Við gerðum upp íbúðina okkar

Í febrúar á þessu ári fjárfestum við í íbúð hér í Hveragerði. Við höfðum stuttu áður gert upp íbúð sem við áttum á Akureyri og hafði ekkert verið í frábæru standi en síðan skemmd af leigjanda.

Við þurftum að reyna að kaupa sem ódýrast og búa okkur til pening í eigninni með því að gera hana upp. Núna í júní settum við síðan á sölu og var eignin seld á sólarhring. Við erum búin að festa okkur annað húsnæði og því stutt í næsta ævintýri.

Við breyttum ýmsu í íbúðinni, skiptum um gólfefni, máluðum, færðum og skiptum um eldhús, lökkuðum alla gluggakarma, skiptum um slökkvara og innstungur, skiptum um skáp í forstofu og filmuðum fataskápa í svefnherbergjum.

Það var virkilega gaman að gera íbúðina upp, spá og skipuleggja framkvæmdir og síðan að vinna vinnuna. Við vorum einstaklega heppin með fólkið sem hjálpaði okkur en við fengum mikla aðstoð frá nokkrum af okkar nánasta fólki. Móðir mín er innanhússtílisti, systir mín að læra arkitektúr og pabbi minn er mikill alt muligt maður – ég sver pabbi kann allt eða svona nokkurn veginn, bróðir minn ætlar að verða lítill lærlingur pabba og duglegur að hjálpa til líka.

Það er frábært að eiga móður og systur sem hafa svona mikinn áhuga á því hvernig hlutirnir líta út og eru gerðir, þó svo að ég hafi nú samt fengið helling um hlutina að segja líka enda þrátt fyrir að vera með svipaðan stíl erum við ekki alltaf sammála. Jósef á síðan vin sem er lærður smiður og hann hjálpaði helling til líka. Mest vinnan var gerð á tæpum mánuði áður en að við fluttum inn og rest var gerð á stuttum tíma, enda ekki nema fjórir mánuðir síðan að við fengum afhent hér.

Eldhús

Búið var að breyta eldhúsinu í svefnherbergi og færa eldhúsið í stofuna. Við ákváðum að innsta herbergi hússins yrði að eldhúsi en þetta er þó ekki upprunalega eldhús hússins, það var í miðjunni og okkur fannst þetta meika meiri sense.

Herbergið er málað með salthvítum á veggjunum, gluggar lakkaðir hvítir með Blæ, fataskápurinn tekinn út, parketlagt og sett upp eldhús innrétting. Okkur fannst passa betur að opna eldhúsið aðeins en það var ekki hægt að taka vegginn í heild niður þannig að hurðin var fjarlægð, veggurinn fyrir ofan og við hliðina á hurðinni beggja vegna við.

Innréttingin er öll frá IKEA, upprunalega stóð til að reyna að nýta þá innréttingu sem var til staðar en hún var verulega illa farin og ekki nothæf, enda líka gömul innrétting og ekki hægt að bæta við hana enda eldri innrétting sem ekki er lengur í framleiðslu í þeim stærðum.

Eyjan er gerð úr efri skápum og borðplötu sagaðri til og sett utan um. Til þess að fá heildina til þess að vera hvíta var filmað þar sem sést innanverð borðplatan á eyjunni og fest hvít plata aftan á skápana.

Við áttum ekki mikið í framkvæmdasjóð og reyndum að gera hlutina ekki óþarflega dýra, hér þurfti því að velja og hafna svolítið en við erum ótrúlega ánægð með loka útkomuna. Ljósin eru gömul IKEA, ekki framleidd lengur og var annað þeirra í öðru herbergi áður og hitt fundum við í geymslunni. Við vorum heppin að einn af þeim ofnum sem passaði okkar fjárhagsáætlun var hvítur en það gerir mikið fyrir rýmið að hann skuli vera hvítur. Stálvaskurinn er án vaskaborðs og þar af leiðandi ódýrari en vaskaborðið hefði að öllum líkindum ekki litið vel út miðað við rýmið, auk þess sem það tekur af borðplássinu.

Núna í dag er búið að setja hvíta plötu aftan á eyjuna en það er eitthvað sem þurfti að smíða þar sem að IKEA framleiðir ekki fronta á 80×80 efri skápa, einungis stærst 80×60.

Barnaherbergi

Í herbergi barnanna var fremur lítið gert, gluggar lakkaðir, ljósakrónan tekin niður, málaðir veggir, parketlagt og filmaður fataskápur. Við ákváðum að hafa herbergið frekar einfalt enda svefnherbergi barnanna og við vildum nóg pláss til þess að hægt væri að leika sér.

Fataskápinn er búið að filma hvítan í heild núna, þó það hafi ekki verið á myndunum. Kommóðan hefur að geyma allt dót, föt og annað tengt börnunum. Fataskápurinn er fremur lítill og er að hluta til notaður undir geymslu og sem fataskápur Jósefs. Skápapláss í íbúðinni er kannski ekkert svakalegt en við þurftum ekki meira, upprunalega hugmyndin var að skipta um skápa en aftur þurfti að velja og hafna, þessir eru sérsmíðaðir og bara það að filma gerði helling, í raun svo mikið að eftir eina pabbahelgina dregur Maríus mig á milli herbergja að sýna mér nýju fínu fataskápana okkar.

