Á óskalistanum – október

Mig langaði til þess að deila með ykkur hvað er á óskalistanum hjá mér um þessar mundir fyrir börnin en hér er bland af leikföngum, fatnaði, „nauðsynjavörum“ og slíku. Ég læt fylgja tengla á heimasíður þar sem þeir hlutir sem eru á mínum lista fást, vert er þó að taka fram að færslan er ekki unnin í neinu samstarfi.

Vonandi hafið þið gaman að:

 1. Sparibaukur – Plantoys
 2. Þrifsett (leikfang) – Plantoys
 3. Bambus sett fyrir Maríus – minilist.is
 4. Bambus samfellukjóll fyrir Marín – minilist.is
 5. Gersemi – mosibutik.is (í samstarfi við Kristín Maríellu og Birtu Ísoldsdóttur)
 6. Hylur – valhneta.is
 7. Taubleyjur, Konges Sløjdpetit.is
 8. Jóladagatal, Design letters – epal.is
 9. Grisjubox IKEA

Þangað til næst

Irpa Fönn

Vikumatseðill

Vikumatseðillinn í þetta skiptið byrjar á föstudegi. Mér finnst best að gera vikumatseðil og vikuinnkaup sama daginn og það þarf ekkert endilega að vera á mánudegi. Oft finnst mér mest til í búðunum á föstudögum og grænmetið og ávextirnir líta best út, og þess vegna er fínt að gera þetta á föstudegi og byrja helgarfríið með fullann ísskáp og nóg til af öllu.

Föstudagur: heimapizza

Laugardagur: kjúklinga enchiladas, sýrður rjómi, salsa sósa, doritos, avacado, gúrka og paprika

Sunnudagur: lambahryggur, kartöflubátar, maísbaunir, salat og brún sósa

Mánudagur: afgangar

Þriðjudagur: bleikja, couscous, grænmeti og rúgbrauð

Miðvikudagur: kjötbúðingur og kartöflustappa

Fimmtudagur: hakk & spaghetti, hvítlauksbrauð og salat

Kveðja Glódís

https://www.instagram.com/glodis95

Fæðingarsaga x2

Hér kemur fæðingarsagan hennar Sóllilju sem fæddist 20. apríl 2015 en settur dagur var um miðjan júní. Hún fæddist á 32. viku og var 8 merkur. Ég skrifaði þennan texta fljótlega eftir að ég átti hana og ætla bara að leyfa honum að standa óbreyttum:

„Fæðingarsagan mín:

Meðgangan gekk frekar brösulega hjá mér og fyrstu mánuðina ældi ég nánast alla daga og endaði á að taka inn póstafen eftir að hafa verið lögð inn á spítala 2x með vökva í æð. Um sama leiti og ógleðin lagaðist byrjaði ég að fá grindargliðnun sem varð svo slæm að ég þurfti að minnka niður í 50% vinnu strax í janúar. En þrátt fyrir mín veikindi dafnaði krílið vel og stóðst allar skoðanir. 

Þegar ég var komin 32 vikur fór ég að taka eftir því að ég var komin með mikinn bjúg, sjóntruflanir og höfuðverk. Ég átti tíma í mæðravernd eftir helgi en ákvað samt að fara uppá fæðingardeildina á Akureyri (þar sem ég bý) á fimmtudegi og láta kíkja á mig. Blóðþrýstingurinn var mældur og hann var allt of hár. Þá var ég sett í rit og svo í sónar og læknir tilkynnti mér að ég væri komin með meðgöngueitrun. Hann reiknaði með að barnið þyrfti að koma mun fyrr í heiminn, en í sónarnum sást að krílið var í réttri stærð og því staðfest að það myndi spjara sig. Ég fékk sterasprautur til að barnið myndi þroskast hraðar og var lögð inn.

Á laugardegi komu ljósmæður og fæðingarlæknir og ræða við mig um versnandi ástand mitt. Þau ákváðu að senda mig suður með sjúkraflugi strax sama dag til öryggis þar sem ekki má taka á móti börnum fyrr en eftir 34 vikur á Akureyri. Kærastinn minn var í vinnunni þegar þetta gerðist en kom svo keyrandi suður daginn eftir (sunnudag).

Á sunnudeginum varð ég veikari og veikari með hverjum klukkutímanum og komin með hræðilega mikinn bjúg og svo slæman höfuðverk að mér varð óglatt. Um kvöldið þegar kærastinn minn er nýfarinn frá mér til að fara að gista hjá ættingjum sínum þá komu læknar og kíktu á mig. Þeir ákváðu strax að fara með mig upp á fæðingardeild og þar var ég sett af stað. Ég var orðin svo veik og stressuð að ég byrja að æla og skjálfa. Èg hringdi í kærastann minn og hann kom strax til mín og svo hringi ég í mömmu sem var á Akureyri og ætlaði að koma suður daginn eftir til að geta verið viðstödd fæðinguna. Ég sagði mömmu að þetta væri bara að fara að gerast og hún lofaði að leggja af stað suður eldsnemma morguninn eftir. Um miðnætti var mér gefin tafla til að setja mig af stað en á sama tíma var mér sagt að þetta gæti endað í keisara svo að ég mátti hvorki borða né drekka alla fæðinguna. Það var settur upp þvagleggur hjá mér og svo fékk ég næringu og magnesíum í æð. Ég byrjaði að fá vægar hríðir en fékk ógleðislyf og verkjalyf þannig ég náði að sofna milli hríða. Kl. 4 um nóttina var belgurinn sprengdur og þá urðu hríðirnar verulega harðar. Ég fékk mænudeyfingu en læknirinn var mjög lengi að setja hana upp og ég var alveg að deyja á meðan. Loksins klárar hann og fer en aldrei minnka verkirnir heldur aukast þeir bara og aukast. Þá hafði mænudeyfingin mistekist og það þurfti að setja hana upp aftur. Þarna var ég komin með nánast stanslausar hríðir og farin að finna mikinn þrýsting þannig að það var virkilega erfitt að sitja og fá aftur deyfingu. 

Þegar það var loksins búið var ég komin með fulla útvíkkun og mátti byrja að rembast. Mænudeyfingin var svo nýkomin í að hún var ekki byrjuð að virka fyrr en á sama tíma og hausinn var að koma út. Ég notaði gas á lokasprettinum en það hjálpaði mér að anda djúpt og hafa stjórn á verkjunum. Kl. 7:34 kom litla daman í heiminn, 8 merkur og þrátt fyrir að vera fyrirburi fékk ég hana samt strax í fangið og fékk að hafa hana smá stund. Hún var ótrúlega mannalega og byrjaði strax að gráta. Pabbi hennar klippti á naflastrenginn og svo var farið með hana uppá vöku. Þá tók við að fæða fylgjuna sem gekk mjög vel og svo þurfti að sauma aðeins. Ég var orðin svo þyrst og skrælnuð í hálsinum að ég gat ekki hugsað um annað en vatn á þessum tímapunkti. Loksins mátti ég drekka og ég tilkynnti öllum á fæðingarstofunni það að þetta væri besta vatn sem ég hefði smakkað! Þar sem ég var mjög veik sofnaði ég strax og þetta allt var búið og vaknaði ekki aftur fyrr en seinnipartinn. Þá var mamma komin og ég fékk að fara með henni í hjólastól á vöku og kíkja á krílið. Ég var mjög glæsileg með þvagpoka í fanginu, í netanaríum með bleyju undir mér og lak yfir mér og svo fylgdi mér standur með næringu og magnesíum í æð. 

