Að finnast þú ekki meiga syrgja

Nú eru liðin næstum 3 ár frá því að ég missti bróður minn.

Þar sem við vorum aldrei mjög náin þrátt fyrir lítinn aldurs mun þá líður mér stundum eins og ég bara hreinlega hafi ekki rétt á að sakna hans eða syrgja. Ég þori lítið að tala um það við fjölskyldu eða vini. Það var aldrei neitt eða neinn sem varð til þess að ég fékk þessa tilfinningu, heldur er ég nokkuð viss um að ég hafi búið hana til sjálf í höfðinu á mér.

Málið er soldið að við lifðum mjög ólíkum lífum og gengum soldið sitthvorn stíginn í lífinu. Hann var vinamargur og hress drengur sem kunni að skemmta sér og sínum. Ég á hin bóginn var aldrei neitt rosalega vinamörg og hef aldrei hleypt nema nokkrum nálægt mér, hann var soldið hvatvís á meðan ég var meira fyrir að plana hlutina útí æsar.

Auðvitað meiga ALLIR syrgja og þú mátt sakna manneskju… jafnvel þó þið voruð ekki náin. Það syrgja allir á sinn hátt og taka sinn tíma.

Ég var nýlega búin að komast að því að ég væri ólétt af stelpunni minni þegar eg fæ fréttirnar af fráfalli hans, sömuleiðis vorum við að komast yfir það að liðin væru 10 ár frá fráfalli pabba okkar og var ég því á viðkvæmum stað þegar þetta gerist, ég held samt að ég hafi bara aldrei unnið almennilega úr þessu og hef því ákveðið í höfðinu á mér að ég mætti ekki hafa þessar tilfinningar.

Hann var bróðir minn! Hann féll frá langt fyrir aldur fram og það eitt er nóg til að syrgja hann og sakna. Það að ég hitti hann sjaldan og get ekki bætt úr því er hræðilegt. Það að yndislegu börnin hans þekkja hvorki mig né börnin mín er hinsvegar eitthvað sem ég get reynt að bæta… En af einhverjum ástæðum hef mig ekki í.

Gerið það fyrir mig kæru lesendur. Njótið tímans sem þið hafið með fjölskyldu og ástvinum. Þið vitið aldrei hvenær þið sjáist í síðasta skipti.

Aldrei fara reið að sofa.

Lífið er núna, elsku þú… lifðu því!

Foreldrar að ferðast barnlaus

Ef ég á að vera alveg heiðarleg þá held ég að ég sé mun háðari börnunum mínum tilfinningalega en þau mér, en við Ási skelltum okkur til Ítalíu í lok ágúst 2019. Þar sem við höfðum 2 stóratburði á döfinni í lok ágúst ákváðum við að fagna saman bara 2 á Ítalíu en það eflaust fór ekki framhjá fylgendum mæður.com að við giftum okkur, hann Ási varð líka 30 ára 8 dögum seinna svo ég bauð honum í afmælis/brúðkaupsferð.

Það kom mér eiginlega á óvart hvað börnin kipptu sér lítið upp við það að okkur vantaði á heimilið á meðan foreldrar okkar pössuðu að halda í venjulega rútínu.

Ég fékk líka bilaðann bömmer þegar ég áttaði mig á að ég myndi missa af fyrsta skóladeginum hjá Svavari Braga en skólasetningin var á fimmtudegi og ég bara hélt að skólinn byrjaði þá í framhaldi af því á föstudegi (við áttum flug aðfaranótt máudags eftir) en skólinn byrjaði ekki fyrr en mánudagsmorgun.

En líkt og maður myndi gera með börn plönuðum við soldið flugin þar sem við myndum millilenda bæði á leiðinni til og frá Ítalíu. Hér koma nokkrir punktar sem gagnast bæði fullorðnum og fjölskyldum.

* Sniðugt er að hafa spjaldtölvu með sér til að hafa eitthvað að gera í millilendingum og ef flugvélin hefur ekki afþreygingakerfi.

*Þar sem matur er ekki sá ódýrasti á flugvöllum og flugvélum er alltaf gott að bæði hafa nesti og eitthvað nasl til að borða í vélinni og í millilendingum.

* Hafðu með þér brúsa og fylltu á uppá flugvelli, mun ódýrara en að kaupa vatn. (Á ekki endilega við um aðra flugvelli en virkar vel á FLE).

* Það skaðar aldrei að hafa með sér bók til að lesa eða krossgátur/sudoku (þrautir).

* Hafðu stærri raftæki á þægilegum stað í töskunni og alla vökva í handfarangri tilbúinn í 1l zip-lock poka til að spara tíma í vopnaleit.

* Vertu í þægilegum fötum. Það er öllum sama hvernig þú ert til fara á meðan þú ert snyrtileg/ur, en ekki allir hafa þolinmæði til að bíða á meðan þú rífur allt af þér og endar svo í handleit því þú ert með svo mikið „bling“.

En mest af öllu, njóttu frísins. Maður ferðast ekki á hverjum degi (nema maður vinni í geiranum) svo maður gerir það besta úr því sem maður hefur.

Ferðakveðjur, Hrafnhildur

Afþreying á Akureyri


Ertu á leiðinni norður í sumarfrí og vantar hugmyndir að skemmtilegum áfangastöðum?
Nýlega fórum við Guðbjörg á Akureyri með krakkana okkar, sem eru á bilinu 8 mánaða til 6 ára. Við vorum frá morgni til kvölds með fulla dagskrá og fundum eitthvað sem hentaði öllum.

