Tómstundir þegar útiveran gengur ekki

Þetta er færsla fyrir alla veikindapésa og þegar viðrar ekki nógu vel fyrir útiveruna.

1. Kauptu pappírsrúllu í t.d. ikea og svuntu því þetta gæti orðið… Skemmtilegt! Blandaðu þína eigin málningu úr hráefnum sem flestir eiga í eldhússkápnum og málið fallega mynd.

2. Setjist undir teppi í stofunni og lesið bók með fallegum myndum og ræðið myndirnar… ekki verra ef ykkur tekst að búa til ykkar eigin sögu bara úr myndunum.

3. Búið til trölladeig og leirið eitthvað skemmtilegt.

4. Bakið smákökur, það er vel hægt að finna hollar og góðar smáköku uppskriftir.

5. Búið til virki í stofunni eða borðstofu… Æskan er svo stutt hjá þessum elskum og þau munu aldrei minnast draslsins heldur samverunnar.

6. Sitjið bara og spjallið um daginn og veginn… Þegar börnum gefst færi á þá þykir þeim rosalega gaman að bulla og tala um sig og sína sýn á heiminum.

7. Spilið borðspil eða bara þessi klassísku spil (veiðimaður, olsen olsen ofrv.

8. Kubbið hús og leikið með barbí… Notið ímyndunaraflið.

9. Búið til þrautabraut í stofunni eða lekfimidýnu á ganginum (leggja niður sængur og teppi.

10. Hafið ykkar eigin danspartý þar sem allir skiptast á að velja lag til að dansa við.

11. Hví ekki að nota gömlu sokkana sem aldrei finnst parið saman. Búið saman til sokkabrúður.

12. Búið til músastiga eða pappakeðju.

13. Farið í tískuleik (alltaf gaman að fá að máta mömmu og pabba föt)

14. Púslið saman.

15. Hafið lautarferð… inni!

16. Búið til kórónu eða grímu úr pappír.

17. Farið í feluleik… það er alltaf gaman!

18. Lærið origami (netið getur hjálpað)

19. Gerið bílaþvottastöð… fyrir dótabíla.

20. Gerið ratleik inni!

Leiðin að léttari prófatíð

Langar þig að komast í gegnum prófatíðina með minna stress og betri andlegri og líkamlegri heilsu? Hér eru nokkrir punktar sem gott er að hafa í huga fyrir komandi prófatörn.

1. Skipulag:

Þegar fer að líða að lokum í áföngunum/námskeiðunum finnst mér best að skrifa lista með öllu því sem ég þarf að gera fyrir próf. Þá fer ég yfir allar kennsluáætlanir og skrifa niður hjá mér hvaða blaðsíður ég á eftir að lesa í hverjum áfanga, hvaða fyrirlestra ég á eftir að hlusta á, hvaða verkefnum ég á eftir að skila, hvað ég á eftir að læra betur fyrir hvert próf osf. Svo deili ég verkefnum niður á dagana fram að prófum þannig að ég hafi áætlun fyrir hvern dag. Ég passa að ætla mér ekki of mikið á hverjum degi og reyni frekar að byrja fyrr og hafi fleiri daga, heldur en að byrja seinna og þurfa að læra stanslaust frá morgni til kvölds síðustu dagana fyrir próf. Þetta finnst mér best að gera að minnsta kosti tveim til þrem vikum fyrir fyrsta prófið, og því fyrr því betra. Mér finnst mikilvægt að skilja eftir einhvern frítíma til þess að eyða með fjölskyldunni og gera eitthvað skemmtilegt.

2. Svefn:

Það er mjög mikilvægt að fá nægan svefn, sérstaklega í prófatíð. Heilinn vinnur úr upplýsingum á meðan við sofum og þess vegna græðir maður ekkert á því að taka all nighter eða læra langt fram á nótt og vera svo dauðþreyttur þegar maður tekur prófin. Skipulegðu þig vel svo að prófalærdómurinn bitni ekki á svefninum. Og það skiptir líka máli að passa upp á að halda koffínneyslu í lágmarki, sérstaklega seinnipartinn.