Svo var farið með mig aftur í fæðingarherbergið og þar var ég undir stöðugu eftirliti í sólarhring. Loksins um kvöldið mátti ég fá mér eina ristaða brauðsneið en ég var orðin mjög svöng enda ekki búin að borða í sólarhring. Ég sofnaði svo aftur og vaknaði á þriðjudagsmorguninn. Þá fór Sigfús með mig í hjólastól inná vöku og ég fékk að halda á stelpunni minni en hún var strax komin úr hitakassa og í vöggu. Hún gat andað alveg sjálf og var ekki tengd við nein tæki nema súrefnismettunarmæli. Seinna um daginn var ég flutt niður á sængurkvennadeildina og fékk loksins að losna við þvaglegginn og fara í sturtu. Vá hvað það var gott en samt var ég svo slöpp að það leið næstum yfir mig í sturtunni. 

Lillan var áfram á vöku og ég var í fullu starfi að mjólka mig og gefa henni í gegnum sonduna og eftir nokkra daga fór hún að reyna að taka brjóstið en það er erfitt að sjúga þegar maður er svona voðalega lítill. Tæpri viku eftir fæðinguna var ég útskrifuð og afþví að lillan var svo dugleg þá fengum við að flytja með hana í fjölskylduherbergi á vöku en þar erum við núna og fáum líklega að fara heim í næstu viku. 

Þessi fæðing gekk ótrúlega vel miðað við hversu veik ég var en hinsvegar er rosalega erfitt að ætla að kíkja uppá spítala í smá tjékk sem endar svo með því að þú færð ekki að koma heim aftur fyrr en barnið þitt sem átti að koma í júní er fætt! En sem betur fer höfum við fengið mikla hjálp og tengdaforeldrar mínir eru búnir að þrífa og taka til heima hjá okkur á meðan mamma mín fer út um alla Reykjavík að versla allt sem vantar fyrir lilluna, brjóstagjöfina og mig sjálfa. 

Ég á mjög erfitt núna, er svo ofsalega hrædd um lilluna mína því hún er svo lítil og viðkvæm. Hórmónarnir eru líka alveg á fullu þannig að það þarf ekki mikið til þess að ég fari að gráta. Ég á sennilega eftir að vera mjög nojuð mamma sem ofverndar barnið sitt haha en það er alveg örugglega eðlilegt eftir þessa lífsreynslu!“

Þetta skrifaði ég 19 ára gömul og nýbökuð móðir, þetta var erfiður tími fyrir mig og eftir á að hyggja er ég nokkuð viss um að ég hafi fengið fæðingarþunglyndi. Ég var mikið ein með hana og einangraði mig frá umheiminum enda dauðhrædd um að hún myndi smitast af öðru fólki og verða lífshættulega veik því hún var svo mikill fyrirburi. Þess vegna fór ég lítið út og hitti fáa fyrstu mánuðina sem olli mér mikilli vanlíðan. Ég lenti líka í skelfilegu atviki fljótlega eftir að við komum heim eftir alla spítaladvölina sem hafði mikil áhrif á mig.

Ég var ein heima með Sóllilju og var að gefa henni brjóst, ég satt uppí sófa með hana og fann svo að hún hættir að drekka og liggur bara kjurr. Vegna þess hvað hún var lítil þreyttist hún fljótt á að drekka og ég þurfti oft að ýta við henni til að fá hana til að drekka meira því hún sofnaði annars bara á brjóstinu. Ég fór því að reyna að ýta við henni en fékk engin viðbrögð, þá tók ég hana af brjóstinu og við mér blasti hræðilegasta sjón sem ég hef nokkurtíman séð. Barnið mitt var líflaust í höndunum á mér, hún var blá í framan og meðvitundarlaus og þessi mynd er brennd inní hausinn á mér og verður það örugglega að eilífu. Hún var svo ofboðslega lítil og viðkvæm, og þarna var ég alveg viss um að hún væri dáin. Ég lyfti henni upp og hausinn á henni valt niður, hún var algjörlega máttlaus og andaði ekki. Ég man ekki nákvæmlega atburðarásina í framhaldinu af þessu, en ég man að ég reif upp símann og hringdi í neyðarlínuna og á sama tíma og ég var í símanum að útskýra hvað var að fór ég með Sóllilju að opnum glugga, sló á bakið á henni og lét blása kaldan vind á hana. Hún byrjaði þá að hósta upp mjólk og fékk strax aftur eðlilegan lit. Hún var komin aftur með meðvitund og á sama tíma ruddust inn í íbúðina sjúkraflutningamenn, læknir og löggur. Ég stóð með hana í fanginu gjörsamlega útúr heiminum af skelfingu og fyrir utan íbúðina var sjúkarabíll, löggubíll og bráðalæknabíll allir með blikkandi ljós og sírenur. Við fórum uppá spítala og Sóllilja var rannsökuð öll alveg í þaula. Það kom aldrei nákvæmlega í ljós hvað var að, en læknarnir telja að hún hafi einfaldlega gleymt að kyngja, sofnað með mjólk ofaní sér og hætt að anda. Það þarf svo rosalega lítið til hjá svona litlum fyrirburum, þau geta hreinlega bara gleymt að anda og þá þarf að ýta við þeim svo þau ranki við sér. Sem betur fer gerðist þetta bara einu sinni og Sóllilja er fullkomlega heilbrigð, en þetta er reynsla sem ég óska engu foreldri að lenda í.

Hér kemur svo fæðingarsagan hennar Maísólar sem fæddist 17. maí 2017 á settum degi og var 16 merkur eða nákvæmlega helmingi þyngri en Sóllilja var, sem mér finnst alveg mögnuð staðreynd.

Síðustu vikurnar af meðgöngunni hafði ég verið að fá mikla samdrætti og fyrirvaraverki og verandi með lítið barn (Sóllilja var bara ný orðin tveggja ára þarna) var ég orðin mjög þreytt á að vera ólétt. Ég reyndi allskonar ráð sem ég sá á netinu, ég drakk hindberjalaufste í lítratali, borðaði fleiri fleiri kíló af ferskum ananas, gerði allan mat extra sterkan, fór í kröftuga göngutúra og ég veit ekki hvað og hvað. Kvöldið fyrir settan dag sat ég uppí sófa með fulla skál af ferskum ananas (eins og vanalega) og píndi hann ofaní mig, en ég var búin að borða svo mikið af ananas að ég var komin með sár inní munninn og það var orðið mjög vont að borða hann. Þá byrjaði ég að fá samdrætti og þeir voru mjög reglulegir og frekar stutt á milli. Ég fór uppí rúm rúmlega 22 og ætlaði að reyna að sofna en þá missti ég vatnið. Þar sem barnið var óskorðað þurfti ég að leggjast niður og hringja á sjúkrabíl og svo lá ég eins og illa gerður hlutur og beið. Á þessum tíma bjuggum við í tveggja hæða íbúð með bröttum stiga og ég var á efri hæðinni. Sjúkraflutningamennirnir sem komu fyrst gátu ekki flutt mig liggjandi á börum niður stigann þannig að þeir þurftu að hringja á annann sjúkrabíl og svo voru þeir fjórir saman og Sigfús líka að reyna að brasa við að koma mér niður stigann.

