Að hafa hug og líkama á sama stað

Orðið núvitund er eitthvað sem margir, ef ekki allir, hafa heyrt minnst á en eflaust ekki allir sem skilja hvað átt er við með því. Hvað er núvitund og afhverju ætti ég að tileinka mér hana?

Núvitund felst í ýmsum hugsunum og athöfnum sem hægt er að iðka í raun hvar sem er. Margir virðast misskilja núvitund sem athöfn sem eigi sér eingöngu stað þegar maður situr eða liggur einn með sjálfum sér. Það er, jú, ein leið en ég tel mikilvægara að taka núvitundina með sér inn í hvern einasta dag. Að fara frammúr á hverjum morgni með það í huga að hafa athyglina einungis á því sem þú ert að gera, hér og nú. Að hugurinn og athyglin sé ávallt samtaka líkamanum. Það eru eflaust allir sem lesa þetta sammála þessu en ég leyfi mér að fullyrða að einungis örfáir lifa eftir þessu í raun og veru.

Við erum alltof gjörn á að leyfa huganum að reika milli fortíðar og framtíðar og er ég engin undantekning þar. Ég ranka reglulega við mér, jafnvel bara á meðan ég er að gefa Arndísi Lilju að borða, á meðan ég er að elda eða í skólanum, þar sem ég hef kannski verið að velta því fyrir mér í hverju ég ætli í afmælið hjá vinkonu minni næstu helgi eða hvað ég ætli að gera eða segja í ákveðnum aðstæðum sem hafa ekki enn átt sér stað. Í hvert einasta skipti sem ég gríp mig við þessar hugsanir reyni ég að minna sjáfa mig á að passa mig að spá ekki svo mikið í því sem er búið að gerast eða á eftir að gerast, að ég láti dýrmæt augnablik fara í áhyggjur af framtíð eða fortíð.

Auðvitað er gott að skipuleggja sig og að plana fram í tímann, en maður þarf að gera greinamun á því sem er eðlilegt að skipuleggja og því sem er best að leyfa bara að gerast, án nokkurs undirbúnings.

Með því að vera meðvituð um og þjálfa okkur í núvitund, lærum við að kúpla okkur frá þessu ,,autopilot“ ástandi sem við erum oft í og öðlumst þannig aukna meðvitund um okkur sjálf og umhverfi okkar.

Ég er svo lánsöm að hafa átt mömmu sem kynnti mig fyrir og kenndi mér að reyna mitt besta til að tileinka mér núvitundina og finnst mér því vel við hæfi að ljúka þessum pistli á nokkrum af hennar orðum, sem hafa komið sér svo ótrúlega vel á annasömum jafnt sem ekki-svo-annasömum dögum:

,, . . . núið er (hér) lykilatriði og það kostar stanslausa þjálfun að komast þangað í alvörunni en ekki bara í formi frasa. Þannig finnst mér að það ætti að vera hjá okkur öllum. Við eigum að staldra við, minnka hraðan, slaka á kröfum á okkur sjálf, börnin okkar og aðra í kringum okkur, stoppa, hlusta, horfa, snerta og nota alla skynjun í að njóta lífsins.“

Top Picks; fyrsta ár barnsins

Nú fer að líða að eins árs afmæli Arndísar Lilju (?!) og hefur þetta ár verið afar viðburðarríkt. Verandi okkar fyrsta barn, lærðum við heilmikið um hvað þarf og hvað er óþarfi. Auðvitað eru öll börn ólík og þarfir þeirra misjafnar, en mig langar samt sem áður að deila með ykkur þeim fatnaði, hlutum og ráðum sem reyndust okkur vel … eða ekki svo vel.

