti leynst í botni óhreinatausins.

Við erum þarna flest en þótt ótrúlegt megi virðast þá eru mjög fáir sem stæra sig á óunnum verkum og frestunaráráttu.

Eini tíminn sem þú virðist geta fengið smá me-time síðustu vikur er ef þú vogar þér í búðina eða læsir þig inná baði… We have all been there og ég held að margir foreldrar sem eru heima allan þennan tíma fara óþarflega oft inn á bað að “pissa“ og fá 2 mínútur til að anda og ná saman fésinu.

Á instagram er mynd af börnum vina þinna lita í friði svo þæg, þú lítur upp og litla fallega blómið þitt er að enda við að klára þetta líka myndarlega listaverk á eldhúsvegginn á meðan þú stendur við eldamennskuna… Þar fór það.

Þú horfir á fjölda fólks sem missir ekki úr svo mikið sem einum degi af heimaæfingum því jú ríkamsrætarstöðvar eru lokaðar, þú afrekaðir að labba út í búð og bera 4 innkaupapoka þrjár götur.

Eftir allar þessar glansmyndir og hashtög á við #Stuðkví og #gamansaman er ekki nema von að við óskum þess að hafa meiri tíma með börnunum og geta skipulagt okkur betur en það, því miður virðist ekki gerlegt að bæta við klukkutímum í sólarhringinn.

Coviskubitið er að éta þig upp

Af hverju er ég ekki að lesa meira, taka til, laga þakið, fara í gönguferðir, hekla, prjóna og sauma?

Af hverju er ég ekki að nýta þennan tíma með börnunum eins og allir aðrir?

Af hverju er ég ekki í stuðkví?

En raunveruleikinn er sá að þú ert með miklum meirihluta fólks í heiminum í dag.

Þú ert í fullri vinnu að heiman ásamt því að sinna:

-Kennarahlutverkinu með hjálp kennara barna þinna

-Tónlistakennslu jafnvel þó þú hafir jafnvel aldrei spilað sjálf/ur á hljóðfæri barnsins

-Íþróttaæfingum með hjálp þjálfara svo barnið missi ekki úr

Þú jafnvel ert að vinna í framlínustarfi og kemur heim eftir langa vakt, þig langar helst bara til að setja tærnar upp í loft og láta þig sökkva í sófann.

Sumir eru að kljást við óvænt atvinnutap því ástandið setti fyrirtækið á hausinn eða varð að gera ríflegann samdrátt.

Sumir eru að kljást við að þurfa að hjúkra ástvinum

Við getum ekki sett okkur öll á sama pall því jafnvel í fullkomnum heimi þar sem allt er eins og það á sér að vera er það ekki raunhæft að miða sig við aðra og líf þeirra. Við komum öll af mismunandi uppruna og öllum mögulegum lífsreynslum.

Við erum öll bara að reyna að komast í gegnum þetta og gerum það öll á okkar hátt. Sumir njóta þess að fara á fullt í framkvæmdi á meðan aðrir njóta þess að fá sér rautt þriðja kvöldið í röð, skella maska í smettið og horfa á Bachelor í lok dags.

Verum ekki að drekkja okkur í coviskubiti eða momshamea/dadshamea aðra. Do your own thing og komum okkur bara í gegnum þetta heil!

Stop the Mom shaming. | Shame quotes

Barn á leiðinni – Hvað þarf ég að eiga?

Nú á ég 2 börn og með annað í ofninum. Ég var búin að steingleyma hvað það var mikill höfuðverkur að hugsa fyrir því hvað væri alveg nauðsynlegt að eiga fyrir barnið og hvað væri í raun bara munaður, svo auðvitað höfum við líka mis mikið pláss undir þann búnað sem þessum elskum fylgir og því þarf að velja hvað sé nauðsynlegra en annað.

Nauðsynjar

Svefnaðstaða – Fyrst af öllu þarftu að hafa eitthvað fyrir barnið að sofa í. Vagga getur verið mjög hentug en hún er alls ekki nauðsynleg og er aðeins notuð í stuttan tíma fyrir utan það að hún getur verið plássfrek ef rýmið er ekki sem mest. Þess vegna kaus ég með fyrsta barn að kaupa bara rimlarúm og nýttist það honum til 3 ára.

Skiptiaðstaða -Nú því næst er alveg must að hafa einhvern þægilegann stað til þess að skipta á barninu, ég var með skiptiborð með bæði mín eldri og mun nýta það sama með þriðja þegar það mætir, en það er ekki svo nauðsynlegt að það sér skipti“borð“ heldur er alveg nóg að hafa bara dýnu sem þú getur haft með þér um alla íbúð, skiptiborðið sem ég hafði fyrir elsta barn í 2 herbergja íbúð var einfaldlega bara fyrir og hefði því alveg mátt vera án. Ég skipti hvort eð er bara á honum mest í rúminu með roptusku undir honum.