Við vorum komin uppá spítala um kl. 23 og fórum beint á fæðingarstofu. Þar var ég skoðuð og var komin með slatta í útvíkkun, man ekki nákvæmlega hvað, og allt gerðist mjög hratt. Ég vildi fá mænudeyfingu en það var orðið of seint því ég var komin svo langt í fæðinguna, þannig ég stóð bara með hitapoka á mjóbakinu, hallaði mér yfir rúmið og öskraði mig í gegnum hríðarnar. Ég var orðin ógeðslega þurr í hálsinum og að drepast úr þorsta þannig ég sendi Sigfús fram með vatnsbrúsa að ná í vatn, þegar hann kom til baka reif ég brúsan af honum og byrjaði að þamba, þá var þetta sódavatn en ekki venjulegt vatn og ojj hvað það var ógeðselgt. Ég held að ég hafi aldrei verið jafn reið við Sigfús eins og þarna, ég man ennþá eftir því hvað ég varð reið hahah! En eftir aðeins örfáar hríðar var ég farin að finna svakalegan þrýsting og ég bókstaflega fann hvernig hausinn á barninu mjakaðist neðar og neðar. Ég var komin með rosalega mikla rembingsþörf en var ekki búin að klára útvíkkunina alveg þannig að ég þurfti að bíða aðeins með að rembast og ég held að það hafi verið erfiðasti parturinn af fæðingunni. Að þurfa að rembast en berjast á móti því, það er alveg virkilega erfitt og óþægilegt. En sem betur fer gekk þetta alveg rosalega hratt og þegar ég mátti byrja að rembast tók þetta bara örfáar mínútur.

Klukkan var ekki orðin 01 þegar Maísól kom í heiminn, og við vorum komin uppá spítala um kl. 23 þannig fæðingin tók ekki nema rétt tæpa tvo tíma frá byrjun til enda. Þrátt fyrir svakalega snögga fæðingu og 16 marka barn þá rifnaði ég ekkert. Maísól fæddist hinsvegar með nafnlastrenginn tvívafinn utanum hálsin og var mjög blá og það var kallaður út barnalæknir til að skoða hana en sem betur fer var hún stálhraust og ég fékk hana í fangið um leið og búið var að skoða hana.

Ég á semsagt tvær gjörólíkar fæðingar að baki, en tvær heilbrigðar og fullkomnar stelpur.

Viljiði sjá hvað Sóllilja er glöð að sjá litlu systur sína í fyrsta skiptið? Þessi mynd bræðir !

Þar til næst

Glódís

https://www.instagram.com/glodis95

Skírn 15.09.

Sunnudaginn 15. september klukkan 15.15 var dóttir mín, Marín Blær skírð. Athöfnin fór fram í kirkju Óháða safnaðarins og var að athöfninni lokinni var boðið upp á kaffi og veitingar í safnaðarheimilinu.

Ég fékk rosalega mikið af frábærri hjálp enda var skírnin þrem dögum eftir keisarann og ég ekki alveg í besta forminu og þá er svo gott að eiga góða að. Þá sérstaklega þar sem að athöfnin var í safnaðarheimilinu og verið var að breyta og bæta neðri hæðina og eldhúsið þannig að við þurftum að koma með allt með okkur, diska, bolla, upppáhelligræjur og svo framvegis…

skírn1skírn2

Nafnið

Stelpan fékk nafnið Marín Blær og hef ég nokkrum sinnum fengið spurningu út í nafnið þar sem að það er frekar líkt Maríusi Blæ, stráknum mínum. Blær var alltaf gefið þar sem að ég var fyrir löngu búin að ákveða að börnin mín myndu heita Blær, ég sjálf átti að vera Irpa Blær en það var áður en það mátti því er ég Fönn en hef alltaf verið svo hrifin af Blær nafninu. Marín er síðan eina stelpunafnið sem við pabbi hennar gátum verið sammála um öll önnur nöfn sem hann stakk upp á fannst mér bara alls ekki málið og það sama á við um hann og þau nöfn sem ég stakk upp á, að nafnið byrjaði á M var því ekki endilega eitthvað sem við vorum að miða við og tilviljun ein hve líkt það varð. Fyrir áhugasama heitir Maríus því nafni svo vegna þess að langamma mín kom til mín í draumi í byrjun meðgöngu og nefndi það við mig, það var svo bara fast.

Veitingar

Veitingarnar sem boðið var upp á voru:

 • skírnarkakan, amma Maríusar er snillingur í bakstri og bakaði rosa fallega köku fyrir okkur, þetta var súkkulaðikaka með hvítu hindberjakremi og sykurmassa
 • rúlluterta
 • túnfisksalat
 • bollakökur með daim-kurli og karamellusósu
 • döðlugott með og án lakkrís
 • makrónur
 • mygluostar og með því (hráskinka, vínber, jarðaber, salami, bláber, maltesers, ólífur sulta, ritz og þurrkaðar pylsur
 • smáborgarar
 • kjúklingur á spjóti
 • bruschetta með grænu pestó, brie, salami og basiliku

skírn4skírn5

skírn6

Skreytingar

Ég ætlaði að hafa blómaþema og allskonar skreytingar en þar sem dagsetningin á skírninni var ákveðin með rétt rúmlega viku fyrirvara og svona stutt frá keisara varð þetta aðeins öðruvísi en kom að mínu mati mjög vel út

Ég á fullt af skrauti sem ég nota aftur og aftur, pom-pomin í gluggunum notaði ég til dæmis fyrst í skírn Maríusar og síðan öllum mínum veisluhöldum síðan þá, þau ásamt confetti-inu, eru úr Söstrene grene. Kertastjakarnir á borðunum eru Nagel/Stoff, Hvítu dúkarnir á borðunum eru leigðir frá Efnalauginni Björg í Mjódd.

skírn3

Gestabókin

Ég var með polaroid filmumyndavél og bað fólk að taka mynd af sér og kvitta síðan hjá myndinni í bók, hvort sem var með nafni eða kveðju og nafni. Ótrúlega skemmtilegt og persónulegt að sjá ekki bara einhver nöfn heldur tengja þau við manneskjur. Ég gerði þetta líka í skírninni hans Maríusar og notaði sömu bók, gaman fyrir gestina líka að skoða myndirnar síðan þá ef þeir voru í báðum veislum.

skírn7

Þangað til næst

Irpa Fönn

100% vinna, börn og fjarnám

Verandi námsmaður, mamma og 100% starfsmaður á dag og næturvöktum er enginn brandari.