3. Hreyfing:

Ekki hætta að hreyfa þig í prófatíðinni. Haltu áfram að stunda þá hreyfingu sem þú ert vön/vanur að stunda, og ef þú ert ekki vön/vanur að stunda neina hreyfingu mæli ég með að fara allavega út í smá göngutúr. Skipulegðu þig það vel að þú hafir tíma til að hreyfa þig þó þú sért á fullu að læra fyrir próf. Það skilar sér margfalt til baka. Hreyfing er frábær leið til að hvíla hausinn, fá útrás og auka orku og vellíðan.

4. Pásur:

Ekki læra of mikið í einu! Þegar maður finnur að maður er að missa einbeitinguna er miklu betra að taka stutta pásu og koma svo ferskur til baka, heldur en að halda áfram að ströggla við að meðtaka upplýsingar sem fara svo bara inn um annað og út um hitt. Mér finnst best að taka frekar oftar pásur og hafa þær styttri en finndu bara þann takt sem hentar þér best. Nýttu pásurnar vel, teygðu úr þér, farðu út og andaðu að þér fersku lofti, fáðu þér að borða, horfðu á einn stuttann þátt, settu gott podcast í eyrun í smá stund og hvíldu heilann.

5. Mataræði:

Ég hef bæði reynslu af því að detta í „sukkgírinn“ þar sem ég borða bara rusl alla prófatíðina, og „stressgírinn“ þar sem ég lifi á kaffi og pesi maxi og borða lítið sem ekkert þar til prófin eru yfirstaðin. Ég mæli með hvorugu, janfvægi er lykillinn ! Gefðu þér tíma til að útbúa hollan og góðan mat sem nærir bæði sálina og líkamann. Heilinn þarf orku til að læra, og ekki skyndiorku sem kemur úr sælgæti og skilur mann svo eftir þreyttari fyrir vikið, þegar blóðsykurinn fellur aftur niður, heldur góða og stabíla orku sem kemur úr hollu mataræði. Það er ekkert að því að fá sér súkkulaði líka, eða jólaöl og piparkökur eða hvað sem þig langar í á meðan þú ert að læra. Passaðu bara að borða líka góða næringu og drekka nóg af vatni.

6. Passa bak og axlir:

Hver kannast ekki við það að vera að drepast úr vöðvabólgu við prófalesturinn? Axlirnar eru orðnar svo stífar að maður er kominn með dúndrandi hausverk og bakið orðið aumt á því að sitja svona mikið. Það er hægt að koma í veg fyrir þetta (eða að minnsta kosti minnka þessi einkenni) með fyrirbyggjandi aðgerðum. Passaðu upp á bakið þegar þú situr og lærir, vertu bein/nn í baki og slök/slakur í öxlum. Vertu dugleg/ur að standa upp og teygja úr þér, rölta aðeins um, taka jafnvel nokkrar jógaæfingar eða nota nuddbolta. Stundaðu hreyfingu til að liðka vöðvana og fá hita í þá. Ef vöðvabólga gerir vart við sig er gott að fara í heitt bað eða heitapottinn, nota hitakrem eða hitapoka á axlirnar, fara í nudd, teygja, nota nuddbolta, nuddbyssu, rúllu osf.

7. Hugarfar:

Farður jákvæð/ur inn í prófatíðina! Reyndu að forðast stress og prófkvíða, til dæmis með því að skipuleggja þig vel og læra samviskusamlega fyrir prófin. Passaðu að detta ekki í fullkomnunaráráttu gírinn, heimurinn ferst ekki þó að þér gangi illa í einu prófi, þú gerir bara þitt besta og í versta falli ferðu í upptökupróf. Það er alltaf hægt að reyna aftur.