Daladýrð

Daladýrð er ótrúlega skemmtilegur dýragarður þar sem þú getur verið innan um dýrin, gefið geitunum að borða og klappað kanínum. Garðurinn er á stóru svæði og afgirtur , tvö niðurgrafin trampólín og risastór sandkassi ásamt þríhjólum og barna traktorum sem krakkarnir geta fengið að leika sér á án þess að foreldrar þurfi að hafa áhyggjur af því að börnin fari eitthvert sem má ekki fara. Garðurinn er frekar opinn að því leiti til að þú getur séð yfir allan garðinn svo það er nánast ómögulegt fyrir börnin að týnast þar.
Í Daladýrð er svo hægt að kaupa sér vöfflur og kaffi, svala og ís til að nefna dæmi.

Kaffi kú.

Kaffi kú er ótrúlega skemmtilegur staður til að fara með börn. Hægt varað sitja inni og horfa yfir beljurnar í fjósinu meðan maður sötraði á mjólkurhristing og fékk sér gómsæta vöfflu.
Á kaffihúsinu er líka lítið hús fyrir börn, stút fullt af dóti, litum og blöðum til að leika sér í ef þau verða eirðalaus á að sitja við borðið.
Hægt er svo að labba í gegnum fjósið hjá beljunum.

Jólahúsið

Minn draumastaður, í jólahúsinu er hægt að sjá grýlu og skoða endalaust af jólaskrauti. Húsið ætti ekki að fara framhjá þér þegar þú kemur að því, þar sem það lítur út eins og það sé tekið úr teiknimynd. Ég myndi segja að jólahúsið væri skyldu stopp fyrir jólabörn eins og mig sjálfa.

Sundlaugin á Akureyri

Sundlaugin á Akureyri hentar fyrir alla aldurshópa, þjónustan var upp á 10! Það er lítil laug með lítilli rennibraut fyrir yngri krakkana, rennibrautarlaug með þrem (að mig minnir) rennibrautum, stórir og góðir heita pottar og stór laug sem hægt er að synda í.

Verksmiðjan.

Verksmiðjan er veitingastaður sem er hægt að fá allt frá hamborgurum og pizzu yfir í rif og þorsk. Frítt er fyrir börn yngri en 6 ára að borða af barnamatseðlinum, lítið dýnuherbergi með sjónvarpi fyrir börn að horfa á teiknimynd, litir og litabók í boði fyrir krakka og ljúfengur matur fyrir alla.

Axelsbakarí

Hvað er betra en að stoppa í bakarí eftir góða sundferð? Já eða hafa góðan bröns á sólríkum sumardegi. Axelsbakarí er með eitthvað fyrir alla, gómsæta snúða, brauð, kökur og svo margt fleira.

Bréf frá líkamanum til mín

Í núna nokkur ár hef ég átt í miklum erfiðleikum með að byrja elska líkaman minn. Eftir marga matarkúra og æfingarplön var hugurinn á mér kominn í vítahring sem ég þurfti hjálp við að komast úr.

Fyrir nokkrum mánuðum byrjaði ég að fylgjast með Ásdísi Ingu á Instagram og varð strax heilluð af jákvæða viðhorfinu sem hún hefur. Þegar ég sá að hún var að byrja með BETA hóp á jathjalfun.is , sem hjálpar konum að brjótast úr þessum vítahring sem ég var komin í, tók það mig innan við 5 sekúdur að skrá mig.

Ég fékk það verkefni að skrifa bréf frá líkamanum mínum til mín, guð minn góður það er bara ein vika búin af 16 en mér líður eins og ég sé helmigi léttari.
Ég mæli mikið með því að þið fylgið Ásdísi á Instagram (asdisih) og hlakkar til að deila með ykkur árángurinn sem ég veit strax að ég á eftir að sjá, ekki bara líkamlega heldur á andlegu hliðinni líka.