Fjólublái liturinn á veggnum heitir Einiber frá Grojo. Draumur stráksins míns var að fá fjólubláan vegg í herbergið sitt og hann er jafnvel enn ánægðari með það núna hve dökkur liturinn er þar sem að hann virðist sjá brúnan tón í honum en það er nýji uppáhalds liturinn.

Mikið af því skrauti sem á veggjunum er hérna og legubekkurinn í stofunni eru dæmi um hluti sem að við fengum að láni frá foreldrum mínum. Það er að miklu leyti stráknum mínum að þakka enda smekkmaður með meiru og setti það sem skilyrði fyrir ömmu sinni að fá nokkra hluti með sér í láni, svona fyrst hann þurfti að flytja frá þeim.

Hjónaherbergi

Þetta herbergi er það sem upprunalega er eldhús sem skýrir fjölda röra en tengja þurfti vatn og annað frá þessu herbergi og inn í eldhúsið sem núna er eldhús.

Við fjarlægðum hillur og snaga, færðum og filmuðum fatskápinn sem var í núverandi eldhúsi hingað, parketlögðum, skiptum um rofa og innstungur. Glugginn var lakkaður líkt og annars staðar í húsinu og settur var framan á gluggakistuna plast til þess að jafna hana en hún hafði einhverra hluta vegna verið skorin af að hluta og fremur illa gert.

Liturinn á veggnum hér er Forest Green frá Grojo.

Á þessar myndir vantar yfirbyggingu yfir rör og parketlista en það náðist ekki fyrir myndun.

Stofa

Stofan og forstofan eru máluð með málarahvítum. Við fengum málningu að gjöf sem við nýttum á þessi rými þar sem að það magn af salthvítum sem við keyptum dugði ekki á alla veggi íbúðarinnar.

Þetta er það eldhús sem fyrir var í íbúðinni, innréttingin og tækin voru ónýt vegna lélegrar umhirðu en gaman er að segja frá því að þetta litla eldhússkot er upprunalega þegar byggt var eða amk. á einhverjum tímapunkti salerni. Húsið var nefnilega á einum tíma gistiheimili og við drógum þá ályktun að stofan sem er frekar löng hafi verið gangur, þetta meikar mikinn sense miðað við hve spes veggirnir eru í kringum þetta rými en mikið er um litla bita úr loftinu.

Hér sést betur veggurinn sem við tókum að hluta í burtu til þess að opna aðeins betur inn í eldhúsið.

Þetta rými máluðum við, fjarlægðum eldhúsið, parketlögðum, lökkuðum gluggakarma og svalahurð auk þess að skipta um slökkvara og innstungur.

Forstofa og hol

Forstofan var máluð, skipt um slökkvara og innstungur, parketlagt, fataskápurinn tekinn í burtu og settur hvítur fataskápur sem nær hærra upp, þó ekki alla leið til hliðar en hluti af því þar sem sláin er, er í dag autt pláss fyrir kerru eða snaga t.d.

Við tókum ekki mynd þar sem sást í ósköp einfalda PAX fataskápinn frá IKEA þar sem að á þeim tíma sem myndirnar voru teknar voru hurðarnar uppseldar. Jú hurðarnar ætluðum við að kaupa rétt eftir mesta covid tímabilið hér á landi og líkt og þeir sem að þurftu að standa í framkvæmdum eftir það tímabil vita reyndist erfitt að fá hina ýmsu hluti í IKEA þá.

Baðherbergi

Við máluðum baðherbergið með frystihúsamálningu, skiptum um blöndunartæki á vask og í sturtu, skiptum um sturtuhengi í hvítt bómullarhengi og settum upp stálstöng. Tókum síðan spegilinn, ljósið og hilluna sem var fyrir ofan vaskinn og settum upp speglaskáp með ljósi í staðinn. Skipt var um klósettrellustöng, handklæðasnaga og settur upp klósettbursti á vegginn, auk þess var skipt um slökkvara, innstungu og viftu í lofti. Plaströrið undir vaskinum var síðan málað í sama lit og veggurinn til þess að það stæði ekki jafn mikið út úr.

Á þessum myndum sést vel munurinn á þeim hvíta lit sem var fyrir á íbúðinni og salthvíta sem er á herbergjunum. Hvíti liturinn á fyrri myndinni er fremur gulleitur en salthvíti mun hvítari.

Þvottahús

Við gerðum í raun ekki mikið fyrir þvottahúsið. Við máluðum með frystihúsamálningu, skiptum um og færðum hillu auk þess sem við settum upp þurrkgrind. Ég mæli ekki beint með þurrkgrindinni, hún nýtist okkur best til þess að þurrka það sem er á herðatré. Ef við byggjum hér áfram væri þetta það rými sem ég hefði viljað breyta meira seinna meir.

Allar myndirnar í færslunni tilheyra fasteignasölunni Byr. Ég fékk góðfúslegt leyfi eiganda fasteignasölunnar til þess að nota þær, enda eru þær eign fasteignasölunnar.

