Eftir langt hlé kemur loksins inn nýr vikumatseðill. Desember fór allur í prófalærdóm, verkefnavinnu og jólaundirbúning með tilheyrandi stressi og tímaleysi, og svo fékk Maísól berkjubólgu og var mikið lasin rétt fyrir jól. Það var því minna um eldamennsku og skipulag heldur en vanalega. Það voru ófá kvöld þar sem var eggjahræra eða skyr í kvöldmatinn, en það var svo sem bara ágætt þar sem nóg var borðað af þungum máltíðum yfir hátíðirnar. Núna eru allir komnir aftur í sína venjulegu rútínu eftir jólafrí og ég verð að viðurkenna að það var ljúft að fara með krakkana á leikskólann fyrsta daginn eftir langt frí og setjast svo við tölvuna í ró og næði með kaffibolla og halda áfram að vinna í mastersritgerðinni. Næstu dagar fara í ritgerðarskrif og svo fer skólinn að komast í gang aftur hjá mér eftir frí, þannig að lífið er hægt og rólega að komast aftur í fastar skorður.
Hér kemur fyrsti vikumatseðillinn 2020 gjörið þið svo vel:
Mánudagur: kjúklinga enchiladas, salsasósa, sýrður rjómi og ferskt salat
Þriðjudagur: steiktur fiskur í raspi, soðnar kartöflur, gúrka og paprika
Miðvikudagur: lasagne með nautahakki, hvítlauksbrauð og ferskt salat
Fimmtudagur: afgangar
Föstudagur: lambagúllas og kartöflustappa
Laugardagur: heimapizza og brauðstangir
Sunnudagur: grjónagrautur og slátur
Þar til næst
Glódís
You must be logged in to post a comment.