Barnaherbergið

Eins og er búum við fjölskyldan inn á foreldrum mínum, öll fjögur saman á tæplega 20 fermetra svæði. Við erum ekki bara heppin að eiga kost á því að vera hjá þeim núna þegar við þurftum á því að halda heldur er móðir mín einnig snillingur þegar kemur að stíliseringu en hún er meðal annars menntaður innanhússstílisti. Foreldrar mínir tóku sig til og græjuðu „svefnherbergin“ tvö rétt áður en við fluttum inn sem var ótrúlega notalegt þar sem ég var þá gengin rétt rúmlega 37 vikur.

Það hefur gengið vel að koma okkur fyrir hérna og ég er rosalega ánægð með útkomuna á herbergjunum. Maríus er í rauninni inni í forstofunni hérna en þar sem að þær eru tvær gekk það upp og við foreldrarnir erum í herberginu inn af forstofunni ásamt Marín í litla horninu sínu.

Hér er hornið hennar Marínar, frekar lítið og lítið í því enda þarf ekkert mikið meira. Hún sefur í einu horninu á herberginu okkar en það er lítið annað í þessu herbergi annað en rúmin enda ekki pláss fyrir mikið meira, ég sýni ykkur kannski allt herbergið þegar það er fullklárað.

Í horninu hennar er rúmið hennar þar sem hún sefur í hengirúminu sínu en þið getið lesið um það hér, himnasæng, kanínuhaus, skiptidýnan og taupokinn sem við geymum koddana og rúmteppið okkar í á næturnar. Fatnaðurinn hennar geymist í fataskápum inni hjá Maríusi sem við deilum öll fjögur saman. Dótið sem hún er ekki byrjuð að nota geymist svo í öðrum skáp sem einnig er inni hjá Maríusi og er nýttur undir það, bækur og aðra pappíra, lærdómsdót og annað slíkt. Teppið sem sést í á gólfinu er stór gólfmotta úr IKEA sem notað var til þess að „teppaleggja“ herbergið og kemur það mjög vel út að mínu mati.

Hér gefur að líta svefnaðstöðuna í herberginu hans Maríusar. Undir rúminu hans er kassi með leikföngunum sem ekki eru við hlið þess eða í eldhúsinu hans. Þarna á bakvið gluggatjöldin er í raun útidyrahurðin og eru gluggatjöldin til þess að fela hana. Teppið á gólfinu gerir svo herbergið aðeins hlýlegra en gólfefnið hjá mömmu og pabba er flot.

bh4

bh1

 

Við erum á því að dótið eigi ekki bara heima inni í herbergi og einungis megi leika þar og var því tilvalið að geyma dóta–eldhúsið hans við endann á eldhúsinnréttingunni frammi. Honum finnst æðislega gaman að elda í sínu eldhúsi og ef ég er að elda er hann yfirleitt þar að græja eitthvað.

 

 

 

 

 

 

Þangað til næst

Irpa Fönn

Breytingar á döfinnii

Síðustu mánaðarmót tók líf okkar litlu fjölskyldunnar ansi krappa u-beygju og er ýmislegt að breytast á næstunni. Það eru 8 vikur í settan fæðingardag hjá mér og það eru 6 vikur í næstu flutninga! Eins og það sé ekki nóg að vera að flytja svona rétt fyrir fæðingu erum við líka að flytja í nýtt sveitarfélag (úr miðbænum og í Hveragerði) og aftur inn til mömmu og pabba, þar sem við komum til með að deila herbergi öll fjögur saman og komum við því til með að pakka öllu okkar í kassa í bili. Við erum ótrúlega þakklát fyrir að það sé hægt og rosalega heppin með það að geta flutt þangað jafnvel þó svo að það verði þröngt um okkur.

Hér má sjá herbergið okkar fína, gólfið er nýsteypt og þarf steypan að þorna næstu vikurnar. Það er smá hol fyrir framan sem við fáum afnot af líka fyrir Maríus að sofa og þar eru fataskápar.

Hér sést holið en akkúrat núna er það fullt af dóterí sem að vísu tilheyrir okkur, þarna er parket, gólflistar, eldhúsinnrétting ósamsett og ýmislegt fleira. Ástæðan fyrir þessum breytingum er nefnilega sú að við eigum íbúð á Akureyri sem við þurfum skyndilega að gera upp…að nánast öllu leyti.

Við fengum óvænt þær fréttir 1. júlí að leigjandinn í þeirri íbúð væri fluttur út og þegar að í íbúðina kom sem hafði verið í útleigu síðastliðin 3 ár var ansi lítið í lagi þar. Við ætlum okkur að setja íbúðina á sölu en áður en að við gerum það ætlum við að: spasla í göt, mála, skipta um eldhúsinnréttingu, skipta um fataskápa, skipta um klósett, setja blöndunartæki í sturtuna inn á baði, parketleggja og svo margt fleira. Það er því nóg að gera!

Ég kem til með að sýna ykkur fyrir og eftir myndir af framkvæmdunum þar þegar að það byrjar af alvöru en næstu helgi stendur til að byrja að rífa þaðan það sem ónýtt er.

Þangað til næst

Irpa Fönn