Bílstóll – Það er auðvitað nauðsynlegt að eiga bílstól til að ferja þessar gersemar milli staða og þá fyrst frá spítala heim.

Vagn – Vagn er eitthvað sem þú munt nota óspart fyrsta árið og ekki skemmir fyrir að kaupa kerru sem hægt er að skipta milli vagnstykkis og kerru, þannnig endist græjan enn lengur. Þar sem ég ferðaðist ekki neitt rosalega mikið með strákinn á bíl fyrsta árið þá nægði mér að vera með góðan einangraðann vagn og kerrustyrrki en með stelpuna þá keyptum við pakka sem var með vagn- og kerrustykki og millistykki fyrir bílstólinn svo við notuðum í raun bara grindina fyrstu mánuði með bílstólinn.

Brjóstagjafapúði – Hvort sem þú stefnir á að hafa barn á brjósti eða gefa pela þá er gjafapúði einstkalega þægilegur til að auðvelda matartímann. Ekki skemmir það heldur fyrir að þessi púði getur auðveldað þér svefninn á síðustu metrunum líka.

Skiptitaska – Þegar ég segi skiptitaska er ég ekki endilega að benda á að þú þurfir að kaupa þér dýrustu töskuna með 3,764 hólfum sér hönnuðum fyrir hvern hlut fyrir sig. Það nægir alveg að nota góða tösku sem rúmar bleyjur, blautbréf og auka sett af fötum.

Brjóstapumpa – Ég mjólka eins og verðlaunakýr og þurfti með bæði börnin að létta aðeins á á meðan flæðið var að jafna sig (Stálmar eru eitthvað hannað af skrattanum sjálfum) en það auðveldar líka ef þú þarft að fara frá barninu í lengri tíma bæði með því að hægt er að undirbúa það með að mjólka fyrirfram og einnig að létta á á meðan þú ert ekki heima.

Peli og snuð – Ef þú ert að eignast þitt fyrsta barn er engin leið fyrir þig að vita hvernig brjóstagjöfin mun ganga og því alltaf gott að hafa varann á og vera undirbúin því að mjólka kannski ekki of vel. Sömuleiðis þá liggja sum börn bara á brjóstinu til að svala sogþörf og þá er alltaf gott að geta gripið til snuðsins og forðast of örvun á mjólkinni og gefa túttunum smá frí.

Roptuskur/taubleyjur – Ef barnið þitt er eitthvað eins og mitt fyrsta þá mun koma smá (mikið) af mjólkinni upp aftur með ropanum og þá alltaf gott að hafa eitthvað til að grípa það, þessar tuskur nýtast nefnilega líka í svo mikið meira en bara það. Ég keypti stórar til að leggja í rúmið undir höfuð barnsins, ég nota þær stundum við bleyjuskipti og ef þú hefur ekkert annað þá er hægt að nýta þær sem smekk.

Eyrnapinnar – Þú þarft eyrnapinna til að þrífa naflastubbinn þar til hann dettur af, annars er hætt við að sýking komi upp.

Náttgallar með sokkum – Þar sem maður fer skammt fyrstu vikurnar með barnið þá er best að eiga góða náttgalla til að hafa það notalegt í á daginn og líka til að halda litlum tásum hlýjum.

Samfellur – Sokkabuxur – Það er einfaldlega lang þægilegast að hafa barnið í sem fæstum flíkum til að auðvelda lífið.

Teppi – Börnin mín voru hvorug miklar sængurpersónur og spörkuðu þeim fljótlega af sér þegar þau fóru að geta það. Þess vegna notaði ég meira teppi en sæng.

Brjóstahlífar og nipplecream – Algengt er að konur séu lausmjólka og þá sakar ekki að hafa annað hvort púða sem draga í sig mjólkina eða hjálm sem safnar henni saman. Sömuleiðis getur brjóstagjöfin byrjað brösulega eins og hjá svo mörgum konum, ekki spara peninginn í lanolin krem (eða sambærilegt) því sár á geirvörtu eru ekki skemmtileg.

Gjafahaldarar – Ég notaði mest íþróttatopp fyrstu vikurnar með strákinn en guð hvað það er langt um þægilegra að nota gjafahaldara/topp og þeir eru líka góðir þegar venjulegu haldararnir eru hættir að vera þægilegir.