Elsku Saga.
Ég veit þér finnst erfitt að horfa á mig, ég veit ég er ekki eins og ég var eða eins og þú vilt að ég sé.
Við höfum farið saman í gegnum ótrúlegustu hluti saman, við höfum saman komið tvemur börnum í heimin, við höfum saman verið í okkar versta formi og okkar besta formi.
Ég vill að þér líði vel, að þú þurfir ekki að skammast þín fyrir mig, að þú getur orðið stolt af mér aftur.
Það er svo mikið sem ég vildi að ég gæti sagt þér en á sama tíma veit ég að þú myndir lítið hlusta á það.
Ég gat ekki gert eins mikið og ég vildi eftir fæðinguna og ég veit þú sérð það á mér, en ég reyndi mitt besta og mun halda áfram að reyna mitt besta ef þú hjálpar mér við það.
Ég er þakklátur fyrir að hafa fengið að ganga í gegnum báðar meðgöngurnar með þér, en eins og það tók á sálina þína að sjá mig breytast, þá tók það líka á mig. Ætli ég sé kannski ekki líka smá sár út í þig, því það var ég sem var með þér í gegnum verkina á meðgöngunni og ég sem breytti mér svo við gætum gengið með börnin. En þrátt fyrir allt þá gefst ég ekki upp á þér þó svo þú ert að gefast upp á mér.
Afhverju eigum við endalaust í þessu ástar og haturssambandi? Ef ég stend mig illa þá þolir þú mig ekki, en ef ég send mig vel þá elskar þú mig. Ef ég er búinn að standa mig vel í smá tíma þá verðlaunaru þig með sætindum en þolir mig svo ekki fyrir það.
Þegar þú lítur í spegil langar þér að gráta og já stundum grætur þú. Þú ert ekki ein, ég græt með þér því ég vill ekki vera það sem veldur þér vanlíðan.
Stundum held ég að sama hvað ég eigi eftir að gera þá verður alltaf þetta haturssamband á milli okkar. Því þú berð þig alltaf saman við aðra, eða hvernig þú varst áður en við gengum með börnin. Þegar þú nærð markmiðinu sem við setjum okkur saman, þá er það ekki nógu gott, svo við setjum okkur annað stærra markmið. Prufum kannski nýtt æfingar prógram, nýjan matarkúr, ný fæðubótaefni eða nýjan fatnað sem á að grenna mig.
Ég veit ég er ekki eins og vinkona þín, eða fólkið sem þú ert að fylgjast með á Instagram, ég er kannski ekki með jafn gott þol eða í jafn góðu formi en ég er hérna fyrir þig. Þetta er ekki slagur sem ég einn get unnið, já eða þú ein, við gerum þetta saman og vonandi einn daginn getum við aftur orðið eins og við vorum. Ég vona og veit að þú vonar það líka, að einn daginn getum við komist úr þessum haturs vítahring sem við erum komin í.
Ég vill gefa þér loforð en vill þá að þú reynir að gera dálítið fyrir mig.
Ég vill að þú reynir að hafa meiri þolinmæði fyrir mér, ég vill að þú takir næstu vikur og reynir að finna einn góðan hlut við mig og einblínir á hann í staðin fyrir gallana. Ég vill að þú reynir þitt allra besta í að fara ekki í öfgar, hvort sem það snýr að óhollum eða hollum mat sem og æfinum.
Í staðin lofa ég þér því að ég mun ekki gefast upp á þér og standa með þér í þessu fallega ferli sem við erum núna að ganga í gegnum að byrja elska hvort annað upp á nýtt. Sama hve erfitt það mun vera.

5 ára afmæli Önju

Anja Mist hefur hlakkað mikið til, hún er búin að vera mjög hjálpsöm við undirbúning og valdi hún litina og kökuna alveg sjálf.Veturinn hefur lagst ótrulega vel í Önju og eru mótefna gjafirnar sem hún fer í einu sinni í mánuði að skila sínu, Anja hefur ekki þurft súrefni síðan í enda júlí byrjun ágúst.

Veislan

Við fundum margt fallegt og skemmtilegt í Tiger, duttum þarna inn þegar að við vorum að versla afmælis kjólinn hennar Önju.H&M

  • Afmælis kjóll
  • Skór
  • Hárskraut

Tiger

  • Silfurlitaðir pappa diskar
  • Ljósbláa ts 5 blöðru
  • Bleikar Servréttur
  • Bleikt veggskraut

Minnir að þetta hafi verið um 1300 kr


Lesa áfram „5 ára afmæli Önju“

Tómstundir þegar útiveran gengur ekki

Þetta er færsla fyrir alla veikindapésa og þegar viðrar ekki nógu vel fyrir útiveruna.

1. Kauptu pappírsrúllu í t.d. ikea og svuntu því þetta gæti orðið… Skemmtilegt! Blandaðu þína eigin málningu úr hráefnum sem flestir eiga í eldhússkápnum og málið fallega mynd.

2. Setjist undir teppi í stofunni og lesið bók með fallegum myndum og ræðið myndirnar… ekki verra ef ykkur tekst að búa til ykkar eigin sögu bara úr myndunum.

3. Búið til trölladeig og leirið eitthvað skemmtilegt.

4. Bakið smákökur, það er vel hægt að finna hollar og góðar smáköku uppskriftir.

5. Búið til virki í stofunni eða borðstofu… Æskan er svo stutt hjá þessum elskum og þau munu aldrei minnast draslsins heldur samverunnar.

6. Sitjið bara og spjallið um daginn og veginn… Þegar börnum gefst færi á þá þykir þeim rosalega gaman að bulla og tala um sig og sína sýn á heiminum.

7. Spilið borðspil eða bara þessi klassísku spil (veiðimaður, olsen olsen ofrv.

8. Kubbið hús og leikið með barbí… Notið ímyndunaraflið.

9. Búið til þrautabraut í stofunni eða lekfimidýnu á ganginum (leggja niður sængur og teppi.

10. Hafið ykkar eigin danspartý þar sem allir skiptast á að velja lag til að dansa við.

11. Hví ekki að nota gömlu sokkana sem aldrei finnst parið saman. Búið saman til sokkabrúður.

12. Búið til músastiga eða pappakeðju.

13. Farið í tískuleik (alltaf gaman að fá að máta mömmu og pabba föt)

14. Púslið saman.

15. Hafið lautarferð… inni!

16. Búið til kórónu eða grímu úr pappír.

17. Farið í feluleik… það er alltaf gaman!

18. Lærið origami (netið getur hjálpað)

19. Gerið bílaþvottastöð… fyrir dótabíla.

20. Gerið ratleik inni!

Leiðin að léttari prófatíð

Langar þig að komast í gegnum prófatíðina með minna stress og betri andlegri og líkamlegri heilsu? Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga fyrir komandi prófatörn.