Þangað til næst

Jólin mín byrja í … Hertex

Ég kíkti á dögunum í Hertex, Vínlandsleið til þess að skoða jóladót. Ef að ykkur „vantar“ eitthvað fyrir þessi jólin mæli ég með því að kíkja á hina ýmsu nytjamarkaði fyrst og athuga hvort að það sé fáanlegt þar. Ég fór í þeim tilgangi að ná mér í efnivið fyrir margnota jólagjafa“pappír“ og skoða hvort ég fyndi mögulega eitthvað í jólapakka….Ég fann ýmislegt flott en ég þurfti ekki mikið þar sem ég kem enn til með að búa hjá mömmu og pabba um jólin, ég á þó ekki mikið jólaskraut og þegar kemur að því að versla mér jólatré og eitthvað smá meira skraut fer ég klárlega aftur í Hertex til þess.

Það sem ég verslaði kostaði mig 2300 krónur í heildina, en þetta eru: 2 púðaver og viskastykki sem að ég ætla að nýta í gjafa“pappír“, 3 smákökubox sem ég ætla að nota í jólagjafir, 4 smákökumót, pakki með 12 litlum smákökumótum, bangsi til upphengingar og jólasvein á tréð.

Við þurfum að huga að neysluminni jólahöldum og að versla notað er góð byrjun, leita fyrst að því sem vantar á hinum ýmsu nytjamörkuðum og kannski líka að spá vel í það hvort þetta sé kannski tilbúin þörf? (jólagjafir sem hafa verið keyptar á nytjamörkuðum eru  einnig engu síðri en ég er búin að versla nokkrar bæði í Hertex, Barnaloppunni og Extraloppunni til dæmis)

Þangað til næst Irpa Fönn

Takk elsku líkami

Ég er alveg einstaklega þakklát og stolt af líkamanum mínum, líkt og við ættum öll að vera. Spáið aðeins í því hversu magnaður hann er…


Á síðustu tvem og hálfu ári hef ég gengið tvö börn. Ég er með slappa húð á maganum og brjóstunum, nóg af aukakílóum (skv. BMI staðli) og feikinóg af slitum svo eitthvað sé nefnt. Þetta er að sjálfsögðu ekki einu skiptin sem hann hefur gengið í gegnum eitthvað því jú ég hef gengið í gegnum allskonar líkamlegar breytingar á mínu æviskeiði líkt og við öll svo að sjálfsögðu hafa orðið breytingar, þó barneignirnar hafi án efa leitt af sér drastískustu breytingarnar.

Það koma að sjálfsögðu tímabil og dagar inn á milli þar sem að ég er ótrúlega sár yfir lausu húðinni á maganum mínum sem lafir, eftir að hafa fætt Maríus þá hefur mér ekki tekist að losna við hana (það er svona þegar bumban birtist á innan við mánuði frá engu yfir í að springa utan af 20 marka barni)

Ég á svolítið erfitt með að horfa á mig í speglinum suma daga, mér finnst ég einhvernveginn ekki vera ég, ég er svo allt öðruvísi en fyrir ári síðan (halló eðlilega samt ég var að eignast barn).

Mér fannst ég svo hryllileg fyrir ári síðan, alltof þykk og árangurinn af ræktarstandinu sást ekki nóg. Í dag er það formið sem ég nota sem viðmið því í dag sé ég hvað ég var flott.

Kannist þið ekki við að hugsa stundum „ég vil verða grennri“, „ég vil vera meira svona eins og hún eða hann“, „ég vil vera með stærri/minni rass/brjóst/læri/maga/hendur/fætur“, „ég vildi að ég væri með krullur“, „afhverju er ég ekki bara með slétt hár“ o.s.frv. en svo á einhverjum tímapunkti síðar horfa á mynd síðan á því tímabili og hugsa „ég skil ekki hvað ég var að hugsa með þessum órum mínum um annað“ Það er ég núna þegar ég hugsa til baka.


Þegar ég var yngri gerði ég æfingar sem áttu að minnka líkurnar á ennishrukkum og fór að gráta yfir stærðinni á lærunum mínum…ég var 10 ára, hversu klikkað er það.

Í dag veit ég þó að það er mikilvægt að vera þakklátur fyrir hverja hrukku, hvert grátt hár, slitin, slöppu húðina, örin og allt hitt. Þetta þýðir einfaldlega að ég er að eldast og lifa lífinu, þetta eru ummerki því til sönnunar og minningar um liðnar stundir.

Það eru forréttindi að eldast, það eru forréttindi að geta eignast börn, það eru forréttindi að … ég gæti talið endalaust upp en þú nærð þessu, svo takk, takk kæri líkami fyrir það að standa með mér í gegnum þykkt og þunnt, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og gerir og takk fyrir allar liðnar stundir, ég vona svo innilega að þær verði miklu fleiri!


Þið hafið kannski tekið eftir myndunum hérna í gegnum færsluna, þetta er ég á 2,5 ári, mér hefur fundist eitthvað að mér á þeim flestöllum en um daginn setti ég þær allar saman og hugsaði „nei andskotinn þetta er magnað! Líkaminn minn er magnaður og hann á skilið að ég sé þakklát fyrir hann og átti mig á því að þetta er ekkert spretthlaup, þetta er langhlaup og við erum öll sífellt að breytast, það er partur af lífinu – ég get ekki beðið eftir að sjá hvernig ég verð eftir ár“

Ég vona að þið séuð sammála mér hve magnaður líkaminn er og langar að biðja ykkur öll að staldra stundum við og þakka honum fyrir allt það magnaða starf sem hann vinnur.