Bleyjur – Grysjur/blautþurrkur – Bossakrem – Eitthvað sem má auðvitað ekki vanta á ungbarnaheimili.

Handspritt – mild handsápa – Þegar börnin eru glæný eru þau mjög móttækileg sýklum og því mikilvægt að halda hreinlæti í góðu standi – sérstaklega þá utan aðkomandi hendur/gestir.

Mælir – Það er nauðsynlegt að eiga góðan rassamæli og stíla ef krílin skyldu grípa einhverja pestina en ef barn undir 3 mánaða fær yfir 38° hita þá skal strax leita til læknis.

Brúsi og létt/einfalt snarl – Þegar þú ert með barn á brjósti er auðvelt að gleyma eða hafa lítinn tíma til að hugsa um að næra sig. Þess vegna er nauðsynlegt að hafa brúsa við hendina og létt snarl eins og ávexti, hnetur og annað í þeim dúr.

Baðbali – Ekki er verra ef hann er á fótum en það léttir baðtímann helling.

Windy – saltvatnslausn – stílar – Windy eru stautar sem notaðir eru til að hjálpa barni að leysa vind. Saltvatnslausn er notuð við stífluðum nebbum og stílar sem hitalækkandi.

Ekki svo nauðsynlegt en eykur þægindi

Ungbarnaróla – Sum börn eru kveisubörn og líður þá oft best þegar þau eru á hreyfingu, þá er rólan einmitt mjög þægileg til að hvíla þreyttar hendur.

Burðarpoki/Burðarsjal – Þetta átti ég ekki með elsta barnið en þetta var hinsvegar himnasending með stelpuna sem vildi helst bara lúlla í fangi á daginn.

Svefnpoki – Ef þú ert ein/n af þeim sem hefur öryggið uppa 100% þá er hægt að kaupa svefnpoka sem börn geta ekki með nokkru móti togað upp fyrir höfuð og kemur það því í veg fyrir köfnunarhættuna sem getur stafað af teppi og sæng á meðan börnin hafa ekki vit á að draga það frá andliti.

Vagga – Þetta er eitt af því sem þarf ekki en er mjög þægilegt að hafa. Vagga er oft eitthvað sem gengur manna á milli í fjölskyldum eða bara eitthvað sem fólk kaupir til að hafa í stofunni á daginn.

Swaddle blanket – Þegar börnin eru í móðurkviði er ekki mikið um pláss undir lokin og líður þeim því best í þrengslum og hlýju. Þess vegna er gott að eiga “vafnings“ teppi en þú getur líka notað hvaða teppi sem er og vafið krílið þétt.

Hengirúm – Þetta er talið eitt það besta sem þú getur látið barnið þitt sofa í.

Matarstóll með ungbarnasæti – Þetta auðveldar matartímann svo mikið fyrir foreldra hvort sem annað barn er til staðar eða ekki. en það er líka hægt að nota bara ömmustól til að hafa krílið hjá ykkur á matmálstíma.

Þetta eru svona þeir hlutir sem best er að eiga áður en barnið mætir en endilega skoðið pistilinn hér eftir Rakel um nauðsynlega hluti fyrsta árið, þar kemur hún inn á hluti sem gott er að eiga þegar þau fara að borða og fleirra.

Ég vil endilega grípa tækifærið og benda á að Co-sleepers, ungbarnahreiður og stuðkanntar eru mjög varasamar vörur og ber að skoða það vel og vandlega áður en ákveðið er að fjárfesta í því. Endilega sendið fyrirspurnir á miðstöð slysavarna barna ef eitthvað virðist óljóst og þið ekki viss hvaða vörur eru öruggar fyrir gersemarnar ykkar.