Þar einmitt kemur gott skipulag sterkt inn.

Ég er með dagbók sem ég sérpantaði af síðu sem heitir personal-planner.com og þar skrifa ég inn verkefni, próf og allt annað sem þarf að gerast í vikunni (foreldrafundir, frí og hver er að passa ef þess þarf). Ég er svo heppin með tengdaforeldra líka sem passa alltaf þegar ég fer a næturvaktir þar sem vaktir okkar Ása skarast á. Ég mæti í vinnu 17:30 en Ási ekki búin á dagvakt fyrr en 20:00 þá daga.

Ég hugsa að ég kæmist mögulega ekki upp með að vinna fulla vinnu með skólanum ef ekki væri fyrir þetta frábæra stuðningsnet!

Ég s.s. reyni að skipuleggja það þannig að ég læri og fer svo í ræktina í lærdómpásunni, borða hádegismat og læri svo eins mikið og ég get á frídögum meðan börnin eru ekki heima. Ef eitthvað er eftir þegar frísyrpan klárast þá sé ég hvort betra sé að troða því inn eftir vinnu (og ræktina) eða tek bækurnar með mér á næturvakt/læri eftir næturvakt (og svefn).

Allt saman er þetta rosalegt púsl en vel hægt með smá hjálp og góðu skipulgi.

En mikilvægast finnst mér þó að hafa ómældan stuðning maka þar sem ég fæ stundum að læsa mig inni herbergi að læra og taka próf ef illa lendir á dagana og þegar ég er enganveginn að nenna að læra hvetur hann mig áfram!

Mundu bara ef þú getur látið þig dreyma það, þá geturu látið það gerast.

Foreldra ráð – Til að létta lífið

1. Skítugir legokubbar meiga fara í uppþvottavél. Ef þú átt ekki uppþvottavél settu þá í þvottanet og inní þvottavél. Sama á við um mjög mörg leikföng, þau skemmast fæst við stutta þvottaferð.

2. Hvernig fá börnin þessa hugmynd um að það sé vondur kall eða skrímsli í myrkrinu? – settu vatn og örfáa dropa af lavender í spreybrúsa, ef þú ert extra metnaðarfull/ur skreyttu brúsann og kallaðu það skrímslasprey.

3. Mörg börn hafa takmarkaða þolinmæði fyrir hand- og fótsnyrtingar. Klipptu neglurnar á meðan barnið sefur!

4. Smelltu snaga aftan á matarstólinn og settu smekkina þar. Þá eru þeir alltaf við hendina þegar þörf er á þeim. – svo er líka hægt að kaupa svona á trip trap

5. Uppþvottalögur er töfraefni á fatabletti. Settu grænan fairy beint á blettinn til að koma í veg fyrir að bletturinn festist.

6. Zip-lock pokar eru guðsgjöf. Hver segir að kókosolía sé svarið við öllu… þú getur geymt og ferjað nánast hvað sem er í zip-lock poka! Nesti-frystivörur-föt-leikföng-snyrtivörur svo eitthvað sé talið.

7. Ef þú ert eins og ég og kemur þér aldrei í að „babyproofa“ allt húsið. Þú getur sett teygjur eða bönd á milli handfanga í eldhúsinu og baðherberginu. (Alltaf best að eyða samt tímanum í varanlega lausn)

8. Frostpinnar. Stingdu pinnanum í gegnum muffin form til að forðast klístraða fingur.

9. Þessu hef ég brennt mig á. Baðdót með gati, notaðu límbyssu til að loka gatinu og koma í veg fyrir myglu.

10. Ef þú ert með lítið barn sem fer stutt í baðinu, settu barnið í þvottakörfu ofaní baðið. Þannig flýtur dótið ekki of langt í burtu.

11. Til að koma í veg fyrir að þú mætir lítilli múmíu eða klósettpappírs mottu á leið þinni inn á bað, smelltu hárteygju utan um rúlluna.

12. Áttu lítinn listamann sem þykir A4 ekki nógu stór canvas? Acetone eða töfrasvampur virkar vel á túss… ef það virkar ekki, settu þá bara ramma utan um! (Nokkrir punktar ^)

13. Börn eiga til að prufa lykla og læsingar en kunna svo ekki að opna aftur. Settu teygju milli hurðarhúnna svo læsingin fari ekki út.

14. Fáðu þér dagatal til að setja inn allar æfingar, læknatíma og annað mikilvægt.

15. Búðu til skipulag og stattu við það. Til að byrja með hjálpar að skrifa inn húsverkin í dagatal… það kemur manni á óvart hvað maður miklar það fyrir sér að troða inna öllu í hverri viku.

16. Gerðu matseðil fyrir vikuna og verslaðu eftir honum. Það sparar bæði tíma og pening ásamt því að þannig er auðveldara að velja hollari kosti.

17. Án þess að ætla að hljóma eitthvað Sólrún Diego eða Sigrún Sigurpáls… það er bæði ódýrara og náttúrulegra að gera þitt eigið alhliða hreinsisprey með vatni og edik eða vatni og sítrónu (sítrónan er sótthreinsandi)

18. Eitt af mínum þægilegustu ráðum er að fara í ræktina á meðan börnin eru í daggæslu/skóla… virkar hinsvegar ekkert sérstaklega vel fyrir dagvinnufólk. En reyndu alltaf að finna leið til að kreista inn 30mín hreyfingu á dag, þó það sé ekki nema göngutúr með kerruna.

19. Magapest. Börn missa auðveldlega matarlystina við magapestir (upp og niður). Flestir vita af poweraid/gatoraidráðinu en ég kynntist electrorice bara þegar stelpan mín var nokkurra mánaða með upp og niður í yfir viku. LIFESAVER ! BÓKSTAFLEGA!

20. Takið þessu ráði með miklum fyrirvara! Við hósta og stífluðu nefi er gott að setja pínulítið vicks vaporub undir iljarnar á krökkunum og sokka yfir þegar þau fara að sofa. Ég kaupi yfirleitt babyrub því ég hef heyrt hryllingssögur en hef notað hitt og enn allt í lagi með mín. – Sumir geta líka svarið fyrir hálfum lauk við rúmið.

21. Sum börn eru B-týpur og koma sér illa afstað á morgnana. Í þeim tilfellum er fínt að kaupa 5 kassa/skúffur/hirslur og skipuleggja fatavalið fyrir skólavikuna.

22. Hafðu „já-nasl“ alltaf aðgengilegt í ísskápnum sem er í boði hvenær sem er dagsins. Fínt að hafa bæði ferskt og pakkað (klementínur – schoolbars – ostabita – gulrætur – gúrkubitar – osfrv.)