Þangað til næst

Irpa Fönn

(Insta: irpafonn)

Á óskalistanum – október

Mig langaði til þess að deila með ykkur hvað er á óskalistanum hjá mér um þessar mundir fyrir börnin en hér er bland af leikföngum, fatnaði, „nauðsynjavörum“ og slíku. Ég læt fylgja tengla á heimasíður þar sem þeir hlutir sem eru á mínum lista fást, vert er þó að taka fram að færslan er ekki unnin í neinu samstarfi.

Vonandi hafið þið gaman að:

 1. Sparibaukur – Plantoys
 2. Þrifsett (leikfang) – Plantoys
 3. Bambus sett fyrir Maríus – minilist.is
 4. Bambus samfellukjóll fyrir Marín – minilist.is
 5. Gersemi – mosibutik.is (í samstarfi við Kristín Maríellu og Birtu Ísoldsdóttur)
 6. Hylur – valhneta.is
 7. Taubleyjur, Konges Sløjdpetit.is
 8. Jóladagatal, Design letters – epal.is
 9. Grisjubox IKEA

Þangað til næst

Irpa Fönn

Skírn 15.09.

Sunnudaginn 15. september klukkan 15.15 var dóttir mín, Marín Blær skírð. Athöfnin fór fram í kirkju Óháða safnaðarins og var að athöfninni lokinni var boðið upp á kaffi og veitingar í safnaðarheimilinu.

Ég fékk rosalega mikið af frábærri hjálp enda var skírnin þrem dögum eftir keisarann og ég ekki alveg í besta forminu og þá er svo gott að eiga góða að. Þá sérstaklega þar sem að athöfnin var í safnaðarheimilinu og verið var að breyta og bæta neðri hæðina og eldhúsið þannig að við þurftum að koma með allt með okkur, diska, bolla, upppáhelligræjur og svo framvegis…

skírn1skírn2

Nafnið

Stelpan fékk nafnið Marín Blær og hef ég nokkrum sinnum fengið spurningu út í nafnið þar sem að það er frekar líkt Maríusi Blæ, stráknum mínum. Blær var alltaf gefið þar sem að ég var fyrir löngu búin að ákveða að börnin mín myndu heita Blær, ég sjálf átti að vera Irpa Blær en það var áður en það mátti því er ég Fönn en hef alltaf verið svo hrifin af Blær nafninu. Marín er síðan eina stelpunafnið sem við pabbi hennar gátum verið sammála um öll önnur nöfn sem hann stakk upp á fannst mér bara alls ekki málið og það sama á við um hann og þau nöfn sem ég stakk upp á, að nafnið byrjaði á M var því ekki endilega eitthvað sem við vorum að miða við og tilviljun ein hve líkt það varð. Fyrir áhugasama heitir Maríus því nafni svo vegna þess að langamma mín kom til mín í draumi í byrjun meðgöngu og nefndi það við mig, það var svo bara fast.

Veitingar

Veitingarnar sem boðið var upp á voru:

 • skírnarkakan, amma Maríusar er snillingur í bakstri og bakaði rosa fallega köku fyrir okkur, þetta var súkkulaðikaka með hvítu hindberjakremi og sykurmassa
 • rúlluterta
 • túnfisksalat
 • bollakökur með daim-kurli og karamellusósu
 • döðlugott með og án lakkrís
 • makrónur
 • mygluostar og með því (hráskinka, vínber, jarðaber, salami, bláber, maltesers, ólífur sulta, ritz og þurrkaðar pylsur
 • smáborgarar
 • kjúklingur á spjóti
 • bruschetta með grænu pestó, brie, salami og basiliku

skírn4skírn5

skírn6

Skreytingar

Ég ætlaði að hafa blómaþema og allskonar skreytingar en þar sem dagsetningin á skírninni var ákveðin með rétt rúmlega viku fyrirvara og svona stutt frá keisara varð þetta aðeins öðruvísi en kom að mínu mati mjög vel út

Ég á fullt af skrauti sem ég nota aftur og aftur, pom-pomin í gluggunum notaði ég til dæmis fyrst í skírn Maríusar og síðan öllum mínum veisluhöldum síðan þá, þau ásamt confetti-inu, eru úr Söstrene grene. Kertastjakarnir á borðunum eru Nagel/Stoff, Hvítu dúkarnir á borðunum eru leigðir frá Efnalauginni Björg í Mjódd.

skírn3

Gestabókin

Ég var með polaroid filmumyndavél og bað fólk að taka mynd af sér og kvitta síðan hjá myndinni í bók, hvort sem var með nafni eða kveðju og nafni. Ótrúlega skemmtilegt og persónulegt að sjá ekki bara einhver nöfn heldur tengja þau við manneskjur. Ég gerði þetta líka í skírninni hans Maríusar og notaði sömu bók, gaman fyrir gestina líka að skoða myndirnar síðan þá ef þeir voru í báðum veislum.

skírn7

Þangað til næst

Irpa Fönn

Barnaherbergið

Eins og er búum við fjölskyldan inn á foreldrum mínum, öll fjögur saman á tæplega 20 fermetra svæði. Við erum ekki bara heppin að eiga kost á því að vera hjá þeim núna þegar við þurftum á því að halda heldur er móðir mín einnig snillingur þegar kemur að stíliseringu en hún er meðal annars menntaður innanhússstílisti. Foreldrar mínir tóku sig til og græjuðu „svefnherbergin“ tvö rétt áður en við fluttum inn sem var ótrúlega notalegt þar sem ég var þá gengin rétt rúmlega 37 vikur.

