Vinnan mín “skeinari”.

Fyrir ári síðan byrja ég að vinna á hjúkrunar- og dvalarheimili og get í fyllstu hreinskilni sagt að þetta er besta vinnan sem ég hef verið í hingað til.

Starfsfólkið sem ég var að vinna með var yndislegt, yfirmaður minn var virkilega skilningsríkur og fólkið sem ég annaðist þarna var æðislegt. Þau áttu svo mismunandi sögur sér að baki og voru öll með svo ólíka persónuleika, mismunandi veikindi sem hrjáðu þau og mismunandi fjölskylduaðstæður. Sumir þurftu alla aðstoð en aðrir minni, sumir fengu heimsóknir daglega en aðrir bara á hátíðardögum.

Það var fátt betra en að fara úr vinnunni, með hlýjuna í hjartanu vitandi það að þú hafir hjálpað einhverjum.

Í nánast hvert einasta skipti sem það barst upp til tals hvar ég væri að vinna, í umönnun, fékk ég alltaf spurninguna ,,ertu þá að skeina gömlu fólki”. Ég hef líka oft endað í þeim samræðum við fólk þar sem það lýsir yfir að þegar þau verða orðin það gömul að aðrir þurfa skeina sér, þá muni það frekar vilja deyja en að lifa svona.

Margir halda að þegar það þarf að láta skeina sér ertu orðin gamall/ gömul og getur ekki séð um þig sjálfa/n en það er svo langt frá því að vera rétt.

Á ég að segja ykkur leyndarmál? Eftir fæðingu dóttir minnar þurfti ég hjálp við þetta. Ég missti svo mikið blóð að mér var bannað að standa upp úr rúminu. Ég grét því ég skammaðist mín svo mikið og hélt ég ætlaði aldrei að hætta biðja ljósmæðra neman afsökunar.

Umönnun, að annast annan aðila og í þessu tilfelli eldra fólk, að hjálpa fólki að lifa góðu og skemmtilegu lífi á loka árunum, efla til sjálfsbjargarviðleitni upp að því marki sem hægt er og starfið felst jú líka í því að hjálpa til við athafnir daglegs lífs til dæmis salernisferðir, en starfið er ekki bara inn á klósettinu.

Eins og ég kom inná áðan þurfti fólk mismunandi aðstoð, sumir þurftu hjálp við að borða, klæða sig, greiða sér á meðan aðrir þurftu frekar andlegan stuðning, einhvern til að spjalla eða spila.

Það myndi gera öllum gott að prufa umönnunar starf af einhverju tagi, mér finnst það hafa verið algjör heiður að hafa kynnst fólkinu sem byggði upp landið okkar og forréttindi að hafa fengið að annast þau.