23. Ef barnið þitt er eitt þeirra sem tekur ástfóstri á bangsa/teppi/dulu/annað þá er alltaf gott að eiga auka.

24. Alltaf hafa hitamæli og stíla í skiptitöskunni.

25. Það getur stundum verið erfitt en gefðu þér tíma reglulega til að fara á „deit“ með barninu. Þarf ekki að vera mikið, bíó, föndurkvöld, ferð á bókasafnið að lesa bækur saman, kaffihús eða bara róló.

26. Cheerios hálsmen í búðina. Þræddu cheerios á tannþráð og settu á barnið/börnin fyrir búðarferðir.

27. Settu pinna í litlar jógúrtdollur og frystu. Auðveld leið til að gera ís.

28. Ef möguleiki er á því, litaðu inní klukkuna til að hjálpa barninu að skipueggja tímann sinn.

29. Búðu til afþreyinga krukku fyrir börnin. Skrifaðu á pinna mismunandi afþreyingu svo þau geti dregið þegar þeim leiðist.

30. Kauptu merkimiða (t.d. navnelapper.no eða mynametags.com) og merktu ALLT. Gott að venja sig á það snemma.

31. Talandi um límmiða. Klipptu einn í tvennt og settu í skóna til að hjálpa barninu að sjá hvor fóturinn fer í skóin.

32. Prentaðu og plastaðu mikilvæg símanúmer og festu það svo á skólatöskuna til að auðvelt sé að ná sambandi við foreldra/nákomna. – Sama listann er líka gott að hafa heimavið t.d. á ísskápnum.

33. Ertu alltaf að týna hárteygjunum? Þú týnir þeim allavega seinna svona… eða öllum í einu!

34. Leyfðu barninu að hjálpa þér að skipuleggja vikuna um helgar. Svona skipulags dagatal er æði fyrir það.

Vikumatseðill

Hér kemur matseðillinn þessa vikuna:

Mánudagur: grjónagrautur eldaður í ofni & lifrapylsa

Þriðjudagur: afgangar

Miðvikudagur: fiskur úr fiskbúð, rúgbrauð & salat

Fimmtudagur: tortillas með nautahakki, salati, sýrðum rjóma, salsasósu & rifnum osti

Föstudagur: eitthvað gott 🙂

Laugardagur: heimapizza

Sunnudagur: úrbeinaður lambaframpartur, brúnaðar kartöflur, sósa, maísbaunir & salat

Mér finnst gott að hafa einn auðann dag í vikumatseðlinum af því að oft kemur eitthvað óvænt upp á, manni er boðið í mat eða hefur ekki tíma til að elda og hefur bara skyr í matinn, það verða meiri afgangar af einhverju en maður reiknaði með o.s.frv. Stundum er líka bara fínt að vera með ekkert planað og hafa bara „eitthvað“. Svo reyni ég líka að hafa allavega einn dag í viku fyrir afganga því ég nenni ekki að elda á hverju einasta kvöldi og það er voða fínt að hafa allavega eitt kvöld í viku þar sem maður þarf ekki að gera neitt annað en að skella afgöngum í örbylgjuofninn og þá er maturinn reddí.

Ef ykkur langar til að fylgjast betur með mér þá er ég mjög virk á instagram og sýni oft frá því þegar ég er að elda þar: glodis95

Kveðja Glódís

Barnaherbergið

Eins og er búum við fjölskyldan inn á foreldrum mínum, öll fjögur saman á tæplega 20 fermetra svæði. Við erum ekki bara heppin að eiga kost á því að vera hjá þeim núna þegar við þurftum á því að halda heldur er móðir mín einnig snillingur þegar kemur að stíliseringu en hún er meðal annars menntaður innanhússstílisti. Foreldrar mínir tóku sig til og græjuðu „svefnherbergin“ tvö rétt áður en við fluttum inn sem var ótrúlega notalegt þar sem ég var þá gengin rétt rúmlega 37 vikur.

Það hefur gengið vel að koma okkur fyrir hérna og ég er rosalega ánægð með útkomuna á herbergjunum. Maríus er í rauninni inni í forstofunni hérna en þar sem að þær eru tvær gekk það upp og við foreldrarnir erum í herberginu inn af forstofunni ásamt Marín í litla horninu sínu.

Hér er hornið hennar Marínar, frekar lítið og lítið í því enda þarf ekkert mikið meira. Hún sefur í einu horninu á herberginu okkar en það er lítið annað í þessu herbergi annað en rúmin enda ekki pláss fyrir mikið meira, ég sýni ykkur kannski allt herbergið þegar það er fullklárað.

Í horninu hennar er rúmið hennar þar sem hún sefur í hengirúminu sínu en þið getið lesið um það hér, himnasæng, kanínuhaus, skiptidýnan og taupokinn sem við geymum koddana og rúmteppið okkar í á næturnar. Fatnaðurinn hennar geymist í fataskápum inni hjá Maríusi sem við deilum öll fjögur saman. Dótið sem hún er ekki byrjuð að nota geymist svo í öðrum skáp sem einnig er inni hjá Maríusi og er nýttur undir það, bækur og aðra pappíra, lærdómsdót og annað slíkt. Teppið sem sést í á gólfinu er stór gólfmotta úr IKEA sem notað var til þess að „teppaleggja“ herbergið og kemur það mjög vel út að mínu mati.

Hér gefur að líta svefnaðstöðuna í herberginu hans Maríusar. Undir rúminu hans er kassi með leikföngunum sem ekki eru við hlið þess eða í eldhúsinu hans. Þarna á bakvið gluggatjöldin er í raun útidyrahurðin og eru gluggatjöldin til þess að fela hana. Teppið á gólfinu gerir svo herbergið aðeins hlýlegra en gólfefnið hjá mömmu og pabba er flot.

bh4

bh1

 

Við erum á því að dótið eigi ekki bara heima inni í herbergi og einungis megi leika þar og var því tilvalið að geyma dóta–eldhúsið hans við endann á eldhúsinnréttingunni frammi. Honum finnst æðislega gaman að elda í sínu eldhúsi og ef ég er að elda er hann yfirleitt þar að græja eitthvað.

 

 

 

 

 

 

Þangað til næst

Irpa Fönn

Top Picks; fyrsta ár barnsins

Nú fer að líða að eins árs afmæli Arndísar Lilju (?!) og hefur þetta ár verið afar viðburðarríkt. Verandi okkar fyrsta barn, lærðum við heilmikið um hvað þarf og hvað er óþarfi. Auðvitað eru öll börn ólík og þarfir þeirra misjafnar, en mig langar samt sem áður að deila með ykkur þeim fatnaði, hlutum og ráðum sem reyndust okkur vel … eða ekki svo vel.