 • Buxur með áföstum sokkum úr H&M (nei, ekki sokkabuxur)
  Þegar Arndís Lilja var nýfædd, þótti okkur hún svo lítil og brothætt og vorum við heldur smeik við að fara að troða henni í sokkabuxur og buxur yfir það, og allir sokkar runnu strax af litlu fótunum hennar. Þegar við loksins komumst að þessari snilld… vá! þvílíka himnasendingin sem þetta var! Einfaldaði helling fyrir okkur og sá til þess að halda táslunum hlýjum.
 • TIP: bleyjur
  Við notum bleyjur frá Libero og elskum þær! Fyrstu vikurnar prufuðum við þó nokkrar gerðir til að finna hvað henntaði okkur best. En eftir að hafa gert mér grein fyrir magninu af bleyjum sem börn fara í gegnum, eru taubleyjur/fjölnota bleyjur klárlega eitthvað sem ég myndi vilja kynna mér næst.
 • Brjóstapúði
  Persónulega, notaði ég brjóstapúðann ekki neitt. Fannst langbest að hafa bara kodda undir hendinni þeim megin sem hausinn hvíldi.
  Annað.. ef þú ætlar þér að nota brjóstapúða gerðu sjálfri þér greiða og keyptu púða sem hægt er að taka utan af og þvo – ég feilaði þar
 • TIP: Mexíkanahattar og Gjafahaldarar/bolir
  Fyrir ykkur með barn á brjósti … mexíkanahattar og gjafahaldarar/bolir gjörsamlega bjargaði okkur. Brjóstagjöfin gekk nokkuð illa fyrstu dagana og notuðumst við mikið við hattinn. Einnig get ég mælt með því að hafa gjafahaldara með upp á fæðingardeild þar sem þú verður líklegast látin vippa júllunum út nokkuð reglulega. Mínir uppáhalds eru úr lindex.
 • Rafmagns Brjóstapumpa
  Ég keypti mér ekki rafmagns brjóstapumpu fyrr en Arndís var orðin allavega mánaða gömul. Ég átti handpumpu frá því hún fæddist en varð fljótt þreytt á því að nota hana þegar ég var að mjólka mikið – til dæmis fyrir einhver tilefni eða ef hún var að fara í næturpössun. Ég keypti Lansinoh brjóstapumpuna og hefur hún reynst okkur þvílíkt vel.
 • Lansinoh Mjólkursafnari
  Þetta er vara sem ég vissi ekki af fyrr en fyrir mjög stuttu og vildi óska að ég hefði frétt af henni fyrr! Mjólkursafnarann seturu á brjóstið þeim megin sem ekki er verið að drekka úr og hann myndar sog og getur safnað mikilli mjólk sem er svo hægt að frysta eða gefa samdægurs í pela og jafnvel fá maka til að létta undir og gefa pelann á móti þess sem þú gefur brjóstið – sérstaklega fyrstu vikurnar þegar barnið er sett frekar ört á brjóstið.
 • Ella’s Kitchen Vörurnar
  Þegar arndís fór að byrja að smakka fasta fæðu í kringum 6 mánaða, versluðum við mikið (og gerum enn) vörur frá Ella’s Kitchen.
  Þar er vöruúrvalið mikið og allskonar sniðugt sem hægt er að gefa þeim til að kynnast ýmsum brögðum og áferðum. Í uppáhaldi hjá okkur eru melty puffs/melty sticks og skvísur í hálfum stærðum miðað við þær venjulegu – sérstaklega til að byrja með þar sem þau borða þá minna í einu = minna fer til spillis.
 • Brjósta bakstur
  Að lokum langar mig að segja ykkur frá vöru sem ég hef ekkert þurft að styðjast við en veit að margar þurfa þess eða velja að gera það. Brjósta-bakstur getur komið sér mjög vel í brjóstagjöf, hann er hægt að nota bæði heitann og kaldann en púðarnir máta sig vel að bæði lögun brjósta og brjóstapumpu. Baksturinn getur hjálpað að koma jafnvægi á mjólkurframleiðsluna sjálfa m.a. með því að nota baksturinn heitan fyrst til að koma af stað rennsli og kaldan eftir gjöf til að draga úr stálma.

Þangað til næst, Rakel Eyjólfs

*þessi færsla er ekki kostuð eða unnin í samstarfi*

Barneignir á unglingsárum

Sama á hvaða aldri, þá fylgir því mikil ábyrgð að eiga barn og getur maður í rauninni lítið gert ráð fyrir einu eða neinu hvað varðar þetta ábyrgðarhlutverk. Að eignast barn á framhaldsskóla aldri verður til þess að þroski, agi og skipulag þarf að aukast verulega.

Ég varð ólétt í byrjun seinasta árs, þá á annari önn í framhaldsskóla. Ég, verandi sennilega mesti þrjóskupúki landsins, lét það lítið á mig fá og hélt að sjálfsögðu áfram í skólanum (og geri enn). Ég minnkaði við mig og sótti um frjálsa mætingu sökum aðstæðna. Það gekk, og gengur enn, glimrandi vel, og stefnum við á að halda áfram á okkar striki.

Ég fæ reglulega spurningar á borð við hvernig þetta gangi allt saman upp og hvað hafi breyst. Ég lít svo á að ekkert hafi breyst, heldur hafi einungis eitthvað bæst við ❤ Frá því við komumst að því að lítil baun væri í bumbu, höfum við verið að safna og leigjum nú litla íbúð. Við erum bæði í námi og stefnum á háskólann að því loknu. Að vera móðir, kærasta, námsmaður og að viðhalda fjölskyldu- og félagslífi getur verið krefjandi. Maður þarf að kunna að velja og hafna – þá sérstaklega hvað félagslífið varðar. Sumu get ég einfaldlega get ekki tekið þátt í og annað þarfnast mikillar fyrirvara, sem gjarnan er ekki til staðar en það er líka allt í lagi. Þetta snýst allt saman um hugarfar.

Ég hef tamið mér að skipuleggja mig ekki of langt fram í tímann, heldur reyna að horfa á hvern dag fyrir sig. Stelpuskottið fær ekki pláss hjá dagmömmu sem veldur því að þetta er allt saman aðeins meira púsluspil en hjá mörgum, en einhvernveginn passar hvert púsl, á endanum, við annað.

Þarfir dóttur minnar eru og munu alltaf vera í fyrsta sæti en á sama tíma og ég reyni mitt besta að leggja mig 100% fram í móðurhlutverkinu skiptir líka máli að ég gefi mér tíma bæði í sjálfa mig og kærasta minn. Það getur oft verið erfitt og stundum hef ég þurft að staldra við og minna sjálfa mig á að samviskubit yfir því að hugsa um sjálfa sig er ógilt – ég er ekki sjálfselsk fyrir það. Til þess að allt gangi sem best fyrir sig er nauðsynlegt að taka sér pásu af og til, anda inn og út og halda deginum svo áfram. Þrátt fyrir að ég sé ung, er í raun ekkert öðruvísi við okkar stöðu (burt séð frá aldri) en hjá öðrum foreldrum.

Þetta gengur þó fyrst og fremst allt eins og gerir vegna þess að ég, ásamt kærasta mínum og fjölskyldu reynum okkar allra besta og leggjum við allt okkar að mörkum til þess að létta undir hvert með öðru. Að stunda nám, eiga barn, vera á leigumarkaði og gefa sér tíma í sjálfan sig er mikil vinna en, í lok dags, algjörlega þess virði.

Þangað til næst, Rakel