Morgunógleði – Ráð

 1. Fáðu þér snarl í rúminu. Þar sem blóðsykurinn er mjög lágur fyrst á morgnana er gott að hafa þurrt kex, hafrakex eða tekex, við rúmið til að narta í um leið og þú vaknar, ritz kex eða saltstangir eru einnog mjög góðar. Ekki verra ef þú getyur leyft þér að vera dekurrófa og makinn færir þér morgunverð í rúmið.
 2. Borðaðu oft en lítið í einu og aldrei verða svöng. Þú hefur sennilega enga matarlyst, en að svelta er það versta sem þú getur gert því þá líður þér enn verr. Með því að borða á nokkra tíma fresti, heldurður blóðsykrinum í jafnvægi . Það er betra að borða 5 litlar máltíðir á dag, heldur en 3 stórar.
 3. Fáðu þér engifer og sítrónu. Prufaðu að setja nokkra sítrónusneiðar, eða kreista sítrónusafa út í heitt vatn og bragðbæta með hunangi. Engifer dregur úr ógleði og uppköstum. Prufaðu að narta í engiferkökur, eða setja sneiðar af ferskum engifer í heitt vatn í fimm mínútur, síaðu það og bragðbættu með hunangi. Einnig er hægt að kaupa engifer og sítrónu brjóstsykur frá Hap+ í apótekum og brjóstsykur sem heitir preggiepops.
 4. Kolvetni. Gakktu úr skugga um að hver máltíð innihaldi kolvetnaríka fæðu svo sem, bakaðar kartöflur, hrísgrjón, pasta og brauð. Þetta er fæða sem brennur hægt og blóðsykurinn fellur síður, þá minnkar fæðan líkur á ógleði. Þetta er líka frekar hlutlaus matur og ætti að fara vel í maga. Forðastu mjög bragðsterka fæðu og mikla matarlykt ef þú getur meðan þér er óglatt.
 5. Taktu góðan göngutúr og gakktu rösklega. Þú ert kannski ekki í skapi til að fara í leikfimi, en hófleg hreyfing slær oft á ógleðina.
 6. Dreyptu á vökva. Gættu þess að hafa eitthvað við hendina til að dreypa á yfir daginn. Sumum konum finnst sódavatn róa magann. Forðastu drykki með koffeini svo sem kaffi og te, það er líklegt að þú hafir misst lyst á þeim hvort eð er. Ef þu eins og ég átt erfitt með að drekka vatn eða sódavatn þá er gott að dreypa á Poweraid eða Gatoraid til þess að forðast vökvatap. Annars er klakavatn líka mjög þægilegt eða MJÖG kalt vatn allavega.
 7. Hvíld! Næst á eftir tómum maga, er þreyta versti óvinur þinn, þannig að þú skalt taka því rólega ef hægt er. Ef þú ert útivinnandi, skaltu leggja þig þegar þú kemur heim og fara snemma að sofa á kvöldin. Ef þú átt börn, reyndu að leggja þig með þeim á daginn séu þau á þeim aldri. Farðu í róandi bað með nokkrum dropum af lavender-,kamillu- eða engifer olíu.
 8. Notaðu punktanudd. Prufaðu að þrýsta innan á únliðinn í smá stund. Það er líka hægt að kaupa úliðsband í apótekum sem er ætlað gegn bílveiki. Nálastungur og svæðanudd geta líka virkað ágætlega gegn ógleði.
 9. Salthnetur eða hnetusmjör er mjög gott og stútfullt af próteinum.

Brjóstagjöf – allt eða ekkert, hverjum er ekki sama.

Brjóstagjöf er mjög stórt ágreiningsmál og hefur verið í fjölda ára!

En nú hefur þróunin á mjólkurformúlu ná þeim stað að það er mjög lítill munur á næringarinnihaldi og meira að segja er hægt að segja að formúlan er áreiðanlegri því þú veist alltaf hversu mikla næringu barnið er að fá. Brjóstabörn fá aðeins þá næringu sem móðir innbyrgir og nær til móðurmjólkur.

Nú hef ég átt tvö börn og brjóstagjafir aldrei verið vesen hér, þrátt fyrir að brjóstagjöfin hafi gengið vonum framar með Alparós þá tókum við Ási meðvitaða ákvörðun um að venja hana á pela samhliða móðurmjólkinni um 4 mánaða til að minnka álagið á mér. Þessa leið var möguleiki á að skipta næturgjöfunum svo ég fengi betri hvíld. Ég sé sko ekki eftir þeirri ákvörðun í sekúndu!

Sumar konur mjólka vel, aðrar illa. Sumar kjósa að leggja ekki á sig álagið við brjóstagjöf því sama hvernig mjólkun gengur þá er það alltaf meira álag á móður ef barnið vakir mikið á nóttunni. Sumar konur mjólka helling en næringin kemur ekki til skila… Sama hver ástæðan er þá vita foreldrar vel hvað sínu barni er fyrir bestu og gera það auðvitað sem best er fyrir þetta dýrmæta líf sem þeim tókst að búa til.

Elsku fólk gerið það fyrir mig að dæma ekki nýbakaða foreldra fyrir þær ákvarðanir sem þau kjósa að taka fyrir kraftaverkið sem þau bera nú ábyrgð á, foreldrahlutverkið er nógu erfitt til að ná tökum á til að harðir dómar fari ekki að falla á þau. Hvað þá yfir hlutum sem þau oftar en ekki hafa enga stjórn á.