 • Buxur með áföstum sokkum úr H&M (nei, ekki sokkabuxur)
  Þegar Arndís Lilja var nýfædd, þótti okkur hún svo lítil og brothætt og vorum við heldur smeik við að fara að troða henni í sokkabuxur og buxur yfir það, og allir sokkar runnu strax af litlu fótunum hennar. Þegar við loksins komumst að þessari snilld… vá! þvílíka himnasendingin sem þetta var! Einfaldaði helling fyrir okkur og sá til þess að halda táslunum hlýjum.
 • TIP: bleyjur
  Við notum bleyjur frá Libero og elskum þær! Fyrstu vikurnar prufuðum við þó nokkrar gerðir til að finna hvað henntaði okkur best. En eftir að hafa gert mér grein fyrir magninu af bleyjum sem börn fara í gegnum, eru taubleyjur/fjölnota bleyjur klárlega eitthvað sem ég myndi vilja kynna mér næst.
 • Brjóstapúði
  Persónulega, notaði ég brjóstapúðann ekki neitt. Fannst langbest að hafa bara kodda undir hendinni þeim megin sem hausinn hvíldi.
  Annað.. ef þú ætlar þér að nota brjóstapúða gerðu sjálfri þér greiða og keyptu púða sem hægt er að taka utan af og þvo – ég feilaði þar
 • TIP: Mexíkanahattar og Gjafahaldarar/bolir
  Fyrir ykkur með barn á brjósti … mexíkanahattar og gjafahaldarar/bolir gjörsamlega bjargaði okkur. Brjóstagjöfin gekk nokkuð illa fyrstu dagana og notuðumst við mikið við hattinn. Einnig get ég mælt með því að hafa gjafahaldara með upp á fæðingardeild þar sem þú verður líklegast látin vippa júllunum út nokkuð reglulega. Mínir uppáhalds eru úr lindex.
 • Rafmagns Brjóstapumpa
  Ég keypti mér ekki rafmagns brjóstapumpu fyrr en Arndís var orðin allavega mánaða gömul. Ég átti handpumpu frá því hún fæddist en varð fljótt þreytt á því að nota hana þegar ég var að mjólka mikið – til dæmis fyrir einhver tilefni eða ef hún var að fara í næturpössun. Ég keypti Lansinoh brjóstapumpuna og hefur hún reynst okkur þvílíkt vel.
 • Lansinoh Mjólkursafnari
  Þetta er vara sem ég vissi ekki af fyrr en fyrir mjög stuttu og vildi óska að ég hefði frétt af henni fyrr! Mjólkursafnarann seturu á brjóstið þeim megin sem ekki er verið að drekka úr og hann myndar sog og getur safnað mikilli mjólk sem er svo hægt að frysta eða gefa samdægurs í pela og jafnvel fá maka til að létta undir og gefa pelann á móti þess sem þú gefur brjóstið – sérstaklega fyrstu vikurnar þegar barnið er sett frekar ört á brjóstið.
 • Ella’s Kitchen Vörurnar
  Þegar arndís fór að byrja að smakka fasta fæðu í kringum 6 mánaða, versluðum við mikið (og gerum enn) vörur frá Ella’s Kitchen.
  Þar er vöruúrvalið mikið og allskonar sniðugt sem hægt er að gefa þeim til að kynnast ýmsum brögðum og áferðum. Í uppáhaldi hjá okkur eru melty puffs/melty sticks og skvísur í hálfum stærðum miðað við þær venjulegu – sérstaklega til að byrja með þar sem þau borða þá minna í einu = minna fer til spillis.
 • Brjósta bakstur
  Að lokum langar mig að segja ykkur frá vöru sem ég hef ekkert þurft að styðjast við en veit að margar þurfa þess eða velja að gera það. Brjósta-bakstur getur komið sér mjög vel í brjóstagjöf, hann er hægt að nota bæði heitann og kaldann en púðarnir máta sig vel að bæði lögun brjósta og brjóstapumpu. Baksturinn getur hjálpað að koma jafnvægi á mjólkurframleiðsluna sjálfa m.a. með því að nota baksturinn heitan fyrst til að koma af stað rennsli og kaldan eftir gjöf til að draga úr stálma.

Þangað til næst, Rakel Eyjólfs

*þessi færsla er ekki kostuð eða unnin í samstarfi*

Óléttu craving – skemmtilegar og fyndnar sögur

Margar konur fá óstjórnlega löngun í ákveðnar fæðutegundir á meðgöngu, t.d. súrar gúrkur eða ís. Svo eru til konur sem fá óstjórnlega löngun í efni sem ekki flokkast sem fæða og hefur lítið sem ekkert næringarinnihald. Dæmi um þessi efni eru drulla, krít, leir, steinar, kol, tannkrem, sápa, sandur, kaffikorgur, matarsódi, sígarettuaska og brunnar eldspýtur. Á ensku hefur þetta fyrirbæri verið kallað „pica cravings“ en „pica“ er latnesk orð yfir fugl (e. magpie, ísl. skjór) sem er þekktur fyrir að borða næstum hvað sem er.

Það er ekki vitað hvað veldur þessari löngun en hugsanlega gæti það tengst járnskorti eða vöntun á öðrum vítamínum.

(þessar upplýsingar fékk ég frá ljosmodir.is)

Hér fyrir neðan koma nokkrar skemmtilegar sögur af óléttu creifing

Guðrún

snakkmix vafið í kál var í uppáhaldi🙄

Kolbrún

Zinger borgari og rice krispies kökur! Ekki má gleyma kóki úr vél með nóg af klökum 🤤🤤

Jenný

Drakk einungis eplasafa og var brjáluð og fór að gráta ef eitthver dyrftist að drekka minn safa ! Nei ég meina þetta var mjög dramatýst 😂

Katrín

Ég var með kreiv í heita tómata 😳😂

María

Gat alls ekki kjúkling. Elskaði sveppi og gulrætur því það var svona “moldar” bragð. Síðan elskaði ég lyktina af Aríel þvottakodda nýþvegnum blautum þvotti ásamt lykt úr bílakjallaranum. Klaki var líka í uppáhaldi

Hildur

Ég hélt engu niðri nema sviðakjamma og rófustöppu…greyjið maðurinn minn fór bæinn þveran og endilangan til að finna þetta í hádeginu og kvöldin á hverjum einasta degi….en það skrítnasta er að ég hafði aldrei geta borðað svið á minni lífsleið (áður en ég varð ólétt) 😂🤣

Ólöf

Lykt af dekkjum, tók stundum stórt dekk með mér upp í rúm til að “sniffa”.

Rakel

Subwaykökurnar með hvíta súkkulaðinu, eg fór ansi oft á subway bara til að versla þessar kökur 😅

Steinunn

Hvitlaukur i ALLT, (Nema ís)

Glódís

Weetos með ískaldri nýmjólk + heilsusafi með FULLT af muldum klaka

Núðlur + blár powerade

Tívolílurkur

Ferskur ananas

Kjötsúpa

Bjúgu og kartöflustappa

Humar

Maarud snakk og voga ídýfa

Súkkulaðijólasveinar (var með í hanskahólfinu og borðaði í bílnum á leiðinni í skólann allann desember, eina sem ég hafði lyst á í morgunmat😂) Glódís

Jenný

Fyrsta barn = brauð með hráum lauk og spældu eggi helst í öll mál og tonn af appelsínu trópí, dóttirin var appelsínugul þegar hún fæddist!
Ekkert sérstakt með annað barn en ansi klassískt með þriðja = súrar gúrkur. Þær eru ennþá í uppáhaldi hjá honum….ekki mér 🤢

Steinunn

Snjór! Alla meðgönguna og veturinn frekar snjóléttur. Á fæðingardeildinni í lok janúar sendi ljósan manninn minn út með skál því ég VARÐ að fá snjó 🙊

Bryndís

Mér fannst líka Sean Bean vera fallegasti maður sem ég hafði séð og horfði á allar myndir sem ég fann með honum. Grét síðan ef þær enduðu illa fyrir hann sem var frekar oft.
Hætti svo að vera skotin í honum þegar barnið fæddist, eins gott að hann var ekki pabbinn..