1. Skipulag:

Þegar fer að líða að lokum í áföngunum/námskeiðunum finnst mér best að skrifa lista með öllu því sem ég þarf að gera fyrir próf. Þá fer ég yfir allar kennsluáætlanir og skrifa niður hjá mér hvaða blaðsíður ég á eftir að lesa í hverjum áfanga, hvaða fyrirlestra ég á eftir að hlusta á, hvaða verkefnum ég á eftir að skila, hvað ég á eftir að læra betur fyrir hvert próf osf. Svo deili ég verkefnum niður á dagana fram að prófum þannig að ég hafi áætlun fyrir hvern dag. Ég passa að ætla mér ekki of mikið á hverjum degi og reyni frekar að byrja fyrr og hafi fleiri daga, heldur en að byrja seinna og þurfa að læra stanslaust frá morgni til kvölds síðustu dagana fyrir próf. Þetta finnst mér best að gera að minnsta kosti tveim til þrem vikum fyrir fyrsta prófið, og því fyrr því betra. Mér finnst mikilvægt að skilja eftir einhvern frítíma til þess að eyða með fjölskyldunni og gera eitthvað skemmtilegt.

2. Svefn:

Það er mjög mikilvægt að fá nægan svefn, sérstaklega í prófatíð. Heilinn vinnur úr upplýsingum á meðan við sofum og þess vegna græðir maður ekkert á því að taka all nighter eða læra langt fram á nótt og vera svo dauðþreyttur þegar maður tekur prófin. Skipulegðu þig vel svo að prófalærdómurinn bitni ekki á svefninum. Og það skiptir líka máli að passa upp á að halda koffínneyslu í lágmarki, sérstaklega seinnipartinn.

3. Hreyfing:

Ekki hætta að hreyfa þig í prófatíðinni. Haltu áfram að stunda þá hreyfingu sem þú ert vön/vanur að stunda, og ef þú ert ekki vön/vanur að stunda neina hreyfingu mæli ég með að fara allavega út í smá göngutúr. Skipulegðu þig það vel að þú hafir tíma til að hreyfa þig þó þú sért á fullu að læra fyrir próf. Það skilar sér margfalt til baka. Hreyfing er frábær leið til að hvíla hausinn, fá útrás og auka orku og vellíðan.

4. Pásur:

Ekki læra of mikið í einu! Þegar maður finnur að maður er að missa einbeitinguna er miklu betra að taka stutta pásu og koma svo ferskur til baka, heldur en að halda áfram að ströggla við að meðtaka upplýsingar sem fara svo bara inn um annað og út um hitt. Mér finnst best að taka frekar oftar pásur og hafa þær styttri en finndu bara þann takt sem hentar þér best. Nýttu pásurnar vel, teygðu úr þér, farðu út og andaðu að þér fersku lofti, fáðu þér að borða, horfðu á einn stuttann þátt, settu gott podcast í eyrun í smá stund og hvíldu heilann.

5. Mataræði:

Ég hef bæði reynslu af því að detta í „sukkgírinn“ þar sem ég borða bara rusl alla prófatíðina, og „stressgírinn“ þar sem ég lifi á kaffi og pesi maxi og borða lítið sem ekkert þar til prófin eru yfirstaðin. Ég mæli með hvorugu, janfvægi er lykillinn ! Gefðu þér tíma til að útbúa hollan og góðan mat sem nærir bæði sálina og líkamann. Heilinn þarf orku til að læra, og ekki skyndiorku sem kemur úr sælgæti og skilur mann svo eftir þreyttari fyrir vikið, þegar blóðsykurinn fellur aftur niður, heldur góða og stabíla orku sem kemur úr hollu mataræði. Það er ekkert að því að fá sér súkkulaði líka, eða jólaöl og piparkökur eða hvað sem þig langar í á meðan þú ert að læra. Passaðu bara að borða líka góða næringu og drekka nóg af vatni.

6. Passa bak og axlir:

Hver kannast ekki við það að vera að drepast úr vöðvabólgu við prófalesturinn? Axlirnar eru orðnar svo stífar að maður er kominn með dúndrandi hausverk og bakið orðið aumt á því að sitja svona mikið. Það er hægt að koma í veg fyrir þetta (eða að minnsta kosti minnka þessi einkenni) með fyrirbyggjandi aðgerðum. Passaðu upp á bakið þegar þú situr og lærir, vertu bein/nn í baki og slök/slakur í öxlum. Vertu dugleg/ur að standa upp og teygja úr þér, rölta aðeins um, taka jafnvel nokkrar jógaæfingar eða nota nuddbolta. Stundaðu hreyfingu til að liðka vöðvana og fá hita í þá. Ef vöðvabólga gerir vart við sig er gott að fara í heitt bað eða heitapottinn, nota hitakrem eða hitapoka á axlirnar, fara í nudd, teygja, nota nuddbolta, nuddbyssu, rúllu osf.

7. Hugarfar:

Farður jákvæð/ur inn í prófatíðina! Reyndu að forðast stress og prófkvíða, til dæmis með því að skipuleggja þig vel og læra samviskusamlega fyrir prófin. Passaðu að detta ekki í fullkomnunaráráttu gírinn, heimurinn ferst ekki þó að þér gangi illa í einu prófi, þú gerir bara þitt besta og í versta falli ferðu í upptökupróf. Það er alltaf hægt að reyna aftur.

8. Gulrót:

Verðlaunaðu þig eftir hvert próf, leyfðu þér að hafa eitthvað að hlakka til! Það þarf ekki að vera stórt eða merkilegt, bara eitthvað sem veitir þér vellíðan og hvetur þig til þess að komast í gegnum lærdóminn og prófin. Ákveddu fyrirfram að gera eitthvað skemmtilegt eftir próf og gerðu tíma fyrir það þegar þú skipuleggur þig fyrir prófatíðina. Þetta getur til dæmis verið bíóferð með vinum, deit með maka, eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni eins og skautaferð eða smákökubakstur, kósý kvöld með uppáhald mat og góðri bíómynd, ísferð eða bara hvað sem þér dettur í hug.