Það hefur gengið vel að koma okkur fyrir hérna og ég er rosalega ánægð með útkomuna á herbergjunum. Maríus er í rauninni inni í forstofunni hérna en þar sem að þær eru tvær gekk það upp og við foreldrarnir erum í herberginu inn af forstofunni ásamt Marín í litla horninu sínu.

Hér er hornið hennar Marínar, frekar lítið og lítið í því enda þarf ekkert mikið meira. Hún sefur í einu horninu á herberginu okkar en það er lítið annað í þessu herbergi annað en rúmin enda ekki pláss fyrir mikið meira, ég sýni ykkur kannski allt herbergið þegar það er fullklárað.

Í horninu hennar er rúmið hennar þar sem hún sefur í hengirúminu sínu en þið getið lesið um það hér, himnasæng, kanínuhaus, skiptidýnan og taupokinn sem við geymum koddana og rúmteppið okkar í á næturnar. Fatnaðurinn hennar geymist í fataskápum inni hjá Maríusi sem við deilum öll fjögur saman. Dótið sem hún er ekki byrjuð að nota geymist svo í öðrum skáp sem einnig er inni hjá Maríusi og er nýttur undir það, bækur og aðra pappíra, lærdómsdót og annað slíkt. Teppið sem sést í á gólfinu er stór gólfmotta úr IKEA sem notað var til þess að „teppaleggja“ herbergið og kemur það mjög vel út að mínu mati.

Hér gefur að líta svefnaðstöðuna í herberginu hans Maríusar. Undir rúminu hans er kassi með leikföngunum sem ekki eru við hlið þess eða í eldhúsinu hans. Þarna á bakvið gluggatjöldin er í raun útidyrahurðin og eru gluggatjöldin til þess að fela hana. Teppið á gólfinu gerir svo herbergið aðeins hlýlegra en gólfefnið hjá mömmu og pabba er flot.

bh4

bh1

 

Við erum á því að dótið eigi ekki bara heima inni í herbergi og einungis megi leika þar og var því tilvalið að geyma dóta–eldhúsið hans við endann á eldhúsinnréttingunni frammi. Honum finnst æðislega gaman að elda í sínu eldhúsi og ef ég er að elda er hann yfirleitt þar að græja eitthvað.

 

 

 

 

 

 

Þangað til næst

Irpa Fönn

Hengirúm fyrir ungabörn

Þegar að ég var ólétt af Maríusi gaf mamma mín mér gjöf. Þetta var vara sem að hún hafði rekist á í 68827192_740890099702217_4180256553544187904_n (1)verslun og fannst verulega sniðug. Ég skoðaði það mikið og fyrir utan það að mér fannst þetta verulega krúttlegt komst ég að þeirri niðurstöðu að þetta væri einnig verulega sniðug vara. Varan sem um ræðir er hengirúm fyrir ungabörn.

Ég notaði hengirúmið fyrir Maríus og líkt og allt annað losaði mig við það eftir að ég hætti að nota það. Þetta var síðan eitt af því fyrsta sem ég útvegaði mér núna þegar ég komst að því að ég væri ólétt aftur, þar sem það skipti mig miklu að nota það aftur. Ástæðurnar fyrir því að mér finnst þetta sniðug vara eru ýmsar og ætla ég að fara yfir þær að helstu leyti hér;

 • Hengirúmið veitir réttan stuðning við bak krílisins sem stuðlar að heilbrigðum þroska hryggjarins.
 • Þyngd barnsins dreifist jafnt í hengirúminu sem minnkar álag á vöðva og liði barnsins og minnkar því líkurnar á flötu höfði vegna legu til muna
 • Líkt og vitað er líður ungabörnum verulega vel í fósturstöðu enda vön því að vera kuðluð saman eftir 9 mánuði í móðurkviði. Hengirúmið líkir vel eftir því auk þess sem að tilfinningin sem barnið fær við legu í hengirúminu líkir eftir tilfinningu sem minnir á fjöðrun og flot sem það upplifir í móðurkviðnum.69267639_520649722013898_4861936995212984320_n (1)
 • Hengirúminu er hægt að halda á nokkurri hreyfingu og rugga sem veitir mörgum börnum ákveðna öryggistilfinningu, rannsóknir hafa þannig leitt í ljós að hengirúmið hentar einstaklega vel fyrir fyrirbura og börn sem að eiga erfitt með að festa svefn.
 • Þar sem að barnið sefur með höfuðið aðeins ofar minnkar legan í hengirúminu líkurnar á magakrömpum og bakflæði.
 • Barnið getur ekki snúið sér yfir á magann og sefur því örugglega á bakinu.
 • Auðvelt er að rugga barninu aftur í svefn ef það rumskar, ekki þarf mikið til þess að
 • Hengirúmið er úr 100% bómull en það skiptir mig miklu máli að efnin sem barnið klæðist og/eða notar sé eins náttúrulegt og hægt er, sérstaklega fyrst um sinn