8. Gulrót:

Verðlaunaðu þig eftir hvert próf, leyfðu þér að hafa eitthvað að hlakka til! Það þarf ekki að vera stórt eða merkilegt, bara eitthvað sem veitir þér vellíðan og hvetur þig til þess að komast í gegnum lærdóminn og prófin. Ákveddu fyrirfram að gera eitthvað skemmtilegt eftir próf og gerðu tíma fyrir það þegar þú skipuleggur þig fyrir prófatíðina. Þetta getur til dæmis verið bíóferð með vinum, deit með maka, eitthvað skemmtilegt með fjölskyldunni eins og skautaferð eða smákökubakstur, kósý kvöld með uppáhald mat og góðri bíómynd, ísferð eða bara hvað sem þér dettur í hug.

9. Forgangsröðun:

Ekki fara á taugum þó að óhreinatauið fyllist, drasl safnist í stofuna eða gólfið verði skítugt. Það er alltaf hægt að þrífa og taka til eftir próf. Passaðu upp á forgangsröðunina í prófatíðinni, nýttu frítímann í að gera eitthvað fyrir sjálfa/n þig og eyða tíma með fjölskyldu og vinum. Ekki stressast yfir því þó að heimilið sé ekki tip top rétt á meðan á prófum stendur, það er nógu stressandi að vera í prófum og við skulum ekkert vera að bæta óþarfa stressi ofan á það. Það þarf ekki allt að vera fullkomið !

Gangi ykkur öllum vel í komandi prófum & munið bara að gera ykkar besta

Kveðja Glódís

https://www.instagram.com/glodis95/

Vikumatseðill

Það var lítið eldað á mínu heimili í síðustu viku, enda mikið um að vera. Það var lota hjá mér í skólanum, Maísól var lasin, ég fór út að borða með skólafélögum og svo fór ég líka á árshátíð. Eftir ótrúlega skemmtilega en annríka seinustu viku hlakka ég til að hafa það aðeins rólegra og eyða meiri tíma heima hjá mér í þessari viku. Hér kemur matseðill fyrir næstu daga, en eins og ég hef sagt áður og þið hafið eflaust tekið eftir sem fylgið mér á instagram, þá tekur seðillinn yfirleitt alltaf einhverjum breytingum í gegnum vikuna og einhverjir réttir færast á milli daga en það er í góðu lagi, þetta er bara viðmið og svo færum við til eftir þörfum, til dæmis þegar það verða afgangar sem við reiknuðum ekki með, ef okkur er óvænt boðið í mat eða ef ekki gefst tími til að elda.

Mánudagur: heill kjúklingur, steikt grænmeti & bygg

Þriðjudagur: soðinn fiskur, kartöflur, rófur, smjör & rúgbrauð

Miðvikudagur: rjómalagað pasta með skinku & grænmeti

Fimmtudagur: afgangar

Föstudagur: quesadilla með nautahakki, guacamole, ferskt salsa & nachos flögur

Laugardagur: parmesan kjúklingaborgari með mozzarella og hvítlaukssósu

Sunnudagur: hægeldaðir lambaskankar og kartöflustappa

Ef þið hafið ekki prófað að gera vikumatseðil þá hvet ég ykkur til þess, þetta sparar bæði tíma og peninga og kemur í veg fyrir að maður þurfi að ákveða það, korter í sjö þegar allir eru þreyttir, hvað á að vera í matinn. Við förum miklu sjaldnar í búðina og hendum miklu minna af mat eftir að við byrjuðum með þetta fyrirkomulag. Margir mikla þetta fyrir sér en um leið og maður venur sig á að gera þetta þá er það ekkert mál.