9. Forgangsröðun:

Ekki fara á taugum þó að óhreinatauið fyllist, drasl safnist í stofuna eða gólfið verði skítugt. Það er alltaf hægt að þrífa og taka til eftir próf. Passaðu upp á forgangsröðunina í prófatíðinni, nýttu frítímann í að gera eitthvað fyrir sjálfa/n þig og eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Ekki stressast yfir því þó að heimilið sé ekki tip top rétt á meðan á prófum stendur, það er nógu stressandi að vera í prófum og við skulum ekkert vera að bæta óþarfa stressi ofan á það. Það þarf ekki allt að vera fullkomið !

Gangi ykkur öllum vel í komandi prófum & munið bara að gera ykkar besta

Kveðja Glódís

https://www.instagram.com/glodis95/

Jólin mín byrja í … Hertex

Ég kíkti á dögunum í Hertex, Vínlandsleið til þess að skoða jóladót. Ef að ykkur „vantar“ eitthvað fyrir þessi jólin mæli ég með því að kíkja á hina ýmsu nytjamarkaði fyrst og athuga hvort að það sé fáanlegt þar. Ég fór í þeim tilgangi að ná mér í efnivið fyrir margnota jólagjafa“pappír“ og skoða hvort ég fyndi mögulega eitthvað í jólapakka….Ég fann ýmislegt flott en ég þurfti ekki mikið þar sem ég kem enn til með að búa hjá mömmu og pabba um jólin, ég á þó ekki mikið jólaskraut og þegar kemur að því að versla mér jólatré og eitthvað smá meira skraut fer ég klárlega aftur í Hertex til þess.

Það sem ég verslaði kostaði mig 2300 krónur í heildina, en þetta eru: 2 púðaver og viskastykki sem að ég ætla að nýta í gjafa“pappír“, 3 smákökubox sem ég ætla að nota í jólagjafir, 4 smákökumót, pakki með 12 litlum smákökumótum, bangsi til upphengingar og jólasvein á tréð.

Við þurfum að huga að neysluminni jólahöldum og að versla notað er góð byrjun, leita fyrst að því sem vantar á hinum ýmsu nytjamörkuðum og kannski líka að spá vel í það hvort þetta sé kannski tilbúin þörf? (jólagjafir sem hafa verið keyptar á nytjamörkuðum eru  einnig engu síðri en ég er búin að versla nokkrar bæði í Hertex, Barnaloppunni og Extraloppunni til dæmis)

Þangað til næst Irpa Fönn

Takk elsku líkami

Ég er alveg einstaklega þakklát og stolt af líkamanum mínum, líkt og við ættum öll að vera. Spáið aðeins í því hversu magnaður hann er…


Á síðustu tvem og hálfu ári hef ég gengið tvö börn. Ég er með slappa húð á maganum og brjóstunum, nóg af aukakílóum (skv. BMI staðli) og feikinóg af slitum svo eitthvað sé nefnt. Þetta er að sjálfsögðu ekki einu skiptin sem hann hefur gengið í gegnum eitthvað því jú ég hef gengið í gegnum allskonar líkamlegar breytingar á mínu æviskeiði líkt og við öll svo að sjálfsögðu hafa orðið breytingar, þó barneignirnar hafi án efa leitt af sér drastískustu breytingarnar.

Það koma að sjálfsögðu tímabil og dagar inn á milli þar sem að ég er ótrúlega sár yfir lausu húðinni á maganum mínum sem lafir, eftir að hafa fætt Maríus þá hefur mér ekki tekist að losna við hana (það er svona þegar bumban birtist á innan við mánuði frá engu yfir í að springa utan af 20 marka barni)

Ég á svolítið erfitt með að horfa á mig í speglinum suma daga, mér finnst ég einhvernveginn ekki vera ég, ég er svo allt öðruvísi en fyrir ári síðan (halló eðlilega samt ég var að eignast barn).

Mér fannst ég svo hryllileg fyrir ári síðan, alltof þykk og árangurinn af ræktarstandinu sást ekki nóg. Í dag er það formið sem ég nota sem viðmið því í dag sé ég hvað ég var flott.

Kannist þið ekki við að hugsa stundum „ég vil verða grennri“, „ég vil vera meira svona eins og hún eða hann“, „ég vil vera með stærri/minni rass/brjóst/læri/maga/hendur/fætur“, „ég vildi að ég væri með krullur“, „afhverju er ég ekki bara með slétt hár“ o.s.frv. en svo á einhverjum tímapunkti síðar horfa á mynd síðan á því tímabili og hugsa „ég skil ekki hvað ég var að hugsa með þessum órum mínum um annað“ Það er ég núna þegar ég hugsa til baka.


Þegar ég var yngri gerði ég æfingar sem áttu að minnka líkurnar á ennishrukkum og fór að gráta yfir stærðinni á lærunum mínum…ég var 10 ára, hversu klikkað er það.

Í dag veit ég þó að það er mikilvægt að vera þakklátur fyrir hverja hrukku, hvert grátt hár, slitin, slöppu húðina, örin og allt hitt. Þetta þýðir einfaldlega að ég er að eldast og lifa lífinu, þetta eru ummerki því til sönnunar og minningar um liðnar stundir.