Það er því ljóst að ansi margir jákvæðir kostir eru við hengirúm fyrir ungabörn. Hengirúmið sem að ég notaði með Maríusi og kem til með að nota núna komu bæði frá sama framleiðanda, Peppa. Þau eru eftir því sem ég kemst næst þó ekki lengur í sölu en verslunin Tvö líf selur þó hengirúm og ég læt tengil á þau fylgja með, hér. 68777494_713227572490231_4517737598852005888_n (1)

Þess ber þó að geta að EKKI er um auglýsingu að ræða. Ástæða þess að ég set með tengil er vegna þess að núna í þetta skiptið tók það mig ansi langan tíma að finna stað sem að selur hengirúmin en fyrra hengirúmið mitt kom frá Tvö líf og síðara pantaði ég á netinu,

Þangað til næst!

Irpa Fönn

Breytingar á döfinnii

Síðustu mánaðarmót tók líf okkar litlu fjölskyldunnar ansi krappa u-beygju og er ýmislegt að breytast á næstunni. Það eru 8 vikur í settan fæðingardag hjá mér og það eru 6 vikur í næstu flutninga! Eins og það sé ekki nóg að vera að flytja svona rétt fyrir fæðingu erum við líka að flytja í nýtt sveitarfélag (úr miðbænum og í Hveragerði) og aftur inn til mömmu og pabba, þar sem við komum til með að deila herbergi öll fjögur saman og komum við því til með að pakka öllu okkar í kassa í bili. Við erum ótrúlega þakklát fyrir að það sé hægt og rosalega heppin með það að geta flutt þangað jafnvel þó svo að það verði þröngt um okkur.

Hér má sjá herbergið okkar fína, gólfið er nýsteypt og þarf steypan að þorna næstu vikurnar. Það er smá hol fyrir framan sem við fáum afnot af líka fyrir Maríus að sofa og þar eru fataskápar.

Hér sést holið en akkúrat núna er það fullt af dóterí sem að vísu tilheyrir okkur, þarna er parket, gólflistar, eldhúsinnrétting ósamsett og ýmislegt fleira. Ástæðan fyrir þessum breytingum er nefnilega sú að við eigum íbúð á Akureyri sem við þurfum skyndilega að gera upp…að nánast öllu leyti.

Við fengum óvænt þær fréttir 1. júlí að leigjandinn í þeirri íbúð væri fluttur út og þegar að í íbúðina kom sem hafði verið í útleigu síðastliðin 3 ár var ansi lítið í lagi þar. Við ætlum okkur að setja íbúðina á sölu en áður en að við gerum það ætlum við að: spasla í göt, mála, skipta um eldhúsinnréttingu, skipta um fataskápa, skipta um klósett, setja blöndunartæki í sturtuna inn á baði, parketleggja og svo margt fleira. Það er því nóg að gera!

Ég kem til með að sýna ykkur fyrir og eftir myndir af framkvæmdunum þar þegar að það byrjar af alvöru en næstu helgi stendur til að byrja að rífa þaðan það sem ónýtt er.

Þangað til næst

Irpa Fönn

Húsverk sem hæfa 2 til 12 ára plús

 

Ég er ein þeirra sem er á því að börn og krakkar ættu að taka þátt í verkefnum heimilisins eins mikið og hægt er. Fyrir því eru nokkrar ástæður; það undirbýr þau betur fyrir framtíðina, þau læra frekar að meta það sem gert er fyrir þau, þeim finnst gaman að vera með og taka þátt.

Minn 2 ára guttitiltekt4 alveg elskar að þrífa og taka til með mér! Jafnvel þó svo að stundum taki það þá kannski aðeins meiri tíma en ella þá er þetta líka rosalega skemmtileg samverustund og ég finn það að hann sækist líka í þetta einmitt vegna þess, ég er frekar upptekin að eðlisfari, hef minni tíma oft en ég hefði viljað í að gera eitthvað með honum en það gleymist svo oft að litlu hlutirnir telja rosalega hratt og þessi samvera skiptir okkur bæði miklu máli.

Mér finnst ég oft sjá umræður um það hvað sé eiginlega viðeigandi fyrir börn á hinum og þessum aldri og ákvað því að gera lista yfir það hvað börn á nokkrum aldursbilum ráða sirka við, að sjálfsögðu ekki alveg tæmandi þó.

2 – 3 ára

 • Ganga frá leikföngum og bókum eftir sig
 • Henda í ruslatunnuna/endurvinnsluna
 • Setja í óhreina tauið
 • Þurrka af auðveldum stöðum
 • Hjálpa við að taka úr uppþvottavél
 • Ganga frá hreinum þvotti – með aðstoð
 • Brjóta saman tuskur, viskastykki og þess lags
 • Ákveða föt fyrir daginn
 • Vökva plöntur
 • Tekið úr innkaupapokum
 • Sett í þvottavélinatiltekt1

4 – 6 ára

 • Allt sem á undan fer
 • Gefa dýrunum að borða
 • Tekið af rúminu sínu
 • Gengið frá þvotti óstudd
 • Lagt á borð
 • Parað og brotið saman sokka
 • Búið um rúmið
 • Þrifið eldhúsborðið
 • Sópað