Kveðja Glódís

Ps. ef þið viljið fylgjast betur með og fá innblástur þá getið þið fylgt mér á instagram:

https://www.instagram.com/glodis95/

Jólin mín byrja í … Hertex

Ég kíkti á dögunum í Hertex, Vínlandsleið til þess að skoða jóladót. Ef að ykkur „vantar“ eitthvað fyrir þessi jólin mæli ég með því að kíkja á hina ýmsu nytjamarkaði fyrst og athuga hvort að það sé fáanlegt þar. Ég fór í þeim tilgangi að ná mér í efnivið fyrir margnota jólagjafa“pappír“ og skoða hvort ég fyndi mögulega eitthvað í jólapakka….Ég fann ýmislegt flott en ég þurfti ekki mikið þar sem ég kem enn til með að búa hjá mömmu og pabba um jólin, ég á þó ekki mikið jólaskraut og þegar kemur að því að versla mér jólatré og eitthvað smá meira skraut fer ég klárlega aftur í Hertex til þess.

Það sem ég verslaði kostaði mig 2300 krónur í heildina, en þetta eru: 2 púðaver og viskastykki sem að ég ætla að nýta í gjafa“pappír“, 3 smákökubox sem ég ætla að nota í jólagjafir, 4 smákökumót, pakki með 12 litlum smákökumótum, bangsi til upphengingar og jólasvein á tréð.

Við þurfum að huga að neysluminni jólahöldum og að versla notað er góð byrjun, leita fyrst að því sem vantar á hinum ýmsu nytjamörkuðum og kannski líka að spá vel í það hvort þetta sé kannski tilbúin þörf? (jólagjafir sem hafa verið keyptar á nytjamörkuðum eru  einnig engu síðri en ég er búin að versla nokkrar bæði í Hertex, Barnaloppunni og Extraloppunni til dæmis)

Þangað til næst Irpa Fönn

Prótein Frappuccino

Þessi drykkur er næstum því betri en alvöru frappó sem maður kaupir á kaffihúsum en hann er miklu miklu hollari. Þetta er frábært próteinríkt millimál sem ég elska að fá mér þegar ég er þreytt og langar í eitthvað extra gott og orkugefandi. Hvort sem það er seinnipartinn á virkum degi þegar manni vantar smá auka orku til að klára daginn, eða um helgar þegar mann langar að gera vel við sig, þá á þessi drykkur vel við. Uppskriftin er alls ekki heilög og má alveg nota annað próteinduft, aðra sósu osf. Og ef maður vill gera extra vel við sig er hægt að toppa drykkinn með rjóma og sykurlausri súkkulaðisósu og þá líkist þetta Starbucks Frappuccino.

Prótein frappó:

1 bolli gott kaffi

2 góðar lúkur klakar

1/2 frosinn banani

1 skeið prótein (ég nota ON protein energy með Mocha Cappuccino)

1/2 flaska Nije próteindrykkur með Cappuccino bragði

1 msk sykurlaus súkkulaðisósa (t.d. frá Bodylab eða Callowfit)

Öllu blandað saman í blandara og drukkið strax !

Að hafa hug og líkama á sama stað

Orðið núvitund er eitthvað sem margir, ef ekki allir, hafa heyrt minnst á en eflaust ekki allir sem skilja hvað átt er við með því. Hvað er núvitund og afhverju ætti ég að tileinka mér hana?

Núvitund felst í ýmsum hugsunum og athöfnum sem hægt er að iðka í raun hvar sem er. Margir virðast misskilja núvitund sem athöfn sem eigi sér eingöngu stað þegar maður situr eða liggur einn með sjálfum sér. Það er, jú, ein leið en ég tel mikilvægara að taka núvitundina með sér inn í hvern einasta dag. Að fara frammúr á hverjum morgni með það í huga að hafa athyglina einungis á því sem þú ert að gera, hér og nú. Að hugurinn og athyglin sé ávallt samtaka líkamanum. Það eru eflaust allir sem lesa þetta sammála þessu en ég leyfi mér að fullyrða að einungis örfáir lifa eftir þessu í raun og veru.