Það eru forréttindi að eldast, það eru forréttindi að geta eignast börn, það eru forréttindi að … ég gæti talið endalaust upp en þú nærð þessu, svo takk, takk kæri líkami fyrir það að standa með mér í gegnum þykkt og þunnt, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og gerir og takk fyrir allar liðnar stundir, ég vona svo innilega að þær verði miklu fleiri!


Þið hafið kannski tekið eftir myndunum hérna í gegnum færsluna, þetta er ég á 2,5 ári, mér hefur fundist eitthvað að mér á þeim flestöllum en um daginn setti ég þær allar saman og hugsaði „nei andskotinn þetta er magnað! Líkaminn minn er magnaður og hann á skilið að ég sé þakklát fyrir hann og átti mig á því að þetta er ekkert spretthlaup, þetta er langhlaup og við erum öll sífellt að breytast, það er partur af lífinu – ég get ekki beðið eftir að sjá hvernig ég verð eftir ár“

Ég vona að þið séuð sammála mér hve magnaður líkaminn er og langar að biðja ykkur öll að staldra stundum við og þakka honum fyrir allt það magnaða starf sem hann vinnur.

Þangað til næst

Irpa Fönn

(Insta: irpafonn)

Skírn 15.09.

Sunnudaginn 15. september klukkan 15.15 var dóttir mín, Marín Blær skírð. Athöfnin fór fram í kirkju Óháða safnaðarins og var að athöfninni lokinni var boðið upp á kaffi og veitingar í safnaðarheimilinu.

Ég fékk rosalega mikið af frábærri hjálp enda var skírnin þrem dögum eftir keisarann og ég ekki alveg í besta forminu og þá er svo gott að eiga góða að. Þá sérstaklega þar sem að athöfnin var í safnaðarheimilinu og verið var að breyta og bæta neðri hæðina og eldhúsið þannig að við þurftum að koma með allt með okkur, diska, bolla, upppáhelligræjur og svo framvegis…

skírn1skírn2

Nafnið

Stelpan fékk nafnið Marín Blær og hef ég nokkrum sinnum fengið spurningu út í nafnið þar sem að það er frekar líkt Maríusi Blæ, stráknum mínum. Blær var alltaf gefið þar sem að ég var fyrir löngu búin að ákveða að börnin mín myndu heita Blær, ég sjálf átti að vera Irpa Blær en það var áður en það mátti því er ég Fönn en hef alltaf verið svo hrifin af Blær nafninu. Marín er síðan eina stelpunafnið sem við pabbi hennar gátum verið sammála um öll önnur nöfn sem hann stakk upp á fannst mér bara alls ekki málið og það sama á við um hann og þau nöfn sem ég stakk upp á, að nafnið byrjaði á M var því ekki endilega eitthvað sem við vorum að miða við og tilviljun ein hve líkt það varð. Fyrir áhugasama heitir Maríus því nafni svo vegna þess að langamma mín kom til mín í draumi í byrjun meðgöngu og nefndi það við mig, það var svo bara fast.

Veitingar

Veitingarnar sem boðið var upp á voru:

  • skírnarkakan, amma Maríusar er snillingur í bakstri og bakaði rosa fallega köku fyrir okkur, þetta var súkkulaðikaka með hvítu hindberjakremi og sykurmassa
  • rúlluterta
  • túnfisksalat
  • bollakökur með daim-kurli og karamellusósu
  • döðlugott með og án lakkrís
  • makrónur
  • mygluostar og með því (hráskinka, vínber, jarðaber, salami, bláber, maltesers, ólífur sulta, ritz og þurrkaðar pylsur
  • smáborgarar
  • kjúklingur á spjóti
  • bruschetta með grænu pestó, brie, salami og basiliku

skírn4skírn5

skírn6

Skreytingar

Ég ætlaði að hafa blómaþema og allskonar skreytingar en þar sem dagsetningin á skírninni var ákveðin með rétt rúmlega viku fyrirvara og svona stutt frá keisara varð þetta aðeins öðruvísi en kom að mínu mati mjög vel út

Ég á fullt af skrauti sem ég nota aftur og aftur, pom-pomin í gluggunum notaði ég til dæmis fyrst í skírn Maríusar og síðan öllum mínum veisluhöldum síðan þá, þau ásamt confetti-inu, eru úr Söstrene grene. Kertastjakarnir á borðunum eru Nagel/Stoff, Hvítu dúkarnir á borðunum eru leigðir frá Efnalauginni Björg í Mjódd.

skírn3

Gestabókin

Ég var með polaroid filmumyndavél og bað fólk að taka mynd af sér og kvitta síðan hjá myndinni í bók, hvort sem var með nafni eða kveðju og nafni. Ótrúlega skemmtilegt og persónulegt að sjá ekki bara einhver nöfn heldur tengja þau við manneskjur. Ég gerði þetta líka í skírninni hans Maríusar og notaði sömu bók, gaman fyrir gestina líka að skoða myndirnar síðan þá ef þeir voru í báðum veislum.

skírn7

Þangað til næst

Irpa Fönn

100% vinna, börn og fjarnám

Verandi námsmaður, mamma og 100% starfsmaður á dag og næturvöktum er enginn brandari.

Þar einmitt kemur gott skipulag sterkt inn.