7 – 11 ára

 • Allt sem á undan fer
 • Ryksugað
 • Hengt upp úr þvottavél
 • Gengið frá eftir matinn
 • Brotið saman þvott
 • Farið út með ruslið/endurvinnsluna
 • Hjálpað til með undirbúning á mat t.d. útbúið salat
 • Þrifið spegla
 • Reytt arfa

12 ára og eldritiltekt2

 • Allt sem á undan fer
 • Slegið garðinn
 • Passað yngri systkini
 • Hjálpað með heimanám yngri systkina
 • Þrifið baðherbergið, þ.e. vask, klósett og sturtu
 • Skúrað
 • Séð um þvott
 • Þrifið ísskápinn

 

Þangað til næst

Irpa Fönn

Hvers vegna ég kem ekki til með að gefa brjóst …

Þegar ég átti Maríus endaði ég í bráðakeisara, ég hafði lítið sem ekkert kynnt mér keisaraaðgerð þar sem það hræddi mig gífurlega og ég bara ÆTLAÐI að eignast hann „eðlilega“. Þetta gerðist allt frekar hratt eftir að mér var sagt að ég hefði ekki annarra kosta völ, aðgerðin útskýrð stuttlega og svo bara beint inn á skurðstofu.

Þegar að ég kom inn á herbergi eftir aðgerðina hélt barnsfaðir minn á Maríusi í fanginu og ljósmóðirin kom til þess að vigta hann og mæla. Eftir það var mér rétt Maríus og beðin um að prófa að setja hann á brjóstið. Ljósmóðirin hjálpaði mér við það og hann tók brjóstið strax.

Ég veitti því enga sérstaka athygli hvernig hún fór að því að leggja hann á, ég var ennþá að jafna mig á öllu því sem var nýbúið að gerast og fannst þetta eiginlega bara svolítið óþægilegt; ég var ekki viss hvernig mér fannst þetta, þetta var svo skrýtin tilfinning og ég var ekki einu sinni viss hvað mér fannst um þetta barn sem hékk allt í einu þarna.

Maríus sofnaði eftir að hafa drukkið og var þá lagður í vögguna sína og okkur rúllað niður á deild til þess að hvíla okkur. Þá um nóttina vaknaði hann nokkrum sinnum til þess að drekka og ég þurfti að hringja bjöllunni í hvert einasta skipti þar sem ég gat ekki staðið upp til þess að taka hann til mín og kunni ekki að leggja hann á brjóstið. Þetta var erfið fyrsta nótt, hann vaknaði oft og grét mikið, ég endaði á því að sofa með hann í fanginu hálfsitjandi í sjúkrarúminu og grét sjálf mikið þá nóttina líka. Snemma um morguninn þegar að ég hringdi bjöllunni eina ferðina enn til þess að biðja um hjálp með brjóstið þar sem hann reif sig alltaf frá því eftir 2 mínútur og ég átti erfitt með að róa hann niður aftur eftir það, vildi ljósmóðirin á vaktinni prófa að gefa honum ábót.

peli 1Eftir það var ekki aftur snúið, hann þurfti ábót fyrir hverja gjöf og eftir hverja gjöf. Hann byrjaði á að fá smá ábót í sprautu en fékk fljótlega pela þar sem að hann grét svo sárt og vildi borða svo rosalega ört. Ég var látin mjólka mig eftir hverja einustu gjöf líka í 30 mínútur, hvort brjóst og ráðlagt að leigja mér dælu sem ég og gerði. Mér var lánuð Þegar að Maríus var sofnaður var hann lagður í sjúkrarúmið og okkur rúllað niður á deild í sitthvoru rúminu. Ég þurfti líka að mjólka mig eftir hvert einasta skipti þar sem að hann fékk ábót og ég mjólkaði ekki nóg.

Við þurftum að vera aukanótt á spítalanum vegna þess að hann átti í erfiðleikum með að anda meðan að hann var að drekka úr brjóstinu og það átti að fylgjast betur með hvort að eitthvað væri að, þessi aukanótt tók mikið á mig en í raun hafði öll spítalavistin, þessir 3 dagar sem við vorum þar  verið mjög erfið, aðallega vegna brjóstagjafavandamála.

Ég hélt ég hefði gert allt rétt þegar að ég var að undirbúa mig fyrir brjóstagjöf, átti fatnaðinn hafði lesið mér til og hélt áfram að gera allt sem ég mögulega gat og datt í hug til þess að hjálpa til með þetta. Ég fjárfesti í alls konar töflum og drykkjum sem áttu að vera mjólkuraukandi, tók inn vítamín og hvað eina auk þess sem ég hélt áfram að mjólka mig eftir hverja gjöf, hálftími á hvort brjóst á sirka 2 tíma fresti, allan sólarhringinn.

Þegar að um 2 vikur voru liðnar frá fæðingu Maríusar hætti ég að reyna að leggja hann á brjóstið því það þýddi að hann öskurgrét og ég með honum þegar að ég kom honum ekki á og gat ekki róað hann niður. Sumar nætur grétum við svo sárt að mamma kom inn til okkar til þess að gefa honum pela og róa mig, algjörlega ómetanlegt en á þessum tímapunkti ákvað ég að reyna að hætta að setja hann á brjóstið og gefa honum mjólkina mína í pela frekar.