Við erum alltof gjörn á að leyfa huganum að reika milli fortíðar og framtíðar og er ég engin undantekning þar. Ég ranka reglulega við mér, jafnvel bara á meðan ég er að gefa Arndísi Lilju að borða, á meðan ég er að elda eða í skólanum, þar sem ég hef kannski verið að velta því fyrir mér í hverju ég ætli í afmælið hjá vinkonu minni næstu helgi eða hvað ég ætli að gera eða segja í ákveðnum aðstæðum sem hafa ekki enn átt sér stað. Í hvert einasta skipti sem ég gríp mig við þessar hugsanir reyni ég að minna sjáfa mig á að passa mig að spá ekki svo mikið í því sem er búið að gerast eða á eftir að gerast, að ég láti dýrmæt augnablik fara í áhyggjur af framtíð eða fortíð.

Auðvitað er gott að skipuleggja sig og að plana fram í tímann, en maður þarf að gera greinamun á því sem er eðlilegt að skipuleggja og því sem er best að leyfa bara að gerast, án nokkurs undirbúnings.

Með því að vera meðvituð um og þjálfa okkur í núvitund, lærum við að kúpla okkur frá þessu ,,autopilot“ ástandi sem við erum oft í og öðlumst þannig aukna meðvitund um okkur sjálf og umhverfi okkar.

Ég er svo lánsöm að hafa átt mömmu sem kynnti mig fyrir og kenndi mér að reyna mitt besta til að tileinka mér núvitundina og finnst mér því vel við hæfi að ljúka þessum pistli á nokkrum af hennar orðum, sem hafa komið sér svo ótrúlega vel á annasömum jafnt sem ekki-svo-annasömum dögum:

,, . . . núið er (hér) lykilatriði og það kostar stanslausa þjálfun að komast þangað í alvörunni en ekki bara í formi frasa. Þannig finnst mér að það ætti að vera hjá okkur öllum. Við eigum að staldra við, minnka hraðan, slaka á kröfum á okkur sjálf, börnin okkar og aðra í kringum okkur, stoppa, hlusta, horfa, snerta og nota alla skynjun í að njóta lífsins.“

Vikumatseðill

Eftir ansi strembna seinustu viku hlakka ég til að byrja nýja viku með matseðil stútfullann af girnilegum réttum. Ég var í lokaprófi á föstudaginn og seinasta vika fór því meira og minna í prófalestur og stressið sem því fylgir. Því var lítið um heimagerðan mat og meira um skyndibita og skyr og brauð eins og vill verða þegar maður skipuleggur sig ekki alveg nógu vel. En ég hlakka til að hafa meiri tíma til þess að elda góðan mat í þessari viku og geta sest niður í rólegheitunum með fjölskyldunni yfir kvöldmatnum. Það er eitthvað sem ég held að sé allt of vanmetið, að sitja öll saman í ró og næði yfir ljúfengri heimagerðri máltíð og spjalla saman eftir annríkan dag.

Mánudagur: kjúklinganúðlur

Þriðjudagur: bleikja, blómkálsgrjón & hvítlaukssósa

Miðvikudagur: lasagna á pönnu & hvítlauksbrauð

Fimmtudagur: afgangar

Föstudagur: kjötbollur, piparostasósa & kartöflustappa

Laugardagur: heimapizza

Sunnudagur: lambahryggur, brúnaðar kartöflur & meðlæti

Eins og vanalega leyfi ég fylgjendum mínum á instagram oft að vera með við eldamennskuna og því bendi ég á instagram síðuna mína hér að neðan fyrir áhugasama. Eigið ljúfa viku.

Þar til næst

Glódís

Hollt og sjúklega gott túnfisksalat

Þetta túnfisksalat er það gott (og það hollt) að maður getur borðað það með skeið beint úr dallinum. Hins vegar mæli ég með því að setja það ofan á eitthvað gott hrökkbrauð eða gróft brauð, það er algjört sælgæti.