Ég er með dagbók sem ég sérpantaði af síðu sem heitir personal-planner.com og þar skrifa ég inn verkefni, próf og allt annað sem þarf að gerast í vikunni (foreldrafundir, frí og hver er að passa ef þess þarf). Ég er svo heppin með tengdaforeldra líka sem passa alltaf þegar ég fer a næturvaktir þar sem vaktir okkar Ása skarast á. Ég mæti í vinnu 17:30 en Ási ekki búin á dagvakt fyrr en 20:00 þá daga.

Ég hugsa að ég kæmist mögulega ekki upp með að vinna fulla vinnu með skólanum ef ekki væri fyrir þetta frábæra stuðningsnet!

Ég s.s. reyni að skipuleggja það þannig að ég læri og fer svo í ræktina í lærdómpásunni, borða hádegismat og læri svo eins mikið og ég get á frídögum meðan börnin eru ekki heima. Ef eitthvað er eftir þegar frísyrpan klárast þá sé ég hvort betra sé að troða því inn eftir vinnu (og ræktina) eða tek bækurnar með mér á næturvakt/læri eftir næturvakt (og svefn).

Allt saman er þetta rosalegt púsl en vel hægt með smá hjálp og góðu skipulgi.

En mikilvægast finnst mér þó að hafa ómældan stuðning maka þar sem ég fæ stundum að læsa mig inni herbergi að læra og taka próf ef illa lendir á dagana og þegar ég er enganveginn að nenna að læra hvetur hann mig áfram!

Mundu bara ef þú getur látið þig dreyma það, þá geturu látið það gerast.

Að lifa með átröskun *trigger warning*

Þó að það séu mörg ár síðan ég greindist með átröskun og ég sé löngu búin að „ná mér“ þá er þetta samt eitthvað sem mun fylgja mér alla ævi.

Ég hef alltaf verið frekar öfgafull manneskja, svona svart og hvítt, allt eða ekkert týpa. Annaðhvort legg ég mig alla fram eða bara ekki neitt. Þetta einkenndi hreyfingu mína á unglingsárunum og framhaldsskólaárunum. Annaðhvort fór ég út að hlaupa á hverjum degi eða ég sleppti því alveg. Annaðhvort fór ég í ræktina tvisvar á dag eða ég mætti aldrei. En ég pældi ekkert mikið í mataræðinu, borðaði bara það sem var í matinn í skólanum og heima hjá mér.

Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla og flutti að heiman tók við tímabil hjá mér þar sem ég hreyfði mig ekki neitt og hugsaði ekkert um hvað ég setti ofan í mig. Mér leið illa andlega án þess að vita af hverju, og í staðin fyrir að vinna í því deyfði ég vanlíðanina með sukk fæði og áfengi. Ég veit það núna að ég glímdi við þunglyndi á þessum tíma og hefði þurft að fá viðeigandi aðstoð til að vinna í því. Eftir heilt ár af sukki og djammi fann ég loksins löngun til að taka mig á, en því miður ekki andlega samt heldur bara líkamlega. Ég hellti mér út í líkamsrækt og tók mataræðið alveg í gegn. Ég fór fljótt að sjá árangur og það hvatti mig til að halda áfram.

Hér var ég farin að sjá mikin árángur og þyrsti í enn meira

Ég æfði á hverjum einasta degi, oft tvisvar á dag, og var fljótlega komin á mjög strangt mataræði. Kílóin flugu af mér en þegar ég var komin í kjörþyngd þá gat ég ekki hætt, ég var orðin háð tilfinningunni sem fylgir því að léttast og grennast. Það veitti mér svo mikla vellíðan. Þannig ég hélt áfram að æfa og fór að telja ofan í mig hverja einustu hitaeiningu. Ég var á endanum hætt að hafa gaman af því að mæta í ræktina og þurfti að pína mig á æfingu. Ég var alltaf þreytt og alltaf svöng, mér var ískalt og þurfti að æfa í þykkri hettupeysu. Sama hvað ég hamaðist mikið þá svitnaði ég ekki einum einasta dropa, roðnaði varla í framan. Ég varð máttlausari og átti erfiðara með að lyfta sömu þyngdum og ég var vön að taka. Öll fötin mín voru orðin allt of stór og hárið fór að hrynja af mér. Mér datt samt ekki í hug að það væri eitthvað að, ég var bara ákveðin í að detta ekki aftur í sama gamla farið, ætlaði ekki að skemma fyrir mér og þyngjast aftur.

Ég reyndi að borða eins lítið af hitaeiningum og ég mögulega gat, lifði á eggjahvítum og kjúklingabringum, og ef ég „svindlaði“ og borðaði eitthvað sem ég „mátti ekki borða“ refsaði ég sjálfri mér með því að vera helmingi lengur í ræktinni og reyna að brenna burt þessum auka hitaeiningum. Ég var alltaf í úlpu inni, sat í skólanum í dúnúlpu með hettuna á hausnum og borðaði eggjahvítur úr plastboxi. Ég var búin að einangra mig félagslega því það komst ekkert að nema að æfa og telja hitaeiningar. Ég eyddi kvöldunum í að elda hafragraut og vikta í plastbox, steikja eggjavítur og skera niður gulrætur til að hafa í nesti. Ég svaf í ullarsokkum, joggingbuxum og hettupeysu, og átti erfitt með að sofna á kvöldin því ég skalf úr kulda, þurfti að nudda á mér tærnar og fingurnar til að geta sofnað. Ég var orðin svo skelfilega veik í hausnum en ég sá það ekki sjálf og hlustaði ekki á fólkið í kringum mig sem reyndi að segja mér það. Mér fannst ég vera ein og að allir væru á móti mér. Allir vildu láta mig fitna, og ég ætlaði sko ekki að láta það eftir þeim.