Sigríður

Gat alls ekki borðað kjúkling eða fundið lykt af honum. Craveaði klaka og kók í dós. Gat endalaust hangið á bílaþvottastöð og fundið lyktina af tjöruhreinsi Sigríður

Elna

Vafði snakki inn í kál, sendi kallinn svona 3x á dag að tjöruhreinsa bílinn útaf ég elskaði lyktina 🤷 hot wings a KFC, let kallinn keyra of oft frá Borgarnesi..

Hildur

Og einu sinni ristað brauð með rjómaís ofaná 😬

Védís

Maisbaunir djúsaðar i bernais og svampar

Saga

Ég er að cravea mýkingarefni

Rakel

Eg craveaði sitronur fyrsta hluta meðgöngunar, og svo kokopuffs með seriosi og klaka allann timann

Aníta

Eg er að crave-a sukkulaði, avexti og grænan kristal

Irpa

Með elsta var það pylsur (ég hef ekki borðað rautt kjöt síðan ég var 12 og alveg sérstaklega ekki pylsur!) og kellogs sem ég varð að byrja alla morgna á einni skál af á leiðinni í vinnuna ældi ég því svo alltaf öllu í sama blómapottinn fyrir utan blokkina hélt samt alltaf áfram að borða það😅 með bæði var síðan vatnsmelónur, jarðaber og klakar og vildi helst allan mat eins ferskan og hægt væri

Hrafnhildur

Maísbaunir löðrandi í smjöri og salti og drakk kókómjólk með 😅

Vonandi fannst ykkur þetta jafn fyndið og skemmtilegt og mér.

Þangað til næst.

Spítalataskan

Fyrir um 2 árum síðan skrifaði ég pistil af því sem ég ætlaði að taka með upp á spítala. Það var margt sem mér fannst vanta og margt sem ég tók með sem ég hefði í raun ekkert þurft á að halda.
Svo ég ætla núna að skrifa aðra færslu um spítalatöskuna og því sem ég mun taka með mér. Í síðustu fæðingu hjá mér gékk hún virkilega illa svo við þurftum að gista á spítalanum í nokkra daga eftir á svo ég ætla miða við það.

Fyrir barnið

 • 2-3 Náttgallar
 • 2 Buxur með áföstum sokkum
 • 2 Langerma samfellur

 • Þunn húfa
 • Heimferðasettið
 • Ælubleyjur

 • Snuð
 • Uglupoki/ teppi
 • Bílstóll
 • Blautþurrkur
 • Bleyjur

 • Bossakrem
 • Peli(ef þú ætlar að nota þannig)

Fyrir mömmuna

 • Víðar náttbuxur
 • hlýjir sokkar
 • sloppur
 • 3-4 Nærbuxur/ spítalanærbuxur
 • Gafahaldari
 • Gjafabolir
 • Hlý peysa
 • Þægileg föt til að fara heim í, helst eitthvað sem er laust utan á mér.
 • sokkar
 • Hárteygja
 • Hárbusti
 • Sjammpó og hárnæring í ferðastærð
 • Dömubindi
 • Brjósta innlegg
 • Haakaa mjólkursafnari
 • Vatnsbrúsi
 • Sundbuxur
 • Tannkrem og tannbursti
 • Snyrtitöskuna með því sem ég nota daglega
 • Hleðslutæki
 • Gjafapúði ef spítalinn bíður ekki upp á þannig.

Fyrir pabban

 • Auka föt
 • Náttföt
 • tannbursti og tannkrem
 • Tölva og hleðslutæki
 • pening til að skjótast í sjálfsalan

1

 

 

 

Að lifa með átröskun *trigger warning*

Þó að það séu mörg ár síðan ég greindist með átröskun og ég sé löngu búin að „ná mér“ þá er þetta samt eitthvað sem mun fylgja mér alla ævi.

Ég hef alltaf verið frekar öfgafull manneskja, svona svart og hvítt, allt eða ekkert týpa. Annaðhvort legg ég mig alla fram eða bara ekki neitt. Þetta einkenndi hreyfingu mína á unglingsárunum og framhaldsskólaárunum. Annaðhvort fór ég út að hlaupa á hverjum degi eða ég sleppti því alveg. Annaðhvort fór ég í ræktina tvisvar á dag eða ég mætti aldrei. En ég pældi ekkert mikið í mataræðinu, borðaði bara það sem var í matinn í skólanum og heima hjá mér.

Þegar ég byrjaði í framhaldsskóla og flutti að heiman tók við tímabil hjá mér þar sem ég hreyfði mig ekki neitt og hugsaði ekkert um hvað ég setti ofan í mig. Mér leið illa andlega án þess að vita af hverju, og í staðin fyrir að vinna í því deyfði ég vanlíðanina með sukk fæði og áfengi. Ég veit það núna að ég glímdi við þunglyndi á þessum tíma og hefði þurft að fá viðeigandi aðstoð til að vinna í því. Eftir heilt ár af sukki og djammi fann ég loksins löngun til að taka mig á, en því miður ekki andlega samt heldur bara líkamlega. Ég hellti mér út í líkamsrækt og tók mataræðið alveg í gegn. Ég fór fljótt að sjá árangur og það hvatti mig til að halda áfram.

Hér var ég farin að sjá mikin árángur og þyrsti í enn meira

Ég æfði á hverjum einasta degi, oft tvisvar á dag, og var fljótlega komin á mjög strangt mataræði. Kílóin flugu af mér en þegar ég var komin í kjörþyngd þá gat ég ekki hætt, ég var orðin háð tilfinningunni sem fylgir því að léttast og grennast. Það veitti mér svo mikla vellíðan. Þannig ég hélt áfram að æfa og fór að telja ofan í mig hverja einustu hitaeiningu. Ég var á endanum hætt að hafa gaman af því að mæta í ræktina og þurfti að pína mig á æfingu. Ég var alltaf þreytt og alltaf svöng, mér var ískalt og þurfti að æfa í þykkri hettupeysu. Sama hvað ég hamaðist mikið þá svitnaði ég ekki einum einasta dropa, roðnaði varla í framan. Ég varð máttlausari og átti erfiðara með að lyfta sömu þyngdum og ég var vön að taka. Öll fötin mín voru orðin allt of stór og hárið fór að hrynja af mér. Mér datt samt ekki í hug að það væri eitthvað að, ég var bara ákveðin í að detta ekki aftur í sama gamla farið, ætlaði ekki að skemma fyrir mér og þyngjast aftur.