Innihald:

2 soðin egg (mér finnst best að hafa þau ekki alveg harðsoðin heldur smá mjúk alveg í miðjunni)

1 dós túnfiskur

1/2 fínt saxaður laukur

100 gr kotasæla

100 gr sýrður rjómi 10%

2 msk light mayonnaise

Svartur pipar

Hvítur pipar

Aromat

Öllu blandað vel saman og kryddað eftir smekk, best að smakka sig bara til. Geymist í nokkra daga í lokuðu íláti inni í ísskáp.

Glódís

Kartöflu og púrulaukssúpan hennar tengdó

Ég er ekki sú eina Í fjölskyldunni sem hefur ástríðu fyrir mat! Tengdamamma mín er snillingur í eldhúsi, hún hefur dásemd af því að elda og gera góðan mat og hef ég lært margt af henni!

Hér er ein af mínum uppáhalds súpum ever sem þið bara verðið að smakka!! þessi súpa hefur verið í flestum stórveislum sem við maðurinn minn höfum haldið og ekki skemmir fyrir hvað það er ódýrt að kaupa í hana!

Hráefni

 • Púrulaukur 1stk
 • Hvíturlaukur 2stk
 • Bökunarkartöflur 4 stk
 • Hvítlauksrif 4 stk
 • Lárviðarlauf (fjarlægja áður en þið maukið)
 • Vatn sem flítur rétt yfir grænmetið
 • 400 grömm rjómaostur
 • 4stk kjötkraftur
 • Salt og pipar
 • Rjómi er æðisleg viðbót (svona spari)

Aðferð

 1. Skerið grænmetið í bita
 2. Því næst er það vatnið sem á rétt svo fljóta yfir grænmetið.
 3. Þegar grænmetið er soðið bætir þú við kjötkraftinum, rjómaostinum og lárviðarlaufinu (sem er svo tekið rétt áður en þú maukar)
 4. Því næst setur þú salt og pipar eða Herbamare og pipar! Og leyfir bragðinu koma fram í súpunni
 5. Svo er ekkert annað eftir en að mauka.

Og þá er það bara að njóta

Þangað til næst

Guðbjörg Hrefna

Instagram – arnadottirg

Takk elsku líkami

Ég er alveg einstaklega þakklát og stolt af líkamanum mínum, líkt og við ættum öll að vera. Spáið aðeins í því hversu magnaður hann er…


Á síðustu tvem og hálfu ári hef ég gengið tvö börn. Ég er með slappa húð á maganum og brjóstunum, nóg af aukakílóum (skv. BMI staðli) og feikinóg af slitum svo eitthvað sé nefnt. Þetta er að sjálfsögðu ekki einu skiptin sem hann hefur gengið í gegnum eitthvað því jú ég hef gengið í gegnum allskonar líkamlegar breytingar á mínu æviskeiði líkt og við öll svo að sjálfsögðu hafa orðið breytingar, þó barneignirnar hafi án efa leitt af sér drastískustu breytingarnar.

Það koma að sjálfsögðu tímabil og dagar inn á milli þar sem að ég er ótrúlega sár yfir lausu húðinni á maganum mínum sem lafir, eftir að hafa fætt Maríus þá hefur mér ekki tekist að losna við hana (það er svona þegar bumban birtist á innan við mánuði frá engu yfir í að springa utan af 20 marka barni)

Ég á svolítið erfitt með að horfa á mig í speglinum suma daga, mér finnst ég einhvernveginn ekki vera ég, ég er svo allt öðruvísi en fyrir ári síðan (halló eðlilega samt ég var að eignast barn).

Mér fannst ég svo hryllileg fyrir ári síðan, alltof þykk og árangurinn af ræktarstandinu sást ekki nóg. Í dag er það formið sem ég nota sem viðmið því í dag sé ég hvað ég var flott.