Ég náði algjörum low point þegar ég fékk þá hræðilegu hugmynd að sleppa því bara alveg að borða og drekka. Ég komast að því að ég var grennst á morgnana og þandist svo út eftir því sem leið á daginn, þannig ég ákvað bara hreinlega að hætta að borða og drekka, til að vera með alveg sléttan maga (ég veit, hversu galið??!). Þarna var ég orðin svo andlega veik að mér var eiginlega alveg sama þó ég myndi deyja, ég vissi alveg að það væri ekki hægt að lifa án þess að borða og drekka, en tók samt meðvitaða ákvörðun um að hætta að borða og drekka. Þetta var hvort sem er ekkert líf hugsaði ég þarna. Ég laug að öllum að mér væri óglatt, að ég væri örugglega bara að verða veik, svo lá ég uppí rúmi undir sæng og horfði á veginn. Vildi ekki fara neitt eða gera neitt. Eftir nokkra daga af þessu ástandi fór mamma með mig á spítalann, þá var komin svo mikil ammoníakslykt af mér að allt herbergið angaði. Ég gat varla staðið í lapparnir, ég titraði og skalf og það ætlaði að líða yfir mig. Ég fékk næringu í æð og viðtal við lækni, komst að því að ég væri með anorexíu og þunglynd. Ég byrjaði á þunglyndislyfjum og þegar þau byrjuðu að virka þá fékk ég lífið mitt til baka. Ég öðlaðist aftur viljan til að lifa, og aðrir hlutir heldur en bara mitt eigið holdarfar fóru að skipta mig máli.

Hér var mér farið að líða miklu betur andlega og líkamlega, ég var farin að borða meira og lyfta þyngra og leið vel með að þyngjast og bæta á mig vöðvum

Leiðin til baka var ekki bein, ég hætti ekki bara allt í einu að vera með anorexíu, en ég vann í sjálfri mér, og með mikilli vinnu tókst mér að sigrast á þessum hræðilega sjúkdómi sem anorexía er. En þó held ég að þetta sé sjúkdómur sem maður sigrar kannski aldrei alveg, þetta fylgir manni alltaf að vissu leiti. Þegar ég varð ólétt af eldri dóttur minni fannst mér erfitt að þyngjast og sjá líkamann minn breytast, en ég var svo veik alla meðgönguna að ég gat ekkert hreyft mig og vegna mikillar ógleði var mataræðið ekki uppá marga fiska.

Hér var ég að „taka mig á“ eftir að ég gekk með eldri dóttur mína

Það var ekki fyrr en ég gekk með yngri dóttur mína sem mér fór að þykja vænt um líkama minn og lærði að meta hversu mikils virði það er að fá að ganga með barn, og hvað líkaminn er magnaður.

Hér var ég ólétt af yngri dóttur minni og leið mun betur með líkamann heldur en á fyrri meðgöngu

Í dag eru 6 ár síðan ég greindist með anorexíu og þetta er ennþá barátta, þó svo að ég hafi náð mjög langt. Ég þarf að minna mig á það á hverjum einasta degi að hamingjan er ekki metin í holdarfari. Ég þarf virkilega að hafa fyrir því að fara milliveginn á milli þess að hugsa of mikið um mataræði og hreyfingu, og að hugsa of lítið um það. Ég reyni að hugsa um mat sem næringu fyrir líkamann og sálina, og ég hreyfi mig fyrir vellíðanina sem fylgir hreyfingu, en ekki til að breyta holdarfarinu.

Hér eru nokkur ráð sem hjálpuðu mér að takast á við anorexíuna, en þetta er eflaust mjög persónubundið:

  • Að fá hjálp hjá fagaðilum var fyrsta skrefið hjá mér (læknar, sálfræðingar, næringarfræðingar o.s.frv.)
  • Að finna viljan til að losna við anorexiuna (þetta var að mínu mati erfiðasta skrefið, ég vildi losna við þennan skelfilega sjúkdóm, en samt ekki því ég vildi ekki fitna, en ef maður vill ekki laga ástandið þá mun það ekki lagast! Ég mæli með að fá hjálp frá sálfræðingi við þetta skref)
  • Að fylgja bara fólki sem lætur manni líða vel á samfélagsmiðlum, ekki fylgja fólki sem hefur neikvæð áhrif á líðan manns
  • Að lesa um body-positivity og self-love, og læra að elska líkama sinn
  • Að hugsa um mat sem næringu fyrir líkama og sál, en ekki sem óvin
  • Að stunda hreyfingu á réttum forsendum (vegna þess að manni langar það eða vegna þess að manni líður vel eftirá, en ekki vegna þess að maður „þarf“ þess)
  • Að tala um hvernig manni líður, ekki fela það
  • Að reyna að forðast öfgar í mataræði og hreyfingu (átak, megrun, svindl máltíð, nammidagur, allt svona getur triggerað átröskun)
  • Þú ræður yfir matnum, hann ræður ekki yfir þér !
  • Að mæla árangur í hreyfingu með einhverju öðru en kílóum og sentimetrum, reyna að hafa það að markmiði að lyfta þyngra, hlaupa hraðar, hoppa hærra o.s.f, en ekki missa x mörg kíló

Í lokin ætla ég að mæla með að fylgja Röggu Nagla og Ernulandi á samfélagsmiðlum, en það hefur hjálpað mér mjög mikið í minni baráttu að lesa pistla frá þeim og fylgjast með þeim.

Kveðja Glódís

Instagram: glodis95