Ég reyndi að borða eins lítið af hitaeiningum og ég mögulega gat, lifði á eggjahvítum og kjúklingabringum, og ef ég „svindlaði“ og borðaði eitthvað sem ég „mátti ekki borða“ refsaði ég sjálfri mér með því að vera helmingi lengur í ræktinni og reyna að brenna burt þessum auka hitaeiningum. Ég var alltaf í úlpu inni, sat í skólanum í dúnúlpu með hettuna á hausnum og borðaði eggjahvítur úr plastboxi. Ég var búin að einangra mig félagslega því það komst ekkert að nema að æfa og telja hitaeiningar. Ég eyddi kvöldunum í að elda hafragraut og vikta í plastbox, steikja eggjavítur og skera niður gulrætur til að hafa í nesti. Ég svaf í ullarsokkum, joggingbuxum og hettupeysu, og átti erfitt með að sofna á kvöldin því ég skalf úr kulda, þurfti að nudda á mér tærnar og fingurnar til að geta sofnað. Ég var orðin svo skelfilega veik í hausnum en ég sá það ekki sjálf og hlustaði ekki á fólkið í kringum mig sem reyndi að segja mér það. Mér fannst ég vera ein og að allir væru á móti mér. Allir vildu láta mig fitna, og ég ætlaði sko ekki að láta það eftir þeim.

Ég náði algjörum low point þegar ég fékk þá hræðilegu hugmynd að sleppa því bara alveg að borða og drekka. Ég komast að því að ég var grennst á morgnana og þandist svo út eftir því sem leið á daginn, þannig ég ákvað bara hreinlega að hætta að borða og drekka, til að vera með alveg sléttan maga (ég veit, hversu galið??!). Þarna var ég orðin svo andlega veik að mér var eiginlega alveg sama þó ég myndi deyja, ég vissi alveg að það væri ekki hægt að lifa án þess að borða og drekka, en tók samt meðvitaða ákvörðun um að hætta að borða og drekka. Þetta var hvort sem er ekkert líf hugsaði ég þarna. Ég laug að öllum að mér væri óglatt, að ég væri örugglega bara að verða veik, svo lá ég uppí rúmi undir sæng og horfði á veginn. Vildi ekki fara neitt eða gera neitt. Eftir nokkra daga af þessu ástandi fór mamma með mig á spítalann, þá var komin svo mikil ammoníakslykt af mér að allt herbergið angaði. Ég gat varla staðið í lapparnir, ég titraði og skalf og það ætlaði að líða yfir mig. Ég fékk næringu í æð og viðtal við lækni, komst að því að ég væri með anorexíu og þunglynd. Ég byrjaði á þunglyndislyfjum og þegar þau byrjuðu að virka þá fékk ég lífið mitt til baka. Ég öðlaðist aftur viljan til að lifa, og aðrir hlutir heldur en bara mitt eigið holdarfar fóru að skipta mig máli.

Hér var mér farið að líða miklu betur andlega og líkamlega, ég var farin að borða meira og lyfta þyngra og leið vel með að þyngjast og bæta á mig vöðvum

Leiðin til baka var ekki bein, ég hætti ekki bara allt í einu að vera með anorexíu, en ég vann í sjálfri mér, og með mikilli vinnu tókst mér að sigrast á þessum hræðilega sjúkdómi sem anorexía er. En þó held ég að þetta sé sjúkdómur sem maður sigrar kannski aldrei alveg, þetta fylgir manni alltaf að vissu leiti. Þegar ég varð ólétt af eldri dóttur minni fannst mér erfitt að þyngjast og sjá líkamann minn breytast, en ég var svo veik alla meðgönguna að ég gat ekkert hreyft mig og vegna mikillar ógleði var mataræðið ekki uppá marga fiska.

Hér var ég að „taka mig á“ eftir að ég gekk með eldri dóttur mína

Það var ekki fyrr en ég gekk með yngri dóttur mína sem mér fór að þykja vænt um líkama minn og lærði að meta hversu mikils virði það er að fá að ganga með barn, og hvað líkaminn er magnaður.

Hér var ég ólétt af yngri dóttur minni og leið mun betur með líkamann heldur en á fyrri meðgöngu

Í dag eru 6 ár síðan ég greindist með anorexíu og þetta er ennþá barátta, þó svo að ég hafi náð mjög langt. Ég þarf að minna mig á það á hverjum einasta degi að hamingjan er ekki metin í holdarfari. Ég þarf virkilega að hafa fyrir því að fara milliveginn á milli þess að hugsa of mikið um mataræði og hreyfingu, og að hugsa of lítið um það. Ég reyni að hugsa um mat sem næringu fyrir líkamann og sálina, og ég hreyfi mig fyrir vellíðanina sem fylgir hreyfingu, en ekki til að breyta holdarfarinu.

Hér eru nokkur ráð sem hjálpuðu mér að takast á við anorexíuna, en þetta er eflaust mjög persónubundið:

 • Að fá hjálp hjá fagaðilum var fyrsta skrefið hjá mér (læknar, sálfræðingar, næringarfræðingar o.s.frv.)
 • Að finna viljan til að losna við anorexiuna (þetta var að mínu mati erfiðasta skrefið, ég vildi losna við þennan skelfilega sjúkdóm, en samt ekki því ég vildi ekki fitna, en ef maður vill ekki laga ástandið þá mun það ekki lagast! Ég mæli með að fá hjálp frá sálfræðingi við þetta skref)
 • Að fylgja bara fólki sem lætur manni líða vel á samfélagsmiðlum, ekki fylgja fólki sem hefur neikvæð áhrif á líðan manns
 • Að lesa um body-positivity og self-love, og læra að elska líkama sinn
 • Að hugsa um mat sem næringu fyrir líkama og sál, en ekki sem óvin
 • Að stunda hreyfingu á réttum forsendum (vegna þess að manni langar það eða vegna þess að manni líður vel eftirá, en ekki vegna þess að maður „þarf“ þess)
 • Að tala um hvernig manni líður, ekki fela það
 • Að reyna að forðast öfgar í mataræði og hreyfingu (átak, megrun, svindl máltíð, nammidagur, allt svona getur triggerað átröskun)
 • Þú ræður yfir matnum, hann ræður ekki yfir þér !
 • Að mæla árangur í hreyfingu með einhverju öðru en kílóum og sentimetrum, reyna að hafa það að markmiði að lyfta þyngra, hlaupa hraðar, hoppa hærra o.s.f, en ekki missa x mörg kíló

Í lokin ætla ég að mæla með að fylgja Röggu Nagla og Ernulandi á samfélagsmiðlum, en það hefur hjálpað mér mjög mikið í minni baráttu að lesa pistla frá þeim og fylgjast með þeim.

Kveðja Glódís

Instagram: glodis95