Kannist þið ekki við að hugsa stundum „ég vil verða grennri“, „ég vil vera meira svona eins og hún eða hann“, „ég vil vera með stærri/minni rass/brjóst/læri/maga/hendur/fætur“, „ég vildi að ég væri með krullur“, „afhverju er ég ekki bara með slétt hár“ o.s.frv. en svo á einhverjum tímapunkti síðar horfa á mynd síðan á því tímabili og hugsa „ég skil ekki hvað ég var að hugsa með þessum órum mínum um annað“ Það er ég núna þegar ég hugsa til baka.


Þegar ég var yngri gerði ég æfingar sem áttu að minnka líkurnar á ennishrukkum og fór að gráta yfir stærðinni á lærunum mínum…ég var 10 ára, hversu klikkað er það.

Í dag veit ég þó að það er mikilvægt að vera þakklátur fyrir hverja hrukku, hvert grátt hár, slitin, slöppu húðina, örin og allt hitt. Þetta þýðir einfaldlega að ég er að eldast og lifa lífinu, þetta eru ummerki því til sönnunar og minningar um liðnar stundir.

Það eru forréttindi að eldast, það eru forréttindi að geta eignast börn, það eru forréttindi að … ég gæti talið endalaust upp en þú nærð þessu, svo takk, takk kæri líkami fyrir það að standa með mér í gegnum þykkt og þunnt, takk fyrir allt sem þú hefur gert fyrir mig og gerir og takk fyrir allar liðnar stundir, ég vona svo innilega að þær verði miklu fleiri!


Þið hafið kannski tekið eftir myndunum hérna í gegnum færsluna, þetta er ég á 2,5 ári, mér hefur fundist eitthvað að mér á þeim flestöllum en um daginn setti ég þær allar saman og hugsaði „nei andskotinn þetta er magnað! Líkaminn minn er magnaður og hann á skilið að ég sé þakklát fyrir hann og átti mig á því að þetta er ekkert spretthlaup, þetta er langhlaup og við erum öll sífellt að breytast, það er partur af lífinu – ég get ekki beðið eftir að sjá hvernig ég verð eftir ár“

Ég vona að þið séuð sammála mér hve magnaður líkaminn er og langar að biðja ykkur öll að staldra stundum við og þakka honum fyrir allt það magnaða starf sem hann vinnur.

Þangað til næst

Irpa Fönn

(Insta: irpafonn)

Vikumatseðill

Við vorum með pastarétt í matinn í gærkvöldi og það var svo mikill afgangur að það dugir í kvöldmatinn í kvöld líka, og ég verð að viðurkenna að það er rosa þægileg tilhugsun að þurfa ekki að elda neitt í kvöld, bara henda pastanu í örbylgjuofninn. Þar sem maður hefur oftast nægan tíma á sunnudögum en talsvert minni tíma á mánudögum þá getur verið mjög þægilegt að elda stóra máltíð á sunnudegi og þá er mánudagurinn aðeins auðveldari. Ég mæli með því að hafa þetta í huga þegar þið gerið vikumatseðil, en öll ráð til að gera mánudaga aðeins auðveldari gríp ég fegins hendi. Hér kemur matseðillinn þessa vikuna:

Mánudagur: afgangar

Þriðjudagur: kjöt í karrý og hrísgrjón

Miðvikudagur: bleikja, couscous og ofnbakað grænmeti

Fimmtudagur: píta með nautahakki, steiktu grænmeti, osti, salati og pítusósu

Föstudagur: heill kjúklingur, franskar, koktelsósa og salat

Laugardagur: quesadilla með afgangs kjúlla, sýrður rjómi, salsasósa, guacamole, nachos og salat

Sunnudagur: heimapizza

Þar til næst

Glódís

Fæðingarsaga Svavar Bragi

Þessi meðganga hafði gengið bara eins og í sögu. Eina sem hafði hrjáð mig alla meðgönguna var grindarverkir af og til ef ég beitti mér rangt en að öðru leyti var ég bara ekkert „ólétt“… eða allavega fram að síðustu vikunni því drengurinn var bara ekki neitt að drífa sig í heiminn og hélt sig viku lengur í mömmuhlýju.