Ég mjólkaði mig 8 sinnum á sólarhring, núna í 40 mínútur hvort brjóstið og náði á góðum degi 40 – 60 ml. en hann var að drekka um 400 ml. á sólarhring. Fljótlega fóru síðan þessir fáu ml. að verða enn færri og að lokum fékk ég einungis úr öðru brjóstinu nokkuð til að tala um og kannski 20 ml. allt í allt. Þá sagði mamma mér að hætta þessu bara, ég gæti ekki gert mér þetta lengur, ég væri þreytt og búin hann þyrfti meira á mömmu sinni að halda heldur en mjólkinni frá mér. Ég er henni alveg óendanlega þakklát fyrir að hafa opnað fyrir mér augun og fengið mig til þess að sjá hvað ég væri að gera mér og okkar sambandi.

Ákvörðunin um að hætta að reyna að hafa Maríus Blæ á brjósti er ein besta ákvörðun sem að ég hef tekið, bæði fyrir mig og Maríus. Mér var mikið í mun að enginn vissi að ég gæfi honum ábót eða að hann drykki úr pela svo mikil var skömmin sem fylgdi. Þegar að ég hætti að mjólka mig og gefa honum brjóstið reyndi ég einnig að fela það og sagði engum nema allra, allra nánustu í að minnsta kosti mánuð.

peli 2

Ég naut þess aldrei að hafa Maríus á brjósti, fannst það vera kvöð frá fyrsta skipti og kveið ávallt næstu gjafar. Þau fáu skipti sem mér tókst að koma honum á brjóstið fann ég fyrir ónotatilfinningu og gat ekki beðið eftir því að hann hætti að sjúga svo ég gæti lagt hann frá mér. Þegar að ég hugsa til brjóstagjafar núna fylgir því ekkert nema kvíði og óþægindi. Þó ég viti það vel að þetta þarf ekki að fara eins og áður þá er ég það hrædd um það að ég er ekki einu sinni tilbúin að reyna það. Ég kem því ekki til með að gefa barninu mínu brjóst þegar að hún kemur út, hún verður pelabarn og það er ekkert sem getur fengið mig til þess að skipta um skoðun. Ég átti mjög erfitt með þetta tímabil og það ætti ekki að furða neinn að ég endaði með massívt fæðingarþunglyndi, áður hafði ég verið með meðgönguþunglyndi og hefur þessi meðganga núna ekki gengið neitt svakalega vel andlega svo ég tel það nauðsynlegt að gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að enda betur en síðast.

Þangað til næst!

Irpa Fönn (insta: irpafonn)

Matseðill vikunnar

mánudagur

Soðinn þorskur með kartöflum, smjöri, rúgbrauði og salati

þriðjudagur

Spaghettí með baunum og brauði

miðvikudagur

Kjúklingur og karrýgrjón

fimmtudagur

Lax með sætum kartöflum, sveppum og salati

föstudagur

Heimagerð pítsa

laugardagur

Kókkjúklingur ásamt ofnbökuðum hrísgrjónum með grænmeti

sunnudagur

Vegan borgarar

Hvers vegna ég slökkti á öllum tilkynningum í símanum

Ég ákvað 2það fyrir einhverjum tíma síðan að hætta að leyfa tilkynningar frá hinum og þessum „öppum“ í símanum mínum og slökkti því á öllum tilkynningum nema SMS.

Ég sé ekki þegar að ég fæ skilaboð á facebook eða ef ég fæ snap, síminn titrar ekki í hvert skipti sem það er nýtt follow á instagram eða like einhversstaðar og þetta er rosalega mikill léttir. Ég gerði þetta fyrst til þess að finna fyrir minni truflun frá símanum þegar að ég eyði tíma með stráknum mínum en ég finn mikinn mun á þessu alls staðar. Í vinnunni til dæmis verður maður skiljanlega forvitinn þegar maður veit af tilkynningu af einhverri sort og langar að kíkja en forvitnin er ekki jafn mikil þegar þú veist ekki beint að það sé eitthvað sem bíður þín.1

Nú er ég ekki að segja að ég sé fullkomin, ég tek alveg upp símann stundum þegar ég er með stráknum mínum annaðhvort til að athuga eitthvað, senda skilaboð, taka upp eða hvaðeina og það er líka allt í lagi. Ég er þó ekki alltaf að, mér finnst ég ekki ÞURFA að lesa öll skilaboð um leið og ég heyri ping eða titring í símanum, þetta má alveg safnast saman og ég þarf ekkert að vita af því fyrr en að ég athuga það hvort eitthvað sé.

Mikið af mínu lífi fer fram í símanum og mér fannst ég ná að stjórna því miklu betur þegar að ég réð því hvenær ég tækist á við það sem þar er. Skólinn, vinnan, bloggið, samfélagsmiðlar, vinirnir, nánast öll samskipti af öllu tagi fara fram í símanum eða tölvunni en ef fólk virkilega þarf á mér að halda út af einhverju áríðandi þá svara ég alltaf símanum og fyrir mér ætti það að vera einu tilkynningarnar sem birtast á skjánum, símhringingar og SMS.

Ég mæli svo innilega með því að þið takið ykkur sem flest til og slökkvið á tilkynningunum, ef virkilega þarf að ná í mann er alveg hægt að hringja bara eða senda skilaboð!

Þangað til næst – Irpa Fönn