Morguninn 20. Október 2013 átti ég að mæta upp á HSS í belglosun til að sjá hvort það kæmi ekki einhverju afstað. Þar sem ég var bíllaus tók ég strætó ein frá ásbrú inní Keflavík og leyfði Danna bara að sofa. Ljósmóðirin ákvað að vera alls ekki að gera mér upp neinar vonir svo við sendum beiðni í leiðinni fyrir gangsetningu á LSH í vikunni á eftir og sagði hún mér að þó að ég fengi seiðing væri ekkert ólíklegt að það hætti svo aftur því ég var ekki komin með neina útvíkkun af viti.

Þar sem besta vinkona mín bjó bara nánast við hliðina að spítalanum, rölti ég þangað og ætlaði að fá hana til að skutla mér heim (kl ca 11/11:30) en hún steinsvaf og ég ekkert á neinni hraðferð svo ég sest bara og spjalla við mömmu hennar. Þó nokkrar mínútur líða og eftir smá tíma þá tekur Svana (mamman) eftir því að ég er farin að styðja við bumbuna og hálf gretta mig á nokkurra mínútna millibili og fer laumulega að taka tímann. Þegar hún áttar sig á að ég geri þetta með nokkuð jöfnu millibili spyr hún mig hvort ég væri ekki að taka tímann… Nei ég sagðist nú ekki vera að því og af hverju ég ætti að gera það. „Ertu ekki með verki?“ Jú ég var nú alveg með seiðing en ég gat nú lítið kvartað. 5 mínútur á milli!

Þetta gat nú ekki verið bara svo einfalt, ljósan losar belginn og ég bara strax með hríðaverki?

Ég held það nú, með tímanum versna verkirnir og styttist á milli svo við vekjum Sunnu sem fær vægt sjokk. Hellir í SJÓÐANDI bað fyrir mig og otar að mér helling af mat því ég yrði nú að hafa orku í þetta allt saman. Eftir smá tíma röltum niður á HSS aftur (nú eru 6 ár liðin og ég ekki alveg með tímann) til að sjá hvort það væri rétt, var ég komin með hríðar?

Það var svosem ekkert að gerast akkurat á þessari stundu svo ég fer til baka og kúri mig í gegnum verkina áður en ég gefst alveg upp og vill bara fara niður á deild í baðið og fá glaðloft. Þegar þarna kemur við sögu eru ca 2 mín á milli verkja. Það reyndist líka nær ómögulegt að ná í Danna en það hafðist svo á endanum og hann kom með pabba sínum niður í Keflavík til að ná að vera viðstaddur fæðinguna.

Ég reyni að slaka vel á milli hríða og fæ mömmu til að nudda á mér bakið með köldum höndum á meðan ég lá í heitu baðinu (já hún þurfti að skipta um hendi mjög ört). Þegar ég hafði legið í baðinu í svolítinn tíma fer ég að fá rembingsþörf, en útvíkkunin var ekki alveg búin svo ég má ekki rembast alveg strax og loksins þegar ég mátti rembast þá gerðist allt frekar hægt. Þegar ég hafði rembst í að verða 2klst fór hjartslátturinn hjá hnoðranum að verða aðeins of ör svo ég var fengin uppúr baðinu og á rúmið sem var bara akkurat það sem þurfti til að hann snerist almennilega í grindinni og þaut út í öðrum rembingi eftir að ég hafði lagst. Hann s.s. hafði líklega legið skakkt í grindinni allann þennan tíma og það með hendi í hálsakoti sem gerði það en seinfærara.

Hann fæðist svo 17 merkur og 53cm kl 20:57 þann 20.október.

Það vantaði ekki sopann fyrir hann en hann lá á brjóstinu megnið af fyrstu 2 árunum sínum.Þessi maður er einn sá yndislegasti og lífsglaðasti sem ég hef kynnst en hann féll frá fyrir 1 árs afmælið hans Svavars Braga en hann heitir í höfuðið á honum, Svavar.